Færslur ágústmánaðar 2010

5. ágúst 2010

Bögg og málfar

Af iðni bloggynju undanfarið í að lesa bloggsíður hefur lærst tvennt: Vilji menn bögga einhvern á bloggi er fyrsti kostur að brigsla viðkomandi um að vera geðveikur og næstbesti kosturinn er að hanka viðkomandi á “rangri” málnotkun. Stundum ná menn að sameina þetta, t.d. á bloggi Eiðs Guðnasonar og kommentum (athugasemdum er líklega kórréttara) við það: Eiður bloggar um “auglýsingahórerí” (skemmtilegt orð) Ásgerðar Jónu Flosadóttur, hankar hana á að hafa sagt: “Þátturinn Á ferð og flugi með  Iceland Express er lokið að sinni” og einn aðdáenda Eiðs, Atli nokkur, gefur í skyn að konan sé geðveik, “Hvernig er það Eiður. Telur þú líklegt að Eyjan muni láta geðfatlaða einstaklinga fá lista yfir þá sem kommenta við hjá þér?”, í kommenti við aðra færslu.

Ég þekki Ásgerði Jónu ekki baun. Mér finnst hins vegar ekkert skrýtið að hún sé að íhuga kæru miðað við umfjöllun Eiðs um hana. Atli þessi, sem getur sjúkdómsgreint fólk eftir málfari og óánægju með skítkast, kemur ekki fram undir fullu nafni. Það eru náttúrlega bara mannleysur og skítseiði sem ekki þora að leggja nafn sitt við hrokafullar sjúkdómsgreiningar á fólki úti í bæ. (Ég breyti færslunni núna því sá sem mér datt í hug að væri Atli föðurleysingi er algerlega blásaklaus af skíthæla-geðduldinni.)

Skemmtilegasta dæmið um málfarsskítkast undanfarið er líklega frétt Eyjunnar, Málvilla menntamálaráðuneytis, þar sem málfátækt fréttaritara verður honum að fótakefli og hann kannast ekki við fallbeygingu í algengu orðtaki.

Næstskemmtilegustu dæmin eru komment við blogg Eiðs Guðnasonar ;)

Það hefur alltaf farið dálítið í taugarnar á fordómafullri bloggynjunni þegar menn mæla manngildi í málnotkun (þetta er ofstuðlað, ég veit). Einu sinni þekkti ég mann sem sýndi mér margar stílabækur (þetta var fyrir daga tölva) í hverjar hann skrifaði samviskusamlega upp ýmsar ambögur úr fréttatímum ríkisútvarpsins. Mér þótti þetta fáfengilegt áhugamál. Auðvitað er æskilegt að menn leggi sig eftir blæbrigðaríku máli og tali sem þokkalegasta íslensku. Á hinn bóginn hefur alltaf verið munur á talmáli og ritmáli og það að tala í ritmálsstíl er ankannalegt, jafnvel hallærislegt. Í óundirbúnu spjalli getur ýmislegt fokið sem ekki tekur sig vel út á prenti. Nóg hefur verið alið á málfarsótta þjóðarinnar síðustu hundrað ár eða svo og í rauninni er gleðilegt hve margir eru tilbúnir til að tjá sig núna, óhræddir við málfarslögguna. Ef íslensk tunga á að lifa verða menn að tala og skrifa og lesa hana, óttalaust.

En bloggynja gerir sér grein fyrir því að ekki kunna allir að rísla sér við sauma, prjón eða aðra tómstundavinnu og verða því að fylla út stílabækur eða tölvuskjái með því að agnúast út í hvernig aðrir tala, skrifa og lesa, eins og ég er einmitt að gera sjálf, í þessari færslu ;)   Sá er þó munurinn að ég greini ekki geðsjúkdóma fólks sem er mér ósammála eða talar / skrifar ekki eins og mér hugnast best sjálfri.

Svo verð ég að fara að venja mig af þessum eilífu tilvísunum í blogginu, færslurnar eru farnar að líkjast heimildaritgerð!

Ummæli (5) | Óflokkað, Geðheilsa, Daglegt líf

4. ágúst 2010

Um geðveiki

Mér varð hugsað til þunglyndis og kvíða, aðallega af því ég var að tala um slíkt núna áðan og af því ég var að fá þær góðu fréttir að kraftaverkalyfið nýja virðist ekki skemma mína góðu lifur og af því ég hraðlas Truntusól í gær og af því ég lenti í smá umræðum um hugtakið truntusól við ungling heimilisins þá hann kom af næturvakt núna í morgun.

