Færslur frá 7. ágúst 2010

7. ágúst 2010

Bókafíkn

Ég er fíkill, ég veit það! Sumri fíkn hefur mér tekist að vinna á, annarri ekki og ein er sú sem ég læt mér í léttu rúmi liggja; það er bókafíknin! (Hugsa að ég gangi aldrei í LA - Liberaholic Anonymous, séu þau sjálfshjálparsamtök til …)

Ég er sumsé alin upp með “lykil að bókasafninu”, frá blautu barnsbeini. Þ.a.l. les ég allt sem kjafti kemur og er fljót að því (sem kom sér óneitanlega vel á námsárunum). Þótt ég sé auðvitað líka internetfíkill hefur mér tekist merkilega vel að seðja bókafíknina jafnframt. Og síðarnefnda fíknin blossaði náttúrlega upp í mánaðarlangri dvöl okkar hjóna á Krít nú í sumar enda fátt um að vera í litlu þorpunum sem við dvöldum í og við misstum okkur alveg í bækurnar. Maðurinn las krískar rímur og Kazantzakis, sem hann endursagði mér í sólbaðinu, en ég las um morð á morð ofan, fyrir utan sagnfræði um andspyrnu Krítverja í seinni heimstyrjöldinni. Sá fróðleikur var miklu ógeðslegri en morðlitteratúrinn svo ég hætti því fljótlega.

Síðan við komum heim hef ég verið lúsiðinn kúnni á bókasafninu og hef einnig dottið í að kaupa bækur á hundraðkall, á útsölu bókasafnsins - bækur sem ég hef í rauninni ekkert pláss fyrir. Eiginlega líður mér ekki vel nema ég hafi svona 4 - 6 ólesnar bækur í hillunni; Kannski ég ætti að útbúa bókabar í stofunni? Hafandi verið meira og minna höll úr heimi undanfarin ár get ég lesið aftur og aftur sömu bækurnar … reyndar tolla þær núna í minni komandi með betri bata.

Í augnablikinu er ég með þessar bækur í láni:

Nýja Ísland og Annað Ísland (vesturfarabækur eftir Guðjón Arngrímsson, enn ólesnar);

Sporaslóð eftir Braga Þórðarson (neftóbaksfræði um Akranes sem ég fattaði að ég hef lesið áður og man því miður alltof vel eftir bókinni);

Truntusól eftir Sigurð Guðjónsson (hef lesið hana áður en lesturinn strokaðist út og mér fannst mjög gaman að lesa hana núna);

Dauð þar til DiMMIR eftir Charlaine Harris (fyrsta atrenna í vampýrubókum - ég gafst upp eftir 100 síður og sé að ég höndla ekki svona skáldskap);

Dauðinn kemur til miðdegisverðar eftir Peter Sander (veit ég las þessa bók á unglingsárum, jafnvel oftar en einu sinni, en var búin að gleyma henni … hún var í bókasafnshillu rétt hjá Truntusól svo ég tók hana. Þetta er skemmtileg bók en þýðingin óskaplega hroðvirknisleg, t.d. ökklabrotnar sögumaður í upphafi en seint í bókinni er hann allt í einu sagður úlnliðsbrotinn … og fleiri truflandi villur eru í bókinni);

Deadline eftir Simon Kernick (á Krít fengust margar bækur eftir þennan höfund svo ég ákvað að tékka á honum … þetta er allt-í-lagi reyfari en ekki meira en svo);

Leikur engilsins eftir Carlos Ruiz Zafon (sem er frábær! Ég fæ lánaða hina bókina höfundarins sem hefur verið þýdd, strax eftir helgina. Þessi bók gerist í Barcelona og hefst um 1917. Í vor las ég Kirkju hafsins, sem gerist líka í Barcelona, reyndar miklu fyrr. Mér er sagt að við höfum farið til Barcelona og ég hef reynt að læra minningar af myndum en satt best að segja er sú ferð í huga guðs. Ljósi punkturinn er náttúrlega sá að ég get þá farið aftur fersk til Barcelona, kannski enn munandi Kirkju hafsins og Leik engilsins ;)

Og slatta af gömlum prjónablöðum (er að spá í lopapeysumunstur).

Í hillunni / á bókabarnum eru líka bækur sem ég keypti á bókamarkaði í Köben, flestar enn ólesnar. Þetta eru:

At elske er at dø eftir Torben Nielsen (hef ábyggilega lesið hana einhvern tíma - ég gerðist á tímabili mikill aðdáandi Torbens Nielsen);

Vi som går køkkenvejen eftir Sigrid Boo (hef marglesið Við sem vinnum eldhússtörfin, ill-í-náanlega nútildags, og fannst jafnskemmtilegt að lesa bókina á dönsku);

Skæve Toner eftir Val McDermid (algerlega misheppnuð bók og má þakka fyrir að höfundurinn bjó til Tony Hill og snéri sér í blóðugri átt);

Ægte skotsk eftir Eric Linklater (keypti bókina af því hún gerist í “Laxdale Hall, et stort hus i en afsides egn i det skotske højland” en er bara rétt byrjuð á henni. Bókin lofar góðu.);

Spejldans eftir Helle Stangerup (hef sjálfsagt lesið hana áður, var aðdáandi höfundar um tíma, vonandi er þetta spennandi sálfræðitryllir);

… i al sin glans og herlighed eftir Kirsten Holst (sem ég held að enn sé ólesin).

Nú tíunda ég ekki fleiri bækur að sinni, er þó með nokkrar síðan í vor, af bókasafni FVA, og nokkrar keyptar. Eins gott að hafa armana krosslagða núna á eftir en við ætlum einmitt að kíkja í Búkollu, kolaportið hér á Skaganum, sem er stórhættuleg heimsókn fyrir bókafíkil!  Svona fyrirfram reikna ég þó með að falla eilítið …

Ummæli (0) | Óflokkað, Daglegt líf