Færslur frá 23. janúar 2010

23. janúar 2010

Breytist fólk í sjúkdóm?

Þetta er löng færsla, ætluð vellæsum: 

Áður en ég hef  mál mitt skv. fyrirsögn vil ég taka fram, fyrir áhugasama dygga lesendur, að fr. Dietrich hefur það fínt! Hún hefur með látbragði sýnt mér fram á að peysan sem ég keypti í Gyllta kettinum er með ekta dýri hangandi á sér (vonandi samt ekki lituðu kattaskinni) því hún réðst umsvifalaust á loppuna sem hangir framan á peysunni. Peysan er í augnablikinu örugg inni í skáp.

Auk þessa hefur litla dýrið þróað skemmtilegan leik, alveg alein og sjálf!  Leikurinn er þannig að þegar eigandinn / móðirin / þessi bloggynja er að fara að leggja sig og sest á rúmið þá er Jósefína búin að koma sér fyrir undir hjónarúmi og stekkur svo og “veiðir” annan hvorn fótlegg bloggynju. Hún vill alls ekki láta af þessum skemmtilega leik, ekki einu sinni þótt hún hafi verið skömmuð svo blóðugum skömmum að dýrið litla var farið í agnarsmáan hnút lengst undir hjónarúmi … nei, henni finnst leikurinn meira virði en skammirnar. Verandi þroskaðri (lesist: Komin lengra en á hlutbundið aðgerðarstig) hefur eigandinn / mamman / bloggynjan séð við kattarskömminni með því að fara upp í rúm frá fótalagi, en þar er tréplata ofan á gólf. Stýrið litla sat á meðan ógurlega spennt undir rúmi … en varð af vinningnum. (Hah!!!  Og hvur er svo klárari??? Addna ???)

Nú vindum við okkar kvæði í kross og tölum um fyrirsagnarefnið!

Ég hef doldið verið að velta því fyrir mér undanfarið hvort staðhæfing Héðins Unnsteinssonar um að geðsjúkdómsgreining loði við mann það sem eftir er, jafnvel þótt manni batni, sé rétt.  Mig minnir að hann hafi talað um að geðsjúkir yrðu sjúkdómurinn, í augum hins heilbrigða almennings. Þetta sagði Héðinn í aðsendri grein til Mbl. fyrir stuttu - ég ætlaði að klippa greinina út því hún var svo ansi góð en gleymdi því auðvitað eins og svo mörgu öðru. Myndin til vinstri á alls ekki að sýna Héðin :) Hún passar bara svo vel við staðhæfinguna hans.

(Í dag, á kaffihúsi með vinkonu minni, var ég búin að gleyma hvað samkennari minn hét fullu nafni. Í íslenskudeildinni eru að jafnaði 4 - 5 kennarar svo þetta er nokkuð mikil gleymska! En ég skrifa hana á vaxandi þunglyndi þessa dagana. Kannski stafaði hún að einhverju leyti af 4000 kaloríu kökusneiðinni - marengstertu, með auka rjóma -  … en missum okkur ekki út í málæði og greinaskilalausa þvælna umfjöllun þótt á bloggi sé …)

Kannski spilar einnig inní að ég er nýbúin að lesa yfir fyrirlestur heimspekingsins um hvernig sjálf virkar, hvað fyrirbærið sé (”gæti verið” - heimspekingar slá alltaf varnagla!) og hvurju geði hver sem vitandi er vits stýrir (þ.e. er “inn við beinið” eða jafnvel innrættur).

Í fyrradag varð mér ljóst að einhverjir fleiri en ég á þunglyndistímum telja að ég eigi ekki afturkvæmt til kennslu. Mér brá svolítið við þetta því þrátt fyrir að heilsulínuritið mitt vísi hroðalega mikið niður á við held ég nú alltaf í obbolitla von (missti hana reyndar milli jóla og nýárs og það var skelfilegur tími!) og er ekki enn farin að skilgreina mig sem “geðveika kennarann á Skaganum”.  Mér er líka ljóst að sú ákvörðun að taka einn kúrs í HÍ er rétt því þannig kemst ég hjá því að enda í vitsmunastiginu “ein slétt - ein brugðin” eða smækka mig ofan í geðsjúkling í fullu lífi. Það tekur mig næstum alla vikuna og mest af skásta tímanum mínum að læra fyrir þennan eina kúrs. Á föstudögum hryn ég inn um dyrnar rúmlega þrjú á daginn og er gersamlega úrvinda, eftir að hafa mætt í tíma og farið upp á Þjóðarbókhlöðu þar á eftir. Samt er kúrsinn þess virði; að hitta fólk og tala um annað en hvernig mér líður og hvað ég sé að éta mikið af pillum og hvernig horfurnar séu í þeim málum o.s.fr. - að setja sig inn í erfiðleika karlmanna við að skilgreina karlmennsku þegar yfirstéttin fór að ganga í kjólum (kirkjubransinn upp úr 1000 / 1100) o.s.fr. er ágætlega gefandi þegar maður er alla hina dagana að feisa þá hugsun að komast úr rúminu og jafnvel klæða sig í föt!

