Færslur frá 26. janúar 2010

26. janúar 2010

Búin með Auði!

Ég tók mér tak og kláraði bókina Auði enda má ég ekki hafa hana mikið lengur í láni. Við Jósefína hringuðum okkur á stofusófann nú í eftirmiddag og reyndar sýndi kötturinn bókinni mikla blíðu, neri sér utan í öll bókarhorn. Við skulum vona að næsti lánþegi eigi ekki kött!

Bókin er auðvitað frábær - en ekki hvað?! Ég var samt ótrúlega lengi að lesa hana af því það eru svo margir fróðleiksmolar í henni, sem fengu mig til að staldra við, kannski af því ég hef alltaf haft áhuga á þessu efni og meira að segja vappað um skóga Írlands og skoðað frægar rústir, með mínum manni. (Hluta af the Wicklow Way, kannski misminnir mig nafnið, í BB gistingu góðra kvenna milli göngudaga, þær þurrkuðu meira að segja skóna fyrir mann!  Í ógislega frægum klausturrústum skammt frá Dublin var einmitt turn, eins og minnst er á í Auði, þar sem inngöngudyrnar virtust á ca 7. hæð og maður sá fyrir sér krúnurakaða munkana draga upp kaðalstigann og ulla svo á víkingana fyrir neðan ;)

Pælingar um stöðu kvenna komu skýrt fram (t.d. sú hugsun sem hvarflar að Auði þegar hún skoðar innilokaða fluguna í gylltu rafinu). Mér fannst Auður vera feikilega mikill karakter en það er reyndar sú mynd sem ég hef alltaf gert mér af henni, hafandi kennt Laxdælu oftar en elstu menn muna!

Svo eyddi ég dágóðum tíma í að fletta upp lýsingum í bókinni til að finna út mikilvægi fæðingarblettsins á Þorsteini rauð en fann ekki … eins gott að ég er ekki að kenna þessa bók …

Ég held reyndar að bókin henti ekki sem kennslubók nema þá fyrir elstu nemendur. Þetta er fullorðinsbók, miklu þyngri en t.d. Laxdæla, og ég held að fullorðnir njóti hennar best. Enda löngu kominn tími á að færa Vilborgu Davíðsdóttur úr barnabókahillum bókasafna! Allar hennar bækur henta fullorðnum mjög vel og það er rétt svo að fyrstu bækurnar, saman í Korku sögu, séu nógu auðveldar til að unglingar njóti þeirra. (Vel á minnst er Við Urðarbrunn mjög vinsæl bók í byrjunaráföngum íslensku í framhaldsskólum. Virkar vonandi hvetjandi á einhverja til að lesa fleiri bækur eftir höfundinn.)

Nú er ég ekki í standi til að skrifa neinn alvöru ritdóm (þótt ég hafi gráðuna ;) ) en bendi á styrka persónusköpun og góðar umhverfislýsingar sem gera bókina bíó fyrir heilann: Á stundum jafnspennandi og Hringadróttinssögu-kvikmyndir! (Mætti nefna sem dæmi för Auðar til klaustursins til að skila The Book of Kells eða álíka dýrgrip.) Á hinn bóginn þvælast sagnfræði / þjóðfræðimolar óþarflega fyrir bókmenntafræðingi með athyglisbrest, auk allra írsku tilvitnananna. Þær virkuðu alltaf sem stoppmerki fyrir mig. (Aftur á móti gleðja þær eflaust Gísla Sigurðsson ;)

Sem sagt: Flott saga en ég held samt ennþá meira upp á Hrafninn …  Eiginlega ætti ég að lesa Hrafninn á hverju ári en ekki bara eftir raflostmeðferð. Í mínum athyglisbrostna heila er Hrafninn merkilega ósnertur núna, gott ef ég man ekki bara alla bókina! Og það er ekki hægt að segja um margar bækur núna. Só sorrí Vilborg … þú samdir bara því miður bók sem fáar toppa (þ.e. Hrafninn).

Ég hef bara alltaf verið svo heit fyrir Norðurslóðum … hvað kallaði Vilhjálmur Stefánsson nú aftur hinar hvítu auðnir?  Man það ekki … sem er í lagi því eftir að hafa lesið ævisögu Vilhjálms og tvær bækur um Karluk hef ég ekkert álit á þessum manni - hann var ekkert annað en aumur útrásarvíkingur síns tíma!

Mæli með Auði!

Ummæli (4) | Óflokkað, Skólamál, Daglegt líf