Færslur febrúarmánaðar 2010

27. febrúar 2010

Til hamingju Óli!

Eins og aðrir í mínum litla góða bæ gladdist ég óumræðanlega yfir þeim fréttum að Wernersbræður ættu nú að borga myndarlega sekt fyrir að hafa beitt verulega ósvífnum brögðum svo við lasnir bæjarbúar yrðum tilneyddir til að skipta við þá og einungis þá. Ég er náttúrlega ekkert viss um að téðir Wernersbræður eigi fyrir þessari sekt. Þeir ætla  ekki að greiða hana heldur rekja málið fyrir dómstólum, að sögn. Sennilega ekki ódýrara fyrir þá.

Ég var svo vitlaus (má rökstyðja að það hafi ég verið bókstaflega) að skipta við Lyf og heilsu hér áður fyrr enda nánast  í næsta húsi. En þegar Ólafur Adolfsson óskaði W.bræðrum til hamingju með opnun lágvöruapóteksins síns, í heilsíðuauglýsingu (um áramótin síðustu?), hætti ég umsvifalaust að skipta við það apótek nema rétt kaupa eyrnatappa í neyð eða fótleggjavax þegar bráð nauðsyn bar til. Eftir að hafa skoðað úrskurð Samkeppniseftirlitsins hef ég ákveðið að kaupa ekki einu sinni eyrnatappa framar af Apótekaranum heldur versla eingöngu við Apótek Vesturlands. (Verst að ég skuli orðin þó þetta frísk og pillunum hafi fækkað svo mjög … en maður veit aldrei hvað verður. Það er náttúrlega fúlt að hitta ekki meir þær góðu afgreiðslukonur í Apótekaranum … Á hinn bóginn mun labbitúr upp í sveit gera mér gott og vonandi gefast sem flestar ferðirnar uppeftir.)

Í tilefni þessa paufaðist ég í morgun, í ófærðinni, upp í mýri þar sem Apótek Vesturlands er staðsett og kunni ekki við að kaupa dót undir fimmþúsundkallinum, þess vegna eignaðist Jósefína þennan fína bursta og ég krem o.s.fl., þótt mig vantaði bara eitt snitti af öðru. Ég horfði vorkunnaraugum á vesalings fólkið sem verður að versla í Bónus (í sama húsi) - sem betur fer þarf ég ekki að skipta við þá Bónusfeðga og hef reyndar ekki gert frá því þeir byggðu sér huggulegt útibú í útjaðri míns góða bæjar. Nei, þá er nú betra að halda sig við Einarsbúð, eins og almennilegur Skagamaður!

Mér vitanlega er Ólafur Adolfsson, eigandi Apóteks Vesturlands, úr Ólafsvík. En hann er óneitanlega Skagamaður núna, Vestlendingur ársins 2009, og fyrrum ÍA fótboltastjarna! Þarf að segja meira? Árás á þennan lyfsala er í rauninni árás á fótboltamann í okkar liði … og hér í mínum litla góða bæ hafa menn fótbolta fyrir guðið sitt, hvað sem þeir nú kunna að gera á Snæfellsnesi. Þetta hefðu þeir Steingrímur og Karl átt að fatta.

Annað er sosum ekki títt. Við maðurinn fórum á tónleika í gærkvöldi … mjög huggulegir og reyndar einnig bráðfyndnir tónleikar Kammerkórs Akraness ásamt hliðargrúppum sem “írska” hljómsveitin (The Beginners?  Held hún heiti það.) endaði.

Krakkarnir í götunni eru hamingjusamir í snjónum en kettirnir í götunni eru ekki sama sinnis. Vesalings Jósefínu blöskrar þetta blauta kalda ódó og verður að halda sig meira og minna inni. Annað en hundar sem láta siga sér nánast út í hvaða veður sem er! Maðurinn horfði á Gunnhildi litlu af Hjarðarholtinu steypa sér út um gluggann sinn í morgun … og beint ofan í skafl! Aumingja Gunnhildur.

Ég er búin að lesa Stóru kattabókina og sé nú betur hvernig kötturinn fer að því að temja fólkið sitt. Svo kláraði ég líka Svörtuloft, svona la-la bók en mér finnst Sigurður Óli algerlega óþolandi karakter, minnir mig á Jardine heitinn (í Taggart) sem mér fannst einmitt einnig verulega óþolandi. Sennilega er Sigurður Óli reistur á Jardine, líkindin eru það mikil. Heftir kallar gætu kannski lært eitthvað af því að samsama sig löggunni Sigurði Óla ef glæpasagnir hafa þá yfirleitt freudískt lækningargildi.

Ummæli (0) | Óflokkað, Daglegt líf

26. febrúar 2010

Bless og takk fyrir fiskinn!

Fyrirsögnin er stolin frá (eða tilvísun til?) Douglas Adams, eins og einhverjir dyggu lesendanna átta sig eflaust á. Mér fannst hún við hæfi í ljósi þess að ég hætti að borða fisk á þrítugsafmæli mínu fyrir óralöngu og hef einungis étið svoleiðis fæðu í neyð (svo sem eins og í huggulegri 7 rétta fiskmáltíð einhvers staðar á Amalfi ströndinni fyrir mörgum árum, að viðstöddum mörgum vitnum sem tjáðu aðdáun sína á athæfinu  - hvað gerir maður ekki fyrir evrópskt samstarf?). Ég fullvissa lesendur um að ég hef löngu gleymt bókunum hans Douglasar nema broti hér og broti þar … og ég tel mig hvorki skáldsagnapersónu né höfrung.

En pirringurinn útí hin “akademísku” fræði, sem iðkuð eru á Melunum óx og óx. Mér varð ljóst að það væri ekki hollt fyrir mig að vera svona pirruð og tímdi ekki að splæsa takmarkaðri orku í að ná mér niður af þessu, henni er betur varið í annað. Sem ég var að íhuga þetta í gær birtist hönd guðs, í líki tölvupósts, og skaffaði mér miklu áhugaverðara verkefni sem ég mun hafa miklu meir gaman af. Svo ég sagði mig umsvifalaust úr kúrsinum sem ég var í og leið um leið miklu miklu betur. Seinna blogga ég sennilega nánar um reynsluna af hinu fræðilega, þegar ég verð komin með jafnt skap og mér verður orðið algerlega nett sama um þetta allt saman. 

