Færslur frá 21. ágúst 2010

21. ágúst 2010

Strákar og stelpur í skólanum

Nú hefur “Menntaráð Reykjavíkur hefur skipað starfshóp sem á að leita leiða til að efla námsáhuga drengja í grunnskólum borgarinnar” (úr frétt á RÚV 21. ágúst 2010) enda hefur komið í ljós að einungis 2/3 af strákum finnst skemmtilegt í skólanum, strax í fyrsta bekk! Miklu fleiri stelpum í sex ára bekk finnst gaman í skólanum.  

Langt er síðan öllum var ljóst að námsárangur stelpna í bóklegu námi er miklu betri. Í þessari frétt er vísað í PISA-kannanir og niðurstöður samræmdra prófa. En líklega hefur þessi mismunur verið til staðar alla tíð, sérstaklega í efri bekkjum grunnskóla því stelpur þroskast fyrr en strákar. Í rauninni væri sniðugt að leyfa fljótandi skil milli grunn- og framhaldsskóla, þannig að nemendur lykju ýmist grunnskólaprófi úr 9. eða 10. bekk. Ég hugsa að meirihluti þeirra sem lyki námi eftir 9 ár yrðu stelpur og meirihluti eftir 10 ár strákar. Í framhaldsskóla lentu svo strákarnir með árs yngri stelpum, sem væri ágætt fyrir bæði kyn, að mínu viti. Svona tillaga fellur ekki í kramið hjá grunnskólaforkólfum, ég veit það.

Fyrir nokkrum árum fór ég á ráðstefnu um drengjamenningu í grunnskólum. Líklega hefur það verið ráðstefnan sem hér er sagt frá, haldin 2005. Það sló mig mest að þar var einungis einn grunnskólakennari af Akranesi, a.m.k. sem ég þekkti. Áhugi hér í bæ á svona málum virtist ákaflega lítill. Þetta var alls ekki fyrsta ráðstefnan sem haldin var um málefni stráka í grunnskóla, t.d. fann ég fyrirlestra af Málþingi Karlanefndar Jafnréttisráðs og Menntamálaráðuneytisins sem haldið var 1997, á rápinu um Vefinn núna. En þótt ráðstefnur séu haldnar og kannanir gerðar virðist fjarska fátt þokast áfram, nú er stofnaður starfshópur sem á að leggja eitthvað til … og væntanlega gerist fátt.

Það virðist vera tabú að benda á að strákum líður kannski ekkert alltof vel í eilífum kvennafansi: Langstærstur hluti grunnskólakennara eru konur. Þessar konur hafa svo lært í Kennó sem er aðallega skipaður konum. Þær koma úr afskaplega fábreyttu kvenvinsamlegu umhverfi og hafa náttúrlega litast af því.

Strákarnir mínir stunduðu nám hvor í sínum grunnskólanum hér á Skaganum. Reyndar var sá eldri svo heppinn að komast í samkennslu á Laugarvatni í tvö ár, sjálfsagt hefur það bjargað miklu því þar var ekki þessi eilífa krafa um að halda öllum á sama stað í námi … stað sem miðaðist við meðalstelpu. Þessum strák gekk vel í skóla en frá sex ára bekk var allt kapp lagt á að halda honum niðri í námi. Hann var líka svo heppinn að fá góða karlkyns kennara í efstu bekkjum grunnskólans hér á Skaganum. Mér sýnist að karlkennarar kenni einkum á unglingastiginu. Yngri sonurinn fór í gegnum nánast allan sinn grunnskóla hér. Vandamálin hrönnuðust upp með árunum, aðallega vegna þess að honum var um megn að tileinka sér ýmis meðvirknieinkenni sem kennarinn hans gerði kröfu um og að “halda kjafti og vera sæt”, eins og stelpurnar. T.a.m. lenti hann upp á kant við sína kennslukonu af því hann svaraði ekki í “réttum tóni”.  Þeir sem björguðu því sem bjargað varð voru karlarnir sem kenndu honum í efstu bekkjunum.