Meðan ég enn hef hugann stundum / takmarkað við kenningar um karlmennsku á miðöldum er ég hugsandi manneskja (homo sapiens sapiens) en ekki þunglyndis- og kvíðasjúklingur að fullu. Ég get, tímabundið, íklæðst námsmannsfötum (og er reyndar góður námsmaður ef allt er í lagi - tíminn verður að leiða í ljós hvernig ég tækla þetta núna).

Ég las áðan dóminn um hjúkrunarfræðinginn sem lenti í miklum hremmingum á geðsviði Lsp. og var sjálf mjög veik á meðan. Sjá  Dóm Héraðsdóms Reykjavíkur 22. janúar í máli nr. E-4538 / 2009. Mér fannst yfirmenn konunnar vera ótrúlega hrokafullir og málið í sjálfu sér fáránlegt. Í hnotskurn er það þannig að starfsfólk fer í partí utan spítalans og einhver kk. hjúkka tilkynnir daginn eftir að hann geti ekki unnið með ákveðinni kvk. hjúkku af því hún hafi áreitt hann kynferðislega! Var þetta fyrsta partíið á ævinni sem karlhjúkkan mætti í? Partí fram á nótt snúast einmitt mjög oft upp í kjötmarkað og kynferðislega áreitni (been there seen that!).

Ef ég hefði farið og klagað í skólameistara eftir hvert kennarapartí sem ég sótti áður en ég komst á snúruna hefðu nú nokkrir verið fluttir til í starfi!  Svo ekki sé talað um að mér, bloggynjunni, hefði fyrir löngu verið komið fyrir á Raufarhöfn! (Ég nefni Raufarhöfn af því að á náms- og svallárum mínum í Reykjavík gekk sú saga meðal guðfræðinema á Garði að á Raufarhöfn væri presturinn stundum vakinn upp á nóttunni til að gifta fólk “til bráðabirgða”. Mér þótti þetta alltaf jafnskondið. Miðað við tilflutning í starfi hefði Raufarhöfn sennilega verið heppilegust fyrir mig in the eighties.)

Ég ætla sosum ekki að fara að leggjast í einhverja fjórða spors vinnu á þessu bloggi!

En miðað við lýsinguna á aðstæðum kvenkyns hjúkkunnar datt mér í hug að sjúkdómshugtakið hefði kannski festst (gamla skikkið í stafsetningu?)  óþarflega við hana og hinn hugumstóri karlkyns hjúkrunarfræðingur hefði verið svo miklu meira normal og betur samþykktur á sínum vinnustað (33 C). Gæti það verið?

Sennilega er niðurstaðan af þessu hálf-sundurlausa bloggi sú að ég viðurkenni að ég sé geðveik og að mér er um megn að stjórna eigin lífi. Þannig er staðan núna og verður eitthvað frameftir - hve lengi er ómögulegt að vita. Ég ER hins vegar Harpa en ekki “geðveiki kennarinn” eða “geðveiki starfsmaðurinn” eða eitthvað álíka. Þótt mér þyki í sjálfu sér vænt um þegar sagt er að ég sé “ge-eikur kennari”! Enda vel meint.

Þyrfti að ræða þetta við Héðin einhvern tíma. Bendi svo hugsanlegum kommenterum á það að ég er að verða afar vel að mér í hvernig níða skal karlmenn (ólöglega, skv. Gulaþingslögum).  Þetta er reyndar frekar einfalt eins og oft á við um karlkynið (án þess að bloggynja hafi í sjálfu sér neina fordóma): Nóg er að kunna þrjú orð / orðasambönd og þar af þýða tvö það sama!

 

Ummæli (4) | Óflokkað, Geðheilsa, Daglegt líf

Á röngunni?

Í gær kynntist ég kenningum manns sem heldur því fram að einungis sé til eitt kyn, sem ýmist sé á réttunni eða röngunni. Konur eru á röngunni (inside out!). Gæti þetta verið orsök þunglyndis og kvíða (með stuðnings-tilvitnunum í Freud)?

Seinna í dag ætla ég að blogga um skólann og námið. Ef mér tekst að hanga í heimi lifenda. Þetta niðurtrapp lyfja er farið að hafa veruleg áhrif! Það hlýjaði að hitta vaktmann af 32 A uppi á Þjóðabókhlöðu í gær :) Kannski maður ætti að flytja suður um stund?

Er farin í bælið.

Ummæli (1) | Óflokkað, Geðheilsa, Skólamál