Færslur frá 17. febrúar 2010

17. febrúar 2010

Ævispor og blóðug áhugamál

Ég skoðaði sýninguna Ævispor, í Bogasal Þjóðminjasafnsins, fyrir akkúrat viku síðan. En þessi sýning hafði svo sterk áhrif að ég hef ekki almennilega treyst mér til að blogga um hana fyrr. Satt best að segja fékk ég kökk í hálsinn yfir hvað þetta var fallegt allt saman! Til að komast inn í Bogasal trítlar maður gegnum sýningu Þjóðminjasafnsins og þar á bæ hafa menn nú stillt upp enn fleiri eldri saumstykkjum. - Svo má líka nikka til fimmþúsundkonunnar, á málverki, á leiðinni enda vel við hæfi. Ath. að myndin á kynningarsíðu Þjm.s., þessari sem krækt er í í fyrstu málsgrein, gefur engan veginn til kynna hvers lags dásemdir eru á sýningunni.

Nema sýningin fyrstnefnda er svo litskrúðug (miðað við upplituðu gömlu stykkin Þjm.safnsins) og listaverkin hvert öðru fegurra og vinnan að baki hvers svo gífurleg að alþýðilegri hannyrðakonu fallast næstum hendur! Á þriðja tug kvenna var staddur í salnum þegar ég loksins hafði mig þangað og ólíkt öðrum listsýningum, þar sem fólk gengur nokkur skref afturábak fyrir framan hvert verk og setur upp gáfusvip, kjaftaði hver tuska á sýningargestum; konur voru að halla sér þétt upp að listaverkunum til að sjá almennilega og fjörug umræða í gangi um ýmis útsaumsspor. Mér fannst þetta frábært fyrirkomulag! Auk þess kann ég doldið í útsaumi og er alveg viðræðuhæf um gamla krosssauminn (fléttusaum) og refilspor / refilssaum.

Ég hvet alla til að sjá þessa sýningu, þótt auðvitað fái maður í leiðinni dálitla minnimáttarkennd. Það má hugga sig við það að margur málar án þess að halda að hann komist í fótspor Michelangelo; margir skera út án þess að halda að þeir nái Bólu-Hjálmari  o.s.fr.

Auðvitað ætla ég aftur á sýninguna á föstudaginn og aftur á miðvikudaginn í næstu viku. Ein heimsókn nær engan veginn að gera þessu skil.

Mér datt í hug að sauma lyfjatöflu sjálfrar mín, þegar ég hef klárað þær hannyrðir sem hér liggja ókláraðar út um allt. Ættir eru tiltölulega vel skráðar eftir regluleg ættarmót og í fyrravor samdi ég og gaf út (í 5 eintökum) tvær ættarbækur, sem ég er nógu stolt af! Á hinn bóginn vill svo skemmtilega til að hvert lyf á sitt munstur, sjá wikkuna. (Skv. mínum heimildum eru upplýsingar um raunvísindaleg efni, t.d. læknisfræði, yfirleitt sæmilega áreiðanlegar á wikipedia.)  Ég gæti t.d. saumað út rúmteppi á hjónarúmið með þeim 20+ lyfjum sem ég hef reynt. Sé fyrir mér að litskrúðugur refilsaumur ásamt kontorsting, varplegg eða lykkjuspori myndi tákna þessi lyf prýðilega. [Myndin sýnir uppbyggingu Anafranils, míns aðallyfs síðustu árin.]

Þá að blóðugu áhugamálunum: Af því mér er að batna og ég er orðin nánast eðlilega hraðlæs hef ég lagst nokkuð í reyfara. Renndi t.d. í gegnum bók Yrsu, Horfðu á mig, í fyrrakvöld og gærmorgun, og varð ekki fyrir vonbrigðum! Kosturinn við Yrsu er að hún leyfir sér óhátíðlegan húmor sem er ánægjulegt mótvægi við hinn sænskættaða Erlend, í Arnaldsseríunum. Ég hef líka grenjað að hlátri yfir barnabókum Yrsu, sem eru hreint ekkert barnalegar en æðislega fyndnar …  En Horfðu á mig stóð sumsé alveg undir væntingum. Svo skveraði ég af reyfara sem heitir When she was bad, man ekki höfund og mæli ekki með bókinni. Hún fékk mig þó til að pæla í hvort næsta trend á morðvellinum sé klofnir persónuleikar. Kannski af því örstutt er síðan ég las Meðferð (sem ég mæli eindregið með) … sjá um þetta upphaf eldri bloggfærslu.  Næst á dagskrá, og hafið verk, er Red Bones eftir Ann Cleaves. Ég tók þá bók vegna þess að hún gerist á Hjaltlandi. Reyndar er þetta fjórða bók í seríu um morð á Hjaltlandseyjum og gæti verið akkur í hinum þremur ef þessi stendur undir nafni. (Vissi ekki að Hjaltlandseyjar væru svona góður morðvettvangur!)

Verandi með kvefpest og sennilega hitavellu lagðist bloggynja svo undir sæng á sófa (þrátt fyrir mótmæli Fr. Dietrich sem telur sig eiga hálfan sófann) og horfði á Wallander mynd í danska sjónvarpinu. Blóðið rann og gauðið Wallander grét en reis svo náttúrlega upp á afturlappirnar og skaut ódóið fyrir rest. Til unaðsauka voru skemmileg twist í þessari mynd svo áhorfandann grunaði ekki of snemma hvernig í pottinn væri búið.

Reyndar er ég líka með í gangi bók um HKL, sem ég hef ekki mikinn áhuga á, á þessari stundu, en bókin er góð eigi að síður. Svo æxlaði ég mér auðvitað bók Björns Th., Íslenzku teiknibókina í Árnasafni, og er aðeins að hverfa inn í þann heim, stund og stund. Ég hef oft skoðað þessa bók og lesið part hér og part þar … kannski er kominn tími á að lesa hana í gegn? Inn á milli þess sem ég þvælist á Ævispor aftur og aftur? [Krækjan vísar í umfjöllun hins vel-styrkta-vefjar Handritin heima.]

Ummæli (2) | Óflokkað, Daglegt líf