Á hverju hausti þangað til núna hef ég kennt nýnemahópum, allt frá því ég hóf kennslu fyrir tæpum aldarfjórðungi síðan. Mér hefur fundist æ meira áberandi hvað margar nýnemastelpur eru ísmeygilega frekar undir sléttu og últra-kvenlegu yfirborðinu. Þær halda sumar að ég sé “vinkona” sín en ekki kennari. Þetta kemur m.a. fram í því að reglur, t.d. um ritgerðaskrif eða hegðun í kennslustundum, telja þær að eigi ekki um sig. Það tekur venjulega u.þ.b. mánuð að kenna svoleiðis stelpum að kennsla og námsmat sé óháð kyni, hársídd, fegurð og fatahönnun. Ég verð æ hlynntari því að skipta í hópa eftir kyni en það er náttúrlega borin von að sú framkvæmd komist á. Reyndar skiptist þetta svolítið sjálfkrafa því í fjölbrautaskóla er sorterað eftir námsárangri, í venjulegan áfanga, hægferðaráfanga og svo fornám. Í fornámsáfanga í íslensku eru yfirleitt sárafáar stelpur.

Nú er rétt að taka fram að nánast allar hinar sextán ára fögru, kvenlegu “meintu vinkonur kennarans” átta sig fljótt og semja sig að nýjum siðum í framhaldsskóla. Svo þetta er ekki vandamál fyrir okkur þar. En ég spyr mig stundum hvernig standi á því að þær komi með þetta viðhorf upp úr grunnskólanum, þ.e. að þær séu svo miklu fremri öðrum og um þær gildi því ekki sömu reglur og aðra. Er hugsanlegt að einhver öfugsnúinn gamaldags rauðsokkufemínismi með ívafi af fræðum Britney Spears sé ríkjandi meðal grunnskólakennslukvenna? Er hugsanlegt að of mikið sé lagt upp úr að hampa stelpum á kostnað stráka? Nei, ég hlýt að hafa rangt fyrir mér í þessu hugsanlega.

Sjálf hef ég mestalla tíð verið í minnihluta; Í Menntó voru miklu fleiri strákar, í HÍ voru miklu fleiri karlar (en það hefur aldeilis snúist við sá ég í vetur sem leið!) og á mínum vinnustað voru karlar í meirihluta til skamms tíma, af því skólinn er að hluta iðnskóli. Núna er hlutfall kynja í kennarahópi FVA nokkuð jafnt. En öll önnur vinna sem ég hef unnið um ævina hefur verið kvennastörf. Sömuleiðis hef ég stundum flækst inn í kvennahópa ýmiss konar en ævinlega gefist upp á þeim af því mér finnst mórallinn verða frekar leiðinlegur. Mér finnst oft mun þægilegra að hafa samskipti við karla.

Fyrir óralöngu síðan, 1942, lagði rektor Hins almenna Menntaskóla í Reykjavík (sem skömmu síðar varð að MR) fram þingsályktunartillögu á Alþingi um að skólanum yrði breytt í heimavistarskóla eingöngu fyrir stráka: “Hafinn verði skipulegur undirbúningur að endurreisn Skálholtsskóla, þar sem piltar stundi menntaskólanám, og athugaðir möguleikar á því, að gera Kvennaskólann í Reykjavík svo úr garði, að hann geti orðið menntaskóli og vönduð uppeldisstofnun fyrir stúlkur.” Þessu mótmæltu auðvitað Kvenréttindafélag Íslands og Kvenstúdentafélag Íslands og sjálfsagt fleiri. Í umræðunni var bent á að ein skýringin á þessum vilja væri að eftir að inntökupróf með numeris clausus voru tekin upp í Hinn almenna Menntaskóla í Reykjavík skoruðu stelpur hærra.  Mig minnir að einungis 24 hafi verið teknir inn í 1. bekk ár hvert. “Nú eru telpur á fermingaraldri venjulega meira báðþroska heldur en drengir á sama aldri. Þess vegna hafa hlutfallslega fleiri stúlkur úr hópi umsækjenda náð inntöku í skólann, og það er það sem svo mjög er litið hornauga til.” segir í frétt Nýs kvennablaðs af málinu, í maí 1942.

Vissulega var rétt að mótmæla þessum hugmyndum á sínum tíma. Annars hefði kannski orðið til tvenns konar stúdentspróf þar sem annað væri óæðra hinu. Á hinn bóginn hafa tímarnir breyst verulega frá 1942 og alger óþarfi að halda uppi kvennabaráttu í stíl þeirra lönguliðinna tíma. Samt er stundum eins og kvenfólk telji sig vera uppi á einhverjum svoleiðis tímum þegar bryddað er upp á tiltölulega sjálfsögðum hlutum. Mér finnst t.a.m. fáránlegt að andæfa þeirri hugmynd að reyna með ráðum og dáð að fá fleiri karlkyns kennara inn í grunnskólana. Eitthvað verður að gera til að strákum gangi betur í skóla. Kannski myndu allir græða á því að skipta nemendum eftir kyni í bekki og námshópa.

Ummæli (5) | Óflokkað, Skólamál