Færslur frá 3. febrúar 2010

3. febrúar 2010

Rægirófa? Og heilsufarsfarsinn og sumarið sem bíður

Í gær fór ég í heimsókn hvar býr undurfagur, afar loðinn, sérlega vingjarnlegur og gestrisinn hundur. Hann sannar að “Big” getur verið “beautiful”, sem ég hef einmitt verið að segja sjálfri mér, þá sjaldan ég stíg á vigt. (Í mínum kreðsum er reyndar oftar notað slagorðið “Betra að vera feitur en fullur!” en það á kannski ekki alveg við núna.)

Jólagjöfin mín, fr. Jósefína Dietrich, hefur aftur á móti ekki enn öðlast þessa lífsvisku. Enda snúast áhugamál hennar um annað, flesta daga. Svo hún velti ekki fyrir sér líkamsvexti og fegurð eða kynþætti heldur klagaði án afláts í aðra fjölskyldumeðlimi yfir hve mikil fýla væri af eigandanum! (Sjá fésbók téðrar Jósefínu. Kötturinn er pjúra rasisti, ekki spurning!) Ég skipti auðvitað um föt enda öll í hundshárum en það dugði ekki til … Jósefína beit mig í þrígang þegar ég reyndi að fara vel að henni með því að strjúka neðri vör litlu rófunnar, sem henni þykir einmitt allra best! 

Nú er ég búin að skúra mig og skrúbba svo kattarrófan hefur tekið mig í sátt. En mér brá þegar ég heyrði hvað stýrið litla var duglegt að klaga; gekk hér um grenjandi meira og minna allan seinnipartinn og kvöldið!

Annað af dýrinu er þetta að frétta:

Í hvert sinn sem Jósefína kemur inn er hún málóði um stund yfir öllum þeim lystisemdum og lífshættum sem hverfið býður uppá!  Þá er ekki um annað ræða en róa frökenina, með neðrivararstrokum. Ég er svo sem ekki hissa því hér eru kettir í öðru hvoru húsi og hundar í hinu hverju húsinu. Tveir flagarar ganga stöðugt um og merkja sín óðul, sennilega svona 5 km radíus. Satt best að segja held ég að þeir telji sig eiga sama óðalið báðir og því er nánast fullt starf allan sólarhringinn að míga yfir merki hins flagarans. Eitt sinn sá ég annan þeirra hlaupa á eftir litlu kisu í næsta húsi, hefur sjálfsagt ætlað að flaga hana (=fífla) en hún, lítil og nett, sveif inn um mjóa gluggagátt, sem flagarinn hafði ekkert í. (Síðarmeir sá ég klaufskan gulbröndóttan kött spóla sig inn um sömu gluggagátt, fékk staðfest að þetta væri sennilega fr. Dietrich, sem líkast til stelur kattamatnum litlu kisu á hverjum degi.) Já, dramatíkin í kattalífinu hér utanhúss lætur ekki að sér hæða!

Fräulein Dietrich tók svo eftir því núna í vikunni að fólk sefur almennt í rúmum. (Athygli hennar og heilafrumur höfðu verið bundnar við annað og hún hafði ekki tekið eftir þessu áður.) Að sjálfsögðu finnst henni helv… ósanngjarnt, núna þegar hún hefur fattað venjulega svefnsiði, að hún ein skuli eiga að sofa á teppi á stól eða teppi á sófa! (Dýrið hefur harðneitað að sofa í körfu, sennilega út af því tráma sem hlýst af því að búa í pínulitlu búri í Kattholti mánuðum saman.) Þau unglingurinn hafa þegar tekist á um rúm unglingsins; “hún hélt sér með öllum klónum” sagði unglingurinn, sem tvangs-færði Jósefínu greyið úr sínu rúmi yfir á teppi + stól í næsta herbergi. Í dag, meðan ég var að reyna að leggja mig, klagaði hún hástöfum yfir óréttlætinu og reyndi að skríða upp í hjónarúmið og trampa sér þar slétt bæli (siður af sléttunni í árdaga sem hefur stimplast inn í mænukylfu hunda og katta) en ég harðneitaði enda hefði hún örugglega bitið mig (ég var nefnilega ekki búin að fara í sturtubaðið þá).  Svo ef einhver hefur hug á að gefa Jósefínu afmælis- eða jólagjöf í desember þá er rétt að fara að handsmíða lítið  en fullorðinslegt huggulegt rúm eða vera á höttunum eftir dúkkuvöggum, sem einu sinni fengust svo ljómandi fallega fléttaðar af blindum.

