Færslur frá 17. ágúst 2010

17. ágúst 2010

Íslenska lopapeysan

Mér var bent á Nýtt kvennablað í kommenti við síðustu færslu. Hef eytt lunga dagsins í að lesa þetta blað, í sólbaðinu á því veðursæla Akranesi, og orðið margs vísari um allan andsk… Myndir af hannyrðum í þessu ágæta blaði skreyta færsluna.

Spurningin er: Hvaðan kemur íslenska lopapeysan? Fyrsti kafli ritgerðarinnar Ull er gull : lopapeysan við upphaf 21. aldar, eftir Soffíu Valdimarsdóttur, fjallar um ítarlega um akkúrat þetta. Ég bendi áhugasömum á að skoða endilega þessa ritgerð. Niðurstaðan virðist sú að ekki sé um einn hönnuð að ræða heldur hafi lopapeysan orðið til í samfélagi kvenna og þ.a.l. eigni engin sér hönnun eða verklag.

Í rauninni eru þetta tvær spurningar, annars vegar “Hvenær var byrjað að prjóna úr lopa?” og hins vegar “Hvenær var hönnuð peysa með hringúrtöku?”.

Á vef Handprjónasambandsins er tekinn upp fróðleikur úr Ístex prjónabók nr. 12 og sagt:

Grænlensk peysa“Hin eina sanna lopapeysa, með tvíbönduðu munstri á hringlaga herðastykki, er búin að vinna sér íslenskan þegnrétt, þó ekki sé saga hennar ýkja löng. Hún kom ekki fram fyrr en á 6.áratugnum, en óvíst er hvar og hvernig. Sumir telja að fyrirmyndin sé grænlenskir kvenbúningar, ef til vill vegna þess að stundum var talað um lopapeysur með grænlenska munstrinu. Öðrum finnst líklegt að fyrirmyndina sé að finna í peysum sem byrjað var að framleiða í Bohusléni í Suður-Svíþjóð í byrjun 5.áratugarins. Þessar upprunakenningar eru býsna langsóttar. Það eina sem íslenskar lopapeysur eiga sameiginlegt með grænlenskum perlusaumi er hringlaga herðastykki, munstur og litir eru gjörólík. Svipað má segja um sænsku peysurnar, þær voru að vísu nær hugmyndinni þar sem þær voru prjónaðar með hringlaga herðastykki, en úr mjög fínu garni og með allt öðruvísi munstrum. Hafi íslenskar lopapeysur orðið til fyrir áhrif frá þeim hefur þurft mikla hugkvæmni til að aðlaga snið, úrtökur og munstur að mjög ólíku efni. Telja verður því íslensku lopapeysuna frumhönnun. Ekki er óhugsandi að enn eigi eftir að koma á daginn hver hinn raunverulegi höfundur hennar var.”

Myndin er úr Nýju kvennablaði nóv. 1956. Litla myndin krækir í stærri mynd.

  
Svo vikið sé að fyrri spurningunni, hvenær menn byrjuðu að prjóna úr lopa (óspunninni kembdri ull), þá er yfirleitt vitnað í dæmi af Elínu Guðmundsdóttur Snæhólm, sem bjó á Sneis í Laxárdal í Austur-Húnvatnssýslu. Elín gerði tilraun til að prjóna beint úr lopaplötu á prjónavél árið 1920 og sagði frá tilrauninni í grein í Hlín 1922, seinna í Húsfreyjunni. Aðrar heimildir nefna að fyrsta tilraun til að prjóna í höndunum úr plötulopa hafi verið gerð í Mýrasýslu á árunum 1916 - 1918. Elsa E. Guðjónsson telur að ”það sé ekki fyrr en á þriðja áratugnum sem handprjón úr lopa fer að verða algengt og um og upp úr seinni heimstyrjöld verða handprjónaðar lopapeysur mjög vinsælar.” (Sjá “Íslenska lopapeysan - prjónalist - listiðnaður” í Hugur og hönd 1999, eftir Kristínu Schmidhauser Jónsdóttur.) 

Í ívitnuðu greininni er haft eftir prjónakonunni Jóhönnu Hjaltadóttur að á stríðsárunum hafi hún byrjað að prjóna úr lopa því ekkert annað garn var að hafa. Um 1950 prjónar Jóhanna barnapeysu með rúnnuðu berustykki en ekki úr lopa heldur erlendu garni, eftir uppskrift úr dönsku blaði. Í greininni er því gert skóna að svoleiðis peysur hafi verið vinsælar á Norðurlöndunum upp úr 1950 og “munstrin hafi borist hingað bæði með peysum og prjónablöðum en vegna skorts á prjónagarni hafa konur aðlagað munstrin að lopanum.”

