Færslur aprílmánaðar 2010

9. apríl 2010

Bækurnar

Guði sé lof fyrir bækur og bókasafn í hundrað metra fjarlægð! Ég get sem betur ferið lesið og hef sökkt mér niður í allrahanda - hver bók linkar í aðra. T.a.m. var ég (rétt eina ferðina) að skoða bækur Frank Ponzi og úr þeim lá leiðin náttúrlega í Sögu Íslendinga í Vesturheimi.

Þaðan kom áhugi á Laxdals-slektinu (Grími Jónssyni Laxdal og afkomendum) og á Vefnum fann ég ættartölu og upplýsingar um það fólk (ásamt tilvísunum í bækur - sjá sirka miðja síðuna http://genforum.genealogy.com/iceland/messages/1629.html). Ég sá að út af Grími eru komnir bæði stærðfræðingur og geðlæknir, sem gladdi mig ósegjanlega :) Enn merkilegra þótti mér samt að sjá að inngift í ættina var “heimilishagfræðingur og húsfreyja”.

Mágur min bóksalinn datt hér inn í vikunni og sagði mér frá Minningum Guðrúnar Borgfjörð (útg. 1947 en lokið 1926) af því ég er svo hrifin af Þegar kóngur kom. Augljóslega hefur Helgi Ingólfsson byggt stóran hluta af sinni bók á Minningum Guðrúnar. Að auki standa hennar skrif hans engan veginn að baki og eru stórskemmtileg! Þetta hefur verið afar merkileg kona, vel að sér um flest og vel ritfær. Sé hún sett í samhengi við Þegar kóngur kom myndi hún vera dóttir lögreglumannsins.

Til hliðar sést mynd af Guðrúnu. Sjálf segir hún að sér hafi verið sagt strax í barnæsku hve ljót hún væri. Það sveið henni sárt. Auk þess var hún stór - stærri en presturinn sem fermdi hana. Mér finnst þessi svipsterka kona alls ekki ljót en hún hefur náttúrlega ekki fallið að skinkuútliti síns tíma … sennilega ekki heldur nútímans.

Ég hvet alla aðdáendur Þegar kóngur kom til að reyna að æxla sér Minningar Guðrúnar Borgfjörð. Ekki spillir að bókin er skreytt blómabekkjum Sigurðar málara.

Stór hluti af lesefninu mínu er sem fyrr reyfarar. Ennfremur horfum við kötturinn á svona 2 - 5 morð á kvöldi. Svoleiðis að ég get skipulagt hið fullkomna morð.

Dagurinn í dag og í gær virðast skárri en flestir dagar undanfarið. Ég geri mér samt ekki neinar sérstakar vonir strax en þetta bendir til að slæma kastinu undanfarnar vikur sé kannski aðeins að linna. Sem er eins gott því ég sá ekki betur en ég væri aftur orðin hæf í að stunda nám í Árnagarði, svo skoðanalaus og koldofin var ég orðin. Hefði ábyggilega látið mig hafa það að láta lesa fyrir mig í tímum …  og ekki hugsað heila hugsun sjálf.

Nei, nú er ég orðin nógu frísk til að ræsta húsið (hvað ég hef gert) og gæti hugsanlega spilað á mitt pjanóforte í dag (í fyrsta sinn í meir en viku). Hvort tveggja er frábært batamerki. Stefni að því að verða heimilishagfræðingur og húsfreyja!

   

Ummæli (3) | Óflokkað, Geðheilsa, Daglegt líf

7. apríl 2010

Útlaginn

Nei, fyrirsögnin á ekki við mig …  Ég er miklu frekar innlagi þessa dagana, hef mig varla úr húsi. Hengslaðist þó í bókasafnið í gær og æxlaði mér fjölda bók um allt mögulegt; þegar maður er lasinn er gott að liggja í bókum - í rauninni er eini plúsinn við kvíða, versus þunglyndi, sá að meðvitundin er nóg til að halda þræði í bók. Þannig má sleppa undan eigin kvöl stund og stund. Á hinn bóginn eru kvíðakvöldin alger hryllingur og afskaplega erfitt að sofna meðan þunglyndi fylgir ævintýralegur doði og þá skást líðanin uppi í rúmi. Í gærkvöldi leið mér eins og himnarnir væru að hrynja og mér duttu í hug þúsund afbrigði af slysum sem gætu hent mína nánustu; munnurinn logaði af sársauka og ég ímyndaði mér að fljótlega myndu tennurnar detta úr sínum holum. Í morgun var þetta allt horfið svo “burning mouth syndrom” verður að skrifast á kvíðareikninginn en ekki raunverulegan líffræðilegan sjúkdóm (þótt ég telji kvíða til mjög raunverulegs líffræðilegs sjúkdóms). Ég hangi í voninni um að bráðum láti kvíðahelvítið undan síga, af sjálfu sér.

