Færslur febrúarmánaðar 2010

11. febrúar 2010

Karlinn í sviganum

Hér kemur löng færsla og ég óska þeim sem komast í gegnum hana fyrirfram til hamingju! 

 

Ég var að skrifa ritgerð / verkefni um fræðilegar kenningar. Verkefnið átti að vera fræðileg úttekt. En hvað felst í því að eitthvað sé fræðilegt?

Ef ég skoða mitt eigið fag, íslensku, þá felast fræðin einkum í því að skrifa langt mál um smáræði – vegna þess að í rauninni má ekki segja nokkurn skapaðan hlut nema fræðimaður hafi sagt hann áður eða maður ætli að andmæla einhverju sem fræðimaður hefur sagt áður. Þ.a.l. er meirihluti textans ýmist fótnótur, t.d. hálf síða texti + hálf síða fótnótur - eða endalaust smellt sviga aftan við hverja málsgrein; í sviganum er nafn karlsins eða karlanna sem sögðu þetta síðast. Í þeirra karla greinum eru svigar og nöfn karlanna sem sögðu þetta næstsíðast. Og svo koll af kolli. Í rauninni gengur ekki að skrifa „Sólin er gul“ nema nefna a.m.k. tvo FRÆÐIMENN sem hafa haldið þessu fram áður. Og ræða jafnvel hugtakið “gulur” í þaula. Það dugir ekki að benda upp í himininn. Aðalpersóna í fræðilegum skrifum er nefnilega karlinn í sviganum! [Ég tek skýrt fram að myndskreyting þessarar efnisgreinar er úr lausu lofti gripin og á alls ekki að vísa til neins ákveðins fræðimanns heldur kannski frekar að sýna lífsskoðun ímyndaðra sólar-fræðimanna.]

Ef maður reynir að rekja sig aftur á bak í gegnum karlana í sviganum þá endar maður nánast alltaf á Aristótelesi. Það er meira hvað sá maður er ívitnaður, ekki hvað síst þegar það er haft í huga að frumtextarnir hans eru nánast allir glataðir en kennsluglósur bárust inn í vestræna menningu úr arabískum þýðingum. Þannig að Aristóteles skrifaði eða las fyrir eitthvað sem Arabar þýddu út frá sinni menningu og túlkuðu (glósur eru auðvitað túlkanlegri en fyrirlestar), sem var svo þýtt á latínu (e.t.v. aftur á grísku), sem miðaldafræðingar þýddu eða fjölluðu um út frá sínum skilningi og á endanum taka núlifandi fræðingar þetta upp, með dash af Freud, ef vel á að vera. Ekki skrítið að brandari heimilisins þá ég var í kennsluréttindanámi fyrir aldarfjórðungi hafi verið: „Som den store pædagog Aristoteles engang udtrykte …“ (Með dashi af Asterix-mælskufræði-töktum!) Auk Aristótelesar eru Freud og Jung svakalega svigaðir, í húmanískum fræðum vel að merkja því þeim hefur verið varpað fyrir borð í raunvísindalegum geðlækningafræðum.

Einstaka sinnum er karlinn í sviganum kona. En af lærdómi mínum undanfarið tek ég ekki mark á því: Sú kona er í karl-kyngervi og veldur hugsanlega kynusla verandi í þessum sviga. (Já, kona lærir skemmtileg orð þessar vikurnar.)

Hvað gerir það til þótt einhver lítill hópur búi sér til tómstundagaman sem felst í því að sviga hverja málsgrein? Það er ekki eins og þetta sé lesið í massavís: Meðallesendafjöldi fræðilegra greina er 6 lesendur. (Karlinn í sviganum hér á að vera bókavörður í Kennó sem sagði þetta í fyrirlestri en þar sem ég var fjarstödd er þetta byggt á ómerkilegri second hand nákvæmri munnlegri heimild.) Reyndar hef ég líka heyrt að lesendafjöldi útlenskra fræðigreina sé oft 2, þ.e. höfundurinn og prófarkalesarinn. Nú hlakkar í bloggynju sem hefur auðvitað margfalt fleiri lesendur að sínu alþýðubloggi. Svo væri ekki ef hún ungaði út einni bloggfærslu, með svigum, á nokkurra ára fresti.

Umfjöllun um íslenskar miðaldabókmenntir fyllti marga bókasafnsrekka, ef allt væri talið. Þess vegna eru margir að reyna að finna sitt oggulitla prívathorn sem enn er á lausu og blása það svo út (t.d. með körlum í svigum) sem unnt er. Einnig má fara í “upprakningu”, þ.e. rekja upp einhverja gamla umfjöllun, dæma hana ófræðilega og byrja að prjóna við upphafshugmyndina upp á nýtt. Fyrir mér er þetta eins og að eyða lífinu í að prjóna aftur og aftur sömu ermina! Í stað þess að finna upp þá aðferð að byrja peysuprjón á hálsmálinu (hér vantar mig nafnið á konunni sem á að vera í sviganum); hljómar mjög spennandi og vel þess virði að prófa þegar fólk hefur fengið sig fullsatt á Möbíusar-tilraunum.