Truntusól er afbökun á lyfjaheitinu Tryptizol (sem er svokallað þríhringlaga geðdeyfðarlyf en þau lyf eru með elstu geðlyfjunum … lyfið kom á markað 1961 en hugsanlega er lyfjaheitið tryptizol yngra). Sjálf tók ég þetta lyf um tíma, þá gegndi það nafninu Amilín, en ég held að nú sé búið að taka það af skrá hér á landi. Reynsla mín af Amilín var ekki góð en reyndar er reynsla mín af geðlyfjum almennt slæm uns kraftaverkalyfið kom á markað nú nýverið.

Truntusól er líka bók eftir Sigurð Þór Guðjónsson, útg. 1973 en segir frá reynslu höfundar af geðdeildarvist árið 1970. Bókin er kölluð skáldsaga en er svona álíka skáldsaga og endurminningarbækur Þórbergs Þórðarsonar, nema Sigurður varð að breyta öllum nöfnum persóna til að bókin fengist gefin út.  Ég las þessa bók í denn og hef sennilega verið að lesa hana í þriðja sinn í gær. Þetta er rífandi skemmtileg bók og góð lýsing á þunglyndi og kvíða. Höfundur er undir sterkum áhrifum af Þórbergi og það fer náttúrlega eftir ást manna á slíkum frásagnarhætti hvort þeir lesa allt eða skruna yfir hástemmdar lýsingar í þórbergskum anda ; ) Sjálf hafði ég meira gaman af einlægum köflum í skertari skrúðstíl.

Í samtali við ungling heimilisins kom fram að Megas hefði samið texta um truntusól. Það vissi ég ekki en ég er náttúrlega álíka lítill aðdáandi Megasar og Þórbergs. En það gladdi mig mjög að unglingurinn hefur þó tekið almennilega eftir í áföngum sem honum þóttu skemmtilegir :)   Ég tékkaði á texta Megasar, ljóðið heitir Paradísarfuglinn og má sjá brot úr því hér … en í því segir m.a.: “Þeir gáfu henni truntusól og tungl / og tróðu hana út með spesstöðluðu smæli”. Textinn fjallar um stúlku sem “gjörðist veik á geði”.

Brotið úr Paradísarfuglinum fékk mig til að spá í hvort Megas héldi að lyfið væri einhvers konar læknadóp - sem það er alls ekki. Það er algengur misskilningur enn þann dag í dag að þunglyndislyf  séu vímugefandi. Ég hvet þá sem svo telja til að verða sér út um svoleiðis pillur og reyna að selja þær … held að markaðurinn sé enginn. Texti Megasar birtist fyrst 1977 og því miður hefur álit fólks á geðlyfjum breyst alltof lítið síðan þá.

(Mér finnst við hæfi að punta þessa færslu með Ópinu hans Munch. Svo hvet ég áhugasama til að lesa frumlega túlkun á myndinni, sjá föstudagssvar Vísindavefjar við spurningunni “Af hverju er karlinn að hrópa á myndinni “ópið”? Hvað gerðist svona hræðilegt?” Kannski hefði karlinn haft gott af truntusól en því miður var ekki búið að finna lyfið upp á tímum Munch.)

Talandi um geðveiki og lækningar þá sá ég að sænska sjónvarpið ætlar að sýna þátt kl. 18 (að ísl. tíma), sá heitir Uppdrag granskning - sommarspecial (líklega læknisfræði fyrir pöpulinn) og í kvöld er einmitt fjallað um raflækningar, “Ikväll: Patienter vilseledda om riskerna med ECT - elbehandlingar inom psykiatrin.”  Hugsa að ég horfi á þáttinn.

Ég hef tvisvar farið í raflækningar. Í fyrra sinnið gerðist kraftaverk og ég varð frísk í eina þrjá mánuði. Að vísu tapaði ég tveimur árum úr minni en náði að læra slatta af minningum með því að skoða myndasöfn og lesa bloggið mitt. Í seinna skiptið tapaði ég aftur tveimur árum og því miður batnaði mér ekki hætis hót.

raflækningarFordómar almennings í garð geðsjúkra og í garð geðlyfja eru umtalsverðir. Það er þó hjóm eitt miðað við fordómana þegar kemur að raflostum / raflækningum. Enda byggja margir eingöngu á Gaukshreiðrinu án þess að átta sig á því að sú mynd gefur algerlega skakka mynd af geðlækningum enda höfundur bókarinnar á endalausum LSD-trippum. Úr því ég minntist á Megas er rétt að nefna Bubba líka (þótt hann verði reyndar seint talinn “póstmódernískt skáld”, ætla ég að vona!).  Bubbi samdi hið ódauðlega lag og texta “Stórir strákar fá raflost“, útg. 1982. Lagið er fínt en textinn alger steypa. Ekki hvað síst vegna botnlausra fordóma í garð geðlækninga sem kristallast í honum.

