Færslur frá 28. ágúst 2010

28. ágúst 2010

Hjálmar, Karl, hinir karlarnir og kirkjan; Ég gefst upp!

Ég var að hugsa um að blogga um Hjálmar Jónsson, sem hvíþvær sig í viðtali í mogganum í gær, og Karl biskup sem hvítþvær sig í mogganum í dag … ekki í venjulegu viðtali heldur einhverju sem mogginn kallar “burðarvital”. Það er vissulega þung byrði að lesa það viðtal svo nafngiftin er ekki alveg út í hött, í þessum snepli sem berst hér á heimilið í vanþökk mína.

En svo sé ég að mér núna. Einkum eftir að hafa lesið frásagnir kvenna í DV núna áðan. Mér er um megn að hugsa meir um þessi mál. Þótt ég hafi a.m.k. tvisvar á ævinni kynnst mönnum sem voru að ná sér niður eftir að hafa haldið sig vera Guð í mestu maníunni hef ég aldrei kynnst þeirri ofurtrú á sjálfum sér sem finna má í þessum viðtölum; þessir menn hafa m.a. vald yfir sannleikanum. Það að halda áfram að sveigja sannleikann til löngu eftir að menn eru komnir út í horn, upp að vegg … að bakka eitt hænufet í einu en neita samt að viðurkenna snitti fyrr en menn eru beinlínis neyddir til þess er ekki í samræmi við minn skilning á iðrun, hvað þá yfirbót. Þessir menn næðu ekki langt í sporavinnu því þeim er um megn að viðurkenna vanmátt sinn.

Það sem er skelfilegast er að nú staðhæfa þeir báðir að þeir hafi allan tímann trúað Sigrúnu Pálínu og fleiri konum. Hvernig geta þeir sagt þetta og fundist ekkert að því að hafa bara staðið hjá vegna þess að yfirmaður þjóðkirkjunnar, sem var sakaður um þessi hryllilegu brot, var frekja eða nýkominn af fundi þar sem var klappað fyrir honum? Sá sem velur að þegja yfir glæpsamlegum verkum vegna meðvirkni er samsekur.

Hvernig getur fólk í þjóðkirkjunni setið messu hjá sr. Hjálmari eða sr. Pálma eða sætt sig við Karl Sigurbjörnsson sem æðsta mann þjóðkirkjunnar?  Hvernig getur fólk leitað til sálusorgara innan kirkjunnar nútildags hafandi þessa menn sem fyrirmynd, ekki árið 1996 heldur í viðtölum 2010?  Hvernig er það hægt?

Ég segi ekki að ég verði beinlínis þunglynd á að hugsa um þetta. En kvíðinn blossar upp og kemur m.a. fram í mikilli reiði og hringspólandi hugsunum, sem er afskaplega óhollt fyrir mig. Samt stend ég algerlega utan við þetta mál. Það gleðilega er að ég get dáðst að þeim konum sem aldrei hafa hvarflað og að þeim konum sem nýverið hafa komið fram og sagt sögu sína. Þær eru hetjur! Án þess að kasta rýrð á aðrar dáist ég mest að Sigrúnu Pálínu, Guðrúnu Ebbu og Stefaníu Þorgrímsdóttur.

Mín eigin sáluhjálp á undir því að ég hætti að velta þessu fyrir mér. Best að snúa sér að meinlausum morðsögum, hannyrðum, píanóspili eða öðrum jákvæðari umhugsunarefnum en málefnum þjóðkirkjunnar.

Ummæli (15) | Óflokkað, Geðheilsa, Daglegt líf