Færslur frá 8. febrúar 2010

8. febrúar 2010

Ópíumhreiður á Akranes, í samvinnu við Strætó!

Ég horfði á Kastljós áðan, þar sem einn af Akraness bestu sonum hélt fram ágæti “kasínó” (sem hingað til hefur kallast spilavíti á íslensku) fyrir: Ferðamannaiðnaðinn, ríkissjóð og spilafíkla, svo eitthvað sé nefnt. Reyndar er mér ómögulegt að sjá hvernig aukning fjárhættuspilatækifæra getur nýst spilafíklum per se, en okkar góði íþróttamaður margendurtók hve hann væri í rauninni hjartanlega sammála manninum sem sat á móti honum; sá margbenti á sívaxandi fjölda spilafíkla hér á landi sem, eins og aðrir fíklar, spiluðu rassinn úr buxunum og eyðilegðu fjölskyldur. Miðað við sífellt “já”, eða “ég er sammála þér” held ég að Arnar og Bjarki séu kjörnir til að vera frekar í forsvari fyrir spilafíkla (er ekki til eitthvert 12 spora dæmi fyrir þá?) og ættu að droppa hugmyndinni um “kasínó” (nema þeir séu þarna með útspekúleruð brögð til að ná Eiði Smára, félaga sínum, til Íslands?).

Ég er með miklu betri hugmynd! Nú söltum við ágreining á borð við Hundamálið mikla!  ÍA og bæjarstjórnin í mínum góða Kardemommubæ stilli saman strengi sína, tali við Strákana Okkars í fortíð-nútíð-og-framtíð,  og stofni almennilegt ópíumbæli hér á Skaganum, að sögulegri kínverskri fyrirmynd! Kann að vera að Evrópusambandið yrði ekki hrifið, eða frændur okkar Danir sem eru samt svo kasínóvænir, en við erum hvort sem er orðin jaðarþjóð sem ýtt hefur verið út í ystu (fjárhagsleg) myrkur. Svo álit annarra skiptir okkur sosum ekki máli. Auk þess má líta til þess að skrá mætti íslenska fíkla, sem yrði mjög til hagsbóta (og þaggaði væntanlega niður í SÁÁ), og græða nóg á hinum sem mæta!

Þetta mætti markaðssetja um allan heim, fá smart uppgjafafótboltamenn til að vera “andlit fyrirtækisins útávið” og endilega að semja við Icelandair um flutning tilvonandi útlenskra ópíumfíkla til landsins! Þar sem líkur benda til að margir reyki sig bláa, í bókstaflegri merkingu, mætti selja í sama pakkanum far í sæti til landsins + í kistu til baka. Ónýtt landflæmi eru hins vegar um allar jarðir hér í nágrenninu og þarf ekki umhverfismat til að slá upp nokkrum kirkjugörðum (sem gæti kætt ýmsa ráðherra). Þess vegna má líka stefna á stóraukningu í tréiðnum á svæðinu, auk þess sem málmiðnadeild FVA færi létt með að smíða pípurnar (eins og Arnar og Bjarki vita eflaust vel).

Já, þetta er grand hugmynd og miklu betri en eitthvert leim kasínódæmi … Ópíumhreiður er náttúrlega það sem koma skal! Ég er ekki enn búin að koma auga á hvernig mætti tengja það við strætó og auglýsi því eftir tillögum.

Ummæli (12) | Óflokkað, Daglegt líf

Á hverju á ég að lifa? (Um Marplan)

Ég braut þá gullvægu lífsreglu að lesa ekki um aukaverkanir lyfja fyrirfram heldur kíkja á þær þegar ég er orðin kramaraumingi. Hefði ég lesið ítarlega fyrr um lyfið sem bíður mín hefði ég kannski ekki tekið þann kost heldur kostinn “hætta á lyfjum og feisa veikindin”. Stundum er lækningin verri en sjúkdómurinn, það hef ég sosum reynt.

Nema ég fór að gúggla Marplan, eftir að hafa lesið tiltölulega sissí útgáfu lyfjaupplýsinga hjá frændum okkar Dönum. Þar var bara talið það sem ég þegar vissi, sumsé að ekki mætti eta súrkál, grænar baunir, mygluosta, marineraða síld og drekka rauðvín eða hóstasaft (sem er hvort sem er úr myndinni hjá mér). Súrkál, grænar baunir o.s.v. finnst mér hvort sem er vont.