Það sem mér finnst einkum að fræði-hannyrðum er að þegar menn hafa lokað sig inni  í fílabeinsturni fræðanna hættir þeim til að passa vel upp á pródúktin – enda er unnið hægt, m.a. af því það verður alltaf að vera að fletta upp karlinum í sviganum – og fáir fá að njóta. Kona gæti jafnvel sætt sig við þetta ef ekki vildi svo til að í svona dútl árum saman er ausið fé sem mætti kannski fara í eitthvað sem nýttist almenningi eða skólafólki betur. Til þess að glöggva sig á þessu er nóg að fletta upp illratanlegri síðu Stofnunar Árna Magnússonar og spyrja sig til hvers fólkið þarna er að dúlla þetta eða, kannski frekar, hvað er allt þetta fólk að gera? Sjá http://www.arnastofnun.is/  Er það að vinna að útbreiðslu eða viðhaldi menningararfsins? Nei, til þess er það of hægfara. Og týnt. Svo fylgjast menn ekki ýkja vel með nútímanum; Ég er nýbúin að skoða BRAGA-verkefni Árnastofnunar, sem finnst undir undirkrækjunni “Fleiri gagnasöfn”, á valblaði hægra megin. Þetta er “óðfræðivefur” sem hefur verið í smíðum í tæpan áratug, veit ekki hve langt er síðan vefnaðurinn sjálfur hófst. Umsjónarmenn virðast ekki hafa áttað sig á að talsvert lengur (miðað við tímaskynjun Vef-notenda) hefur verið til vefur sem heitir BRAGI. Íslenska sem erlent mál, staðsettur í Þýskalandi og kennir útlendingum íslensku. Sjá http://www2.hu-berlin.de/bragi/  Er ekki hætta á ruglingi? Það gerir annars ekkert til því síðarnefndi vefurinn er talsvert notaður en fáir nota sennilega hinn fyrrnefnda, þótt ekki sé nema af því hann er nánast ófinnanlegur.

(Í sviga set ég lífsreynslusögu: Fyrir um fimmtán árum síðan grenjuðu samstjórnarmenn mínir í The Viking Network úr hlátri þegar þeir heyrðu verðlagið á geisladisknum Íslenskum orðstöðulykli – var hann ekki verðlagður á 80.000 kall til að byrja með? Hann er náttúrlega ónýtanlegur núna, passar ekki við stýrikerfi, en sennilega hefði verið hægt að brúka gripinn lengur hefði hann verið ofinn í HTML. Vel styrkt verkefni af skattfé almennings ættu náttúrlega að liggja frítt frammi fyrir sama almenning, skynsamlegast á Vefnum. Á sama tíma pössuðu fræðimenn að setja fótinn fyrir Netútgáfuna og passa að hún fengi ekki krónu í styrki. Það er heldur írónískt að nú notar fjöldi fólks Netútgáfuna en Íslenskur orðstöðulykill ryðgar í geymslum bókasafna.)

Mitt starf hefur til þessa verið akkúrat öfugt við starfsreglur sem fræðimenn setja sér, sumsé að reyna að fá sem flesta til að fíla menningararfinn og halda honum lifandi með kjafti og klóm, þess vegna nýjum aðferðum sem leiða til nýrra sjónarhorna eða jafnvel einskærs áhuga og sköpunarkrafts nemenda. Ég kenndi um 100 nemendum á önn meðan ég hafði fulla starfsorku og maður þurfti að vera talsvert lunkinn og fylgjast vel með til að fá hluta hópsins til að falla fyrir íslenskum miðaldatextum! Í þeim kúrsum sem ég hef sótt uppi í HÍ af og til frá 2006 hafa setið þetta 5 – 10 stúdentar, þótt oft séu skráðir fleiri. Af hverju ætli áhuginn á íslenskum menningararfi og bókmenntum sé ekki meiri? Og af hverju ætli 30 manns séu skráðir í kúrsinn Glæpasögur sem nú er kenndur, á BA og MA stigi í íslensku? Og af hverju ætli fræðimaður hafi neyðst til að setja upp pópúler kúrs í stað þess að halda sig við fræðin?

Bloggynju sem hefur þetta alþýðlega slömm viðhorf til “FRÆÐANNA” þykir auðvitað skemmtilegt að lesa um fræðilegan bókardóm í ritrýndu tímariti um fræðibók um Kant, þegar kemur svo í ljós að allt í bókinni, nema kannski Kant, er uppspuni og hrekkur. (Hér ætti karlinn í sviganum að vera t.d. sá sem skrifaði fréttina um þetta í moggann í vikunni - en ég nenni ekki að fletta gegnum moggana.) Sömuleiðis er skemmtileg tilhugsun að á síðasta ári var gefin var út listaverkabók hjá virtu forlagi í New York, með útgáfuteiti og alles, en í ljós kom eftir á að listamaðurinn var ekki til.

