Færslur frá 2. febrúar 2010

2. febrúar 2010

Þetta lagast ábyggilega …

Dagurinn í gær var ömurlegur. Ég reyndi að lesa en efnið hvarf jafnharðan úr hausnum; svo á ég í mesta baksi við að enda setningar. (Byrja á spurningu: “Ætlar þú að … að … að … á morgun, skilurðu?” og álíka þrugl, þegar ég ætla t.d. að spyrja manninn hvort og hvenær hann færi til þurrabúðarinnar á morgun. Þríspurði síðan Vífil um eitthvað og gleymdi jafnharðan. Það er helst að kötturinn láti sig þetta málstol litlu varða enda skilur hún eftir tóntegund en ekki orðum, litla skinnið.) Þetta er algengt þunglyndiseinkenni svo ég er ekki hrædd um að vera komin með Alzheimer: Þetta gengur til baka einhvern tíma (hefur a.m.k. alltaf gert það).

Lyricu hefur að hálfu verið hent út í hafsauga. Við það hvarf kökkurinn í hálsinum nánast (ég var farin að gæla við æxli) og hóstinn minnkaði. Sömuleiðis hafa sjóveikieinkenni tónast niður í eftirköst-af-suðvestan-golu-með-Akraborg. Ég þori ekki að slaufa allri Lyricunni í einu, best að taka a.m.k. viku í þetta, enda hætti ég á síðasta þunglyndislyfinu í gær (sem var nú ekki brýn nauðsyn en úr því það lyf hafði ekki haft nein áhrif fannst mér alveg eins gott að sleppa því líka). Það er ekki gott að vera að hætta á mörgum lyfjum í einu, hver hætting fyrir sig er nógu erfið!

Kannski er þetta skýringin á því að ég vaknaði með hausverk dauðans klukkan 6 í morgun en náði honum úr mér með tveimur rótsterkum kaffibollum. Kötturinn gleðst yfir því hve bloggynja og eigandi hans er árrisul (og árvökul, þannig séð).

Þegar ég verð orðin “hrein” af aðalþunglyndislyfinu (þ.e. lyfjalaus í þrjár vikur) má fara að skoða tilraunir með ósérhæfða MAO-blokkarann, sem er kominn til landsins. Þá verð ég lögð inn á deild, til öryggis og mér til hægðarauka.

Þ.a.l. hef ég reiknað út að ég þyrfti að klára miðannarverkefni í Karlmenn í blíðu og stríðu svona viku á undan hinum því ég er ekki viss í hvaða standi ég verð þegar svokölluð verkefnavika verður í HÍ (það er svoleiðis mulið undir nemendur að menn fá frí til að vinna verkefni! Þetta er greinilega staðurinn þegar ég verð orðinn öryrki!). Svo veit ég ekki hvernig mundi ganga að vinna verkefni inni á geðdeild, þar er svoddan erill og ég þyrfti að fara upp á Þjóðarbókhlöðu til að prenta út, lesa yfir o.þ.h. Á þessari stundu hvarflar auðvitað að mér að hætta bara í kúrsinum því ég er svo mikill aumingi. Á hinn bóginn togar að mig langar að standa mig vel og ætti að hafa alla burði til þess, væri ég með fúlle femm og fulla starfsorku. Sem ég er auðvitað ekki, annars væri ég ekki í veikindafríi … 

Mér hefur dottið verkefni í hug en er svo hugfötluð í augnablikinu að mér gengur dj…lega að koma einhverju vitrænu skipulagi niður á blað. Nokkrir göngutúrar á sólbjörtum Sandinum myndu kippa þessu að einhverju leyti í liðinn en nú er skýjað dag eftir dag …

Það eina sem telja má mér til tekna er að ákveðinni föttun laust í niður í huga mér í gær og ég sendi manninn út á bókasafn til að sækja ævisögu Steingríms Hermannssonar, til tékkunar. Kom mér á óvart hvað fyrsta bindið er skemmtilegt - aftur á móti voru hin tvö mestöll um pólitík og því hraðflettanleg. Ég tel að tilgáta mín hafi verið staðfest en get ekki farið meira út í þá sálma hér á blogginu. Var soldið ánægð með mig yfir að hafa þó fattað eitthvað miðað við hversu sljó ég er þessa dagana.

En nú er ég farin að lesa gegnum 4 eddukvæði - blessunarlega hef ég sennilega lesið obbann af þeim áður, sem hjálpar þokukenndum huga!

Ummæli (0) | Óflokkað, Geðheilsa