Færslur frá 13. apríl 2010

13. apríl 2010

Skýrslan og heilsan

Nú þverbrýt ég eigin bloggreglur og blogga um “ástandið í þjóðfélaginu”, þ.e. skýrsluna frægu. Ég las slatta í þessari skýrslu í gær, á Vefnum því ég held að það sé miklu þægilegra en lesa hana á pappír. Þetta er svoleiðis plagg.

Þótt blá-pólitískir karlmenn heimilisins hefðu fyrirfram tuðað gegn skýrslunni, annars vegar með þeim rökum að málfar og framsetning yrði örugglega hörmung, hins vegar voru rökin að þetta hefði hvort sem er allt komið fram áður, tók ég ekki mark á þeim og skoðaði sjálf. Mér finnst framsetning, mál og stíll alveg til fyrirmyndar! Því fer fjarri að reynt sé að kasta ryki í augu lesenda með moðreyk og fimbulfambi.  Og þótt jafnvel tiltölulega sljóu fólki eins og mér hafi verið fullljóst að ýmsir, aðallega belgdir karlar í jakkafötum, væru ódó kom það á óvart hversu ótrúlega ósvífnir og siðblindir þessir gaurar voru, þegar grannt var skoðað.

Auðvitað vona ég að sem flestum “útrásarvíkingum” (þetta eru náttúrlega frekar “útrásarliðleskjur” enda litlir karlar sem fannst gaman að berast sem mest á, sjálfsagt út af innbyggðri minnimáttarkennd, nokkurs konar Bör Börssonar - gott ef þeir klíndu ekki vellyktandi sápu í hárið á sér) fái kost og logí á ríkisins kostnað, sem lengst. Sennilega verður dýrt að passa þá, svona álíka dýrt og að gæta barnaperra í fangelsum landsins.

Svo finnst mér að froðusnakkurinn forsetinn ætti að sjá sóma sinn í að segja af sér. Þótt Vigdís hafi gefið tóninn með endalausri þjóðrembu og alls kyns misskildum málfarsáróðri þá gekk Ólafur Ragnar svo miklu miklu lengra. Mætti halda að Ísland hefði verið land hinna einu sönnu Aría, a.m.k. hinna genetískt fullkomnu víkinga [!]*,  á útrásartímunum. Vonandi verður helv. erfitt fyrir karlinn að sitja áfram á Bessastöðum, nema hann bregði yfir sig búrku og þegi á mannamótum. Nema vanti efni í fleiri grínleikrit …

Eftir að hafa lesið athugasemdir Davíðs, sem voru eitthvað hátt í  10 síður af skítkasti út í mann og annan og síðan 1-2 síður af máttlausum athugasemdum og eftir að hafa hlustað (með kettinum) á umfjöllun RÚV um skýrsluna í gær hef ég tilkynnt manninum að nú eigi hann að segja upp mogganum sínum. Þótt mér finnist sunnudagskrossgátan skemmtileg er hún ekki þess virði að bera inn á heimilið snepil sem Bör stjórnar. Þótt ég hafi samúð með fólki sem glímir við geðræn vandamál er ekki þar með sagt að ég vilji kóa með slíku liði, nema það leiti sér hjálpar. Og þótt ég elski auðvitað manninn eru takmörk fyrir hvers konar drasli honum leyfist að spreða út um mitt heimili!

Af heilsu er það að frétta að ég hef ákveðið að byrja að eta pillur við kvíða. Er fullkomlega sátt við það enda ástandið óbærilegt og eitthvað verður að gera. Í tannlæknaheimsókn kom í ljós að verkir og helaumt tannhold hefur ekkert að gera með ástand tanna og tannholds. (Mig grunaði það en vildi síður fá slæma tannrótarbólgu bara af því ég hefði skrifað allt á kvíðareikninginn.) Skv. blóðprufu er ég stálhraust. En rúm 10 kg hafa hrunið af mér síðan í janúar og kílóarýrnun er enn í fullum gangi … reikna með að ég brenni eins og maraþonhlaupari þótt ég sitji meira eða minn kjur. Kvíði er afar grennandi kvilli. Og ég vil gjarna vera doldið kynþokkafull fyrir manninn og ekki hafa það að hann stingi sig á beinum.

Kvíðanámskeiðið er bókað og fastsett, byrjar í næstu viku. Við skulum vona að það gagnist sem mest. (Ég veit að sumt af þessu verður helv. vont og erfitt en með illu skal illt úr reka.) Ómetanleg ofsakvíðaæfing verðar tónleikar sem ég ætla að sækja á föstudagskvöldið. Svo ekki sé minnst á hve sálumessa er einmitt holl fyrir mig núna … allar þessar bænir um eilífan frið hljóta að draga langt.

* Hér tók ég út tilvísun í nasista af því ég get fallist á það að of langt sé gengið með að tengja þjóðrembu Íslendinga við þá illu menn. Aftur á móti er hluti hugmyndafræðinnar alls ekki ólíkur, hafi menn áhuga á því má benda á bók Arthúrs Björgvins Bollasonar, Ljóshærða villidýrið. Má einnig benda á forsíðumynd sérrits Mbl. frá 2006 þar sem Björgólfur Thor sést með firmamerki sitt í baksýn, sem er einmitt stílfærður Þórshamar, sjá http://this.is/nei/?p=72  En þetta kann náttúrlega allt að vera tóm tilviljun …

Ummæli (11) | Óflokkað, Geðheilsa, Daglegt líf