Ég þakka Erlu, sem gerði athugasemdir við færsluna á undan, kærlega fyrir þær og ekki hvað síst fyrir að benda mér á Íslenskan Orðasjóð. Ég mun örugglega nýta mér hann í verkefninu sem ég fer næst í og lofa að hampa sem víðast enda bendir lausleg prufa til þess að verulegur fengur sé í þessu efni.  Það gefur þessu verkefni einnig huggulegan langsóttan fræðilegan Melastimpil að Árnastofnun linkar í stofnunina sjálfa (en ekki Íslenskan Orðasjóð) af vefsíðunni http://www.arnastofnun.is, undir Tenglar, undir Orðabækur og íðorð, undir Aðrir tenglar.

Sumsé er kominn tími til að snúa sér að öðru. Ég hef t.d. vanrækt óstafrænar hannyrðir alveg óskaplega upp á síðkastið; valið frekar að lesa grein hér og grein þar. En í fyrrakvöld fékk ég kostaboð, tengt hannyrðum og listum, í símtali og hlakka mjög til að taka því boði! Það mun örugglega kveikja undir hannyrðaáhuganum aftur. Ef færð gefur þegar fer að vora eða litlibróðir sækir mig á skektunni yfir Flóann …

Sem minnir mig á hversu arfavitlaust mér finnst að leggja af stað í gær með hátt í hundrað skólakrakka í skíðaferð norður! Að vísu gleðst ég yfir því að Gylfi frændi fær nógan bissniss í Borgarnesi núna … en fyrr má nú fyrrvera af þessum hafnfirsku grunnskóla-”ofurhugum”!  Færðin er þannig á því veðursæla Akranesi að sjálfstæður heimspekingur tók strætó í skólann sinn í morgun (ég kenndi honum á strætó í gærkvöld, lét hann fá útprentaðar áætlanir og strætómiða og hann horfinn núna svo þetta hlýtur að hafa gengið allt saman).  Meira að segja Fr. Dietrich hefur orðið að nota sitt inniklósett, hafandi þó lesið í týndum heimspekiritum að köttur pissar ekki tvisvar í sama sandinn … 

Nú er ég farin í hlutverk hinnar góðu húsmóður og hyggst ræsta þetta hús! Það verður í þriðja sinn (fjórða?) sem ég fæst við þessa iðju frá því í október á síðasta ári og augljóst að mér fer fram.

  

Ummæli (2) | Óflokkað, Skólamál, Daglegt líf

24. febrúar 2010

Ævispor enn á ný!

Ég brá mér með vinkonu minni til þurrabúðarinnar í dag enda veðurútlit hérna megin Flóans gott. Í þurrabúðinn reyndist hins vegar þetta venjulega þurrabúðarrok og skítakuldi!  Þrátt fyrir slakar umhverfisaðstæður má samt þorpið handan við eiga að ýmislegt má skoða innanhúss.

Þar á meðal er auðvitað sýningin Ævispor í Þjóðminjasafninu, sem ég skoðaði aftur af stakri ánægju en varð enn og aftur nánast klökk við - þetta er svo fallegt alltsaman! Ég fell gjörsamlega í stafi yfir litunum og vinnunni að baki verkunum. Svo skemmtilega vildi til að listakonan sjálf birtist þarna og við vinkona mín tróðum okkur að henni til að segja hvursu fögur verkin væru. Sömuleiðis gat ég náttúrlega ekki stillt mig um að tengja okkur saman gegnum skyldfólk og tengdir. Maður má monta sig þegar svo glæsileg er listin.

Næst lá leiðin á bókamarkað hvar ég var staðráðin í að kaupa ekki snitti enda bókaeign fjölskyldunnar orðin meiri en Lestrarfélags N-Þingeyinga, sem ég las í bernsku. Það gefur ótrúlega góðan grunn að lesa heilt bókasafn en vera ekki að spá í þessa nýmóðins skiptingu hvað teljist fyrir börn og hvað fullorðna. Það eina sem mér var beinlínis bannað að lesa voru Gleðisögur Balzacs sem varð auðvitað til þess að ég paufaðist vandlega í gegnum þá bók og geymdi hana undir rúmi ef einhver sá til mín. Þarf varla að taka fram hvílíkt uppistand varð þegar móðir mín hugðist skúra undir þessu sama rúmi … enda var það einmitt hún sem taldi þetta klámsögu og  ekki fyrir börn! (Myndin sýnir Honore de Balzac, f. 1799, d. 1850.) Mig minnir að bókin hafi verið hrútleiðinleg …

Því miður var ég ekki nógu staðföst á bókamarkaðnum og keypti smáræði, þar merkilegast náttúrlega Stóra kattabókin og Blái Engillinn, úr lífssögu Marlene Dietrich. Þetta flokkast þægilega undir nauðsynleg uppsláttarrit vegna Fr. Jósefínu.  Þegar ég skoðaði myndir af Marlene D. á Vefnum rann upp fyrir mér hvers vegna Fr. Jósefína Dietrich er svona svakalega meðvirk reykingamönnum … hún rífur sig meira að segja á allar fjórar lappirnar til að fara út á stétt með reykjandi eigandanum.

Ég er reyndar doldið spennt að lesa ævisöguna Goodbye to Bacchus, útgefna 1953, en er annars að drukkna í allrahanda ólesnum bókum og var að sækja Svörtuloft Arnalds af bókasafni míns góða o.s.fr. þannig að kvöldinu er bjargað.

Þriðja seværdigheden var svo sokkabuxnabúð í Kringlunni, hvar ég leitaði að alminlegum gammosíum og náði að kaupa eitthvað sem líktist því. Nú má fara að ganga í kvenlegra dressi en gallabuxum þrátt fyrir helv. kuldann! A.m.k. hér á mínum góða Skaga.

Á morgun er ég að hugsa um að verða samferða mínum manni til sömu þurrabúðar á ný en nota tímann til að sörfa á Þjóðarbókhlöðu og ljósrita einhverjar greinar ef í þeim finnst bitastætt efni fyrir mig.

Ummæli (3) | Óflokkað, Daglegt líf

23. febrúar 2010

Klikk á móðurmorðinu: Sálgreining og kvennabókmenntafræði

Geðvond sem ég var í gær fannst mér upplagt að æxla mér bækur sem myndu væntanlega fara í taugarnar á mér. Þetta er svipuð hugsun og liggur að baki hómópatíu, þ.e.a.s. stundum virkar að lækna pirringinn með örskammti af pirringi. Alveg eins og ég hressist aðeins í djúpu þunglyndi við að hlusta á jarðarfararsálma sungna af Ellen Kristjánsdóttur.

