Færslur frá 11. febrúar 2010

11. febrúar 2010

Karlinn í sviganum

Hér kemur löng færsla og ég óska þeim sem komast í gegnum hana fyrirfram til hamingju! 

 

Ég var að skrifa ritgerð / verkefni um fræðilegar kenningar. Verkefnið átti að vera fræðileg úttekt. En hvað felst í því að eitthvað sé fræðilegt?

Ef ég skoða mitt eigið fag, íslensku, þá felast fræðin einkum í því að skrifa langt mál um smáræði – vegna þess að í rauninni má ekki segja nokkurn skapaðan hlut nema fræðimaður hafi sagt hann áður eða maður ætli að andmæla einhverju sem fræðimaður hefur sagt áður. Þ.a.l. er meirihluti textans ýmist fótnótur, t.d. hálf síða texti + hálf síða fótnótur - eða endalaust smellt sviga aftan við hverja málsgrein; í sviganum er nafn karlsins eða karlanna sem sögðu þetta síðast. Í þeirra karla greinum eru svigar og nöfn karlanna sem sögðu þetta næstsíðast. Og svo koll af kolli. Í rauninni gengur ekki að skrifa „Sólin er gul“ nema nefna a.m.k. tvo FRÆÐIMENN sem hafa haldið þessu fram áður. Og ræða jafnvel hugtakið “gulur” í þaula. Það dugir ekki að benda upp í himininn. Aðalpersóna í fræðilegum skrifum er nefnilega karlinn í sviganum! [Ég tek skýrt fram að myndskreyting þessarar efnisgreinar er úr lausu lofti gripin og á alls ekki að vísa til neins ákveðins fræðimanns heldur kannski frekar að sýna lífsskoðun ímyndaðra sólar-fræðimanna.]

Ef maður reynir að rekja sig aftur á bak í gegnum karlana í sviganum þá endar maður nánast alltaf á Aristótelesi. Það er meira hvað sá maður er ívitnaður, ekki hvað síst þegar það er haft í huga að frumtextarnir hans eru nánast allir glataðir en kennsluglósur bárust inn í vestræna menningu úr arabískum þýðingum. Þannig að Aristóteles skrifaði eða las fyrir eitthvað sem Arabar þýddu út frá sinni menningu og túlkuðu (glósur eru auðvitað túlkanlegri en fyrirlestar), sem var svo þýtt á latínu (e.t.v. aftur á grísku), sem miðaldafræðingar þýddu eða fjölluðu um út frá sínum skilningi og á endanum taka núlifandi fræðingar þetta upp, með dash af Freud, ef vel á að vera. Ekki skrítið að brandari heimilisins þá ég var í kennsluréttindanámi fyrir aldarfjórðungi hafi verið: „Som den store pædagog Aristoteles engang udtrykte …“ (Með dashi af Asterix-mælskufræði-töktum!) Auk Aristótelesar eru Freud og Jung svakalega svigaðir, í húmanískum fræðum vel að merkja því þeim hefur verið varpað fyrir borð í raunvísindalegum geðlækningafræðum.

Einstaka sinnum er karlinn í sviganum kona. En af lærdómi mínum undanfarið tek ég ekki mark á því: Sú kona er í karl-kyngervi og veldur hugsanlega kynusla verandi í þessum sviga. (Já, kona lærir skemmtileg orð þessar vikurnar.)

Hvað gerir það til þótt einhver lítill hópur búi sér til tómstundagaman sem felst í því að sviga hverja málsgrein? Það er ekki eins og þetta sé lesið í massavís: Meðallesendafjöldi fræðilegra greina er 6 lesendur. (Karlinn í sviganum hér á að vera bókavörður í Kennó sem sagði þetta í fyrirlestri en þar sem ég var fjarstödd er þetta byggt á ómerkilegri second hand nákvæmri munnlegri heimild.) Reyndar hef ég líka heyrt að lesendafjöldi útlenskra fræðigreina sé oft 2, þ.e. höfundurinn og prófarkalesarinn. Nú hlakkar í bloggynju sem hefur auðvitað margfalt fleiri lesendur að sínu alþýðubloggi. Svo væri ekki ef hún ungaði út einni bloggfærslu, með svigum, á nokkurra ára fresti.

