Færslur marsmánaðar 2010

4. mars 2010

Dolfallin yfir fegurð í þurrabúðinni

Í gær skrapp ég til þurrabúðarinnar-handan-Flóans. Segir ekki mikið af þeirri ferð nema ég var svo heppin að fá að koma í heimsókn til Guðrúnar Guðmundsdóttur, höfundar Ævispora (sýningar í Þjóðminjasafni sem ég hvet fólk enn og aftur til að láta ekki fram hjá sér fara!).  Ég er eiginlega ennþá agndofa yfir öllum þessum fallegu listaverkum sem ég skoðaði þar. Meira að segja unglingurinn hreifst með og skoðaði myndir af verkunum yfir reglubundnu pizzuátinu í gærkvöldi. (Á miðvikudagskvöldum er maðurinn af bæ og við hin neyðumst því til að panta skyndibita …) Það þarf talsvert til að hrífa unglinginn svo ég hlýt að hafa afar sannfærandi.

Í strætó á leiðinni heim komu hugmyndir fljúgandi til mín. Ég er enn að vinna úr þeim. Mér datt svo í hug áðan að kannski væri enn sniðugra að ljúka við þau mörgu hálfkláruðu stykki sem ég á, sum byrjuð í næst-næst-síðasta þunglyndiskasti en önnur yngri. Gæti tekið mér elju listakonunnar til fyrirmyndar.

Kærar þakkir fyrir mig!

P.S. til hannyrðakvenna á Skaganum: Ég er búin að skila Íslensku teiknibókinni (bók Björns Th. Björnssonar), bókinni um handritið Stjórn (e. Selmu Jónsdóttur) og bókinni um handrit (e. Jónas Kristjánsson) á Bókasafn Akraness :)

P.p.s. Tek fram að ég hélt mig aðallega í 101 Reykjavík og var ánægð með það sem svæðið hafði upp á bjóða.

Ummæli (2) | Óflokkað, Daglegt líf

2. mars 2010

Hvers virði er nám? Um týndar meistararitgerðir

Ég hvet þá sem skiluðu MA ritgerð til HÍ vorið 2007 að athuga hvort ritgerðin þeirra hefur skilað sér upp á Lbs. Háskólabókasafn og / eða hvort hún er skráð í Gegni! 

Vorönn 2007 notaði ég allar starfandi heilafrumur til að skrifa 15 eininga (30 ECTS) MA ritgerð. Ritgerðin var um ljóðabréf Bjarna Gissurarsonar og var skilað í apríl 2007, í tveimur bindum auk geisladisks með mynd af handritinu sem ég skrifaði upp úr. Sjá má bindi I og bindi II hér.Fyrir þessa ritgerð fékk ég 8,5 sem ég veit ekki hvort þykir hátt eða lágt gefið … gæti jafnvel verið algengasta einkunn fyrir MA ritgerð. Að eigin áliti er þetta kannski fullhá einkunn því grunnvinnan er mjög góð en skortir nokkuð á úrvinnslu enda var ég ekki í neinu standi til slíks og var í rauninni sama hvernig veröldin veltist eða fórst, á ritunartíma. Á dögunum uppgötvaði ég fyrir tilviljun að ritgerðin mín var ekki skráð í Gegni. (Ég var að fletta upp námsritgerðum og datt í hug að gá hvort eitthvert stafrænt efni væri tengt minni eigin ritgerð – en komst sem sagt að því að hún var ekki til! Ég kalla eintök sem læst eru inni á skrifstofu kennara eða eintak geymt í kassa á læstri Bókmenntafræðistofnun Hugvísindadeildar ekki vera sérlega mikið til í þeim heimi sem venjulegt fólk þekkir.)

Þann 22. febrúar sendi ég bréf um þetta til skrifstofu Hugvísindasviðs, deildarforseta Íslensku-og menningardeildar (sem var, að mig minnir, skorarformaður íslenskuskorar þegar ég skilaði ritgerðinni) og sviðsstjóra Þjónustusviðs Landsbókasafns Íslands-Háskólabókasafns. Þótt í svarbréfum vísi hver á annan og enginn axli ábyrgð (álíka og í sögunni, þið munið; Kötturinn sagði: Ekki ég. Hundurinn sagði: Ekki ég …o.s.fr.) mega menn eiga að þeir brugðust skjótt við. Annar leiðbeinandinn minn dreif í að grafa upp eintakið í kassanum á Bókmenntafræðistofnun – hans vegna vona ég að það hafi ekki verið margir kassar sem í þurfti að leita – og afhenti á skrifstofu Hugvísindadeildar með hraði. Hugvísindadeild sendi eintakið upp á Þjóðarbókhlöðu, einnig með hraði, og þar er verið að vinna í að skrá hana inn, eins og skjámyndin úr Gegni, sem ég tók núna áðan, ber með sér. Af því ég reikna ekki með brjálæðislegri eftirspurn eftir þessari ritgerð, sem auk þess hefur ekki exísterað í 3 ár nema í lokuðum fámennum kreðs, get ég svo sem við vel viðbrögðin unað og tel reyndar að tveggja daga afgreiðsla málsins, innan íslensku- og menningardeildar og skrifstofu Hugvísindasviðs, hljóti að vera hraðamet.

Aftur á móti veit ég ekki um hina, hversu happí þeir eru! Skv. upplýsingum í tölvupósti frá sviðsstjóra Þjónustusviðs Landsbókasafns Íslands-Háskólabókasafns virðast, að athuguðu máli, MA ritgerðir þeirra sem útskrifuðust vorið 2007 almennt ekki hafa skilað sér til safnsins. ??? Var þetta að fattast núna? Hvar týndust þessar ritgerðir? Og hvað ætli þær séu margar?

