Færslur frá 4. maí 2010

4. maí 2010

this.is/harpa

Ég var orðin svo leið á andlausu kennsluefnispúli og langaði í eitthvað skapandi … svo ég eyddi hellings tíma í að hanna skel fyrir persónulega heimasíðu mína. Sjá má afraksturinn á this.is/harpa og ég tek fram að ég reyndi að vera eins feminín í hönnuninni og ég gat. Byrjaði með grunnsíðu, sótta af netinu, en endaði á að skrifa megnið í Notepad og hefði sennilega verið fljótari að nota bara Netscape og Notepad eins og venjulega.

En þetta verður sumsé staðurinn fyrir áhugamál, s.s. hannyrðir (stafrænar og unnar á höndum), myndir og alls kyns persónulegt stöff í framtíðinni - skil einungis kennsluefnið eftir á fva-servernum. Að greiða úr og uppfæra fjölda vefja er hellings vinna og ég reikna ekki með að því verki ljúki fyrr en einhvern tíma seint í haust.

Ummæli (2) | Óflokkað, Daglegt líf

Vinnan (verkefnið styrkta)

Ég var að klára að endurvefa Njálu-síðu úr “bits & pieces”, sjá http://www.fva.is/harpa/njala/njalmenu.htm.  Hefur tekið viku! Sama má segja um uppfærslu á Agli í Sýberíu en Laxdæla var minna mál.

Svo er Laxness-stöffið meira og minna endurskipulagt og jafnvel endursamið … Þeir sem ætla að sjá Íslandsklukkuna ættu að renna yfir þann vef, sér til upprifjunar. Má meira að segja taka próf ;)

 Annað er sosum ekki títt - lífið lufsast áfram í hægagangi og svona frekar kalt og dimmt umhverfis mig. Rakst þó á þann óvænta plús við tóbaksneyslu að Stanley karlinn (sjá upptalningu á ferðasögum í síðustu færslu) telur að holdsveiki í Færeyjum hafi stórminnkað með aukinni tóbaksnotkun! Er hugsanlegt að yfirfæra þetta á “ástandið í þjóðfélaginu í dag”, þ.e.a.s. að brúkun tóbaks og sjaldgæfi holdsveiki hangi enn saman?

Ummæli (0) | Óflokkað, Skólamál, Daglegt líf