Færslur frá 7. mars 2010

7. mars 2010

Draumalandið er Karlalandið!

Ég fatta alls ekki hvað á að virka svona vel í þessari mynd, þ.e.a.s. af hverju fólk á að hrífast af henni; Ömurleg jarðarfarartónlist, tölvubreyttar umhverfismyndir og megnið af viðmælendum karlar - sem vældu nokkurn veginn sama sönginn og tónlistin þannig vel við hæfi. Hvert er pojntið? Á Ísland að verða land stóreygra karla, gjarna eins og barnsrass í framan …  jafnvel um allt höfuðið? Grimmhildurin í myndinni var kvenkyns (iðnaðarráðherra) en “góða” konan var Erla Stefánsdóttir (!!!). Alcoa er væntanlega Ókindin.

Guði sé lof að ég hef ekki lesið bókina. Af hverju kokgleypir fólk þetta?

Sara Lund bjargaði kvöldinu ;)

Ummæli (3) | Óflokkað, Daglegt líf

Scheving og Möbíus

Hannyrðalistirnar í þurrabúðinni virkuðu eins og vítamínsprauta á bloggynju og hefur hún nú druslast til að finna fullt af hálfkláraðri handavinnu og hyggst ljúka henni á árinu! Reyndar tefur Möbíus-prjón svolítið því það er svo ansi þægilegt við sjónvarpið og auk þess gengur bölvanlega að finna hinar réttu stærðir, svo sem sést á meðfylgjandi mynd. Þessi tveir Möbíusar eru á leiðinni í þvottavél, á 60°, og viskum sjá hvort þeir láta sér ekki segjast við þá meðferð. (Þeir eru greinilega of stórir fyrir háls og of litlir fyrir herðar … hvað á maður að gera við svona millistykki? Sennilega var líka heldur ósmart að pressa stykkin …)

Montmyndirnar litlu vísa á stærri útgáfur af sömu myndum.

Eitt af því sem ég dró fram var listaverkið Kýrin Meskalína, byggt á mynd Gunnlaugs Schevings. Ég á ekki von á að verða kærð fyrir höfundarréttarbrot en hannyrðin er samt tvímælalaust svoleiðis brot.  Við alþýðan verðum að brúka svona aðferðir til að eignast okkar Scheving - við vorum aldrei í útrásinni eins og Landsbankinn, sem ég reikna með að eigi upprunalega verkið. Sem sjá má eru ský og landslag dálítið færð í stílinn, sem varð til þess að fræðimaður heimilisins gaf útsaumsmyndinni þetta nafn.

Annað óklárað er t.d. ansi fín hörpudiskapeysa sem má klæðast á sumrin, svört peysufatapeysa (eða byggð á slíkri) sem á að vera grunnur undir tilraun til svindl-baldýringa-æfinga, einn einn áttblaðarósarpúðinn í groddalegan risafléttusaum (í smyrna-stramma) o.s.fr.  Svo sé ég í hendi mér að það megi bjarga hinum fínu en draslkenndu eldhússtólum mannsins með útsaumuðum sessum - t.d. með miðaldamyndum af köttum - og gefst þá frábært tækifæri til að prófa refilsaum.

Staðföst sem ég er mun ég ekki blogga um Ice-eitthvað (stefni á að verða eini bloggari landsins sem ekki hefur tekið þetta mál upp á bloggi). Ég læt duga að vitna í feminu docta þessa heimilis, sem segir í enn óútgefinni stjórnmálasögu sinni, De Historia Politica Islandorum, IV. bindi: “Á þessu stigi málsins kemur vel til greina að éta erlendar samninganefndir og verða þær þar með úr sögunni.” (Dietrich, Jósefína. 2010, s. 897. Bloggynja snaraði úr latínu.) 

Ummæli (7) | Óflokkað, Daglegt líf, handavinna