Ég tók sumsé Óþarfar unnustur o.s.fr. eftir Helgu Kress og Svarta sól eftir Juliu Kristevu á bókasafni míns góða Kardimommubæjar. Komst svo að því að ég hafði akkúrat lesið greinarnar Helgu sem ég á að lesa fyrir kúrsinn sem ég er í en það breytti ekki því að kona gat enn og aftur skemmt sér yfir frösum á borð við “Hárskerðing er auk þess viðurkennd táknmynd geldingar, og Hallgerður sem hefur bæði vald á spuna og hári, neitar að gelda sjálfa sig.” (s. 26) Marga fleiri gullmola má finna í Óþörfum unnustum en ég ætla ekki að láta hanka mig á ritstuldi og vitna því ekki meir í þá bók.

Svört sól kom mér dulítið á óvart fyrst og fremst vegna þess hve lítið óskiljanleg hún er. Þýðandinn hlýtur að hafa unnið kraftaverk! (Formáli Dagnýjar Kristjánsdóttur var einnig skiljanlegur, sem kom mér líka þægilega á óvart.) Undirtitill Svartrar sólar er Geðdeyfð og þunglyndi (já, ég veit ég sagði í bloggfærslu um daginn að ég ætlaði ekki að lesa hana en af því blogg er æðislega óáreiðanlegur og ófræðilegur vettvangur geta lesendur aldrei treyst neinu í þeim efnum, ekki einu sinni bloggynju sjálfri!). Julia Kristeva lærði sálgreiningu og prufaði á eigin kroppi og sál, einnig virðist hún eitthvað hafa unnið við fagið, þ.m.t. inni á geðspítölum. Þess vegna eru lýsingar hennar á þunglyndiseinkennum og þunglyndissjúklingum fremur raunsæjar. Svört sól er mjög flott myndhverfing fyrir líf í þunglyndi, finnst mér, mun flottari en svartur hundur. 

Það er hins vegar túlkunin sem var bloggynju kærkomið pirringsefni, í gærkvöldi, og sló á pirringinn sem fylgir lyfjaniðurtröppuninni. Hafi ég ekki misskilið Fr. Kristevu þess meir er þunglyndi mitt sprottið af því að inni í mér er svartamyrkur (en þó ekki) hvar í dylst (jafnvel vex) Hluturinn, sem ég næ ekki að díla við af því ég klikkaði í bernsku á því að framkvæma móðurmorðið nauðsynlega nógu vel. Auk þess afneita ég afneituninni um að tungumálið geti komið í stað móðurinnar (?).

Þægilegra er fyrir dyggu blogglesendurna mína að fá endursögn Dagnýjar á fyrirbærinu: “Innsta eðli sjálfsverunnar er þá ekki það tóm sem þunglyndissjúklingurinn segir að kvelji sig. Það er eitthvað inni í myrkrinu, eitthvað sem ekki er hægt að lýsa eða tákna með orðum, en það er þarna samt. Kristeva kallar það “hlutinn.” ”Hluturinn” er fyrstu áhrifin sem umheimurinn hefur á ungbarnið. Þetta eru áhrif sem verða stofninn í þeim tilfinningum sem síðar munu tengjast ákveðinni persónu, fyrsta viðfangi barnsins. Þessi áhrif eru frumstæð skynjun, sem ekki er hægt að lýsa “eins og þau eru” vegna þess að barnið er ómálga og “hugsar” ekki á þessu stigi. …

Skilgreining Kristevu á “hlutnum” í kenningum hennar um þunglyndi er … ”Hinn þunglyndi narsisti syrgir ekki Viðfang heldur Hlutinn. Ég vil lýsa ”Hlutnum” sem því raunverulega sem lætur ekki tákna sig, miðpunkti aðlöðunar og viðbjóðs, aðsetri þeirrar kynverundar sem hið þráða viðfang mun skilja sig frá.” (s. 37 - 38) “Hluturinn er bundinn móðurinni eða fyrstu skynjunum okkar og ímyndunum um móðurlíkamann. … “Hluturinn verður að “hverfa” eins og hann leggur sig … Þetta “móðurmorð” er forsenda þess að verða mennskur, verða talandi og táknandi vera..” (s. 39) O.s.fr.  [Ég reikna með að stúlkubarnið á myndinni hafi eitthvað klikkað á sínu móðurmorði.]

Geðveik bloggynjan er náttúrlega doldið paff yfir þessum upplýsingum og veltir því fyrir sér hvort borgi sig að bera þetta á borð fyrir sinn góða lækni í næsta viðtalstíma. En sama bloggynja sér í hendi sér að það mætti sviga alveg helling úr þessum kenningum til að gefa hugsanlegri umfjöllun um eitthvað faglegt og fræðilegt yfirbragð. Þannig nýtist þessi texti bæði brjáluðum og óbrjáluðum bókmenntafræðingum framtíðarinnar.

Þótt ég vilji ekki ganga fram af lesendum má ég til með að birta aðra tilvitnun, í þetta sinn úr texta Kristevu sjálfrar. Kann að vera að einhverjum þyki smásmygli en af því ég er að koma mér upp áhugamálinu “Hvernig vitnar maður í Aristóteles?” gladdi þessi klausa mig, einkum eftir að hafa spurt Heimspekinginn í hinum ytra heimi, þ.e. í hinni tölvunni. Á s. 54-55 stendur: “Sá sem er þunglyndur er heimspekingur þegar efinn sækir á hann. Heraklítus, Sókrates og nær okkur í tíma, Kierkegaard, hafa ritað mögnuðustu verkin um merkingu og merkingarleysi Verunnar. Þó þarf að leita aftur til Aristótelesar til að finna heildstæða hugleiðingu um vensl heimspekinga við þunglyndið. …” [Sleppi aumingja Aristótelesi í þetta sinn. Myndin er af Júlíu Kristevu.]

Heimspekingurinn staðfesti að talið væri að Heraklítus hefði skrifað bók en hún væri aftur á móti löngu glötuð og einungis varðveittar fáeinar [sláandi? hundrað?] staðhæfingar Heraklítusar, á borð við að allt hreyfist (panta hrei) og að maður geti ekki stigið í sama vatnið tvisvar og að vegurinn upp sé einnig vegurinn niður o.s.fr. Sjá t.d. skemmtilegt svar á Vísindavef. Heimspekingurinn minn heldur því einnig fram að Sókrates hafi ekki skrifað bók svo vitað sér (en sló varnagla með að handrit væru náttúrlega alltaf að finnast … held að varnaglinn sé byggður á hugmyndum Dan Brown og fylgismanna hans, svo framarlega sem nagli geti verið byggður).