Nú gæti ég auðvitað snúið upp á mig og sagt að mér sé sosum slétt sama hvort þessi ritgerð er skráð eða ekki skráð, aðgengileg sem námsritgerð eða ekki o.s.fr. En mér er reyndar alls ekki sama. Mér finnst það helv. hart að hafa eytt eins misseris fullri vinnu í pródúkt sem er svo bara glutrað niður, einhvers staðar á stuttri gönguleið úr 101 í 107. Mér líður eins og lýst er í þessu ljóði!

Ég veit að ýmis vandkvæði voru á að brúka póst úr HÍ vorið 2007 því þegar ég var orðin mjög langeyg eftir útskriftarskírteini hringdi ég á skrifstofu Nemendaskrár? Heimspekideildar? Og var tjáð að ekki væri hægt að senda slíkt í pósti heldur yrði ég að sækja það sjálf eða fá einhvern í Reykjavík til að sækja fyrir mig skírteinið (guði sé lof að ég bý ekki á Raufarhöfn!). Skýringin var að það væri svo dýrt fyrir HÍ að senda ábyrgðarpóst. Ég reikna því fastlega með að MA ritgerðir hafi verið sendar (eða ekki sendar?) upp á Þjóðarbókhlöðu með öðrum hætti en Íslandspósti. Sem móðir pizzasendils til nokkurra ára hef ég svo sem ekkert á móti því. En öfugt við oss pizzapantendur höfum við MA-ritgerðarhöfundar 2007 ekkert fylgst með pródúktinu enda gert ráð fyrir að slíkt væri í öruggum höndum annarra.

Sem betur fer tók ég aukaeintak til að senda þeirri manneskju sem mér þótti líklegast að myndi lesa þessa ritgerð, hefði a.m.k. mikinn áhuga á honum Bjarna blessuðum. Sú manneskja hefur ekki verið innan vébanda HÍ. Svoleiðis að skrifin í kapp við myrkrið, vorið 2007, voru ekki algerlega út í bláinn og marklaus. Ég gleðst núna yfir þessu. Af því enginn, þ.m.t. leiðbeinendur mínir, matsnefnd, íslenskuskor eða skráningaraðili námsritgerða, tók eftir því að MA ritgerðir vorið 2007 voru aldrei skráðar á Gegni og rötuðu aldrei í hillur Þjóðarbókhlöðu, má ætla að sömu aðilum þyki nú ekki sérlega mikið til slíkra ritgerða koma. Þótt hver og ein sé a.m.k. eins misseris vinna.

Loks vil ég geta þess að enginn þeirra aðila sem ég hef haft samband við út af Ritgerðarhvarfinu mikla hefur látið svo lítið að biðjast afsökunar. Það hlýtur að stafa af því að hver og einn álítur sig einmitt ekki bera sök á þessari handvömm heldur einhvern annan. Væri áhugavert að sjá úttekt á sjálfsmatsskýrslum þessara þeirra aðila sem heyra undir HÍ … það hlýtur að vera gott að hafa svona yfirdrifið sjálfsöryggi, hvort sem um ræðir deild eða svið eða skrifstofu.

Ég ráðlegg eindregið þeim nemendum sem eru að skrifa MA ritgerðir við Hugvísindasvið að fylgjast með því hvort þær rata rétta leið og séu skráðar eða hvort þær lokist eingöngu inni á skrifstofum, jafnvel ofaní kassa!

Ummæli (13) | Óflokkað, Skólamál

Jósefína les í fornum ritum

að köttur heiti á latínu Musio en einnegin megi kalla köttinn Cattus, Muricepts, Murilegus og Muscio. Köttur er dýr sem er óvinur músa og hefur sjón svo skarpa að hún klýfur náttmyrkrið. Enn fremur hefur Jósefína lesið að:

“Kötturinn (musio) hlýtur nafn sitt af því að hann ræðst á mús (mus). Sumir segja að kötturinn heiti cattus, dregið af föngun (capture); aðrir að hann heiti cattat (sér) vegna þess að sjón hans er svo skörp (acute) að hún yfirvinnur myrkur.” Jósefína snaraði úr fræðum Ísidórs af Sevilla, sjá tilvísun neðst í þessari færslu. Jósefína ákvað að láta Bartolomaeus Anglicus, svigakarl á sömu síðu, lönd og leið því upptalning hans á eiginleikum kattar endaði svo ansi ógislega. 

(Sjá Miðalda-ókindafræði sem Jósefína fann á Vefnum. Sjá má formóður Jósefínu á myndinni úr Ókindafræðum Harley, frá sirka 1230-1240, þar sem hún hefur einmitt handsamað músina illu. Í Teiknibók Villard de Honnecourt, frá sirka 1230, eru myndir af köttum sem hafa komið sér vel í miðaldaútsaumi eða málun. Sjá nánar um Jósefínu á hennar eigin fésbókarsíðu; Jósefína Dietrich af facebook.com.)

Sést af þessari færslu hve bloggynja, eigandi Jósefínu, er hugmyndasnauð á þessum þriðjudagsmorgni, enda fór dagurinn í gær í að skoða fagrar handritamyndir - íslensk handrit sem leitað var að eru að sjálfsögðu ekki aðgengileg á Vefnum en fullt af útlendum mátti þar finna - og lesa reyfara.

Ummæli (0) | Óflokkað, Daglegt líf