Færslur frá 25. apríl 2010

25. apríl 2010

Hannyrðir, garður, íslenskukennsla o.s.fr.

Fyrst: Dagurinn í gær var verulega ömurlegur!

En í dag ákvað ég að láta umhverfið ekki trufla mig og halda mínu striki sem best ég gæti og sófar hefur það tekist prýðilega. Náði að vinna þónokkuð í vefnum um Egil Skallagrímsson í allsherjar friði og ró í morgun og hef að mestu lokið við að hreinsa garðinn. (Karlfólk sýndi loksins af sér smá dug og fjarlægði ruslið sem ég var búin að safna saman núna áðan.) Ég tíndi meira að segja upp hundaskítshrúgurnar í kringum snúrurnar mínar! Sjái ég hund gera þarfir sínar í garðinum mínum er ég ákveðin í að hella óblönduðu Þrifi yfir eigandann, jafnvel þótt hann kunni að vera ellilífeyrisþegi.

Jósefína snöflaði um garðinn meðan á lokaræstingum stóð - mér sýndist hún nú aðallega einbeita sér að því að stara Míu greyið (nágrannakisu) niður. Mía hefur brugðið á það ráð að leita skjóls undir pallinum en Fr. Dietrich er of dönnuð til að skríða undir palla. Sama Fr. Dietrich hefur ort talsvert upp á síðkastið, þ.á.m. ansi fína vísu um klappstýruna á Bessastöðum, sem sjá má á fésbókarsíðu dýrsins.

Varðandi vefnaðinn þá er ég að vinna upp allar mínar vefsíður; mun skipta Vefnum í tvo parta, annars vegar kennsluefni og hins vegar persónulega síðu, sem verður hýst annars staðar o.s.fr. Kennsluefnið þarf að setja miklu skipulegar upp og hanna auðratanlega skel yfir, með leitarmöguleika. Sömuleiðis þarf loksins skel / heimasíðu á this.is svæðið mitt, sem hingað til hefur einungis aktað sem geymsla. Þetta er ofboðsleg vinna en ég hef hálft ár til að ljúka henni. Það borgar sig ekki að una við þessa stafrænu handavinnu lengi í einu, þá fer maður að gera mistök. Sumar síðurnar eru tíu ára gamlar eða eldri og verður að beita smekkvísi til að ákveða hversu mikið skuli uppfæra. Svo eru það nemendavefirnir sem ég á ekki höfundarétt að nema í félagi við aðra … helstu breytingar þar eru að taka út persónulegar upplýsingar um krakkana sem nú eru löngu orðnir fullorðið fólk og kæra sig sennilega lítið um að unglingahúmor í eigin lýsingum standi á Vefnum.

Óstafrænu hannyrðirnar ganga líka vel, sérstaklega eftir að ég henti peysunni sem ég var næstum búin með. Ég sá fyrir mér að ég mundi aldrei ganga í þessari peysu og hönnunin hefði verið mistök. Svo hún fór í ruslið. Aftur á móti gengur prýðilega að sauma Kúna Meskalínu og í baghóveðet mallar góð hugmynd að stólsessum, sem krefst reyndar talsverðs stafræns undirbúnings. Í þetta sinn ætla ég þó ekki að sauma út með gamla krosssauminum heldur gera tilraunir með varplegg, blómstursaum og jafnvel refilsaum. Sennilega hefst þessi vinna ekki fyrr en í sumar því kýrin Meskalína er ákaflega digur og seinsaumuð.

Eins og komið hefur fram held ég friðinn á heimilinu með því að lesa moggann mannsins (við Jósefína látum þetta pappírsdrasl ganga yfir okkur ganga). Í dag var annars vegar skemmtilegt viðtal við Sölva Sveinsson, einstaklega jákvæðan og hugmyndaríkan. Hins vegar var málfarshorn (sem ég man ekki hvað heitir) hvar Baldur Hafstað lýsti því í upphafi yfir að hann ætlaði ekki að nöldra yfir einstöku orðalagi en notaði svo allan pistilinn til að nöldra akkúrat yfir einstöku orðalagi. T.d. notkun þolfalls (”að vinna með heilsuna”, “að vinna með börn” o.þ.h.) - hann virtist alls ekki gera sér grein fyrir mismunandi merkingu þolfalls og þágufalls eftir “með”; “að vera ekki að sjá Snæfellsjökul”, sem er tímabundið orðalag eins og svo margt slangur og auk þess aðalbrandarinn í sjónvarpsauglýsingu o.fl. umkvörtunarefni. Í þessum lélega snepli mannsins mátti sumsé sjá báðar hliðar íslenskukennslu; (e.t.v. bláeyga) bjartsýni og síðan kverúlantaútgáfuna. Sem óvirkur íslenskukennari hafði ég gaman af hvoru tveggja. Finnst bláeyga bjartsýnin þó skemmtilegri og sennilega árangursríkari. [Myndin er hvorki af Sölva né Baldri.]

Í kvöld taka við dýrðir sjónvarpsins: Lokaþáttur Forbrydelsen og danska eftirlíkingin af “De fortvivlede husmødre”, nefnilega Livet på Lærkevej, sem er sýnt í sænska sjónvarpinu. Mér finnst einmitt mjög þægilegt að horfa á danska þætti í sænska sjónvarpinu og sænska (t.d. Wallander) í danska sjónvarpinu. Textinn dugir akkúrat til að ég skilji talið.

Sumsé: Þetta verður góður dagur en það er líka ferlega mikið mér sjálfri að þakka!

Ummæli (4) | Óflokkað, Geðheilsa, Skólamál, Daglegt líf