Það er náttúrlega við hæfi að heimspekileg undirstaða fræðanna (Kristevu) sé einmitt ekki undirstaða, þ.e.a.s. að hin “mögnuðustu verkin” skuli einmitt aldrei hafa verið til. Mér finnst það mjög í anda kenninganna. Aftur á móti hefði verið huggulegt að þessa væri getið í innganginum, svona til að skemmta alþýðunni. (Mér er ljóst að Kirkgaard var til en skil ekki alveg af hverju hann er grúppaður með þeim gömlu grísku, í þessari staðhæfingu.)

Þannig að nú ólga í sálarlífinu allskonar spennandi hugmyndir um vatn, geldingu, móðurmorð, löngu dauða heimspekinga sem skrifuðu bækur sem má byggja á þrátt fyrir að slíkar bækur hafi aldrei fundist, afneitun gegn nauðsynlegu afneituninni og jafnvel að þunglyndissjúklingur fái kikk út úr að vera þunglyndur (þetta orðar Fr. Kristeva í löngu máli og flóknu og kann að vera að bloggynja hafi hreinlega misskilið hana öfugt) og að þunglyndum finnist gaman að því að blaðra en allt sé það án tilfinninga og innihaldslaust þannig séð. [Þegar Fr. Kristeva samdi Svarta sól var ekki búið að finna upp bloggið en það ætti einmitt að vera kjörið fyrir okkur narsísku lítt-móður-myrðandi þunglyndissjúklingana.]

Miðað við forsendur sálgreiningar og niðurstöður Fr. Kristevu er DAM mjög lokkandi og auðskilinn kostur, verð ég að segja. Enda byggt á zen-búddisma en ekki gömlu grísku meintu rithöfundunum.

 P.s. Einhverra hluta vegna dreymir mig aldrei mannát. Er hugsanlegt að ég sé alls ekki þunglynd og með kvíðaröskun, úr því ég passa að þessu leyti ekki við hugmyndir Freuds gamla?

Ummæli (2) | Óflokkað, Geðheilsa, Daglegt líf

22. febrúar 2010

Gamli fjandinn minnti á sig …

Við brugðum okkur til þurrabúðarinnar í gær, til að hitta frumburðinn og fara í bíó. (Ég er algerlega ósammála kvikmyndadómnum í blaði mannsins, um Loftkastalann sem hrundi, því mér þótti þetta fín mynd, enda búin að lesa bókina! Aftur á móti leist mér ekki meir en svo á auglýsinguna um væntanlega Shutter Island sem ég hef lesið tvisvar. A.m.k. er ljóst að maður þarf að mæta með eyrnatappa á þá mynd! Ætli stærsti hluti bíógesta í þurrabúðinni sé hálf heyrnalaus? Eða er bara skrúfað svona hátt upp í Laugarás-bíó, gefandi sér að þeir Hrafnistumenn séu fastagestir?)

Sumsé var myndin fín en ekki eins fínt, fyrir mig, að fá ofsakvíðaköst hvert á fætur öðru, sirka á skalanum 6, undir auglýsingum og upphafi myndarinnar. Á endanum fór ég út smástund. Enda hálfa pillan í vasanum hálftíma að virka. Það er nokkuð langt síðan ég hef fengið svona kast (þunglyndi setur lok yfir allt, líka ofsakvíða) en ég var rækilega minnt á hversu dj… vont þetta er!  Óinnvígðir gætu gert sér í hugarlund nett hjartaáfall, með tilheyrandi verkjum og andnauð. Ofsakvíðakast er sennilega tiltölulega svipað. Ég notaði tækifærið til að rifja upp líkamleg ráð, s.s. að einbeita sér að öndun, halda fyrir eyrun og loka augunum og telja aftur og aftur rólega upp að tíu í huganum en þetta lagaði ástandið einungis mjög mjög tímabundið og svo hélt kastið áfram. Helv. fokking fokk! Ég hélt kannski að ég væri að mestu laus við þennan fjanda en hann lifir greinilega góðu lífi í boðefnabúskap heilans og getur stokkið fram hvenær sem er …  Svona hefnist bloggynju fyrir að trappa niður öll lyf, kvíðalyf meðtalin.

Heimkomin beið okkar meget fortvivlet Jósefína, sem hafði verið lokuð inni fram á kvöld og unglingurinn gleymt að kveikja ljósin áður en hann fór að vinna og Fr. Dietrich er svo svakalega myrkfælin! Og mannelsk, þegar hún man eftir því.

Ég ætlaði aftur til þurrabúðar í dag, til að hlusta á uppáhalds skáldkonuna mína segja frá því hvernig hún skrifaði sína góðu bók um Fr. Auði, en þótt mig langi og þótt mér finnist ég alveg frísk núna hef ég ekki hugsað mér að skemmta skrattanum í bili og mun því taka lífinu rólega í dag. Hér á okkar góða Skipaskaga er 5 stiga frost en blankalogn (að venju) og því mætti e.t.v. drífa sig í labbitúr, þótt ekki væri nema til að ná úr sér harðsperrunum eftir ofsakvíðaköstin! Svo er spurning um prjónakvöld á kaffihúsinu í kvöld, ef ég næ að fitja upp möbíus II fyrir kvöldmat.

Kötturinn hangir nánast límdur við fótleggi heimilisfólks, staðráðinn í að láta sko ekki skilja sig aftur aleina eftir!

Ummæli (5) | Óflokkað, Geðheilsa, Daglegt líf

19. febrúar 2010
18. febrúar 2010

Við Jósefína

Það er svo gaman að GETA!

Við Jósefína höfum í dag afrekað að prjóna töluvert og eyða hátt í þremur klukkutímum að skoða nótnasafn á Vefnum og æxla okkur nótur. Þarf varla að taka fram að þ.m.t. er Lili Marlene! Reyndar í leiðinlegri útsetningu en það má kannski porra hana eitthvað upp … Eigandi Jósefínu hefur lofað að læra þýska textann, öll erindin. (Eigandinn hefur það á tilfinningunni að þessi Lili Marlene hafi verið hálfgerð dræsa, í ástandinu, en byggir það einungis á fyrsta erindinu enda hefur eigandinn aldrei lesið meir. Aftur á móti er téður eigandi kvefaður og getur þess vegna sungið lagið eins og hin eina sanna Dietrich! - í augnablikinu. Eflaust var hún Lili litla óskup væn stúlka sem mun áreiðanlega koma í ljós þegar lengra er haldið. Og örugglega ekki eins mikil væluskjóða og hún Sólveig, en við slúttuðum einmitt tónleikunum með sniftara allra tíma; Solvejs sang. Á pjanóið altso.) Unglingurinn sér um að hrósa móður sinni fyrir spilamennskuna - annað hvort hefur unglingsbarnið svona lélegt tóneyra eða það er ofboðslega meðvirkt! En það er sama hvaðan gott kemur og ég þigg styrkinguna ;)

Jósefína hefur annars verið önnum kafin í dag við að verja lóðina enda veitir ekki af. Ég sá í því góða blaði Skessuhorninu, í gær, að ég þarf ekkert að vera að væla yfir hundaskít; fréttin og meðfylgjandi mynd sýndi að annað fólk hér á Skaganum er í djúpum skít, eða þannig!  Vonandi hafa hinir hundrað hundavinafélagsmenn einnig skoðað Skessuhornið.