Á tímabili nú undanfarið hef ég velt fyrir mér hvort fræðileg nálgun eigi ekki jafnilla við mína lífsskoðun og þjóðbúningasaumanámskeið í anda Þjóðbúningaráðs? Eftir “om” og “men” ákvað ég að klára samt kúrsinn sem ég er í, þó ekki sé nema mér finnst illt að ganga frá ókláruðu verki. Hugsanlega heillar seinni hluti hans mig upp úr skónum, maður veit sosum aldrei …

Ég hef líka velt fyrir mér hvers vegna einungis einn af fjórum í doktorasafni fjölskyldunnar vinnur beinlínis við það sem viðkomandi menntaði sig í … en svo má náttúrlega spurja hvenær maður vinnur beinlínis og hvenær óbeinlínis ;)

P.s. Á bóksafni míns litla bæjar æxlaði ég mér í gær nokkurn trívíal-litteratúr, til mótvægis. Í forbífarten sá ég í safni útstilltra nýrra bóka eina eftir Juliu Kristevu. Ég tók mér hana í hönd (já, mér er ekki alls varnað þrátt fyrir geðvonskuna) og sá að undirtitillinn var Þunglyndi og geðlægð. Sem geðsjúkur bókmenntafræðingur var ég skynsöm og skellti bókinni aftur í hilluna, man ekki hvað hún hét en er þess fyrirfram handviss að í henni felst hvorki lækningamáttur né skynsamleg umfjöllun um þunglyndi og geðlægð! Ætli sé hægt að plata fólk sem vinnur á geðheilbrigðissviðinu til að lesa þessa bók í gegn? Efast um það … En í íslensku- og menningardeild HÍ á hún eflaust eftir að njóta nokkurra vinsælda.

 

Ummæli (15) | Óflokkað, Skólamál

8. febrúar 2010

Ópíumhreiður á Akranes, í samvinnu við Strætó!

Ég horfði á Kastljós áðan, þar sem einn af Akraness bestu sonum hélt fram ágæti “kasínó” (sem hingað til hefur kallast spilavíti á íslensku) fyrir: Ferðamannaiðnaðinn, ríkissjóð og spilafíkla, svo eitthvað sé nefnt. Reyndar er mér ómögulegt að sjá hvernig aukning fjárhættuspilatækifæra getur nýst spilafíklum per se, en okkar góði íþróttamaður margendurtók hve hann væri í rauninni hjartanlega sammála manninum sem sat á móti honum; sá margbenti á sívaxandi fjölda spilafíkla hér á landi sem, eins og aðrir fíklar, spiluðu rassinn úr buxunum og eyðilegðu fjölskyldur. Miðað við sífellt “já”, eða “ég er sammála þér” held ég að Arnar og Bjarki séu kjörnir til að vera frekar í forsvari fyrir spilafíkla (er ekki til eitthvert 12 spora dæmi fyrir þá?) og ættu að droppa hugmyndinni um “kasínó” (nema þeir séu þarna með útspekúleruð brögð til að ná Eiði Smára, félaga sínum, til Íslands?).

Ég er með miklu betri hugmynd! Nú söltum við ágreining á borð við Hundamálið mikla!  ÍA og bæjarstjórnin í mínum góða Kardemommubæ stilli saman strengi sína, tali við Strákana Okkars í fortíð-nútíð-og-framtíð,  og stofni almennilegt ópíumbæli hér á Skaganum, að sögulegri kínverskri fyrirmynd! Kann að vera að Evrópusambandið yrði ekki hrifið, eða frændur okkar Danir sem eru samt svo kasínóvænir, en við erum hvort sem er orðin jaðarþjóð sem ýtt hefur verið út í ystu (fjárhagsleg) myrkur. Svo álit annarra skiptir okkur sosum ekki máli. Auk þess má líta til þess að skrá mætti íslenska fíkla, sem yrði mjög til hagsbóta (og þaggaði væntanlega niður í SÁÁ), og græða nóg á hinum sem mæta!

Þetta mætti markaðssetja um allan heim, fá smart uppgjafafótboltamenn til að vera “andlit fyrirtækisins útávið” og endilega að semja við Icelandair um flutning tilvonandi útlenskra ópíumfíkla til landsins! Þar sem líkur benda til að margir reyki sig bláa, í bókstaflegri merkingu, mætti selja í sama pakkanum far í sæti til landsins + í kistu til baka. Ónýtt landflæmi eru hins vegar um allar jarðir hér í nágrenninu og þarf ekki umhverfismat til að slá upp nokkrum kirkjugörðum (sem gæti kætt ýmsa ráðherra). Þess vegna má líka stefna á stóraukningu í tréiðnum á svæðinu, auk þess sem málmiðnadeild FVA færi létt með að smíða pípurnar (eins og Arnar og Bjarki vita eflaust vel).

