20. desember 2010

Jesús og kyrtillinn hans

Nú líður að afmælinu Jesúbarnsins og kannski rétt að huga að því hvernig hann var klæddur blessaður, eftir að hafa vaxið upp úr reifunum. Þá þarf, eins og oft í upphafi, að skoða endi sögunnar um ævi Jesú:

Mar�a prjónar á JesúÍ Jóhannesarguðspjalli 19:23 segir, um krossfestingu Jesú: „Þegar hermennirnir höfðu krossfest Jesú tóku þeir klæði hans og skiptu í fjóra hluti og fékk hver sinn hlut. Þeir tóku og kyrtilinn en hann var saumlaus, ofinn í eitt ofan frá og niður úr. 24Þeir sögðu því hver við annan: „Rífum hann ekki sundur, köstum heldur hlut um hver skuli fá hann.“ Svo rættist ritningin: Þeir skiptu með sér klæðum mínum og köstuðu hlut um kyrtil minn.“  (Þetta er úr nýjustu þýðingunni, tekið af vef Hins íslenska Biblíufélags, feitletrun mín.)

Prjónaður kyrtill JesúÍ Guðbrandsbiblíu, prentaðri á Hólum 1584, er kyrtli Krists hins vegar lýst sem prjónuðum: „Enn kyrtillin[n] var eigi saumaðr / helldr fra ofan verdu allr prionadr.“  (Smelltu á litlu myndina til hægri með klausunni úr Guðbrandsbiblíu ef þú vilt sjá stærri útgáfu. Guðbrandsbiblíu má skoða á http://www.baekur.is.) Þetta er elsta prentaða dæmið um orðið prjónaður (prjón) á íslensku. Oddur Gottskálksson segir hann aftur á móti ofinn, í  Nýja testamentisþýðingu sinni sem prentuð var í Hróarskeldu 1540: „En kyrtillinn var eigi saumaður, heldur frá ofanverðu allur ofinn.“ (Sjá Jóhannesarguðspjall í þýðingu Odds.)

Til er norsk bók um bernsku Krists, frá 1508, Jesu Barndoms Bog, þar sem kyrtillinn er sagður prjónaður: María  gerði syni sínum skyrtu með að „knøtte garn offuer stocke“ (stocke = prjónar). Í norskri Jærtegnspostille, sem prentuð var 1515, segir um kyrtilinn: „Knøttet eller bunden oc osyd, han wor heel offuer alt saa ath der wor ingen søm paa hannem“ og loks má nefna norska þýðingu á Húspostillu Lúthers (frá 1564) þar sem segir: „Kiortelen, efterdi hand vaar icke syt, men stockebunden.“ (Heimild fyrir þessu er Osynlege trådar i strikkekunsten eftir Annemor Sundbø, 3. útg. 2009, s. 72.)

Hvað sem því nú líður þá urðu vinsæl málverk strax á 13. öld sem sýna Maríu mey vera að prjóna kyrtil á Jesú lítinn. Skv. þjóðsögnum óx kyrtillinn með honum og hefur því verið sami kyrtillinn og hann var seinna krossfestur í (reyndar eru Austur- og Vesturkirkjan ekki alveg sammála um þetta, sem gæti skýrt af hverju hafa varðveist fleiri en eitt eintak af þessum kyrtli).

Mar�a prjónar á JesúÞað sem er athyglisvert við þessar myndir er að María prjónar með fimm prjónum, vandræðalaust, sem sýnir að slíkt hefur verið þekkt þegar snemma á 14. öld; málverk Ambrogio Lorenzetti er talið frá því um 1349 og málverkið sem er hluti Buxtehude altarinsins, eftir Meistara Bertram af Minden, er talið frá því um 1400 - 1410. Málverk Bertrams er hér að ofan til hægri en málverk Lorenzettis til vinstri. Á málverki Lorenzetti situr María  á gólfinu eins og hvur önnur alþýðukona, Jesú litli þrýstir sér upp að mömmu og eiginmaðurinn Jósef situr á stól og horfir á. (Reyndar klippti ég Jósef út úr báðum myndunum í færslunni og vona að enginn sakni hans - menn verða þá að brúka myndaleitina í Google til að finna málverkin með Jósef og öllu.)

Hvað varð svo um kyrtilinn sem María prjónaði? Eins og áður sagði eru varðveitt nokkur eintök, sem eru:

Kyrtillinn í Dómkirkjunni í Trier, Þýskalandi er langfrægasta eintakið. Sagt er að Helena, móðir Konstantíns mikla, hafi fundið kyrtilinn í Landinu helga og sent hann til Trier, á sínum tíma. Þessi kyrtill hefur verið sýndur opinberlega öðru hvoru allt frá 1512, síðasta sýning var 1996. Hann hefur ekki verið rannsakaður eða aldursgreindur og engar heimildir eldri en um 1200 geta hans.

Annað eintak af kyrtlinum Jesú er varðveitt í basilíkunni í Argenteuil í Frakklandi. Sá er sagður hafa verið borinn af Jesú alla ævi og staðfestir þannig söguna um að kyrtillinn sem María prjónaði hafi vaxið með honum. Skv. sögusögnum þessum fylgir að kyrtillinn í Trier sé bara ytri kyrtill sem Jesú hafi klæðst seint á ævinni. Því miður er franski kyrtillinn ekki lengur heill heldur í fjórum bútum. Hann, eða bútarnir, var síðast sýndur árið 1900.

