Færslur frá 23. júlí 2010

23. júlí 2010

Glansmyndir fésbókar

Ég hef undanfarið legið dálítið yfir fésbók / snjáldurskruddu / feisbúkk / facebook og reynt að átta mig á fyrirbærinu. Þetta er ótrúlega yfirborðskenndur samastaður enda einungis mögulegar örstuttar færslur (statusar) og megnið af lesendum þeirra nennir í hæsta lagi að smella á “Like” (er með enskt viðmót uppi við sem af dularfullum ástæðum breytist stundum í danskt), gæti trúað að þetta héti “Líkar” á ástkæra ylhýra.

Það sem ég tek mest eftir er hve notendum er umhugað um að sýna einhvers konar glansmyndir af sér sjálfum. Þær síður sem ég skoða eru flest síður fólks á langbesta aldri, þ.e.a.s. á mínum aldri + / - 10 ár. En einnig hef ég skoðað soldið unglingasíður (af óþolandi eðlislægri hnýsni, að mati sonar míns) og sé ekki betur en glansmyndasýningar séu jafn-algengar þar, þótt þær séu í svolítið öðrum stíl.

Hér er rétt að stinga því inní að mikill meirihluti fólks virðist hafa síðurnar sínar galopnar svoleiðis að maður þarf ekki að “vingast” við viðkomandi til að skoða hvað hann skrifar eða hvaða komment eru skrifuð við færslurnar. Og þótt fólk hafi læstar síður dugir að finna eitt komment ólæsts á læsta færslu til að komast inn á þá færslu og skoða öll komment þar. Þannig að læsing á feisbúkk er frekar léleg vörn nema náttúrlega að enginn kommenti nokkru sinni á nokkra færslu hins læsta. Þ.a.l. er fésbókin draumastaður fyrir persónunjósnir, þ.e.a.s. til að snuðra uppi fjölskylduhagi, fjölskyldumyndir o.þ.h. (Vá! Þrjár skammstafanir í einni málsgrein!)

Í rauninni er alveg eins gott að búa sér til linkasíðu í það fésbókarfólk sem maður skoðar eins og að “vingast fésbókarlega” við það. Þessu nenni ég þó alls ekki enda nær meint eðlislæg hnýsnin ekki nema sjaldan yfirhöndinni í mínu sálarlífi. Og það er ekki eins og fólk sé að skrifa neitt merkilegt; eins og ég nefndi í upphafi er samastaðurinn hjal og yfirborðsmennska að stærstum hluta. Svo ég held mig áfram við fámennt fésbókarvinasafn sem dekkar fólkið sem ég nenni í rauninni að fylgjast með - eða er neydd til hafa: Annar sonurinn tók það óstinnt upp þegar ég grisjaði enn betur í “vinagrúppunni” og sagði: “Maður dömpar ekki sínum eigin syni!” - sem kann að vera PC rétt ;)

En að yfirborðskenndu glansmyndinni: Flestir skrifa “status” á borð við: “Er í vinnunni en samt er sól” eða “Hengdi út á snúrur” eða “Fór í ferðalag og tók myndir” eða “Klippti hundinn” (nó offens!) eða “Gaman að hitta ykkur um helgina” eða “sauð kæsta skötu í kvöldmatinn” … o.s.fr.

Ef fólk er ekki algerlega skoðanalausir englar gætir það þess samt að segja nú ekkert sem ekki er fullkomlega PC (pólitískur tísku-réttrúnaður) og linkar í staðinn í hugsanlega umdeilda frétt, með athugasemdinni “Þetta er athyglisvert!” eða “Ótrúlegt en satt!” eða einverju meinleysishjali sem alls ekki getur kallast að hafa skoðun á fyrirbærinu. Annar möguleiki til að halda hreinleikanum og glansmyndinni er að taka þátt (join) fésbókargrúppu með boðskap, t.d. “Bönnum lausagöngu katta” eða “Fyrir þá sem vilja EKKI banna lausagöngu katta” eða “Styðjum konuna sem vill hafa leiðsöguhund í blokkinni sinni” en gæta þess svo gríðarlega vandlega að tjá sig ekkert inni á grúppunni - þá gæti fallið á fésbókarmyndarsilfrið. Flestir skrá sig samt í pólitískt réttar grúppur eins og “Afmælisgjöf til Ómars” eða “Árbæjarsafn” eða “Prjóna.net” o.s.fr., sumsé eitthvað sem höfðar til rómantískra meintra náttúruelskenda á mölinni.

Það eina tíkarlega sem notendur virðast óátalið geta leyft sér er að finna að málfari annarra eða hneykslast á einhverjum málfarsvillum sem einhver skrifaði annars staðar eða fésbókarhafi heyrði einhvers staðar. Að öðru leyti gildir “við höldum okkur utan við þras og þrætur og tökum ekki afstöðu til opinberra mála”-mórallinn og menn linka og segja “Athyglisvert” eins og velþenkjandi englar. Ég bíð eftir að sjá linkað í morðfrétt með yfirlýsingu fésbókarhafa um að fréttin sé “Athyglisverð”.

Afar fátítt virðist vera að menn gangi úr grúppum, sé þó að einhverjir eru núna að yfirgefa “Ísland ekki í ESB” af því stofnandinn ku hafa spreyjað lásaspreyi í augu tveggja ára nágrannabarns síns í Garðabænum. Þeir eru samt afar fáir enda vegur kannski þyngra að það er PC  að vera skráður í grúppu með þessu nafni, gefur skráðum hinn náttúruvæna, græna sjálfstæðisblæ. Sérstaklega ef þeir passa sig á að þegja stafrænt.

Eins og dyggir blogglesendur mínir sjá náttúrlega í hendi sér þá hentar fordómafullri manneskju eins og mér ekkert sérstaklega vel að brúka fésbók til tjáningar, eingöngu. Ég get náttúrlega reynt að læra að setja mig í fésbókarstellingu einu sinni á dag, svona svipað og maður reynir að sýna sína bestu fordómalausu og jákvæðu hlið á sunnudags-AA-fundi. Þetta er líklega góð æfing í jákvæðni. Þó verð ég að viðurkenna að mér finnast færslur sem fara eilítið út af engilssporinu miklu skemmtilegri … kannski af því ég þekki svolítið af englakórnum og sé þess vegna að fésbókarhliðin þeirra er tiltölulega langt frá eðlilegum persónuleika.

Svoleiðis að ég er að hugsa um að hverfa úr bloggsumarfríi, setja í AA-gírinn svona einu sinni á dag og fésbókast en halda annars áfram að takmarka mína “vinaeign” við þá sem mig langar í alvöru til að fylgjast með og kíkja á hina í gríni, þegar hnýsnin grípur mig.

Ummæli (5) | Óflokkað, Daglegt líf