Já, þetta er grand hugmynd og miklu betri en eitthvert leim kasínódæmi … Ópíumhreiður er náttúrlega það sem koma skal! Ég er ekki enn búin að koma auga á hvernig mætti tengja það við strætó og auglýsi því eftir tillögum.

Ummæli (12) | Óflokkað, Daglegt líf

Á hverju á ég að lifa? (Um Marplan)

Ég braut þá gullvægu lífsreglu að lesa ekki um aukaverkanir lyfja fyrirfram heldur kíkja á þær þegar ég er orðin kramaraumingi. Hefði ég lesið ítarlega fyrr um lyfið sem bíður mín hefði ég kannski ekki tekið þann kost heldur kostinn “hætta á lyfjum og feisa veikindin”. Stundum er lækningin verri en sjúkdómurinn, það hef ég sosum reynt.

Nema ég fór að gúggla Marplan, eftir að hafa lesið tiltölulega sissí útgáfu lyfjaupplýsinga hjá frændum okkar Dönum. Þar var bara talið það sem ég þegar vissi, sumsé að ekki mætti eta súrkál, grænar baunir, mygluosta, marineraða síld og drekka rauðvín eða hóstasaft (sem er hvort sem er úr myndinni hjá mér). Súrkál, grænar baunir o.s.v. finnst mér hvort sem er vont.

Ég fann mjög ítarlega síðu (kona ræður hvort hún notar í eða ý), sjá  http://www.drugs.com/mtm/marplan.html , þar sem taldar voru upp fæðutegundir sem bæri að forðast, út af tyramín, sem er afleiða af aminósýru (sem segir stúdent úr máladeild ekki neitt).

 Hér er listinn: Ostur (sérstaklega passa sig á sterkum og gömlum), sýrður rjómi, jógúrt, bjór o.fl. alkóhól, pylsur hvers konar (sérstaklega úr salami, pepperoní), ansjósur, kavíar, lifur, maríneruð síld, fíkjur í dósum, rúsínur, bananar, avókadó, súkkulaði, koffein, sojasósa, súrkál, fava-baunir, gerjaðar vörur, meyrað kjöt, hóstasaft. (Sjálf myndi ég ekki telja hóstasaft til fæðutegunda).

Á annarri síðu var hreinlega allur ostur bannvara (þ.m.t. feta) og bætt við kóki og öðrum kóladrykkjum, súputeningum og mörgu fleira.

Kona spyr sig: Er þá bannað að borða grískt salat??? Og á ég að lifa á ósýrðu káli og soðinni ýsu næsta árið? Ég sem lifi aðallega á kaffi, bönunum, jógúrt, súkkulaði og skyndibitum? 

Listinn yfir bönnuð lyf er líka firnalangur. Mér er svo sem slétt sama nema um staðdeyfilyf tannlækna; Hvernig á ég nú að fara til tannlæknis, tannlæknafóbísk sem ég er? (Man ekki nákvæmlega hvar ég sá þetta með tannlækningar … sjálfsagt í einhverju gúggli.) Það er líka bannað að brúka pheditín og fara í svæfingu  - á eftir ætla ég að spurja hann Ingjald (tannlækni, eins gott að við I. skverum því af í vikunni sem þarf að gera) hvort hann eigi hláturgas og spurja geðlækninn minn hvort megi nota svoleiðis.

Listinn yfir hugsanlegar aukaverkanir Marplans er svo alveg kapítuli útaf fyrir sig!

Ég sætti mig við þetta allt (nema staðdeyfilyfjabann tannlækna) ef mér batnar. Hins vegar eru þær líkurnar ekkert ofboðslega miklar, eiginlega frekar í lægri kantinum. En þetta er það eina sem eftir á að prófa úr lyfjaflórunni geðlækninga sem passar við mig. Kona myndi naga sig í handarbökin (eða handarkrikann, eins og nú tíðkast að segja) ef síðasti séns væri ekki tekinn.

Svolítill plús / huggun harmi gegn er að ég mun líklega aftur fara að passa í megnið af fatalagernum mínum. Nýrri föt munu hins vegar hanga á mér. Og ég tek fram að algert bann er við hvers kyns megrunarlyfjum með Marplansáti!  Sé reyndar ekki að það þurfi yfirleitt að hafa áhyggjur af þyngd, frekar megurð.

Þetta er náttúrlega allt út af því að ég er kona og kvellisjúk. Í Íslendingasögunum eru gamlir stjórnsamir (jafnvel hamrammir) karlar alltaf að taka fram að þeir hafi ekki verið kvellisjúkir um ævina og lurðan, sem leggst á þá, hljóti þ.a.l. að vera banasóttin. Undantekning er Egill greyið sem lifði og lifði og varð æ brjóstumkennanlegri með aukinni elli og fáeinir aðrir.

Væri ég karl mundi ég náttúrlega slæva hugsanlega kvellisýki með því að vinna eins og skepna og smíða svo undir rot fram að miðnætti dag hvern. (Þessu er ekki beint til litlabróður.) Eða leggjast í búttkamp og maraþon. (Þessu er ekki beint til sonarins.) Þannig má ná upp huggulegri adrenalín-endorfín vímu sem skilar körlum langt. Á hinn bóginn er sennilega frekar leiðinlegt að búa með svoleiðis körlum.

