Færslur frá 17. janúar 2010

17. janúar 2010

Námsþerapían og ástand bloggynju

Undanfarið hafa færslur gegnumgangandi fjallað um köttinn Jósefínu. Það er í rauninni óþarfi því hún rekur sína eigin fésbókarsíðu, undir nafninu Jósefína Dietrich og er talsvert flinkari í stílbrögðum en þessi bloggynja. Í rauninni má afgreiða umfjöllun um köttinn með þeim upplýsingum að nú hefur eigandinn / bloggynjan öðlast samskonar rödd og kennir það bið við ómerkilegan strætóstaur utan við Háskólafjölritun. Þar þyrfti að setja skýli því helv. útsynningurinn er óvenju kaldur í þurrabúðinni!

Bloggynjan byrjaði sumsé í skólanum á föstudaginn. Til að einfalda pappírsvinnu og regluverk er ég skráð sem nýnemi á BA-stigi!  Eins gott að ég keypti mér fullt af notuðum pínupilsum og leggings við, í Gyllta kettinum á miðvikudaginn. Sé þó ekki fram á að geta mætt í svoleiðis átfitti í þurrabúðina köldu og klakafullu … nema taka sénsinn á blöðrubólgu.  Nei, ætli ég dekki mig ekki í lopa næsta föstudagsmorgun. En mér fannst ég yngjast töluvert við að verða nýnemi á BA-stigi og er glöð yfir þessum öðrum séns því líf mitt var ekki það þægilegt síðast þegar ég var nýnemi á BA stigi.

Að koma inn í Árnagarð er eins og að koma heim - þarna þekkir maður fjölda manns, jafnvel á svipuðum aldri og bloggynjan en ekki endilega aftubatapíkunámsmenn eins og hún er. Að koma upp á Þjóðarbókhlöðu er enn meir eins og að koma heim því þar er annar hver maður fyrrverandi nemandi bloggynju! Þetta er óvenju gleðilegt því miðað við sörvisinn og dekrið við mann / konu, á masterstigi í íslensku var ég farin að óttast um að fjöldi manns lyki BA gráðu í kjaftagreinum án þess að hafa nokkru sinni komið inn á bókasafn! Það er ekki góðs viti, þrátt fyrir óra um að rafbókin drepi pappírsbækur innan fárra ára. Svona framtíðarspár blossa alltaf öðru hvoru upp; fartölvurnar og rafrænu töflurnar áttu að leysa skólabókina af hólmi - jafnvel kennarann líka, að sumra mati - en nú er reyndin sú að sumir kennarar banna fartölvur í tímum því auðvitað eru blessuð börnin ekki að sækja sér þekkingu heldur skrópa andlega úr tíma, á spjallrásum ýmiss konar, eða í tölvuleikjum.

Ég gat ekki hugsað mér að lesa greinarnar kúrssins míns í tölvu heldur prentaði samviskusamlega út hverja tutlu! Svo hef ég verið að dúlla við að lesa þetta milli 5 og 7 á morgnana þegar ég er með fúlle femm og hef félagsskap af grútsyfjuðum ketti. Ég glósa meira að segja til að sjá við eigin minnistruflunum og athyglisbresti. Ein grein að morgni er fínt fyrir mig og ég er að verða búin með lesefnið fyrir næsta tíma. Rennsla yfir eigin glósur á fimmtudag ætti að tryggja að ég hafi á takteinum eitthvað af því sem lesefnið fjallaði um.

Ég hafði sosum áður heyrt að rétti staðurinn fyrir þá sem erfiði og þunga eru hlaðnir væri HÍ eða Kennó (sem hafa nú sameinast). Þar væri tekið rosalega mikið tillit til manns og mönnum jafnvel veitt langþráð hvíld. En ég reiknaði ekki með þessum Uglu-sörvis, ekki misskilja mig - það kemur sér afskaplega vel fyrir manneskju á Stór-Akranessvæðinu að geta sótt útlenskar greinar af neti. Ég hef bara svolitlar áhyggjur af verðandi íslenskukennurum, jafnvel verðandi fræðimönnum, sem hafa vanist á að vera mulið undir endalaust. Svo koma þeir út í hinn harða kennsluheim og hvað? Fá taugaáfall?

Talandi um taugaáfall þá vík ég blogginu að skýrslu um eigið heilsufar. Mér gengur vel með fyrstu tröppu geðlyfsins. Vonandi gengur jafn vel með þá næstu. Svo er ég aðeins í tröppun kvíðastillandi lyfs og só far só gúdd! Nýja kvíðastillandi lyfið þolist nokkuð vel; ölvunarfílingurinn að ganga til baka en aftur á móti líður mér eins og ég hafi legið á ströndinni allan daginn í sólbaði þegar ég skríð undir sæng að kveldi. Þetta er sennilega aukaverkunin “truflun á húðskyni”. Hún minnir mig notalega á fyrirhugað langt sumarleyfi á einhverri grískri eyju næsta sumar og gerir svo sem ekkert til.

Ég sef ennþá a.m.k. einu sinni á dag. Batinn er hægur en bítandi; familían sér mikil batamerki! Í gær lá ég næstum bara í rúminu en það skrifast sennilega á tvær þurrabúðarferðir sömu vikuna sem eru lítilli geðsjúkri bloggynju um megn. Styrkurinn mun koma með tímanum.

Rugl á svefntíma verður til þess að það er ákaflega margt sem ég geri EKKi af því sem hollt og gott fyrir eina kvenpísl. Má nefna að AA-fundur í minni deild lendir inn í miðjum svefntíma II, á morgnana; Enn hef ég megna andúð á hreyfingu úti í því kalda lofti; Almennt er framtaksleysið óhugnalegt, t.d. tók mig meir en viku að komast af stað í augabrúnalitun, unglingurinn étur upp ljósamiðana mína meðan ég kem mér alls ekki í ljós og er föl eins og hundaskítur, í framan. (Þetta skilja væntanlega einungis þeir sem hafa séð gamlan hundaskít, í sveit eða í ystu byggðum landsins …) 

Af því bloggið helgast af “málæðisstíl” en ekki skipulegri ritun sting ég hér inn að ég er orðin hundleið á því fólki sem leyfir hundinum sínum að skíta í bakgarðinn minn og bakgarða tveggja húsa hvorum megin við mitt. Ég get reyndar ekki ímyndað mér hvers lags fólk beitir sínum skepnum markvisst á garða nágrannanna eða lætur hundkvikindi ganga laus. Tek fram að við konan í næsta húsi höfum rætt þetta; Hennar hundar eru aldrei lausir úti og hún hreinsar upp eftir þá eins og ábyrgur hundseigandi gerir. Ég held ég hafi séð stóran svartan hund snöfla lausan við bílskúrinn í Hjarðarholtsgarðinum fyrir aftan mitt hús og er hann hugsanlega valdur að risastórum hundaskítsdrellum bakvið hús … þetta er eins og kúamykja, svei mér þá! Kannski er sá stóri svarti lausi saklaus af skitunni. Kannski við ættum að stofna nágrannavakt til að komast að þessu?

Altént líður mér bærilega í augnablikinu og hefur létt mjög því ég óttaðist að niðurtröppun þunglyndislyfsins myndi færa mér aftur allan pakkann; grát og gnístran tanna og sjálfsvígshugmyndir í tugatali eða að ég breyttist í uppvakning sem ráfaði stefnulaust um húsið og kynni best við sig undir tveimur sængum og allt það …  Kannski verður þessi niðurtröppun ekkert mál. Kannski …

Ummæli (0) | Óflokkað, Geðheilsa, Skólamál, Daglegt líf