(Það er eiginlega dálítið merkilegt að þessir trúbadúrar tveir, Bubbi og Megas, skuli báðir velja sér kvenkyns persónu þegar þeir fara að fjalla um geðsjúkan einstakling. Stúlkan í Paradísarfuglinum er nafnlaus en allir vita að hjá Bubba er það “Lilla”, sem er “orðin ær” og leggst inn á geðdeild. Ætli þeir séu að koma í veg fyrir að vera tengdir geðsjúkdómum sjálfir?)

Raflækningar hafa tíðkast gegn svæsnu þunglyndi í bráðum 70 ár. Á Íslandi voru skiptar skoðanir um ágæti þessarar aðferðar; Karl Strand, sem varð yfirlæknir á geðdeild Borgarspítalans þegar hún opnaði 1957, var hlynntur notkun raflækninga og þær voru því brúkaðar þar. (Sjá viðtal við hann í Mbl. 25. 6. 1993.) Fyrir þann tíma tíðkuðust einnig raflækningar, t.d. á Farsóttahúsinu (sjá frétt frá 1953 um þetta) og, að ég hygg, fyrir norðan. Aftur á móti var Helgi Tómasson, yfirlæknir á Kleppi, eindregið á móti raflækningum (sjá árás á hann í Mánudagsblaðinu 11. janúar 1954), hvers vegna veit ég ekki. En ég vorkenni sjúklingunum á Kleppi sem ekki fengu þennan séns út af tiktúrum yfirlæknisins. Ef allt um þrýtur er skárra að þiggja þessa meðferð en lifa við óbreytt ástand, þrátt fyrir aukaverkanir (minnistap - alla jafna er það tiltölulega lítið en ég var sérlega óheppin, að venju).

Sem geðsjúklingur er ég afskaplega þakklát fyrir að vera uppi á þessum lyfjaþróunartímum. Það sem mér finnst hins vegar merkilegt er hve fordómar fríska fólksins gagnvart svona sjúkdómum eru lífsseigir. Ég er handviss um að slæmt endurtekið þunglyndi og kvíði eru arfgengir sjúkdómar og í rauninni ekkert dularfyllri en sykursýki eða kransæðaþrengingar. Samt er það svo að ég verð hvað eftir annað vör við þá skoðun fólks að veikindin séu að einhverju leyti sjálfskaparvíti, þ.e. að sjúklingar kalli þau yfir sig sjálfir, væntanlega með syndugu líferni og óhreinu hjarta …? Og þegar kemur að læknisráðum er sama fríska fólkið andsnúið þeim og telur jafnvel að geðsjúklingar séu að gadda í sig dóp alla daga (væntanlega af syndugri fíkn). Þetta er ótrúlegt!

M.a. út af þessu dáist ég að bók eins og Truntusól því hún gefur þokkalega raunsæja mynd af því hvernig er að þjást af geðsjúkdómum. Mér finnst það afrek af tæplega hálfþrítugum manni að skrifa svo góðan texta og einstakt að hafa komið bókinni í útgáfu árið 1973.

Ummæli (2) | Óflokkað, Geðheilsa

1. ágúst 2010

Virkjun Öxarár og Jón á Brúsastöðum

St�flan � ÖxaráÍ gær gengum við maðurinn upp að stíflunni í Öxará, skammt ofan Brúsastaða. Bóndinn á Brúsastöðum var svo almennilegur að leiðbeina okkur að þessari dularfullu stíflu …  Ég segi dularfullu því afar erfitt er að finna upplýsingar um hana og svo virðist sem menn vilji þagga niður tilvist stíflunnar (sbr. fyrri bloggfærslu) enda þykir pólitískt ekki mjög rétt á þessum síðustu ofurgrænu tímum að selveste Öxará skuli hafa verið virkjuð!

Nú hef ég eytt ómældum tíma í að gramsa á timarit.is og gegni.is, í upplýsingaleit. Miðað við það sem ég fann held ég að stíflan hljóti að hafa verið reist fyrri hluta árs 1929 og rafmagnið brúkað til að raflýsa Valhöll. Það hefur verið mikið afrek að reisa staura og leiða rafmagn frá stöðvarhúsinu niður á Þingvelli á þessum tíma en hótelið hefur þá væntanlega verið spikk og span á Alþingishátíðinni sumarið 1930.