Konudrusla sem vill heldur prjóna en hlaupa, blogga en labba og almennt séð vera heldur kyrrstæð í lífinu verður auðvitað kvellisýki að bráð. Og þarf að úða í sig óhollum meðulum, ásamt því að prófa allar andsk. hjálækningar því frísku konurnar hafa einmitt andúð á meðulum. Og ekkert virkar!

Hér læt ég klagesang (tregrófi) dagsins lokið. Og borða þriðja banana dagsins!

Ummæli (0) | Óflokkað, Geðheilsa

5. febrúar 2010

Bloggfrí vegna bardaga

Tilkynni hér með að ég tek mér bloggfrí yfir helgina meðan ég hái seinustu orustuna (kona ræður hvort hún brúkar eitt eða tvö err) við Lyricu!  Ætti að verða ljóst á mánudaginn hvor vinnur.

Ummæli (6) | Óflokkað, Geðheilsa

4. febrúar 2010

Hundaskítur: Innlegg í nýja hitamálið!

Í mínum Kardemommubæ hefur gosið upp mikið hitamál undanfarna daga. Bæjarstjórn hefur samþykkt að láta greiða atkvæði um hundahald hér í bænum í næstu kosningum. Hundaeigendur eru náttúrlega á háa c-inu yfir þessu og hafa stofnað fésbókarsíðu og hyggjast halda baráttufund og stofna hagsmunafélag og ég veit ekki hvað og hvað!

Í sjálfu sér hef ég ekkert á móti hundum. Er enda nýbúin að heimsækja einn slíkan, afar vel upp alinn. Stundum er hundurinn besti vinur mannsins, eins og t.d. hann Koni sem sést hér á lítilli mynd með eiganda sínum: Sé smellt á litlu myndina fæst stærri (sem aðdáendur Koni eða eigandans gætu prentað út og rammað inn).

Ég hef hins vegar ýmislegt á móti sóðalegum illa uppöldum hundaeigendum og ekki hvað síst þeim drullusóðum / drullusóða sem leyfa / leyfir sínum hundi eða lætur sinn hund nota bakgarðana okkar við Vallholtið fyrir kamar, jafnvel framgarða einnig.  Þessir hundaeigendur eru ekki bara sóðar heldur húðarletingjar að auki því þeir nenna ekki að hirða upp lortana eftir að hundurinn hefur gert þarfir sínar. Það gera hins vegar ábyrgir hundaeigendur.

Bærinn er fullur af hundaskít! Það þarf nú ekki nema skreppa í stuttan labbitúr til að fullvissa sig um það. Hundaeigendur eru eitthvað að mjálma (já, merkilegt að þeir skuli gera slíkt) um að ruslatunnur bæjarins séu of fáar. Er ekki hægt að fá svona skitupoka í mismunandi stærðum? Sé svo ekki þá trúi ég ekki öðru en venjulegur eldhúsruslapoki mundi duga milli ruslatunna, þótt hátt í 100 metrar væru milli þeirra, nema hundurinn sé með skitu.

Drellarnir í mínum bakgarði eru sko engin smásmíði, skal ég segja ykkur! Ég skrapp út og tók myndir af nokkrum þeirra (smellið á litlu myndirnar og sjáið stærri útgáfu ef ykkur lystir). Til að sýna stærðarhlutföll notaði ég rauðan risa-ópalpakka af því eldspýtustokkar liggja ekki lengur á lausu (hvað þá jarðfræðihamrar) og ég kunni ekki við að leggja fram langan Winston. Flestir, trúi ég, vita nokkurn veginn stærð risa-ópal-pakka og geta ályktað hundaskítinn af honum.

Ég hef rökstuddan grun um að þessi hundaskítur sé eftir svartan labradorhund en hef ekki hugmynd um hver gæti átt kvikindi sem gengur um með þessum hætti. Enginn í götunni held ég. Nei, ég held að eigandinn viðri dýrið, t.d. snemma á morgnana, og noti þá tækifærið og sleppi greyinu lausu til að skíta í annarri götu en heimagötu - e.t.v. er þetta einhver eldri borgari sem vill hafa sama skikk og í sveitinni forðum? Allt svo ósköp frjálst?  Óvart er Stór-Akranes-bærinn ekki sveit heldur 6000 - 6500 manna byggðarlag (ég hef ekki fylgst með nýjustu tölum). Óljósar fregnir herma að stundum komi unglingur með svona svart laust kvikindi í heimsókn í bílskúrinn á Hjarðarholtinu hér fyrir aftan mig. Ég hef einmitt séð svartan labrador ráfa þar um í reiðileysi. Garðurinn minn er ekki ríglokaður og t.d. tölta Hjarðarholtsbúandi fjölbrautaskólanemar hér oft í gegn. Það truflar mig ekki. Sömuleiðis er minn garður, eins og allir hinir garðarnir við Vallholtið, galopinn frá þeirri götu.

