Færslur frá 4. apríl 2010

4. apríl 2010

Samviskulaus einsog kötturinn

Fyrirsögnin vísar til markmiðs bloggynju. Í kröminni og volæðinu hef ég verið að horfa á frk. Jósefínu og sé betur og betur hvað það er eftirsóknarvert að breytast í kött (öfugt við Kisu kóngsdóttur - ævintýri sem ég hlustaði ótal sinnum á sem krakki). Liljur vallarins eru frekar óspennandi fyrirbæri, enda grænmeti, en kettir eru spennandi vitsmunaverur. Hefði mátt hafa þá með í nýjatestamentinu …

Jósefína er fullkomlega hamingjusöm alla daga! Hún hefur einstakt lag á hugrænni atferlismeðferð og hefur náð að temja sitt heimilisfólk á örfáum mánuðum svoleiðis að tvífætlingarnir (fiðurlausu) koma hlaupandi með mjólk og mat og opna glugga o.s.fr.; allt við fyrsta mjá. Gestkomandi frumburður hefur meira að segja verið svotil hljóðlaust taminn til að lyfta kettinum ef flugan (eina bráðin sem vitað er til að þessi veiðikisa nái) er of hátt uppi á vegg. Heimaverandi unglingurinn sópar flugum rösklega úr loftljósum við fyrsta æmt.

Skv. kattafræðiritum eru kettir algerlega lausir við samvisku og þ.a.l. samviskubit. (Reyndar hefur maðurinn bent á að enginn höfunda hafi verið köttur svo e.t.v. séu þessar staðhæfingar orðum auknar.) Jósefína lætur svo lítið að leyfa eigandanum einstaka sinnum að strjúka sér en í rauninni er hún aðallega að merkja eiganda sinn, með huggulegum kinnanúningi eða minna huggulegum núningi, svo aðrir kettir í hverfinu eigni sér hann ekki. Alveg eins og hún merkir pallinn, dyrastafinn, runnana og bílana síns fólks og nágranna; allt það sem hún telur SITT er merkt, af stakri eiginhagsmunagæslu.  Eigandinn tekur aftur á móti hegðun Jósefínu sem tákn um sérstaka blíðu og undirgefni, jafnvel nærgætni. Svona ala kettir upp sína (ófiðruðu) tvífætlinga.

Í huga Jósefínu snýst lífið um að hafa það sem þægilegast og láta stjana sem mest við sig. Sem tvífætlingur (ófiðraður) er ég aftur á móti alltaf að spá í hvað ég eigi skilið og hvaða kröfur ég má gera til annarra - og ekki hvað síst geri ég alltof miklar kröfur til mín. Í stað þess að liggja makindalega á sófa og láta hafa fyrir mér. Ég hugsa að þetta sé fyrst og fremst spurning um samvisku. Útbólgin samviska er fylgikvilli kvenmennsku (eða meyjarmerkis) og ekki vanþörf á að stinga á því kýlinu. Ég reikna nú ekki með að ná því takmarki að breytast í kött - og efast um að flugur séu góðar - en það má taka köttinn sér til fyrirmyndar í lífshamingjuleitinni.

P.s. Alveg er það dæmigert að fá málsháttinn “Sá er drengur sem við gengur” í páskaeggi! Aldrei mundi Jósefína gangast við nokkrum sköpuðum hlut. Og eini kvenkyns drengurinn sem ég man eftir í svipinn er húsfreyjan á Bergþórshvoli … tiltölulega óspennandi kona sem nagaði sennilega á sér neglurnar. Í augnablikinu er ég óvirkur naglanagari og kemur ekki til greina að ég brúki frú Bergþóru sem fyrirmynd. Ég ætla því að henda málshættinum strax.

Ummæli (3) | Óflokkað, Geðheilsa