Færslur frá 31. janúar 2010

31. janúar 2010

Lyrica =>Sloppadagur. En ekki hvað?

Núna er mér hrikalega flökurt, ég stíg ölduna og er reikul í spori, eitthvert ógeð stíflar á mér hálsinn svo það er erfitt að kingja (og er alltaf að reyna að hósta þessum viðbjóði upp, án árangurs), hausinn er að springa og þegar ég leggst undir sæng er eins og ég sé öll sólbrunnin!  Ég skrifa þetta allt á reikning lyfsins Lyrica! Einhverra hluta vegna er ég útsett fyrir öllum hugsanlegum aukaverkunum allra lyfja, líka þeirra örsjaldgæfustu. Lyf eru bara ekki mín deild fremur en brennivín! Samt verð ég alltaf að taka slatta af þessum rudda, við mínum krankleika, en öfugt við það sem geðfrískur almenningur heldur stundum er ég ekki að taka þessi lyf að gamni mínu! 

Ég hef reynt við sunnudagskrossgátu, bókina Böðvars G. og Illan mjöð (um miðaldabókmenntir) - allt án árangurs. Sennilega er eina ráðið að liggja, a.m.k. var það eina ráðið við sjóveiki í suðvestan garra, djúpleiðina frá Skaga og yfir Hvalfjarðarröstina, til þurrabúðarinnar-handan-Flóans … í denn. Kemur sér náttúrleg vel að vera verseruð í sjóveiki og sjógangi á svona degi. Aftur á móti sólbrenn ég yfirleitt ekki og hef því litla reynslu af þessum ónáttúrulega húðbruna sem kviknar í öllum útlimum þegar ég leggst niður.

Nú ætla ég að lesa í Sérlyfjaskrá hvussu slæm fráhvarfseinkennin eru og meta síðan hvort ég á áfram að reyna að “hrista af mér” þessa líðan eða taka bara út fráhvarfseinkenni, sem e.t.v. eru ekki verri en slæmir timburmenn (og lukkulega hef ég einmitt líka mikla reynslu af þeim og hvurnig skal höndla þá, til skástar líðanar ;)

Taktísk sem ég er hef ég náttúrlega skrifað mínum góða lækni og spurt hvort ég MEGI minnka skammtinn! Eftir að það bréf var sent hefur mér bara versnað - er að hugsa um að reyna að gubba (sem ég þoli ekki!) - borða svo hefðbundinn íslenskan sunnudagsmat, sem maðurinn er að elda (læri - vonandi tekst honum sæmilega til með skorpuna núna) og hugsa svo lyfjaframleiðendum þegjandi þörfina fyrir að framleiða ógislegt lyf og láta það heita svo fögru nafni! Auðvitað vara sjúklingar sig ekki á svona ódýru auglýsingatrikki … hefði lyfið heitið “Diabolica” eða eitthvað svoleiðis væri ég sáttari við það núna …

Fokkings fokk eða þannig!

Ummæli (2) | Óflokkað, Geðheilsa