Færslur frá 11. janúar 2010

11. janúar 2010

Kattarþvottur og Snorri

Af hverju er kattarþvottur notað yfir lauslega hreingerningu, sbr. “Æ-i þetta er nú hálfgerður kattarþvottur!” Kötturinn Jósefína notar helming vökutímans til að þvo sér. Ef eitthvað er sérlega vandlega þvegið oft á dag, á þessu heimili, er það frk. Dietrich!  Svo mér finnst orðið “kattarþvottur” vera farið að þýða “mega-hreingerning” eða “stórbað” eða eitthvað þess háttar.

Reyndar hefur Jósefína þann leiða sið (svo ég sletti dönsku) að byrja á að kanna öll herbergi hússins þegar hún kemur inn, sennilega af því hún álítur sig varðkött þessa heimilis. Þess vegna eru kattarspor greinileg út um allt, þrátt fyrir góð þrif mannsins. Hið jákvæða við þetta atferli er að við vorum það fyrirfram sniðug að leggja korkparkett með ask-áferð í fyrra, um rúman helming íveruhúsnæðis, og það er ekki nokkur leið til að sjá hvort svoleiðis parkett er hreint eða óhreint, nema fyrir innvígða. Kattarspor Jósefínu tóna nokkuð vel við korkinn sem skín í gegnum ask-lagið, þvers og kruss.

Ég hraðlas Snorra um helgina. Bókin byrjaði nokkuð vel, því lýst hvernig stemningin var sennilega í Odda og hvernig Snorra litla hefur liðið þar og hvað hann hefur sennilega lært. En þegar Snorri er að skríða á unglingsár byrjar endursögn Sturlungu (sem ég hef ekki lesið en kannast við stóratburði). Smám saman missir höfundur fótanna og dettur í smáatriðasúpuna; þarf að útskýra í smáatriðum og slaufum af hverju þessum karli er illa við hinn karlinn. Yfirleitt er tilefnið smávægilegt en undir krauma miklir straumar haturs eða peningagræðgi sem byggist oft á hver svaf hjá hverri og hvaða krakkar komu undir þá. Kannski hægt að yfirfæra á útrásarvíkinga, hafi maður lesið Séð og heyrt vandlega á hárgreiðslustofum eða biðstofum?

Þegar höfundurinn, Óskar Guðmundsson, splæsti þau Guðrúnu Ósvífursdóttur og Kjartan Ólafsson í hjónaband, sjá síðu 55, var mér sumpart lokið! Getur maður þá treyst hinum ættartölunum? Og hafði þessi höfundur enga sæmilega yfirlesara að þessari löngu löngu heimildaritgerð?

Ég var soldið efins um hvort ég ætti að leggja í Snorra, athyglisbrostin og illa læs sem ég. En í rauninni virkaði selektívur athyglisbrestur sem mikill kostur við lestur bókarinnar enda hafði ég ekki sett mér sem markmið að komast almennilega inn í ættarþrætur og ýfingar Guðmundar góða, Haukdæla o.s.fr. Einhvers staðar framan við miðja bók breytist Óskar í minn gamla sögukennara Harald Matthíasson (þetta er ekki hrós!).  Þegar Snorri er veginn er það svo sett upp sem algerlega ódramatískur viðburður og áður en lesandi hefur áttað sig er búið að drepa karlinn (og hann búinn að segja “eigi skal höggva”) og allt búið!  Engar pælingar um líðan eða hugsun fórnarlambs eða handrukkaranna. Og engin samúð lesanda (mín) eftir að hafa fyrir löngu fattað að Snorri var siðblindur. Hefði verið til samúðar að telja hann með einhver lýti eða löskun sem kom í veg fyrir að hann berðist sjálfur, sóríasis eða vefjagigt eða rauða úlfa, sem skýringu á heitu böðunum o.s.fr. Hið eina sem höfundur þorir að giska á (hann þorir almennt ekki að giska) er að einhverjir, hugsanlega Snorri einnig, hafi haft þvagsýrugigt! Og höfundur heldur að flottræfilsháttur í mat og drykk valdi þessum sjúkdómi (hvað ég held að læknar hafi borið til baka fyrir áratugum).

Mér finnst forsíðan ævintýralega flott!

Til að vera nú ekki of neikvæð í garð langra heimildaritgerða skal nefnt að í dag fékk ég lánaða bókina hans Jóns Karls um Ragnar í Smára. Ég hef engan sérstakan áhuga á Ragnari í Smára en hef afar góða reynslu af bókum og skrifum Jóns Karls. Þori að veðja fyrirfram að þessi bók er ekki endursögn smáatriða.  Svo þess vegna liggur bókin frekar hátt í bókarstaflanum sem ég fletti eða ber við að lesa.

Athyglisverð umfjöllun um siðblindu, í Fréttaaukanum í gær. Hafandi lesið böns af reyfurum þar sem morðinginn er sósíópaþ sé ég strax nokkra útrásarstráka sem gætu fallið í þann flokk! Verður gaman að pæla meir í því.

Líðan bloggynju hefur aðeins breyst til batnaðar með nýju lyfi. Aftur á móti finn ég nú fyrir ölvunaráhrifum (listað sem algengur fylgikvilli / aukaverkun) sem mér finnst svakalega óþægilegt! Ósjálfrátt vanda ég mig við að slaga ekki, utan húss. Þetta eru aðallega áhrif á jafnvægisskyn og tengsl mín við fæturna á mér. Svo er ég með munnþurk dauðans og ætti að hafa með mér pela í hvert sinn sem ég fer meir en hestlengd frá vatnskrana! Skv. fræðunum eiga þess einkenni að ganga til baka með tímanum, það er manni alltaf sagt um aukaverkanir. Oft er það reyndar lygi en má hugsa jákvætt fyrstu 10 dagana sem lyfið er tekið.

Ummæli (2) | Óflokkað, Geðheilsa, Daglegt líf