Þeir sem ekki vita hvernig svartur labrador lítur út geta bara skoðað hann / hana Koni sem myndskreytir færsluna hér að ofan.  

Þeir sem ekki eru klárir á hundaskít geta smellt á myndina hér til hliðar til að fá stærri útgáfu og glöggva sig á ódámnum.

Skítseiðið sem á hundinn ætti auðvitað að skammast sín og mæta hingað á Vallholt 19 með skóflu og poka! Ég myndaði nefnilega bara sýnishorn en þetta ógeð er út um allt; undir snúrunum, upp við girðingu o.s.fr. Mér skilst að á nr. 21 hafi verið vandræði með að leyfa krökkunum að leika sér í garðinum nema byrja á að gera mega-kamarhreingerningu eftir hundinn ókunna en grunaða! Ef einhver veit hver á sökudólginn þætti mér ágætt að fá upplýsingar um það svo ég geti haft samband við hundaeftirlitsmann bæjarins! (Er nýbúin að frétta að svoleiðis gaur er til.)

Ef þessu hundaskítsfári linnir ekki (og það er ólíklegt, því þetta hefur gengið svona í meir en ár) er augljóst hvernig ég greiði atkvæði þegar kosið verður um hvort leyfa eigi hundahald áfram á Akranesi! Fari svo að hundahald verði leyft áfram, vonandi með strangari skilyrðum, ætla ég að sækja um að fá að gaddavírsgirða allan garðinn hér á Vallholti 19. Plantar svo berberis-hekki þar innan við, allan hringinn!

P.s. Getur einhver útskýrt fyrir mér lógíkina í því að strætómiðar séu eingöngu seldir upp í sundlaug / á Jaðarsbökkum?  Mér skilst að þetta finnist stjórnendum litla kardimommu … o.s.fr. svo agalega augljóst eitthvað að þeir auglýsa það ekki einu sinni á bæjarsíðunni sinni (reyndar er hún svo illa ofin að e.t.v leynist þar auglýsing undir t.d. upplýsingum um æskulýðsmál … nenni ekki að gá að slíku). Ég á ekkert erindi á Jaðarsbakka og er örugglega ekki eini antisportistinn í bænum. Væri ekki vitlegra að selja þessa miða í nýju þjónustuveri bæjarins, í núverandi miðbæ?

Ummæli (16) | Óflokkað, Daglegt líf

3. febrúar 2010

Rægirófa? Og heilsufarsfarsinn og sumarið sem bíður

Í gær fór ég í heimsókn hvar býr undurfagur, afar loðinn, sérlega vingjarnlegur og gestrisinn hundur. Hann sannar að “Big” getur verið “beautiful”, sem ég hef einmitt verið að segja sjálfri mér, þá sjaldan ég stíg á vigt. (Í mínum kreðsum er reyndar oftar notað slagorðið “Betra að vera feitur en fullur!” en það á kannski ekki alveg við núna.)

Jólagjöfin mín, fr. Jósefína Dietrich, hefur aftur á móti ekki enn öðlast þessa lífsvisku. Enda snúast áhugamál hennar um annað, flesta daga. Svo hún velti ekki fyrir sér líkamsvexti og fegurð eða kynþætti heldur klagaði án afláts í aðra fjölskyldumeðlimi yfir hve mikil fýla væri af eigandanum! (Sjá fésbók téðrar Jósefínu. Kötturinn er pjúra rasisti, ekki spurning!) Ég skipti auðvitað um föt enda öll í hundshárum en það dugði ekki til … Jósefína beit mig í þrígang þegar ég reyndi að fara vel að henni með því að strjúka neðri vör litlu rófunnar, sem henni þykir einmitt allra best! 

Nú er ég búin að skúra mig og skrúbba svo kattarrófan hefur tekið mig í sátt. En mér brá þegar ég heyrði hvað stýrið litla var duglegt að klaga; gekk hér um grenjandi meira og minna allan seinnipartinn og kvöldið!

Annað af dýrinu er þetta að frétta:

Í hvert sinn sem Jósefína kemur inn er hún málóði um stund yfir öllum þeim lystisemdum og lífshættum sem hverfið býður uppá!  Þá er ekki um annað ræða en róa frökenina, með neðrivararstrokum. Ég er svo sem ekki hissa því hér eru kettir í öðru hvoru húsi og hundar í hinu hverju húsinu. Tveir flagarar ganga stöðugt um og merkja sín óðul, sennilega svona 5 km radíus. Satt best að segja held ég að þeir telji sig eiga sama óðalið báðir og því er nánast fullt starf allan sólarhringinn að míga yfir merki hins flagarans. Eitt sinn sá ég annan þeirra hlaupa á eftir litlu kisu í næsta húsi, hefur sjálfsagt ætlað að flaga hana (=fífla) en hún, lítil og nett, sveif inn um mjóa gluggagátt, sem flagarinn hafði ekkert í. (Síðarmeir sá ég klaufskan gulbröndóttan kött spóla sig inn um sömu gluggagátt, fékk staðfest að þetta væri sennilega fr. Dietrich, sem líkast til stelur kattamatnum litlu kisu á hverjum degi.) Já, dramatíkin í kattalífinu hér utanhúss lætur ekki að sér hæða!

