Færslur frá 26. ágúst 2010

26. ágúst 2010

Þrá presta eftir sálgæslu og þögn

Í umræðunni um málefni þjóðkirkjunnar undanfarið eru tveir meginþræðir: Annars vegar upprifjun á kynferðisbrotum Ólafs sáluga Skúlasonar biskups og hins vegar upphrópanir um þagnarskyldu presta. Í rauninni fléttast þessir þræðir ansi mikið saman.

PresturÖllum sem horfðu á Kastljós núna áðan, þ.e. viðtalið við Sigrúnu Pálínu Ingvarsdóttur, hlýtur að vera ljóst að það er fjarri því að núverandi biskup Íslands geti sagt satt um hennar mál. Karl biskup er í nákvæmlega sömu hjólförunum og meirihluti presta var 1996 (sjá færsluna hér á undan). Í rauninni verður að teljast líklegt að Sigrúnu hafi almennt verið trúað 1996. En einhverra hluta vegna völdu langflestir prestar að þegja um málið og sumir völdu að reyna að þagga niður í henni og þeim öðrum konum sem vildu koma í veg fyrir að kynferðisafbrotamaður sæti á biskupsstóli. Miklar og harðvítugar deilur grasseruðu innan þjóðkirkjunnar á þessum tíma og kann að vera að prestar hafi aðhyllst þögn og þöggun þessara mála af því allt var fyrir í báli og brandi. E.t.v. hefur þeim sumum verið fyrirmunað að skilja að gróf kynferðisleg áreitni væri eitthvað til að gera veður út af?  (Minnir mig á karlmenn sem ég hef heyrt segja: “Ég lenti í nauðgun” - þar sem þeir voru gerendur og konurnar svo tíkarlegar að kæra þá.)

Prestarnir völdu að þegja 1996. Þeir einu sem opinberlega gerðu eitthvað voru: Sr. Kristján Björnsson, sem  sendi kirkjumálaráðherra bréf með beiðni um að hann viki biskupi tímabundið úr embætti meðan mál hans sættu dómstólameðferð. Því var ekki sinnt. Sr. Halldór Gunnarsson í Holti lagði fram tillögu á fundi Prestafélags Íslands um að félagið skoraði á biskup að víkja meðan mál hans væri fyrir dómstólum. Prestarnir samþykktu dagskrártillögu um að vísa tillögu sr. Halldórs frá. Og sr. Geir Waage, formaður Prestafélags Íslands, lagði fram ályktun fyrir PÍ þar sem sagði:  “Vegna hinnar alvarlegu kröfu um algjöran trúnað getur ósannaður áburður um trúnaðarbrest ónýtt stöðu prests til að gegna þjónustu sinni og haldið vakandi efasemdum um heilindi hans og hæfi til að gegna embætti. … Sé um alvarlegt trúnaðarbrot að ræða gildir einu hvort það varðar við lög eða ekki. Brotið eða ásakanir um brot fyrnist ekki. Trúnaðarrof bætist ekki af sjálfu sér.” Séra Baldur Kristjánsson, biskupsritari og varaformaður PÍ, sagði hins vegar: “Þarna er því lýst yfir að sekt og sakleysi skipti ekki máli þegar um presta ræðir. Eftir því er nóg að bera eitthvað upp á prest til að eyðileggja hann. Það getum við aldrei samþykkt.” Enda samþykktu prestarnir ályktunina ekki og enginn þeirra efaðist opinberlega um heilindi biskups síns og hæfi til að gegna embætti, þrátt fyrir vægast sagt vafasamar aðferðir við sálgæslu árið 1979.

Núverandi kattarþvottur þeirra sem drápu málinu á dreif 1996 og sópuðu því undir teppið er álíka pínlegur og þegar vitnað er í hermenn sem fremja ofbeldisverk og segjast eftir á einungis hafa verið að framfylgja skipunum foringjans. Þeir sem gegndu prestsembættum 1996 og jafnvel sérstökum trúnaðarstöðum að auki ættu að átta sig á því að þá, eins og nú, jafngilti þögnin samþykki. Skoði maður mál Sigrúnar Pálínu frá 1996 er ljóst að prestar litu á þagmælsku sem gulls ígildi og héngu á henni einsog hundar á roði.

En núna hefur þetta allt í einu snúist við. Svo hallærislegt sem það nú er þá beinast ásakanir yngri presta einmitt að einum þeirra þriggja sem ekki þagði 1996, sumsé sr. Geir Waage. Hann má þó eiga það að hann hefur hingað til verið samkvæmur sjálfum sér, ólíkt sumum þeim sem kusu á dögunum að fórna honum á altari umræðunnar, kannski til að draga athyglina frá algerum vanmætti þjóðkirkjunnar til að fást við óþægileg mál á borð við mál Sigrúnar Pálínu, enn þann dag í dag.

