Færslur frá 15. ágúst 2010

15. ágúst 2010

Friðarey

Friðarey, Fjárey eða Frjóey (Fair Isle á ensku, Fara á gelísku) er lítil eyja milli Orkneyja og Hjaltlands. Þar búa sennilega núna um 70 manns. Upplýsingar um Friðarey má finna á íslensku Wikipediu, ensku Wikipediu og upplýsingasíðu Friðareyjar.

Minnst er á Friðarey í nokkrum Íslendingasögum. Er væntanlega frægast dæma þegar Kári Sölmundarson dvaldi þar einn vetur hjá Dagviði hvíta og hafði fréttir úr Hrossey (Mainland á Orkneyjum) um veturinn. Kári skrapp svo til Orkneyja á jóladag ”og hjó á hálsinn Gunnari Lambasyni og svo snart að höfuðið fauk upp á borðið fyrir konunginn og jarlana.” Gunnar Lambason ýkti nefnilega og skrumskældi lýsingu sína á Njálsbrennu svo Kára sárnaði. (Sjá 154. - 155. kafla Brennu-Njáls sögu.)

Núna er algengast að sigla til Friðareyjar frá Leirvík á Hjaltlandi. Það væri óneitanlega gaman að koma þangað einhvern tíma. Ég hef bara komið til Orkneyja og sú ferð er meira og minna útþurrkuð úr minni en sem betur fer er til myndasíða úr ferðinni.

Ástæða þess að ég fór að pæla í Friðarey er að ég er nýbúin að lesa reyfara sem gerist akkúrat þar. Þetta er fínn reyfari, heitir Blue Lightning og er eftir Ann Cleeves. Ég varð dálítið hissa á hve mér líkaði bókin því einhvern tíma á útmánuðum gafst ég upp í öðrum reyfara eftir sama höfund, sem gerist á svipuðum slóðum og fjallar um sömu lögguhetjuna. Ætli ég gefi þá ekki Red Bones annan séns? (Báðar þessar bækur eru til á okkar ágæta bókasafni.) Blue Lightning gerist í fuglaskoðunarmiðstöðinni á Friðarey og í textann er lítilsháttar stungið mállýsku, t.d. orðinu ”bairns”, sem þýðir börn. Reyndar held ég að þetta orð sé notað víðar, allt suður til Jórvíkurskíris, og byggi ýmist á reyfaraþekkingu eða samskiptum við jórvískan stjórnanda í The Viking Network, sællar minningar. En ég ætla ekki að blogga um mállýskur núna … 

Fyrir utan það að kannast mætavel við kaflann úr Njálu hef ég haft Friðarey “i baghovedet” í nokkurn tíma út af peysunum sem kenndar eru við eyna. Hef lengi ætlað að kynna mér þau prjónafræði og nú gafst upplagt tækifæri til þess.

Myndin til hægri sýnir klassíska símunstraða peysu, svokallaða Friðareyjarpeysu. Til er sérstök síða á ensku wikkunni,  Fair Isle (technique), sem fjallar um þennan prjónaskap.

Á Friðarey þróuðust tvíbanda peysur líkt og í Færeyjum og í Skandinavíu. Elsta dæmi á safni þar er peysa sem var prjónuð um 1850. Svona peysur urðu vinsælar þegar Prinsinn af Wales skartaði opinberlega Friðareyjar-peysu árið 1921. Til eru þjóðsögur sem tengja Friðareyjarprjón við strand spænskrar freigátu við eyjuna 1588 og er talið að spænsku skipverjarnir hafi kennt eyjarskeggjum að prjóna.

Friðareyjarpeysa

Hefðbundin prjónaplögg á Friðarey einkennast af hringprjóni og munstri í tveimur litum. Þannig verða flíkurnar, t.d. peysur,  þykkari og hlýrri. Í grúski á Vefnum kemur fram að þótt notast sé við hringprjón var allt eins algengt að klippa fyrir ermum og setja þær beinar í. Þá voru bolurinn og ermarnar fyrst prjónaðar alveg upp. Þannig virðist símunstraða peysan hægra megin í þessari færslu vera prjónuð.

Aðrar heimildir gera mikið úr sérstöku berustykki sem kennt er við eyjuna, svokallað Fair Isle Yoke. Ég sé ekki betur en þarna sé átt við hefðbundna íslenska hringúrtöku, sbr. peysuna hér til vinstri. Sú aðferð er þó væntanlega miklu yngri á Íslandi en á Friðarey, miðað við að ”íslenska lopapeysan” er talin um 50 - 60 ára gömul hönnun.

Í hefðbundnum Friðaeyjarpeysum má svo að sjálfsögðu finna þá frægu áttblaðarós en ég hallast nú helst að því að áttblaðarósin sé samevrópskt munstur …

  

Áhugasömum prjónakonum í hópi dyggu lesendanna er bent á síðurnar: Fair Isle Crafts LdtThe History of Fair Isle Knitting, Part 1 (annar hlutinn birtist aldrei), What is traditional Fair Isle knitting?,  Fair Isle Knitting List - Wee Fair Isle Sweater Project (uppskrift með krækjum í munstursíður), About Fair Isle Sweater (fínt sögulegt yfirlit, hvaðan ég stal myndunum af peysunum) og  Lopi Fair Isle Yoke Pullover Kit (auglýsingasíða sem auglýsir íslenskan lopa til að prjóna Friðareyjarpeysu - sé ekki betur en úr verði lopapeysa).

  

 

Ummæli (5) | Óflokkað, Daglegt líf, handavinna