Meðan Fr. Dietrich var að passa upp á okkar litla skika - fegin er ég því ég tróð á frostþurrkuðum hundaskítnum í gær þegar ég hengdi út á snúrur, í fyrsta sinn síðan í ágúst (tvímælalaust var þessi frostþurrkun handklæða batamerki!) - tók ég saman þurra, fyrrum frosna þvottinn, af innisnúrum og braut saman. Það var reyndar til bóta að Dietrich, Jósefína tók ekki þátt í því.

Af þessum afrekum öllum er bloggynja komin með æðislega vöðvabólgu í herðum, hálsi og nærskikum. Það gerir ekkert til því hún er að fara í nudd á eftir. (Enn eitt batamerkið: Það er erfitt að þola snertingu þegar maður er mjög þunglyndur …)

Að lokum er vert að nefna að Jósefína er með þau gulustu augu sem bloggynja hefur séð. Það væri því við hæfi að slengja aftan á nafnaromsuna sem kötturinn mátar reglulega við sig á sinni fésbókarsíðu: J.D.M.v.S. af ætt Ísfólkins. Af því Jósefína les auðvitað bloggið mitt reikna ég með að hún tjái sig fljótlega um þessa hugmynd.

Ummæli (0) | Óflokkað, Daglegt líf

17. febrúar 2010

Ævispor og blóðug áhugamál

Ég skoðaði sýninguna Ævispor, í Bogasal Þjóðminjasafnsins, fyrir akkúrat viku síðan. En þessi sýning hafði svo sterk áhrif að ég hef ekki almennilega treyst mér til að blogga um hana fyrr. Satt best að segja fékk ég kökk í hálsinn yfir hvað þetta var fallegt allt saman! Til að komast inn í Bogasal trítlar maður gegnum sýningu Þjóðminjasafnsins og þar á bæ hafa menn nú stillt upp enn fleiri eldri saumstykkjum. - Svo má líka nikka til fimmþúsundkonunnar, á málverki, á leiðinni enda vel við hæfi. Ath. að myndin á kynningarsíðu Þjm.s., þessari sem krækt er í í fyrstu málsgrein, gefur engan veginn til kynna hvers lags dásemdir eru á sýningunni.

Nema sýningin fyrstnefnda er svo litskrúðug (miðað við upplituðu gömlu stykkin Þjm.safnsins) og listaverkin hvert öðru fegurra og vinnan að baki hvers svo gífurleg að alþýðilegri hannyrðakonu fallast næstum hendur! Á þriðja tug kvenna var staddur í salnum þegar ég loksins hafði mig þangað og ólíkt öðrum listsýningum, þar sem fólk gengur nokkur skref afturábak fyrir framan hvert verk og setur upp gáfusvip, kjaftaði hver tuska á sýningargestum; konur voru að halla sér þétt upp að listaverkunum til að sjá almennilega og fjörug umræða í gangi um ýmis útsaumsspor. Mér fannst þetta frábært fyrirkomulag! Auk þess kann ég doldið í útsaumi og er alveg viðræðuhæf um gamla krosssauminn (fléttusaum) og refilspor / refilssaum.

Ég hvet alla til að sjá þessa sýningu, þótt auðvitað fái maður í leiðinni dálitla minnimáttarkennd. Það má hugga sig við það að margur málar án þess að halda að hann komist í fótspor Michelangelo; margir skera út án þess að halda að þeir nái Bólu-Hjálmari  o.s.fr.

Auðvitað ætla ég aftur á sýninguna á föstudaginn og aftur á miðvikudaginn í næstu viku. Ein heimsókn nær engan veginn að gera þessu skil.

Mér datt í hug að sauma lyfjatöflu sjálfrar mín, þegar ég hef klárað þær hannyrðir sem hér liggja ókláraðar út um allt. Ættir eru tiltölulega vel skráðar eftir regluleg ættarmót og í fyrravor samdi ég og gaf út (í 5 eintökum) tvær ættarbækur, sem ég er nógu stolt af! Á hinn bóginn vill svo skemmtilega til að hvert lyf á sitt munstur, sjá wikkuna. (Skv. mínum heimildum eru upplýsingar um raunvísindaleg efni, t.d. læknisfræði, yfirleitt sæmilega áreiðanlegar á wikipedia.)  Ég gæti t.d. saumað út rúmteppi á hjónarúmið með þeim 20+ lyfjum sem ég hef reynt. Sé fyrir mér að litskrúðugur refilsaumur ásamt kontorsting, varplegg eða lykkjuspori myndi tákna þessi lyf prýðilega. [Myndin sýnir uppbyggingu Anafranils, míns aðallyfs síðustu árin.]

Þá að blóðugu áhugamálunum: Af því mér er að batna og ég er orðin nánast eðlilega hraðlæs hef ég lagst nokkuð í reyfara. Renndi t.d. í gegnum bók Yrsu, Horfðu á mig, í fyrrakvöld og gærmorgun, og varð ekki fyrir vonbrigðum! Kosturinn við Yrsu er að hún leyfir sér óhátíðlegan húmor sem er ánægjulegt mótvægi við hinn sænskættaða Erlend, í Arnaldsseríunum. Ég hef líka grenjað að hlátri yfir barnabókum Yrsu, sem eru hreint ekkert barnalegar en æðislega fyndnar …  En Horfðu á mig stóð sumsé alveg undir væntingum. Svo skveraði ég af reyfara sem heitir When she was bad, man ekki höfund og mæli ekki með bókinni. Hún fékk mig þó til að pæla í hvort næsta trend á morðvellinum sé klofnir persónuleikar. Kannski af því örstutt er síðan ég las Meðferð (sem ég mæli eindregið með) … sjá um þetta upphaf eldri bloggfærslu.  Næst á dagskrá, og hafið verk, er Red Bones eftir Ann Cleaves. Ég tók þá bók vegna þess að hún gerist á Hjaltlandi. Reyndar er þetta fjórða bók í seríu um morð á Hjaltlandseyjum og gæti verið akkur í hinum þremur ef þessi stendur undir nafni. (Vissi ekki að Hjaltlandseyjar væru svona góður morðvettvangur!)