Kyrtill Jesú � TrierNokkrir bútar úr kyrtli Jesú bárust Austurkirkjunni / grísk-orþódoxu kirkjunni, s. s.  til Pétursborgar, Moskvu, Kænugarðs og víðar. 10. júlí ár hvert er Moskvubúturinn sýndur við hátíðlega athöfn.  

Myndin sýnir kyrtilinn hans Jesú sem varðveittur er í Trier.

Þeim sem hafa áhuga á kyrtli Jesú er bent á síðuna Seamless robe of Jesus, á Wikipedia og aðra sérstaka síðu um kyrtil grísk-oþódoxu kirkjunnar rússnesku.

Við prjónakonurnar getum svo velt því fyrir okkur hvort og þá hvernig hún fór að því að prjóna ermarnar því þær virðast einhvern veginn prjónaðar með bolnum, skv. málverkunum,  … og ekki hvað síst hvernig unnt sé að prjóna flík sem vex með krakkanum, hafandi alist upp við málsháttinn “barnið vex en brókin ekki” :)
 

5 ummæli við “Jesús og kyrtillinn hans”

 1. Þorvaldur Lyftustjór ritar:

  Sæl ágæta Harpa!
  Nú hef ég logið því að nemendum mínum undanfarin ár að Guðbrandur sálugi hafi brúkað þýðingu Odds á Nýjatestamentinu í biflíunni frá 1584. Fyrir þessu ber ég hinn heimsfræga Þíngeying Heimi Pálsson. Af því myndi þá leiða beint að Oddur og Guðbrandur væru samhljóða. En þetta er þá bara lygi? Eða breytti Gubbi frá Oddi þarna? Nú ertu nefnilega búin að setja mig í svolitla klípu.
  Lifðu annars heil og hyski þitt og gangi þér allt í haginn.

 2. Harpa ritar:

  Sæll Þorvaldur!
  Ég hélt þú gerðir bara athugasemdir hjá Eiði Svanberg ;) En … svo ég svari: Hinn heimsfrægi SUÐUR-Þíngeygingur hefur að mestu rétt fyrir sér, Guðbrandur tók þýðingu Odds upp “nálega óbreytta”. En sums staðar breytir hann lítils háttar, sjá t.d. dæmi sem Vísindavefurinn rekur, “í þýðingu Odds Gottskálkssonar á Nýja testamentinu segir: „Og friður á jörðu og mönnum góðvilji“ sem breyttist í „og mönnum góður vilji“ í Guðbrandsbiblíu”, (http://visindavefur.hi.is/svar.php?id=1102).

  Þýðingu Odds má reyndar sjá á netinu, http://lexis.hi.is/ordlyklar/ntodds/nto.htm, og þar er klausan um kyrtilinn: “En kyrtillinn var eigi saumaður, heldur frá ofanverðu allur ofinn.” Bein og stafrétt tilvitnun í Guðbrandsbiblíu er í: Inga Lárusdóttir, Vefnaður, prjón og saumur, Iðnsaga Íslands II 1943, bls. 12, en hana hef ég ekki við höndina. Man samt að þar segir Guðbrandur karlinn hikstalaust að kyrtillinn sé allur prjónaður enda skynsamur maður og hefur séð að saumlaus kyrtill yrði tæplega framleiddur í vefstólum síns eða eldri tíma ;) Ég er of lasin til að tölta út á bókasafn og fletta þessu upp … þú verður bara sjálfur að gá í Iðnsöguna gömlu. Þetta er merkilegt orðalag sem elsta ritheimild um orðið “prjón” í íslensku. Næstelsta heimildin er svo eitthvað í bréfum Guðbrands biskups, man ekki síðan hvenær.

  Libbðu heill sömuleiðis og gleðileg jól!

 3. Helga Jónsdóttir ritar:

  Móðir mín prjónaði á mig peysu úr dralongarni um 1965, þá var ég 10 ára. Peysuna notuðum við systur langt fram á fullorðinsár í sauðburði og öðru slarki. (Skyldii Guð hafi útvegað dralon fyrir son sinn, löngu áður en það var fundið upp fyrir venjulegt fólk?)

 4. Harpa ritar:

  Áhugaverð hugmynd að kyrtillinn hafi verið úr dralongarni - miðað við þína lýsingu virðist það vel geta verið enda er Guði ekkert ómögulegt, ekki heldur að útvega dralon í kringum árið 0 / 1 / 2?

 5. Harpa ritar:

  Ansans … tilvitnunin í Guðbrandsbiblíu var ekki í Iðnsögunni. Og ég ekki með Guðbrandsbiblíu handbæra, eins og gefur að skilja; þetta er hið mesta rarítet og því miður ekki aðgengileg á Vefnum. Stefni að því að fara upp á þjóðdeild Þjóðarbókhlöðu og fletta þessari tilvitnun upp, í janúar.

  Auk þess fór ég rangt með því elstu heimildir um orðið prjón eru einmitt í bréfum Guðbrands (hann talar um “prjónsaum”). Aftur á móti er elsta prentaða heimildin títtnefnd biblía hans.