Í gær undi ég talsverða stund við að klára að hreinsa bakgrunn af ljósmynd af Útlaganum hans Einars Jónssonar. Það er nú meira hvað sú stytta er nýrómantísk! Og maður spyr sig: Hvar er kötturinn?

Það sem ég hef aldrei áður tekið eftir er að styttan sýnir Neanderdalsmann. (Sjá litlu andlitsmyndina hér til hliðar.) Ekki að það sé neitt verra; ég hef hugsað mér að punta forsíðu á kennsluefni um Sjálfstætt fólk með þessari mynd og að mínu viti er Bjartur Neanderdalsmaður. Sjálfsagt hefur HKL álitið hið sama, sé það rétt að þessi umrædda stytta sé ein fyrirmynda hans. Og kannski mótast viðhorfið til kattarins í Sj.f. af fjarveru hans í styttunni?

Jósefína er ekki hress með túlkun EJ á útilegumanninum! Aftur á móti las bloggynja þá ágætu barnabók Dagbók drápskattar í gær (tók 5 mínútur). Ég hugsa að Jósefína sé sammála þeirri bók.

Ummæli (2) | Óflokkað, Geðheilsa

4. apríl 2010

Samviskulaus einsog kötturinn

Fyrirsögnin vísar til markmiðs bloggynju. Í kröminni og volæðinu hef ég verið að horfa á frk. Jósefínu og sé betur og betur hvað það er eftirsóknarvert að breytast í kött (öfugt við Kisu kóngsdóttur - ævintýri sem ég hlustaði ótal sinnum á sem krakki). Liljur vallarins eru frekar óspennandi fyrirbæri, enda grænmeti, en kettir eru spennandi vitsmunaverur. Hefði mátt hafa þá með í nýjatestamentinu …

Jósefína er fullkomlega hamingjusöm alla daga! Hún hefur einstakt lag á hugrænni atferlismeðferð og hefur náð að temja sitt heimilisfólk á örfáum mánuðum svoleiðis að tvífætlingarnir (fiðurlausu) koma hlaupandi með mjólk og mat og opna glugga o.s.fr.; allt við fyrsta mjá. Gestkomandi frumburður hefur meira að segja verið svotil hljóðlaust taminn til að lyfta kettinum ef flugan (eina bráðin sem vitað er til að þessi veiðikisa nái) er of hátt uppi á vegg. Heimaverandi unglingurinn sópar flugum rösklega úr loftljósum við fyrsta æmt.

Skv. kattafræðiritum eru kettir algerlega lausir við samvisku og þ.a.l. samviskubit. (Reyndar hefur maðurinn bent á að enginn höfunda hafi verið köttur svo e.t.v. séu þessar staðhæfingar orðum auknar.) Jósefína lætur svo lítið að leyfa eigandanum einstaka sinnum að strjúka sér en í rauninni er hún aðallega að merkja eiganda sinn, með huggulegum kinnanúningi eða minna huggulegum núningi, svo aðrir kettir í hverfinu eigni sér hann ekki. Alveg eins og hún merkir pallinn, dyrastafinn, runnana og bílana síns fólks og nágranna; allt það sem hún telur SITT er merkt, af stakri eiginhagsmunagæslu.  Eigandinn tekur aftur á móti hegðun Jósefínu sem tákn um sérstaka blíðu og undirgefni, jafnvel nærgætni. Svona ala kettir upp sína (ófiðruðu) tvífætlinga.

Í huga Jósefínu snýst lífið um að hafa það sem þægilegast og láta stjana sem mest við sig. Sem tvífætlingur (ófiðraður) er ég aftur á móti alltaf að spá í hvað ég eigi skilið og hvaða kröfur ég má gera til annarra - og ekki hvað síst geri ég alltof miklar kröfur til mín. Í stað þess að liggja makindalega á sófa og láta hafa fyrir mér. Ég hugsa að þetta sé fyrst og fremst spurning um samvisku. Útbólgin samviska er fylgikvilli kvenmennsku (eða meyjarmerkis) og ekki vanþörf á að stinga á því kýlinu. Ég reikna nú ekki með að ná því takmarki að breytast í kött - og efast um að flugur séu góðar - en það má taka köttinn sér til fyrirmyndar í lífshamingjuleitinni.

