Færslur frá 23. apríl 2010

23. apríl 2010

Jarðlífið og lyfjafóbían mikla

Síðasta vetrardag hringdi hingað afar skemmtilegur maður sem ég hef ekki séð í áratugi en fylgst með í fjarlægð. Hann sagði margt athyglisvert og skemmtilegt og spurði talsvert út í líðan mína. Áhugaverðum uppástungum eins og ég væri of gáfuð eða kannski skáld, sem gæti valdið djúpu þunglyndi, andmælti ég auðvitað staðfastlega enda hefur mér ekki sýnst að það fari neitt sérstaklega saman. Mýtan um geðveika listamanninn er bara mýta. (Þótt auðvitað hafi sumir listamenn verið geðveikir alveg eins og sumt fólk, almennt, er geðveikt.)

Áhugaverðastar þóttu mér samt ábendingar um stöðu mannsins í alheiminum - í kosmosinu. Viðmælandi minn tók mér vara fyrir að kála mér (vitandi eflaust að slíkt kemur fyrir margan þunglyndissjúkling heimsins) því svoleiðis viðskilnaður við jarðlífið væri afar slæmur og gæti valdið því að sálin / vitundin endurfæddist mjög neðarlega í allífinu næst. Hann taldi að sjálfsvíg leiddi jafnvel til þess að maður endurfæddist sem gras! Eftir að hafa hamrað nokkuð oft á því að ég væri nú ekki að plana sjálfsvíg … því ekki vildi ég verða gras næst … varð viðmælandinn enn svartsýnni og gerði því jafnvel skóna að gras væri of gott - kannski endurfæddist maður sem grjót! Við þessu var ekkert að segja nema “kannski bara aska?”

Þetta eru nú heldur skemmtilegri hugmyndir en talibanasporatrúboðið, verð ég að segja. Veit ekki hversu mikið vægi þær hafa sem fyrirbyggjandi aðgerðir gegn sjálfsvígum þunglyndra en mætti kannski prófa að hafa þær í huga?

Sem stendur fæ ég ekki oft sjálfsvígshugsanir - er á meðan er - en þær poppa náttúrlega alltaf upp þegar hallar undir fæti. Skást finnst mér að líta á þær eins og aðrar vitlausar hugmyndir sem poppa upp við sömu aðstæður, frá því að heimurinn farist til þess að flest mitt fólk sé í yfirvofandi hættu að deyja í bílslysi. Svo ekki sé minnst á vissuna um að ég sjálf sé síkretlí  dauðvona, úr einhverjum hryllilegum sjúkdómi. Þessi þankagangur er bara hluti af sjúkdómnum (skrifast jafnt á þunglyndi og kvíða) og best að gútera hann bara sem sjúkdómseinkenni … en alls ekki skynsamlega hugsun sem leiðir til aðgerða. Best að reyna að láta hugsanirnar fljúga í gegnum hugann, sem áreynslulausast, og alls ekki berjast gegn þeim því það gerir þær bara öflugri. Nýjasta hugsunin er, þökk sé klappstýrunni á Bessastöðum, að Katla muni gjósa og eyða landinu - til vara koma í veg fyrir að ég komist til Krítar eða frá, í sumar.

Mér finnst ástæða til að taka enn einu sinni upp lyfjafóbíu þá sem fólk hefur í garð geðlyfja, svefnlyfja og róandi lyfja. Af hverju ætli menn haldi að þessi lyf hafi verið fundin upp og séu notuð?  Til að eitra fyrir fólki og koma því svo inn á Vog? Lyfin eru náttúrlega notuð af því þau virka, að vísu ekki nærri alltaf en oft.

Af hverju finnst fólki að það gildi annað um svona lyf en önnur, t.d. sýklalyf eða krabbameinslyf? Nú eru krabbameinslyf baneitruð, drepa frumur í massavís og hafa ógeðslegar aukaverkanir. Er þá ekki brjálæðislega óhollt að taka þau? Ef við snúum okkur að nauðsyn og segjum sem svo að krabbameinslyf séu nauðsynleg til að lækna lífshættulegan sjúkdóms - eru þá geðlyf ekki nauðsynleg til að lækna lífshættulegan sjúkdóm? Eru hjályf á borð við róandi lyf og svefnlyf allt í lagi til að slá á ömurlega líðan krabbameinssjúklinga (m.a. vegna lyfjagjafar) en ekki geðsjúklinga?

Er einhver vitglóra í því að hakka í sig fæðubótarefnum, vítamínum o.þ.h. og drekka valeríana-te eða grænt te eða róandi bangsakarlrembute (sem á að virka á miðtaugakerfið) en vera á móti því að fólk noti sér heilabótarefni (sem eiga að virka á miðtaugakerfið) af því þau eru lyfseðilsskyld?

Einu sinni var sagt að fyllibyttur kæmu óorði á brennivín. Pilludópistar koma óorði á bensó-lyf, en hversu stór hluti þeirra sem taka slík lyf að læknisráði missa tökin og verða fíklar? Mér þætti gaman að sjá svoleiðis tölur, bornar saman við prósentutölur alkóhólista í hópi þeirra sem neyta áfengis. Mér þætti líka gaman að vita hversu stór hópur miðaldra kvenna kemur inn á Vog eingöngu vegna lyfseðilsskyldra lyfja miðað við stærð hóps miðaldra kvenna sem hefur legið í sjerríi og púrtvíni og öðrum eðlum sortum, heima hjá sér með gardínurnar dregnar fyrir, í áravís.

Áróðurinn gegn bensó-lyfjum við kvíða er sambærilegur við áróður um að enginn skyldi setjast undir stýri því alltaf er eitthvað um að fólk keyri á! Eða jafnvel út af …

Ummæli (0) | Óflokkað, Geðheilsa, Daglegt líf