Umfjöllun um íslenskar miðaldabókmenntir fyllti marga bókasafnsrekka, ef allt væri talið. Þess vegna eru margir að reyna að finna sitt oggulitla prívathorn sem enn er á lausu og blása það svo út (t.d. með körlum í svigum) sem unnt er. Einnig má fara í “upprakningu”, þ.e. rekja upp einhverja gamla umfjöllun, dæma hana ófræðilega og byrja að prjóna við upphafshugmyndina upp á nýtt. Fyrir mér er þetta eins og að eyða lífinu í að prjóna aftur og aftur sömu ermina! Í stað þess að finna upp þá aðferð að byrja peysuprjón á hálsmálinu (hér vantar mig nafnið á konunni sem á að vera í sviganum); hljómar mjög spennandi og vel þess virði að prófa þegar fólk hefur fengið sig fullsatt á Möbíusar-tilraunum.

Það sem mér finnst einkum að fræði-hannyrðum er að þegar menn hafa lokað sig inni  í fílabeinsturni fræðanna hættir þeim til að passa vel upp á pródúktin – enda er unnið hægt, m.a. af því það verður alltaf að vera að fletta upp karlinum í sviganum – og fáir fá að njóta. Kona gæti jafnvel sætt sig við þetta ef ekki vildi svo til að í svona dútl árum saman er ausið fé sem mætti kannski fara í eitthvað sem nýttist almenningi eða skólafólki betur. Til þess að glöggva sig á þessu er nóg að fletta upp illratanlegri síðu Stofnunar Árna Magnússonar og spyrja sig til hvers fólkið þarna er að dúlla þetta eða, kannski frekar, hvað er allt þetta fólk að gera? Sjá http://www.arnastofnun.is/  Er það að vinna að útbreiðslu eða viðhaldi menningararfsins? Nei, til þess er það of hægfara. Og týnt. Svo fylgjast menn ekki ýkja vel með nútímanum; Ég er nýbúin að skoða BRAGA-verkefni Árnastofnunar, sem finnst undir undirkrækjunni “Fleiri gagnasöfn”, á valblaði hægra megin. Þetta er “óðfræðivefur” sem hefur verið í smíðum í tæpan áratug, veit ekki hve langt er síðan vefnaðurinn sjálfur hófst. Umsjónarmenn virðast ekki hafa áttað sig á að talsvert lengur (miðað við tímaskynjun Vef-notenda) hefur verið til vefur sem heitir BRAGI. Íslenska sem erlent mál, staðsettur í Þýskalandi og kennir útlendingum íslensku. Sjá http://www2.hu-berlin.de/bragi/  Er ekki hætta á ruglingi? Það gerir annars ekkert til því síðarnefndi vefurinn er talsvert notaður en fáir nota sennilega hinn fyrrnefnda, þótt ekki sé nema af því hann er nánast ófinnanlegur.

(Í sviga set ég lífsreynslusögu: Fyrir um fimmtán árum síðan grenjuðu samstjórnarmenn mínir í The Viking Network úr hlátri þegar þeir heyrðu verðlagið á geisladisknum Íslenskum orðstöðulykli – var hann ekki verðlagður á 80.000 kall til að byrja með? Hann er náttúrlega ónýtanlegur núna, passar ekki við stýrikerfi, en sennilega hefði verið hægt að brúka gripinn lengur hefði hann verið ofinn í HTML. Vel styrkt verkefni af skattfé almennings ættu náttúrlega að liggja frítt frammi fyrir sama almenning, skynsamlegast á Vefnum. Á sama tíma pössuðu fræðimenn að setja fótinn fyrir Netútgáfuna og passa að hún fengi ekki krónu í styrki. Það er heldur írónískt að nú notar fjöldi fólks Netútgáfuna en Íslenskur orðstöðulykill ryðgar í geymslum bókasafna.)