Fräulein Dietrich tók svo eftir því núna í vikunni að fólk sefur almennt í rúmum. (Athygli hennar og heilafrumur höfðu verið bundnar við annað og hún hafði ekki tekið eftir þessu áður.) Að sjálfsögðu finnst henni helv… ósanngjarnt, núna þegar hún hefur fattað venjulega svefnsiði, að hún ein skuli eiga að sofa á teppi á stól eða teppi á sófa! (Dýrið hefur harðneitað að sofa í körfu, sennilega út af því tráma sem hlýst af því að búa í pínulitlu búri í Kattholti mánuðum saman.) Þau unglingurinn hafa þegar tekist á um rúm unglingsins; “hún hélt sér með öllum klónum” sagði unglingurinn, sem tvangs-færði Jósefínu greyið úr sínu rúmi yfir á teppi + stól í næsta herbergi. Í dag, meðan ég var að reyna að leggja mig, klagaði hún hástöfum yfir óréttlætinu og reyndi að skríða upp í hjónarúmið og trampa sér þar slétt bæli (siður af sléttunni í árdaga sem hefur stimplast inn í mænukylfu hunda og katta) en ég harðneitaði enda hefði hún örugglega bitið mig (ég var nefnilega ekki búin að fara í sturtubaðið þá).  Svo ef einhver hefur hug á að gefa Jósefínu afmælis- eða jólagjöf í desember þá er rétt að fara að handsmíða lítið  en fullorðinslegt huggulegt rúm eða vera á höttunum eftir dúkkuvöggum, sem einu sinni fengust svo ljómandi fallega fléttaðar af blindum.

Af mér er það að frétta að mér líður heldur skár en undanfarna daga. Helv… pillurnar eða ekki-pillurnar eru ekki eins mikið að hrella kropp og höfuð. Samt er ég alltaf að fá “yfir höfuðið” eða “í hnén” og þar sem ég er ekki nýlega ástfangin er þetta sjálfsagt út af Lyricunni.  Verður voða gaman þegar ég verð orðin clean and sober af því lyfi!

Góðu fréttirnar eru þær að hinn gáfaði heimspekingur heimilisins (núverandi ferðamálafrömuður) hefur fundið litla kríska þorpið sem þau John Lennon og Janis Joplin dvöldu forðum í (sennilega þó ekki samtímis). Þetta er eitt af þessum huggulegu litlu pínuþorpum, í slælegu vegasambandi, og einkennist af fjölda hella, rétt við ströndina. Kannski hafa þau John og Janis skroppið öðru hvoru inn í helli og medíterað, e.t.v. með einhverri efnahjálp? Ég gæti, eftir að hafa skoðað myndir, mjög vel hugsað mér að liggja á tiltölega fámennri og eyðilegri strönd og droppa inn í einn og einn helli inn á milli og gjörhygla, án annarra efna en þess slæma tóbaks …

Maðurinn er búinn að kaupa flug, gegnum Köben, og gistingu fyrstu og síðustu dagana á Krít. Svo er hann búinn að áætla annan kostnað við gistingu (Köben meðtalin) og þegar upp er staðið erum við að fara í 30 daga ferð þar sem flug og gisting kostar u.þ.b. það sama og Heimsferðir bjóða í 10 daga ferðum til Bodrum (hér er líka miðað við flug og gistingu en ekki fæði). Við vorum svo sem búin að fatta að bæði er miklu erfiðara að skipta við ísl. ferðaskrifstofur og meira maus að komast út úr pakkaferðinni en skipuleggja bara sjálf. Samt erum við að kaupa farið með Icelandair til Köben og það félag hefur nú hingað til ekki þótt nein lágvöruverslun. Hefðum við keypt bara far fram og til baka til Bodrum, með Heimsferðum eða Vita hefði það orðið miklu dýrarara heldur en flugið sem við höfum nú keypt af því þeir refsa fólki fyrir að vilja ekki vera í pakkaferð með því að selja strípað flugfar (með leiguvélinni) enn dýrara.  Svo harðneituðu bæði félög að selja annað en 10 daga klippt og skorið. Að vísu missum við þá af Leros og Patmos í ár (Tylftareyjunum) en ég er ágætlega sátt við Krít; Chania (mikið af búðum og fólki), Sougia (gamall hippastaður en fær 0 fyrir skemmtanalíf og verslun) og þetta hellavæna þorp sem virðist af sama tagi og Sougia. Ef ég verð orðin vel sjóuð í kenningum um karlmennsku þori ég e.t.v. til Agia Suaki (?) þar sem enn tíðkast blóðhefndir; karlar hefna sín með því að fífla heimasætur og bræður stúlknanna fara svo og murka lífið úr fíflaranum eða einhverjum af hans ætt með byssum eða lagvopnum. Svo er kvittað fyrir það! Sumsé samfélag sem líkist þjóðveldisöld og gæti verið áhugavert að skoða, ef kona þorir …

Þetta er orðið gott - ég þakka þeim sem hafa sig í gegnum svo langa færslu sem flakkar út og suður!

