Færslur frá 14. janúar 2010

14. janúar 2010

Kattarþvottur og Spor

Kötturinn ólmast úti oft á dag. Hér eru kattarspor um allt því litla stýrið byrjar á að taka stöðuna; kannar fyrst hvort herbergi hússins séu olræt (hún hlýtur að horfa á FBI-þætti þegar ég er farin að sofa) og fer svo að huga að því að strjúka yfir moldugar loppurnar. Ég hef tvisvar tekið dýrið og þurrkað af því með bekkjartusku; Jósefína hefur alls ekki skilið hvers vegna eða hvaða pyndingar þetta eru, á einum litlum ketti!

Hún er á hlutbundnu aðgerðarstigi (er það ekki stigið þar sem börn / kettir telja að mamma sé dáin ef mamma hverfur úr augsýn?).  Ég áleit að hægt væri að kenna kettinum einhverja mannasiði með hugrænni atferlismeðferð, eða bara hugsunarlausri atferlismeðferð. (Það hefur reyndar tekist að kenna henni að hoppa ekki upp á matarborðið - tók viku og ég er viss um að hún spígsporar á matarborðinu þegar ég sé ekki til …). Svo ég reyndi að kenna kettinum að þvo sér um loppur strax og inn er komið. Hún skildi loksins orðið “loppur” og hefur skilið “þvo” lengi, enda eyðir hún stórum hluta innanhúss-vökutíma í akkúrat það. En eitthvað klikkaði hjá mér í atferlismótuninni:  Loks var eins og blessuð skepnan skildi … og dreif í að þvo sokkana mína!

Svo enn er allt í kattarsporum …

Ég las bókina Spor eftir Lilju Sigurðardóttur, í gær. Hún er ansi góð! Ég hef lesið litteratúr þar sem raðmorðingi tekur sér dauðasyndirnar sjö (eða átta) til fyrirmyndar, í sínum morðum. Mig minnir að Roald Dahl hafi skrifað smásögur um þetta efni (án morða) eða Ray Bradbury?  Svo minnir mig líka að Messiah eftir Boris Starling hafi fjallað um svona dauðasynda-lík-uppstillingu á mjög ógislegan hátt! (Var ekki verið að sýna þetta í sjónvarpinu? En það var kannski einhver önnur Messiah-sería?)

Lilja tekur hins vegar spor AA samtakanna til meðferðar og fer vel á því. Sögumaður er alki, nýkominn úr meðferð segir í bókinni en miðað við að hann er bara að koma út af Vogi mætti segja að hann væri nýkominn úr afeitrun eða uppþurrkun. Enda fellur ræfillinn.

Inn á milli eru óborganlegar lýsingar á mismunandi fundum, bæði talibana og kristilega forminu eru gerð skil og þeim sem vilja endilega sponsa sem flesta … en ég geri ráð fyrir að hinn almenni lesandi skilji lítið í þeim fræðum þótt okkur fólkinu á snúrunni finnist þau skondin. Mæli með þessari bók; hún er snörp og ekki verið að eyða tímanum í útúrdúra - þ.a.l. góður krimmi!

Nú er ég búin að eyða heilu prenthylki í útprentun gagna í mínum góða kúrsi.  Skráði mig í háskólann í gær, ég er víst nýnemi á BA-stigi (spurning um að snúa á regluverkið / skráningartæknina) og hitti meira að segja einn kúrsfélaga í mat! Sá er fyrrum nemandi minn … en ekki hvað!

Nú mun ég raða þessum gögnum í rétta blaðsíðuröð og inn í kórmöppu (langbestu möppurnar fyrir ljósritun, sem og vörukynningarmöppur) og telst þá undirbúin fyrir skólann á morgun.

Mér finnst ótrúlegt dekur að láta skanna greinar inn og leggja fram í Uglu, stúdentum til yndis og tímasparnaðar. Síðast útskrifaðist ég 2007 og þá var nú bara ætlast til að við rötuðum upp í Þjóðarbókhlöðu og keyptum okkar eigið ljósritunarkort. HÍ er greinilega rétti staðurinn fyrir öryrkja / sjúkling eins og mig!

Sem minnir mig á að unglingurinn vitnaði í nemanda, á áramótaballinum, en sá sagði: ”Mamma þín er geðveikur kennari!”  Ég er tiltölulega himinlifandi með lýsinguna þótt hún sé algerlega sönn eftir orðanna hljóðan.

Ummæli (4) | Óflokkað, Skólamál, Daglegt líf