Af mér er það að frétta að mér líður heldur skár en undanfarna daga. Helv… pillurnar eða ekki-pillurnar eru ekki eins mikið að hrella kropp og höfuð. Samt er ég alltaf að fá “yfir höfuðið” eða “í hnén” og þar sem ég er ekki nýlega ástfangin er þetta sjálfsagt út af Lyricunni.  Verður voða gaman þegar ég verð orðin clean and sober af því lyfi!

Góðu fréttirnar eru þær að hinn gáfaði heimspekingur heimilisins (núverandi ferðamálafrömuður) hefur fundið litla kríska þorpið sem þau John Lennon og Janis Joplin dvöldu forðum í (sennilega þó ekki samtímis). Þetta er eitt af þessum huggulegu litlu pínuþorpum, í slælegu vegasambandi, og einkennist af fjölda hella, rétt við ströndina. Kannski hafa þau John og Janis skroppið öðru hvoru inn í helli og medíterað, e.t.v. með einhverri efnahjálp? Ég gæti, eftir að hafa skoðað myndir, mjög vel hugsað mér að liggja á tiltölega fámennri og eyðilegri strönd og droppa inn í einn og einn helli inn á milli og gjörhygla, án annarra efna en þess slæma tóbaks …

Maðurinn er búinn að kaupa flug, gegnum Köben, og gistingu fyrstu og síðustu dagana á Krít. Svo er hann búinn að áætla annan kostnað við gistingu (Köben meðtalin) og þegar upp er staðið erum við að fara í 30 daga ferð þar sem flug og gisting kostar u.þ.b. það sama og Heimsferðir bjóða í 10 daga ferðum til Bodrum (hér er líka miðað við flug og gistingu en ekki fæði). Við vorum svo sem búin að fatta að bæði er miklu erfiðara að skipta við ísl. ferðaskrifstofur og meira maus að komast út úr pakkaferðinni en skipuleggja bara sjálf. Samt erum við að kaupa farið með Icelandair til Köben og það félag hefur nú hingað til ekki þótt nein lágvöruverslun. Hefðum við keypt bara far fram og til baka til Bodrum, með Heimsferðum eða Vita hefði það orðið miklu dýrarara heldur en flugið sem við höfum nú keypt af því þeir refsa fólki fyrir að vilja ekki vera í pakkaferð með því að selja strípað flugfar (með leiguvélinni) enn dýrara.  Svo harðneituðu bæði félög að selja annað en 10 daga klippt og skorið. Að vísu missum við þá af Leros og Patmos í ár (Tylftareyjunum) en ég er ágætlega sátt við Krít; Chania (mikið af búðum og fólki), Sougia (gamall hippastaður en fær 0 fyrir skemmtanalíf og verslun) og þetta hellavæna þorp sem virðist af sama tagi og Sougia. Ef ég verð orðin vel sjóuð í kenningum um karlmennsku þori ég e.t.v. til Agia Suaki (?) þar sem enn tíðkast blóðhefndir; karlar hefna sín með því að fífla heimasætur og bræður stúlknanna fara svo og murka lífið úr fíflaranum eða einhverjum af hans ætt með byssum eða lagvopnum. Svo er kvittað fyrir það! Sumsé samfélag sem líkist þjóðveldisöld og gæti verið áhugavert að skoða, ef kona þorir …

Þetta er orðið gott - ég þakka þeim sem hafa sig í gegnum svo langa færslu sem flakkar út og suður!

Ummæli (3) | Óflokkað, Geðheilsa, Daglegt líf