Verandi með kvefpest og sennilega hitavellu lagðist bloggynja svo undir sæng á sófa (þrátt fyrir mótmæli Fr. Dietrich sem telur sig eiga hálfan sófann) og horfði á Wallander mynd í danska sjónvarpinu. Blóðið rann og gauðið Wallander grét en reis svo náttúrlega upp á afturlappirnar og skaut ódóið fyrir rest. Til unaðsauka voru skemmileg twist í þessari mynd svo áhorfandann grunaði ekki of snemma hvernig í pottinn væri búið.

Reyndar er ég líka með í gangi bók um HKL, sem ég hef ekki mikinn áhuga á, á þessari stundu, en bókin er góð eigi að síður. Svo æxlaði ég mér auðvitað bók Björns Th., Íslenzku teiknibókina í Árnasafni, og er aðeins að hverfa inn í þann heim, stund og stund. Ég hef oft skoðað þessa bók og lesið part hér og part þar … kannski er kominn tími á að lesa hana í gegn? Inn á milli þess sem ég þvælist á Ævispor aftur og aftur? [Krækjan vísar í umfjöllun hins vel-styrkta-vefjar Handritin heima.]

Ummæli (2) | Óflokkað, Daglegt líf

15. febrúar 2010

Aumingja Bjarni G.! Og hið gamla ljúfa anarkí …

Sem ég snuddaði á Vefnum í gærkvöldi (nennandi ekki að kveikja á sjónvarpinu) komst ég að því að MA ritgerðin mín um ljóðabréf Bjarna Gissurarsonar er nánast hvergi skráð, a.m.k. ekki í Gegni og Skemmunni. Þetta kom mér nokkuð á óvart því mig minnir að ég hafi skilað einhverri fælu af eintökum og hef þá óljósu hugmynd (í baghovedet) að “deildin” hafi átt að skokka með eitt svoleiðis upp á Þjóðarbókhlöðu. En kannski hugnast fólki betur að geyma eintökin á öruggum stað, t.d. í hillum á skrifstofum kennara eða annars staðar þar sem almenningur færi líklegast ekki að snudda.

Sjálfsagt er þetta ekki slæm ritgerð, a.m.k. fékk ég ekki slæma einkunn fyrir hana. Því miður man ég lítið eftir henni en á hana, með meðfylgjandi útlestri úr eiginhandriti Bjarna karlsins og sennilega ritgerðinni að auki á meðfylgjandi geisladiski. Mér er líka ljóst að ég útskrifaðist út á þessa ritgerð, vorið 2007 - fann það í einhverri skrá á gamla vef HÍ. Svo á ég einhvers staðar skírteinið.

Það hryggilega við þetta allt saman er þó að ég skrifaði ritgerðina í brjálæðislegu kappi við sálarmyrkvunina og var mjög í mun að komast í raflostmeðferð II; sú raflækning eyddi auðvitað allri ritgerðinni úr mínum heila og mörgu öðru, eins og áður hafði gerst. Sem betur fer hafði ég vit á að prenta út bloggið mitt fyrir eitt og hálft ár, las það þegar ég náði aftur áttum og hef því nokkra hugmynd um hvað gerðist í lífi mínu á þessu eina og hálfa ári. (Blogg er verulega vanmetið hjálpartæki til sjálfsþekkingar!)

Svo allar vinnustundirnar fóru fyrir bí og afraksturinn er týndur. Þannig séð get ég talið mig vísindakonu, þótt ég kunni ekki Varðlokur.

Það sem situr eftir eru skemmtilegar minningar (eða lærðar minningar) um spjall við Jón Samsonarson, sem ég féll umsvifalaust fyrir. Og sú hugmynd að Bjarni prestur hafi verið einstaklega jákvæður maður þrátt fyrir magnað kreppuástand á hans tíma og persónuleg áföll. Hvort tveggja gleður auðvitað manneskju sem sá engan sérstakan tilgang með lífinu annan en að hanga í því, meðan ritgerðin fæddist, í (lærðri) von um að ástandið batnaði.

Mig minnir (hef e.t.v. lesið það á blogginu mínu) að það hafi verið mjög gaman að stunda nám veturinn 2006-2007. Af þeim þrem kúrsum sem ég tók á haustönninni fundust mér tveir ákaflega skemmtilegir og þeir kveiktu mikinn áhuga. Samt var hvorugur neitt tengdur málum sem ég hafði haft áhuga á fyrir. (Sá þriðji leið fyrir það að ég hafði nú heyrt megnið af þessu áður. Auk þess var hann settur upp sem fjarkennslukúrs, að hluta, og því óþarft að mæta alltof mikið í hann. Um þetta voru reyndar nemendur og kennarar ekki allskostar sammála.) Mig minnir ennfremur að tiltölulega skýrt skipulag hafi legið fyrir í upphafi í báðum þessum skemmtilegu kúrsum og að mikil áhersla hafi verið lögð á vinnu nemenda, t.d. í smáverkefnum eða undirbúnum umræðum í kennslustund. Samt voru báðir kúrsarnir sannanlega á meistarastigi.  Þessu gæti ég náttúrlega flett upp því ég á allar glósur og pappíra ennþá.

Í gamla daga, á níunda áratug síðustu aldar, tók ég kúrsa á gamla cand.mag. stiginu en lauk aldrei ritgerð (m.a. vegna annars sjúkdóms sem ég hirði ekki um að fjalla hér um). Þá tíðkaðist að sækja tíma á skrifstofu kennarans, sem bauð upp á bleksterkt kaffi, og þótti afskaplega fínt. Ég held ég hafi sjaldan þorað að leggja orð í belg, minnir reyndar að kennarinn hafi aðallega talað sjálfur, með virki fræðirita umhverfis sig og því doldið ósnertanlegur. Þetta þótti, að mig minnir, gefa nett fræðilegt andrúmsloft og peppa nemendur upp af hinu leim BA-stigi. Nemendur á cand. mag. stigi fengu líka sérstaka lesstofu í Árnagarði og lykil að henni, til að BA-liðið færi nú ekki að flykkjast þar inn ;(  Skikkið átti að vera að mæta þangað með sinn kaffibrúsa og mal og híma allan daginn með hinum 5 nemendunum og lesa (bækurnar sem höfðu verið fjarlægðar af Háskólasafninu og fundust einungis þarna) og iðka fræðin. Því miður var ég alltaf að vinna fulla alþýðlega vinnu með og bilið milli fólksins fyrir utan og þessa litla samfélags á Melunum breikkaði alltaf meir og meir svo á endanum sá ég fram á að verða tvíklofinn persónuleiki eða eitthvað álíka … [Myndin sýnir Hippokrates kennandi sínum læknanemum á afar hefðbundinn akademískan hátt, sem hæfir loftslaginu.]