Í Kastljósi í gær ræddu þeir sr. Þórhallur Heimisson og Illugi Jökulsson um hlutverk íslensku þjóðkirkjunnar og var helst á sr. Þórhalli að skilja að meginhlutverk kirkjunnar væri ýmiss konar sálgæsla eða félagsþjónustustarf. Þetta virðist einnig vera uppáhaldshlutverk eða draumahlutverk í málflutningi yngri presta. (Hér á ég við presta sem eru innan við fimmtugt.)

sálgæslaAf því umræðan undanfarið hefur sveigst að merkilegu hlutverki sem prestar ku gegna í barnaverndarmálum og nauðsyn þess að þeir upplýsi rétt yfirvöld þegar perrarnir leita til þeirra er athyglisvert að innan við 1 prómill af tilkynningum til Barnaverndarnefndar í Reykjavík í fyrra var frá prestum; nánar tiltekið 3 af rúmlega 4.300 tilkynningum. Árið þar áður er hlutur presta í tilkynningum til Barnaverndarnefndar Reykjavíkur rúmlega hálft prómill (2 af 3.814 tilkynningum). (RÚV 26. 8. 2010.) Í þessu sambandi er vert að taka fram að sr. Geir Waage er prestur í Reykholti í Borgarfirði svo meint skoðun hans á þagnarskyldu presta skekkir ekki þessar tölur ;) Annað hvort steinhalda prestar sér almennt saman eða þeir frétta sjaldan af ofbeldi gegn börnum. Mér finnst síðarnefnda skýringin mun líklegri. Ég held nefnilega að fólk ræði svoleiðis vandamál sín við aðra en presta; raunar held ég að þeir sem frétta langoftast af ofbeldisverkum hvers konar frá ofbeldismönnunum sjálfum eða þolendum séu áfengisráðgjafar en ekki prestar.

Nám í guðfræði er gamaldags meistaranám (þ.e. 5 ára háskólanám). Einhver hluti þess er í sálfræði, félagsfræði og tengdum greinum en ég held að sá hluti sé ekki mjög veigamikill. (Væri gaman ef einhver gæti upplýst það, t.d. hve margar einingar slík fög vega miðað við heildareiningafjölda.) Til samanburðar má nefna að nú er gerð sú krafa til framhaldsskólakennara að þeir hafi meistarapróf í sinni kennslugrein (5 ára háskólanám) auk eins árs í uppeldis-og kennslusfræðum. Þetta er grunnkrafan en náttúrlega afla margir framhaldsskólakennarar sér frekari menntunar, ekkert síður en prestar. Grunnskólakennurum og leikskólakennurum er nú gert einnig að ljúka 5 ára háskólanámi.

Nú dettur okkur framhaldsskólakennurum ekki í hug að við séum þess umkomnir að veita meiriháttar sálgæslu né langar okkur sérlega til þess að gegna slíku hlutverki (þótt við höfum slatta af einingum í uppeldisfræði, sálfræði og félagsfræði). En prestar, sem hafa styttra grunnnám að baki, eru alls óhræddir við að stinga sér í sálgæslulaugina - sumir virðast meira að segja þrá sem dýpsta og myrkasta laug. Þó ættu þeir að hafa nóg verkefni fyrir við hæfi, þ.e.a.s. að reyna að efla trú fólks, ekki hvað síst trú fólks á prestum.

Ég efast ekki um að prestar séu upp til hópa hið vænsta fólk, af þeirri einföldu ástæðu að flest fólk er hið vænsta, einkum ef á reynir. En ég held jafnframt að þeir ættu að halda að sér höndum áður en þeir geisast inn á annarra svið. Mér finnst miklu heppilegra að fólk í kreppu leiti til sálfræðinga, geðlækna, áfengisráðgjafa eða einhvers sérmenntaðs fólks í staðinn fyrir að bögga prestinn sinn, sama hversu velviljaður hann er. Og ég tek undir með Illuga Jökulssyni í því að líklega væri heppilegra að ráða þorpssálfræðing en stóla á prestinn, í smærri byggðarlögum.  Satt best að segja hefur maður heyrt minna af blammeringum og bömmer sálfræðinga undanfarið en presta, svo ekki sé nú minnst á biskupa.

PresturPrestar eru prýðilega launaðir. Eftir sitt grunnnám hafa þeir 473.551 kr. í grunnlaun (sjá Yfirlit yfir laun skv. ákvörðun Kjaradóms). Ofan á þau laun bætast greiðslur fyrir embættisverk hvers konar, t.d. fermingar, skírnir, giftingar og jarðarfarir, en slíkt getur gefið ágætlega í aðra hönd í fjölmennum sóknum eða hjá vinsælum prestum. Byrjunarlaun framhaldsskólakennara í flestum framhaldsskólum (með eins ár lengra grunnnám en prestar) eru um 300.000 kr. Líkast til er erfiðara að halda safnaðarsauðunum innan þjóðkirkjunnar þessa dagana en troða í unglinga ýmiss konar fróðleik svo ég sé ekkert ofsjónum yfir ágætum launum prestanna.

Aftur á móti er ég ekkert gasalega hress með að þurfa að borga svoleiðis fólki, sem skattgreiðandi. Það er nefnilega ríkið sem greiðir þeim laun. Ómerkileg sóknargjöld, 850 - 900 kr. á mánuði á kjaft, sem við fólkið utan trúfélaga greiðum í staðinn til ríkisins, hrökkva auðvitað ekki langt til að greiða prestum landsins laun.

Eftir að hafa undanfarna daga reynt að setja mig aðeins inn í þjóðkirkjusirkúsinn er ég fegin að nú skuli eiga fljótlega að leggja fram á Alþingi tillögu um aðskilnað ríkis og kirkju. Ég geri mér þó engar vonir um að hún verði samþykkt, það að losna við hina lútersku evangelísku kirkju sem þjóðkirkju útheimtir stjórnarskrárbreytingu. En þetta er þó altént byrjunin.

Ummæli (20) | Óflokkað, Daglegt líf