Harpa HreinsdóttirÖnnur prjónakona, Aðalbjörg Guðmundsdóttir, segir í viðtali í Vísi 9. ágúst 1968: “”-Ég byrjaði að prjóna úr lopa og selja svolítið strax árið 1942, segir Aðalbjörg. - Á þeim árum fékkst ekkert garn og eingöngu prjónað úr lopa. … Þá voru peysurnar allt öðruvísi en nú. Þær voru prjónaðar sléttar og saumað í þær eftir á. Munstrin voru allavega, skíðamunstur var t.d. vinsælt. Sauðalitirnir þekktust heldur ekki þá. Allar peysurnar voru úr lituðum lopa eða hvítum. Það þótti ekki fínt að vera með sauðalitina, sú tízka kom ekki fyrr en útlendingar komu auga á lopapeysurnar og fóru að kaupa þær. … Þegar ég kom hér að Mosfelli fyrir 15 árum var hringmunstrið komið, svipað og í þeim peysum sem eru svo vinsælar núna.” 

Myndin til hægri sýnir bloggynju og litlu systur í glæsilegum ullarpeysum, líklega 1964 eða 1965. Satt best að segja man ég alls ekki eftir að hafa átt lopapeysu fyrr en ég var komin á fullorðinsár.

Gr�sk lopapeysaÞegar Aðalheiður Guðmundsdóttir er spurð, í fyrrnefndu viðtali,  hvort hún telji að til sé eitthvert sérstakt íslenskt munstur svarar hún: “Það eina sem mér finnst vera hægt að segja að sé íslenskt munstur, er áttblaðarósin. Í Þjóðminjasafninu er hægt að sjá það munstur í altarisklæðum, í leppum og sessuborðum t.d. - en það er í afar mismunandi gerðum.”

Nú á ég eftir að kynna mér áttblaðarósina betur, t.d. hvað Elsa E. Guðjónsson segir um það munstur, en ég held að það sé fjarri lagi að vera neitt séríslenskt, ekki einu sinni sérskandinavískt. Aftur á móti heldur fjöldi fólks að svo sé enda má finna munstrið í gamalli íslenskri handavinnu og sjónabókum. Í þessu sambandi má líka nefna að þau “séríslensku lopapeysumunstur” sem byggð eru á teikningum Sigurðar málara eru grísk - a.m.k. tveir borðar eru grískrar ættar og ganga aftur bæði á skautbúningi og, síðar, lopapeysu (neðst á báðum flíkum).

Myndin sýnir bloggynju halda hróðuga á grískri lopapeysu. Myndin var tekin á Krít nú í sumar.

Elsa E. Guðjónsen segir um lopapeysumunstur: “Seint á sjötta áratugnum voru hin vinsælu erlendu peysumunstur með hringlaga axlabekkjum - upprunnin í Svíþjóð laust fyrir 1950 - tekin upp og aðlöguð lopaprjóni. Hefur þessi síðarnefnda munsturgerð orðið og er enn höfuðeinkenni íslenskra lopapeysa.” Einnig: “Munstur lopapeysanna eiga sér margvíslegan uppruna. Sum eru hefðbundnir íslenskir munsturbekkir, fengnir úr gömlum sjónabókum eða af eldra prjóni, vefnaði eða útsaumi. Sum hafa verið aðlöguð eftir íslenskum eða erlendum munsturbekkjum eða öðrum reitamunstrum ætluðum til ýmsiss konar textíliðju. Trúlega eru þó flest munstrin sem notuð hafa verið á síðustu árum unnin sérstaklega fyrir lopapeysur, sumpart af textílhönnuðum, sumpart af prjónakonunum sjálfum.” (”Um prjón á Íslandi” í Hugur og hönd 1985.)

Ég held að það sé misskilningur að grænlenski þjóðbúningurinn hafi haft bein áhrif á gerð íslensku lopapeysunnar. Misskilningurinn er líklega vegna þess að Nýtt kvennablað birti uppskriftir; fyrst af barnapeysu undir fyrirsögninni “Peysa með grænlensku munstri” (nóv. 1956) og seinna af fullorðinspeysu undir fyrirsögninni “Falleg grænlensk peysa” (okt. 1958). Líklega eru þetta þýddar uppskriftir og peysurnar hafa heitið þetta í einhverjum skandinavískum blöðum. Á sama tíma var vinsælt að birta myndir af dönsku prinsessunum, Margréti, Benediktu og Önnu Maríu, í grænlenskum þjóðbúningum. Svoleiðis myndir hafa væntanlega haft áhrif á heiti prjónauppskrifta, annað hvort í Danmörku eða á Íslandi.

Litla myndin af “Fallegu grænlenzku peysunni” krækir í aðra stærri.

  

  

Ummæli (4) | Óflokkað, Daglegt líf, handavinna