Svo ég reki mig enn aftar, á BA stig, þá er það í minni þegar Sveinn Skorri hafði raðað borðum í hring í stofunni, í einhverjum byrjendakúrsi, gerði af þessu mikið úr því hve nútímalegur hann væri og lét nemendur kynna sig en féll út úr ímyndinni þegar hann lenti á henni Auði, sem var stúdent úr F.S., og byrjaði með einhvern skæting um þá nýju fjölbrautaskóla.  (Ég reikna hér með að Auði sé slétt sama þótt ég nafngreini hana hér.) Augnabliks fát kom á Skorra þegar Auður horfði stíft á hann á móti, í stað þess að líta bljúg ofan í borðið sitt, og spurði hvort hann teldi að kennsla Jóns Böðvarssonar veitti ekki nægan undirbúning undir nám í íslenskudeild. Ógleymanlegt atriði!

Haldandi áfram með ævisögu mína og HÍ: Árið 1998-99 tók ég 15 eininga diplómu í Kennó; þetta var fyrsta keyrsla náms um notkun upplýsingatækni í skólastarfi og flestir frumkvöðlar á þessu sviði voru nemendur. Kennararnir voru vægast samt misjafnir og sumir kunnu miklu minna en nemendurnir í því sem átti að kenna. Það fór ósegjanlega í taugarnar á mér - og fleirum - þegar kennsluáætlun var bara eitthvert leiðbeinandi plagg og mátti skipta út eins og nærbuxum. Viðbrögðin við þekkingarskorti kennara, lélegri kennslu og skort á skipulagi voru þau að við nemendurnir kenndum hver öðrum og hjálpuðumst að á netinu - þannig lærði ég í rauninni miklu meira en gegnum glærusýnandi kennara og fansí útlend kennsluumhverfiskerfi, sem áttu að gefa upplýsingatækniblæinn.

Á sama tíma tók ég einn málfræðikúrs (sem mig vantaði upp á til að geta klárað M.Paed) uppi í HÍ. Þetta var “norræn samanburðarmálfræði” ef ég man rétt, sem tveir hálærðir málfræðingar kenndu. Mér er minnisstætt að krítartafla var í stofunni - hafði ekki séð slíkt fyrirbæri í mörg ár - og að mér fannst þetta erfitt nám því ég hef ekki mikinn grunn í málfræði. Auk þess hafði málfræði / setningarfræði breyst mjög í framsetningu og minnti mig helst á evklíðska rúmfræði. Þrátt fyrir þessi handíköpp var kúrsinn mjög áhugaverður, kennslan frábær og ekki hvað síst var alger draumur að hafa fyrirliggjandi skipulag í upphafi sem stóðst síðan mætavel (hafandi mótvægið í Kennó). Ég man ekki annað en kennararnir hafi líkst Kjartani Ólafssyni, í lítillæti, og alls ekki lagt það eldri nemanda til lasts að vera lítið innviklaður í formsatriði málfræðiframsetninga eða haft lélega kunnáttu í hvurnig klofningu var háttað í austur- og vestur norrænum málum etc.

— 

Kannski hefur orðið róttæk breyting á síðustu þremur árum, einhvers konar “back to the basics” hreyfing, svipað og hent hefur AA-deildir víða um land og oft er kennd við talibana? Í AA hefur markmið slíkrar breytingar oft verið sagt vera að breyta fundum og haga edrúmennsku í anda 50 fyrstu AA mannanna. (Eða eru það 100 fyrstu sem liggja til grundvallar?) Ég hef það á tilfinningunni af þeirri litlu reynslu sem ég nú fæ í HÍ að markmiðið sé m.a. að hverfa aftur til fyrstu 50 - 100  kandmaganna og reyna að sveigja til náms- og kennsluhátta sem tíðkuðust á síðustu öld. Kann að vera að þetta sé hið besta mál, ætti a.m.k. að fækka nemendum dálítið og koma í veg fyrir að alls konar lýður skrái sig í doktorsnám. Það nám hefur til þessa oft tekið talsverðan skerf af ævi doktorants og ég fullvissa alla sem komast í gegnum svo langa færslu að ég mun aldrei nokkurn tíma leggja slíkt fyrir mig á hugvísindasviði! No worry! Auk þess er ég búin að skipta svo oft um tengslanet um ævina að það vekur mér lítinn harm að þurfa að droppa einu og einu slíku, ef það á ekki við mig. [Myndin til vinstri sýnir félagana Bill og Bob. Til hægri sést háskólanemi sem brýtur norm.]

Aftur að framhaldsnámi á háskólastigi: Nýmóðins samræmdar reglur hafa á hinn bóginn skilgreint doktorsnám sem 4 ára nám. Af þeim reglum er ekki hægt að sjá að sú krafa sé gerð að doktorant hafi lifað og hrærst í þröngum hópi lærðra áratugina á undan. Andstyggilegar fjárhagslegar reglur, sem byggja á nemendaígildum og eru mjög óvinveittar hollu brottfalli, gætu líka breytt akademískum anda í nokkrum deildum HÍ fljótlega. Svo ekki sé talað um hvaða áhrif kreppan gæti haft á fræðileg slagsmál um síþverrandi styrkjapotta.

Ég hef, af samúð, nokkrar áhyggjur af því hvernig enn meiri samræming á háskólastigi muni svo skerða hið fræðilega andrúmsloft sem nú leikur um hugvísindadeild. Mig grunar að í Mrn. sitji einhverjir fáir karlar, við að fokka upp hinum gömlu grónu óskráðu reglum og stjórna einhverjum nefndum sem eiga að færa HÍ, hugvísindasvið meðtalið, í átt að evrópskum eða alþjóðlegum stöðlum. Það má guð vita hvort í slíkum stöðlum felist einhverjar reglur um verklag.

Í lok færslunnar vil ég minna á tvennt:

1. Mér er ljóst að hroki er dauðasynd. En ég er utan trúfélaga og slæst auk þess við þessa dauðasynd á öðrum vettvangi, hef reyndar gert svo í meir en tvo áratugi en gráður eru ekki veittar í vettvangnum.

