Færslur frá 18. febrúar 2010

18. febrúar 2010

Við Jósefína

Það er svo gaman að GETA!

Við Jósefína höfum í dag afrekað að prjóna töluvert og eyða hátt í þremur klukkutímum að skoða nótnasafn á Vefnum og æxla okkur nótur. Þarf varla að taka fram að þ.m.t. er Lili Marlene! Reyndar í leiðinlegri útsetningu en það má kannski porra hana eitthvað upp … Eigandi Jósefínu hefur lofað að læra þýska textann, öll erindin. (Eigandinn hefur það á tilfinningunni að þessi Lili Marlene hafi verið hálfgerð dræsa, í ástandinu, en byggir það einungis á fyrsta erindinu enda hefur eigandinn aldrei lesið meir. Aftur á móti er téður eigandi kvefaður og getur þess vegna sungið lagið eins og hin eina sanna Dietrich! - í augnablikinu. Eflaust var hún Lili litla óskup væn stúlka sem mun áreiðanlega koma í ljós þegar lengra er haldið. Og örugglega ekki eins mikil væluskjóða og hún Sólveig, en við slúttuðum einmitt tónleikunum með sniftara allra tíma; Solvejs sang. Á pjanóið altso.) Unglingurinn sér um að hrósa móður sinni fyrir spilamennskuna - annað hvort hefur unglingsbarnið svona lélegt tóneyra eða það er ofboðslega meðvirkt! En það er sama hvaðan gott kemur og ég þigg styrkinguna ;)

Jósefína hefur annars verið önnum kafin í dag við að verja lóðina enda veitir ekki af. Ég sá í því góða blaði Skessuhorninu, í gær, að ég þarf ekkert að vera að væla yfir hundaskít; fréttin og meðfylgjandi mynd sýndi að annað fólk hér á Skaganum er í djúpum skít, eða þannig!  Vonandi hafa hinir hundrað hundavinafélagsmenn einnig skoðað Skessuhornið.

Meðan Fr. Dietrich var að passa upp á okkar litla skika - fegin er ég því ég tróð á frostþurrkuðum hundaskítnum í gær þegar ég hengdi út á snúrur, í fyrsta sinn síðan í ágúst (tvímælalaust var þessi frostþurrkun handklæða batamerki!) - tók ég saman þurra, fyrrum frosna þvottinn, af innisnúrum og braut saman. Það var reyndar til bóta að Dietrich, Jósefína tók ekki þátt í því.

Af þessum afrekum öllum er bloggynja komin með æðislega vöðvabólgu í herðum, hálsi og nærskikum. Það gerir ekkert til því hún er að fara í nudd á eftir. (Enn eitt batamerkið: Það er erfitt að þola snertingu þegar maður er mjög þunglyndur …)

Að lokum er vert að nefna að Jósefína er með þau gulustu augu sem bloggynja hefur séð. Það væri því við hæfi að slengja aftan á nafnaromsuna sem kötturinn mátar reglulega við sig á sinni fésbókarsíðu: J.D.M.v.S. af ætt Ísfólkins. Af því Jósefína les auðvitað bloggið mitt reikna ég með að hún tjái sig fljótlega um þessa hugmynd.

Ummæli (0) | Óflokkað, Daglegt líf