Færslur frá 18. apríl 2010

18. apríl 2010

Konur í sviðsljósinu

Inn á milli öskufallsfrétta hafa konur komist aðeins í fréttir, aldreiþessuvant. Þær Margrét Þórhildur og Vigdís áttu afmæli og var mikið gert úr því. Það er ansi ótrúlegt hve Vigdís virðist 20 árum yngri en Magga, er þó í rauninni 10 árum eldri, en má auðveldlega skýra með því að önnur er reyklaus en hin ekki … eða hvað?

Ég horfði ekki á afmælishúllumhæ Vigdísar en “smugkikkede” á eitthvað af afmælisveislum Margrétar Þórhildar, einkum til að horfa á kjólana. Svo hef ég náttúrlega flett myndasjóum Berlinske tidende samviskusamlega. Áðan fann ég loksins mynd af henni Dorrit okkar, aleinni, en klikkaði ekki í klæðaburði. Sjá mynd nr. 27 á http://www.berlingske.dk/billeder/billeder-festen-paa-fredensborg. Við myndirnar eru skýringar ef um er að ræða eitthvert þekkt fólk en engin skýring við Dorriti og virðist hún álíka hátt skrifuð og einhver semi-pöpull í veislunni. Kemur svo sem ekki á óvart.

Í sjónvarpinu sá ég Þorgerði Katrínu semí-segja-af-sér; hún hafði nú ekki döngun í sér til að segja af sér þingmennsku heldur fara í tímabundið frí, sennilega launað leyfi. Ekki að konan sé á flæðiskeri stödd því komið hefur fram að allar persónulega skuldir hennar og mannsins voru færðar í hlutafélagið þeirra sem nú er gjaldþrota. Og ekki þurfa þau að borga skuldirnar af því þetta er hlutafélag. En hugsanlega er þessi skrípaleikur að einhverju leyti fordæmisgefandi fyrir aðra í flokknum og þannig séð ekki bara skrípó.

Mér fannst miklu meira varið í ræðu Ingibjargar Sólrúnar sem axlaði siðferðilega ábyrgð á sínum hlut, óþvinguð og að því er virtist af einlægni.

Já, konur hafa komið nokkuð við sögu í fjölmiðlum undanfarið; Ýmist til að halda upp á að vera lifandi eða hverfa úr pólitík, hvor með sínum hætti.

Verður áhugavert að fylgjast með hvað karlarnir geta …

Ummæli (2) | Óflokkað, Daglegt líf