2. Blogg er í eðli sínu kæruleysislegt fyrirbæri, sem lýsir hugarástandi bloggara og bloggynja á hverjum tíma. Það er auðvitað algerlega óvísindalegt að vitna í blogg, hvort sem er  í ræðu eða riti. Þess vegna er ekki gert ráð fyrir tilvitnunum í færsluna en bent á að kommentamöguleiki er öllum opinn.

P.s. Lesendum til huggunar skal bent á að þá bloggynja bloggar svo kæruleysislegar færslur sem þessa situr alla jafna fræðimaður í eins metra fjarlægð, í hinni stofutölvunni, og svigar undir drep!

Ummæli (5) | Óflokkað, Skólamál

13. febrúar 2010

Að koma úr kafi: Plön fyrir daglega lífið

Áætlanir mínar hafa dulítið breyst því ég féll frá því að taka þátt í Marplan-tilrauninni, sem þátttakandinn eini. Svoleiðis að ég þarf ekki að dvelja á þeim góða geðspítala næstu vikur þótt maður viti svo sem aldrei ævina sína lengra en eina viku fram í tímann, eða þannig. Eftir að hafa sett niður fyrir mér helstu punkta í stöðunni, fengið álit hjá heimspekingi heimilisins o.fl., ákvað ég að fresta þessari tilraun fram til haustsins. Ég nenni ekki taka sénsinn á að verða fárveik - ekki núna þegar eru loks að koma einn og einn ásættanlegur dagur (lesist: Bloggynja klædd og á fótum!) Vist á geðdeild er þreytandi og tekur á. Loks hef ég ákveðið að prófa ekki ný lyf, sem detta alltaf öðru hvoru inn á markaðinn, djöst for ðe fönn of itt. “Lyfið eina” er eins og The Holy Grail; kann að virðast innan seilingar en svo verður maður aftur og aftur fyrir vonbrigðum. [Að sjálfsögðu getur verið að ég þurfi að kúvenda  skoðunum og ákvörðunum hvenær sem er, ef ég lendi djúpt niður í Helvítisgjána en í dag er þetta altént lífsviðhorfið.]

Þar sem nú þarf ég bara að slást við veikindin, en ekki meðfylgjandi lyf verður líf mitt auðvitað einfaldara. Mér finnst kominn tími til að snúa sér að markverðari og meira gefandi hlutum.

Fyrsta verkefni er að klára peysuermina á hillunni. Hún er prjónuð eftir uppskrift og of flókin til að ganga með sjónvarpsglápi. Fyrir sjónvarpsgláp (sem í mínu tilviki er næsta mínimalt) ætla ég að fitja upp á öðrum þrengri Möbíusi. Sá sem ég prjónaði er nefnilega of lítill til að nýtast sem herðaskjól og of stór til að ganga sem hálstau. Auk þess gerði ég þau reginmistök að pressa hann. Ég hef hins vegar fattað að ef ég prjóna svona 70 - 80% minni Möbíus, úr garni í stíl, gæti ég gengið með þá tvo saman og þannig fengið flott og hlýtt hálstau. (Þvæ upphaflega möbíusinn aftur og læt krullast og krumpast á ný.) Eina málið með Möbíus er að fitja upp, prjónið sjálft er einfalt og unnið frá mænukylfu. (Hvað er litlasystir búin að prjóna marga Möbíusa? Eða er hún of upptekin við að skoða silfurskottur í smásjá?)

Maðurinn hefur lýst því yfir að sig langi í mjög hefðbundna lopapeysu, úr stingandi plötulopa. Það má íhuga þetta síðar, gæti verið gott til mótvægis við hina flóknu ermina. Ég er að hugsa um að skoða gömlu lopapeysuuppskriftirnar sem liggja frammi á vef (Ístex? Annars finn ég þetta þótt ég muni ekki slóðina í svipinn …). Ekki þó neitt með áttblaðarós því ég hef fengið mig fullsadda af slíkum. Einfaldast væri náttúrlega að kaupa handa honum svona lopapeysu því ég er ekki hrifin af plötulopa sem hefur tendens til að verða jafnsóðalegt fyrirbæri og Fr. Dietrich er á stundum, öllu heldur oft. Þar sem sagnir (feisbúkk) herma að Dietrich, Jósefína sé nú að skrifa þriðja bindi sögulegrar skáldsögu sinnar, Konan sem lék sér við hundinn, og standi í útgáfuviðræðum við Sunnlenska bókakaffið tjái ég mig ekki meir um það. Skáldsagan mikla verður ekki gefin út fyrr en öll þrjú bindin eru tilbúin í handriti / loppuriti.

[Var að finna frábæra fésbókarsíðu um prjón, heitir Prjóna-Jóna. Að vísu fær kona doltla minnimáttarkennd þegar myndasafnið er skoðað en mun hrista hana af sér. ]

Annað sem liggur fyrir er að endurvekja kynni mín við mitt pjanóforte, sem hefur eiginlega ekki verið snert í fjóra mánuði! Ókosturinn er sá að maður fær endalausa vöðvagigt ef maður gleymir sér við spilamennskuna, sama gildir um prjónið. En auðvitað mætti endurvekja kynnin við nuddarann í leiðinni :) Ljósabekkur gerir líka gagn og nú er örugglega meir en hálft ár síðan ég lagðist á svoleiðis græju. Hraðgöngur virka líka ágætlega en ég er ekki alveg tilbúin í svoleiðis … tek ekki sénsinn á líkamlegri áreynslu ennþá.

Samband við ýmist fólk þyrfti að rækja betur eða taka upp á ný … sunnudagsfundur er loksins að verða raunhæfur möguleiki … nokkrar morðsögur myndu yppa sálinni … svona mætti lengi telja!

Nú er að passa að fara ekki framúr sér! Ég fer náttúrlega aldrei í maníu, næ ekki einu sinni upp á jafnvægisstrikið milli dimma-dals-lotanna, og hef ævinlega takmarkað úthald. Þess vegna verð ég alltaf að muna að ég er ekki fullfrísk heldur amlóði að mörgu leyti og haga lífi mínu í samræmi við það. En núna, þegar ég er að komast upp úr djúpu lægðinni sem hófst í október finnst mér að ég sé að koma úr kafi og það er t.d. ákaflega dýrlegt að skynja aftur liti í umhverfinu og tilverunni. Veröldin er ekki lengur svart-hvít. Þess vegna klæðist ég litum.

Ummæli (4) | Óflokkað, Geðheilsa, Daglegt líf