Mitt starf hefur til þessa verið akkúrat öfugt við starfsreglur sem fræðimenn setja sér, sumsé að reyna að fá sem flesta til að fíla menningararfinn og halda honum lifandi með kjafti og klóm, þess vegna nýjum aðferðum sem leiða til nýrra sjónarhorna eða jafnvel einskærs áhuga og sköpunarkrafts nemenda. Ég kenndi um 100 nemendum á önn meðan ég hafði fulla starfsorku og maður þurfti að vera talsvert lunkinn og fylgjast vel með til að fá hluta hópsins til að falla fyrir íslenskum miðaldatextum! Í þeim kúrsum sem ég hef sótt uppi í HÍ af og til frá 2006 hafa setið þetta 5 – 10 stúdentar, þótt oft séu skráðir fleiri. Af hverju ætli áhuginn á íslenskum menningararfi og bókmenntum sé ekki meiri? Og af hverju ætli 30 manns séu skráðir í kúrsinn Glæpasögur sem nú er kenndur, á BA og MA stigi í íslensku? Og af hverju ætli fræðimaður hafi neyðst til að setja upp pópúler kúrs í stað þess að halda sig við fræðin?

Bloggynju sem hefur þetta alþýðlega slömm viðhorf til “FRÆÐANNA” þykir auðvitað skemmtilegt að lesa um fræðilegan bókardóm í ritrýndu tímariti um fræðibók um Kant, þegar kemur svo í ljós að allt í bókinni, nema kannski Kant, er uppspuni og hrekkur. (Hér ætti karlinn í sviganum að vera t.d. sá sem skrifaði fréttina um þetta í moggann í vikunni - en ég nenni ekki að fletta gegnum moggana.) Sömuleiðis er skemmtileg tilhugsun að á síðasta ári var gefin var út listaverkabók hjá virtu forlagi í New York, með útgáfuteiti og alles, en í ljós kom eftir á að listamaðurinn var ekki til.

Á tímabili nú undanfarið hef ég velt fyrir mér hvort fræðileg nálgun eigi ekki jafnilla við mína lífsskoðun og þjóðbúningasaumanámskeið í anda Þjóðbúningaráðs? Eftir “om” og “men” ákvað ég að klára samt kúrsinn sem ég er í, þó ekki sé nema mér finnst illt að ganga frá ókláruðu verki. Hugsanlega heillar seinni hluti hans mig upp úr skónum, maður veit sosum aldrei …

Ég hef líka velt fyrir mér hvers vegna einungis einn af fjórum í doktorasafni fjölskyldunnar vinnur beinlínis við það sem viðkomandi menntaði sig í … en svo má náttúrlega spurja hvenær maður vinnur beinlínis og hvenær óbeinlínis ;)

P.s. Á bóksafni míns litla bæjar æxlaði ég mér í gær nokkurn trívíal-litteratúr, til mótvægis. Í forbífarten sá ég í safni útstilltra nýrra bóka eina eftir Juliu Kristevu. Ég tók mér hana í hönd (já, mér er ekki alls varnað þrátt fyrir geðvonskuna) og sá að undirtitillinn var Þunglyndi og geðlægð. Sem geðsjúkur bókmenntafræðingur var ég skynsöm og skellti bókinni aftur í hilluna, man ekki hvað hún hét en er þess fyrirfram handviss að í henni felst hvorki lækningamáttur né skynsamleg umfjöllun um þunglyndi og geðlægð! Ætli sé hægt að plata fólk sem vinnur á geðheilbrigðissviðinu til að lesa þessa bók í gegn? Efast um það … En í íslensku- og menningardeild HÍ á hún eflaust eftir að njóta nokkurra vinsælda.

 

Ummæli (15) | Óflokkað, Skólamál