Færslur frá 26. febrúar 2010

26. febrúar 2010

Bless og takk fyrir fiskinn!

Fyrirsögnin er stolin frá (eða tilvísun til?) Douglas Adams, eins og einhverjir dyggu lesendanna átta sig eflaust á. Mér fannst hún við hæfi í ljósi þess að ég hætti að borða fisk á þrítugsafmæli mínu fyrir óralöngu og hef einungis étið svoleiðis fæðu í neyð (svo sem eins og í huggulegri 7 rétta fiskmáltíð einhvers staðar á Amalfi ströndinni fyrir mörgum árum, að viðstöddum mörgum vitnum sem tjáðu aðdáun sína á athæfinu  - hvað gerir maður ekki fyrir evrópskt samstarf?). Ég fullvissa lesendur um að ég hef löngu gleymt bókunum hans Douglasar nema broti hér og broti þar … og ég tel mig hvorki skáldsagnapersónu né höfrung.

En pirringurinn útí hin “akademísku” fræði, sem iðkuð eru á Melunum óx og óx. Mér varð ljóst að það væri ekki hollt fyrir mig að vera svona pirruð og tímdi ekki að splæsa takmarkaðri orku í að ná mér niður af þessu, henni er betur varið í annað. Sem ég var að íhuga þetta í gær birtist hönd guðs, í líki tölvupósts, og skaffaði mér miklu áhugaverðara verkefni sem ég mun hafa miklu meir gaman af. Svo ég sagði mig umsvifalaust úr kúrsinum sem ég var í og leið um leið miklu miklu betur. Seinna blogga ég sennilega nánar um reynsluna af hinu fræðilega, þegar ég verð komin með jafnt skap og mér verður orðið algerlega nett sama um þetta allt saman. 

Ég þakka Erlu, sem gerði athugasemdir við færsluna á undan, kærlega fyrir þær og ekki hvað síst fyrir að benda mér á Íslenskan Orðasjóð. Ég mun örugglega nýta mér hann í verkefninu sem ég fer næst í og lofa að hampa sem víðast enda bendir lausleg prufa til þess að verulegur fengur sé í þessu efni.  Það gefur þessu verkefni einnig huggulegan langsóttan fræðilegan Melastimpil að Árnastofnun linkar í stofnunina sjálfa (en ekki Íslenskan Orðasjóð) af vefsíðunni http://www.arnastofnun.is, undir Tenglar, undir Orðabækur og íðorð, undir Aðrir tenglar.

Sumsé er kominn tími til að snúa sér að öðru. Ég hef t.d. vanrækt óstafrænar hannyrðir alveg óskaplega upp á síðkastið; valið frekar að lesa grein hér og grein þar. En í fyrrakvöld fékk ég kostaboð, tengt hannyrðum og listum, í símtali og hlakka mjög til að taka því boði! Það mun örugglega kveikja undir hannyrðaáhuganum aftur. Ef færð gefur þegar fer að vora eða litlibróðir sækir mig á skektunni yfir Flóann …

Sem minnir mig á hversu arfavitlaust mér finnst að leggja af stað í gær með hátt í hundrað skólakrakka í skíðaferð norður! Að vísu gleðst ég yfir því að Gylfi frændi fær nógan bissniss í Borgarnesi núna … en fyrr má nú fyrrvera af þessum hafnfirsku grunnskóla-”ofurhugum”!  Færðin er þannig á því veðursæla Akranesi að sjálfstæður heimspekingur tók strætó í skólann sinn í morgun (ég kenndi honum á strætó í gærkvöld, lét hann fá útprentaðar áætlanir og strætómiða og hann horfinn núna svo þetta hlýtur að hafa gengið allt saman).  Meira að segja Fr. Dietrich hefur orðið að nota sitt inniklósett, hafandi þó lesið í týndum heimspekiritum að köttur pissar ekki tvisvar í sama sandinn … 

Nú er ég farin í hlutverk hinnar góðu húsmóður og hyggst ræsta þetta hús! Það verður í þriðja sinn (fjórða?) sem ég fæst við þessa iðju frá því í október á síðasta ári og augljóst að mér fer fram.

  

Ummæli (2) | Óflokkað, Skólamál, Daglegt líf