Ég fann mjög ítarlega síðu (kona ræður hvort hún notar í eða ý), sjá  http://www.drugs.com/mtm/marplan.html , þar sem taldar voru upp fæðutegundir sem bæri að forðast, út af tyramín, sem er afleiða af aminósýru (sem segir stúdent úr máladeild ekki neitt).

 Hér er listinn: Ostur (sérstaklega passa sig á sterkum og gömlum), sýrður rjómi, jógúrt, bjór o.fl. alkóhól, pylsur hvers konar (sérstaklega úr salami, pepperoní), ansjósur, kavíar, lifur, maríneruð síld, fíkjur í dósum, rúsínur, bananar, avókadó, súkkulaði, koffein, sojasósa, súrkál, fava-baunir, gerjaðar vörur, meyrað kjöt, hóstasaft. (Sjálf myndi ég ekki telja hóstasaft til fæðutegunda).

Á annarri síðu var hreinlega allur ostur bannvara (þ.m.t. feta) og bætt við kóki og öðrum kóladrykkjum, súputeningum og mörgu fleira.

Kona spyr sig: Er þá bannað að borða grískt salat??? Og á ég að lifa á ósýrðu káli og soðinni ýsu næsta árið? Ég sem lifi aðallega á kaffi, bönunum, jógúrt, súkkulaði og skyndibitum? 

Listinn yfir bönnuð lyf er líka firnalangur. Mér er svo sem slétt sama nema um staðdeyfilyf tannlækna; Hvernig á ég nú að fara til tannlæknis, tannlæknafóbísk sem ég er? (Man ekki nákvæmlega hvar ég sá þetta með tannlækningar … sjálfsagt í einhverju gúggli.) Það er líka bannað að brúka pheditín og fara í svæfingu  - á eftir ætla ég að spurja hann Ingjald (tannlækni, eins gott að við I. skverum því af í vikunni sem þarf að gera) hvort hann eigi hláturgas og spurja geðlækninn minn hvort megi nota svoleiðis.

Listinn yfir hugsanlegar aukaverkanir Marplans er svo alveg kapítuli útaf fyrir sig!

Ég sætti mig við þetta allt (nema staðdeyfilyfjabann tannlækna) ef mér batnar. Hins vegar eru þær líkurnar ekkert ofboðslega miklar, eiginlega frekar í lægri kantinum. En þetta er það eina sem eftir á að prófa úr lyfjaflórunni geðlækninga sem passar við mig. Kona myndi naga sig í handarbökin (eða handarkrikann, eins og nú tíðkast að segja) ef síðasti séns væri ekki tekinn.

Svolítill plús / huggun harmi gegn er að ég mun líklega aftur fara að passa í megnið af fatalagernum mínum. Nýrri föt munu hins vegar hanga á mér. Og ég tek fram að algert bann er við hvers kyns megrunarlyfjum með Marplansáti!  Sé reyndar ekki að það þurfi yfirleitt að hafa áhyggjur af þyngd, frekar megurð.

Þetta er náttúrlega allt út af því að ég er kona og kvellisjúk. Í Íslendingasögunum eru gamlir stjórnsamir (jafnvel hamrammir) karlar alltaf að taka fram að þeir hafi ekki verið kvellisjúkir um ævina og lurðan, sem leggst á þá, hljóti þ.a.l. að vera banasóttin. Undantekning er Egill greyið sem lifði og lifði og varð æ brjóstumkennanlegri með aukinni elli og fáeinir aðrir.

Væri ég karl mundi ég náttúrlega slæva hugsanlega kvellisýki með því að vinna eins og skepna og smíða svo undir rot fram að miðnætti dag hvern. (Þessu er ekki beint til litlabróður.) Eða leggjast í búttkamp og maraþon. (Þessu er ekki beint til sonarins.) Þannig má ná upp huggulegri adrenalín-endorfín vímu sem skilar körlum langt. Á hinn bóginn er sennilega frekar leiðinlegt að búa með svoleiðis körlum.

Konudrusla sem vill heldur prjóna en hlaupa, blogga en labba og almennt séð vera heldur kyrrstæð í lífinu verður auðvitað kvellisýki að bráð. Og þarf að úða í sig óhollum meðulum, ásamt því að prófa allar andsk. hjálækningar því frísku konurnar hafa einmitt andúð á meðulum. Og ekkert virkar!

Hér læt ég klagesang (tregrófi) dagsins lokið. Og borða þriðja banana dagsins!

Ummæli (0) | Óflokkað, Geðheilsa