Færslur frá 18. mars 2010

18. mars 2010

Blogg versus feisbúkk

Tek fram að ég hef ekki verið í stuði til að blogga alveg upp á síðkastið … þessu veldur hið velþekkt sjúkdómseinkenni “dagamunur”. Vonandi rís nýr og bjartur dagur sem fyrst.

En ég er þess duglegri að hanga í tölvunni við fánýta iðju. Eitt þessarar fánýtu iðju er að tékka á aðskiljanlegu fólki á feisbúkk. Hef nefnilega uppgötvað það að alþýðan er hætt að blogga á bloggum (undanskil hér handavinnublogg sem ég er húkkt á þessa dagana … aðallega útlensk slík) en rekur þess í örblogg undir nafninu Facebook-færslur. Það hentar greinilega miklu betur þeim sem vilja blogga stutt en nokkrum sinnum á dag. Kerfið býður líka upp á komment og jafnvel bara brosmerki ef menn nenna ekki einu sinni að skrifa fáein orð. Tek fram að ég sakna möguleikans “Dislike”, sennilega af því ég er svo neikvæð … ;(  Í mottuslag sonarins væri ágætt að hafa þennan möguleika.

Sjálf á ég fáa en góða fésbókarvini enda hef ég kerfisbundið gengið í að losa mig við sem flesta. Þessir fáu duga mér ágætlega því ég nota fésbókina bara til að kommenta hjá öðrum og get þarna fylgst með sonunum og kettinum, jafnvel manninum. Það hlýtur að taka tímann sinn að skruna niður skjáinn eigi maður mörg hundruð vini!

Langflestir hafa fésbókina sína galopna; Hver sem er getur skoðað vegginn þeirra og myndirnar þeirra sem samsvarar því alveg að reka tiltölulega persónulegt blogg. Svoleiðis að maður þarf ekkert endilega að binda trúss sitt við þá sem rita fésbók af alúð. Dugir að leita uppi viðkomandi einu sinni á dag og þá gjarna freistast í að skoða einhverjar álitlegar vinasíður í forbífarten. Ég er ekki viss um að fésbókarnotendur geri sér almennt grein fyrir þessu. Ég er heldur ekki viss nema þeir vilji opinn aðgang … til að komast nær því að reka persónulegt blogg.

Hafi dyggir lesendur mínir áhuga á vitsmunalegri fésbók mæli ég með fésbók Jósefínu Dietrich. Hún er sá eini fésbókarhöfundur sem ég hef rekist á sem ritar jafnt í bundnu máli sem lausu. (Vá - 3 sem í einni málsgrein hlýtur að vera met!) Reyndar telur sama Jósefína að kerfið allt heiti Jósefínubók …

Ummæli (0) | Óflokkað, Daglegt líf