Ummæli (3) | Óflokkað, Geðheilsa, Daglegt líf

2. febrúar 2010

Þetta lagast ábyggilega …

Dagurinn í gær var ömurlegur. Ég reyndi að lesa en efnið hvarf jafnharðan úr hausnum; svo á ég í mesta baksi við að enda setningar. (Byrja á spurningu: “Ætlar þú að … að … að … á morgun, skilurðu?” og álíka þrugl, þegar ég ætla t.d. að spyrja manninn hvort og hvenær hann færi til þurrabúðarinnar á morgun. Þríspurði síðan Vífil um eitthvað og gleymdi jafnharðan. Það er helst að kötturinn láti sig þetta málstol litlu varða enda skilur hún eftir tóntegund en ekki orðum, litla skinnið.) Þetta er algengt þunglyndiseinkenni svo ég er ekki hrædd um að vera komin með Alzheimer: Þetta gengur til baka einhvern tíma (hefur a.m.k. alltaf gert það).

Lyricu hefur að hálfu verið hent út í hafsauga. Við það hvarf kökkurinn í hálsinum nánast (ég var farin að gæla við æxli) og hóstinn minnkaði. Sömuleiðis hafa sjóveikieinkenni tónast niður í eftirköst-af-suðvestan-golu-með-Akraborg. Ég þori ekki að slaufa allri Lyricunni í einu, best að taka a.m.k. viku í þetta, enda hætti ég á síðasta þunglyndislyfinu í gær (sem var nú ekki brýn nauðsyn en úr því það lyf hafði ekki haft nein áhrif fannst mér alveg eins gott að sleppa því líka). Það er ekki gott að vera að hætta á mörgum lyfjum í einu, hver hætting fyrir sig er nógu erfið!

Kannski er þetta skýringin á því að ég vaknaði með hausverk dauðans klukkan 6 í morgun en náði honum úr mér með tveimur rótsterkum kaffibollum. Kötturinn gleðst yfir því hve bloggynja og eigandi hans er árrisul (og árvökul, þannig séð).

Þegar ég verð orðin “hrein” af aðalþunglyndislyfinu (þ.e. lyfjalaus í þrjár vikur) má fara að skoða tilraunir með ósérhæfða MAO-blokkarann, sem er kominn til landsins. Þá verð ég lögð inn á deild, til öryggis og mér til hægðarauka.

Þ.a.l. hef ég reiknað út að ég þyrfti að klára miðannarverkefni í Karlmenn í blíðu og stríðu svona viku á undan hinum því ég er ekki viss í hvaða standi ég verð þegar svokölluð verkefnavika verður í HÍ (það er svoleiðis mulið undir nemendur að menn fá frí til að vinna verkefni! Þetta er greinilega staðurinn þegar ég verð orðinn öryrki!). Svo veit ég ekki hvernig mundi ganga að vinna verkefni inni á geðdeild, þar er svoddan erill og ég þyrfti að fara upp á Þjóðarbókhlöðu til að prenta út, lesa yfir o.þ.h. Á þessari stundu hvarflar auðvitað að mér að hætta bara í kúrsinum því ég er svo mikill aumingi. Á hinn bóginn togar að mig langar að standa mig vel og ætti að hafa alla burði til þess, væri ég með fúlle femm og fulla starfsorku. Sem ég er auðvitað ekki, annars væri ég ekki í veikindafríi … 

Mér hefur dottið verkefni í hug en er svo hugfötluð í augnablikinu að mér gengur dj…lega að koma einhverju vitrænu skipulagi niður á blað. Nokkrir göngutúrar á sólbjörtum Sandinum myndu kippa þessu að einhverju leyti í liðinn en nú er skýjað dag eftir dag …

Það eina sem telja má mér til tekna er að ákveðinni föttun laust í niður í huga mér í gær og ég sendi manninn út á bókasafn til að sækja ævisögu Steingríms Hermannssonar, til tékkunar. Kom mér á óvart hvað fyrsta bindið er skemmtilegt - aftur á móti voru hin tvö mestöll um pólitík og því hraðflettanleg. Ég tel að tilgáta mín hafi verið staðfest en get ekki farið meira út í þá sálma hér á blogginu. Var soldið ánægð með mig yfir að hafa þó fattað eitthvað miðað við hversu sljó ég er þessa dagana.

En nú er ég farin að lesa gegnum 4 eddukvæði - blessunarlega hef ég sennilega lesið obbann af þeim áður, sem hjálpar þokukenndum huga!

Ummæli (0) | Óflokkað, Geðheilsa