P.s. Alveg er það dæmigert að fá málsháttinn “Sá er drengur sem við gengur” í páskaeggi! Aldrei mundi Jósefína gangast við nokkrum sköpuðum hlut. Og eini kvenkyns drengurinn sem ég man eftir í svipinn er húsfreyjan á Bergþórshvoli … tiltölulega óspennandi kona sem nagaði sennilega á sér neglurnar. Í augnablikinu er ég óvirkur naglanagari og kemur ekki til greina að ég brúki frú Bergþóru sem fyrirmynd. Ég ætla því að henda málshættinum strax.

Ummæli (3) | Óflokkað, Geðheilsa

2. apríl 2010

Lááángur föstudagur

Eins og mig grunaði gat ég ekki farið af bæ þrjá daga í röð og sit því heima, með sofandi unglingi og ketti, meðan maðurinn og frumburðurinn frílysta sig í Tungunum (annar hleypur píslarhlaup og hinn sér um myndatöku og heitt te) og svo í Hveragerði. Mér leist engan veginn á að fara með, í morgun.

Laugarvatnsferð (stórfamilíuhittingur) í gær var fín og lukkaðist ljómandi vel. Eins og mig grunaði var ég ekki tæk í spurningakeppnislið en hjálpaði hinum þess meir … við misjafnar undirtektir. Liðið sem ég hjálpaði minnst vann keppnina. Undarlegt!

Á Lv. fletti ég aðeins hamingjubókinni þeirri sem Karl Ágúst og Ásdís Olsen þýddu. Hún virtist ekki nærri eins vitlaus og ég hélt (ákveðin neikvæðni er fylgifiskur kvíða og þunglyndis). Kannski les ég hana einhvern tíma. Akkúrat núna er ég í miðri Hafmeyjunni sem svíkur engan! Kannski er betra að halda sig við morðin og láta hamingjuna eiga sig, svona í miðri dýfu.

Mér líður ósköp svipað og undanfarið. Ógleði og skjálfti er orðinn daglegur fylgifiskur. Sem og hjartsláttur í takt við kattarhjartað, á stundum. Fjölskyldan er sammála um að það sé ótvírætt sjúkdómseinkenni að geta bara borðað fimm konfektmola í röð og svo ekki meir! Enda hrynja af mér kílóin … kvíði er afar grennandi.

Einn dagur í einu er góð lífspeki. Það er aftur á móti hroðalega leiðinlegt að lifa slíku lífi. Ég myndi gjarna vilja skipta yfir í eitthvað annað, væri það í boði. Mér finnst ömurleg tilhugsun að vera kúplað út af vinnumarkaði og úr venjulegu daglegu lífi út þetta árið. Auðvitað veit ég að það er út í hött að spegla sig í vinnu og afköstum; að fólk á að meta líf sitt út frá öðru. Hins vegar er miklu einfaldara að segja þetta heldur en prófa á eigin skrokki og sál. Það tekur mig ábyggilega einhverja mánuði í viðbót að sættast við að lifa einn dag í einu með fáeinum saumsporum, prjóni eða lestri. Ég stend mig ekki á neinu sviði, ekki einu sinni í húsverkum því þau eru mér oft um megn. Það að kúvenda lífskoðun og samþykkja að lífshamingjan er ekki fólgin í að standa sig er helvíti töff! (Þeir dyggu lesendanna sem hafa þurft að gjörbreyta skoðun sinni á lífinu kannast eflaust við þetta en aðrir sennilega ekki.) Það að þurfa að lifa endurskoðuðu lífi vegna sjúkdóms sem ekki sést og er helv. óskiljanlegur er líka ansi töff. Sjálfsagt næ ég þessu á endanum en ferlið er langt.

Ein breyting á lífspeki sem ég þurfti að gera fyrir löngu var að varpa “ekki bera sorgir sínar á torg” fyrir róða. Nú er svo komið að ég ber þær ekki á torg heldur á blogg. Sjálfsagt þykir einhverjum þessi bloggburður ekki við hæfi. Það verður að hafa það.

Planið í dag? Ja, mér líður væntanlega skár eftir þessa bloggfærslu. Hafmeyjan bíður og svo setti ég heimsókn á seinniparts-planið. Um að gera að skríða ekki upp í rúm af því ég sef djöfull illa á nóttunni og uppgjöf á daginn gerir næturnar verri.

Ummæli (6) | Óflokkað, Geðheilsa