Jón Guðmundsson, bóndi á Brúsastöðum, keypti Hótel Valhöll árið 1919. Þá stóð hótelið hinum megin ár við það sem seinna varð, á svokölluðum Köstulum. Hann dreif í að raflýsa hótelið árið 1927 (sjá frétt í Vísi 3.8. 1927, s. 3), sem þótti mikill munur en “olíumótor framleiðir rafmagnið til bráðabirgða” segir í fréttinni.

raflýst Valhöll

Til hægri sést auglýsing úr Vísi 2. 9. 1927. Jafnframt því að raflýsa hótelið hafði Jón komið upp miðstöðvarhitun og lagt vatn í hótelið. Þetta hefur því verið talsvert lúxushótel á þeim tímum þótt húsakostur hafi verið af vanefnum, frá upphafi.

Árið 1929 var Hótel Valhöll rifin og flutt hinum megin ár, þar sem hótelið stóð síðan, allt til þess það brann sumarið 2009.

Menn höfðu vonað að hægt yrði að flytja partana á ís en sú von brást og þurfti að djöfla þessu yfir ána sjálfa. Þótt Jón Guðmundsson fengi nokkurn styrk frá ríkinu til verksins virðast allir sammála um að sá styrkur hafi dugað skammt og hann hafi þurft að leggja fram stórfé sjálfur. (Sjá t.d. “Gistihúsið Valhöll” í Fálkanum 9.8. 1930, s. 4 og “Aukning Valhallar” í Vísi 30.8. 1929, s. 2.)

Jón lagði ekki árar í bát þótt ekki fengist fé heldur dreif hlutina áfram. Hann fer fljótlega að kanna hvernig lýsa megi nýju húsakynnin með notkun nýjustu tækni. Í BA ritgerð Torfa Stefáns Jónssonar, Aðdragandi að friðun Þingvalla 1930, segir á s. 68 [merkt s. 72 í pdf-skjalinu sem ég vísa í með leyfi höfundar]: “Jónas [Jónsson frá Hriflu] óttaðist og sagði frá því að bæði presturinn á Þingvöllum, Guðmundur Einarsson, og Jón Guðmundsson, bóndinn á Brúsastöðum hafði komið til hugar að virkja Öxará. Óvíst er hvenær þeir sendu inn virkjunarbeiðni en í það minnsta kom fram í símskeyti frá Guðmundar Sveinbjörnssonar [svo!], skrifstofustjóra, að virkjunarbeiðnin eigi vera látin bíða. Jónas tók það þó fram að þeir ætluðu sér ekki að virkja sjálfan fossinn en “slíkt mannvirki á þessum stað mundi særa fegurðartilfinning manna … ef bygðir yrðu ljótir steinsteypukassar á vestari bakka Almannagjár.” Hann afsakaði þó þá félaga með því að þeir vildu hita og lýsa upp heimili sín. Reyndar virðist hugsanleg virkjun ekki vera neitt stórmál í hugum þingmanna, enda bar Jónas þetta frekar hæversklega fram. Bernharður Stefánsson, þingmaður framsóknarflokksins, var hlynntur friðuninni og mælti með henni en talaði jafnframt um mikilvægi þess að geta virkjað ár. Magnús Guðmundsson, þingmaður Íhaldsflokksins, taldi það jákvætt að menn nýttu sér ár og strauma til virkjunar og í sama streng tók Magnús Torfason, þingmaður framsóknarflokksins, sagði að býli yrðu vistlegri og hlýrri.”

(Þessar umræður virðast vera um friðunarfrumvarpið sem lagt var fram 1928.)

Jón á BrúsastöðumRaunar er ekki víst nema Jón Guðmundsson bóndi á Brúsastöðum hafi átt talsverðan hluta af Þingvöllum þegar þessi umræða fór fram. Kjartan Sveinsson segir í bók sinni Afbrigði og útúrdúrar, í kaflanum “Dauða kýrin á Þingvöllum“: “Jón heimsótti mig í Þjóðskjalasafnið og bað mig að finna fyrir sig landamerki Brúsastaða. Við athugun á þessu máli fann ég mér til skelfingar að þetta kindakot ætti meginið af helgi Þingvalla um Kárastaðastíg. Á hvaða verði hefði helgi Þingvalla verið metin til kaups og sölu, ef Hæstiréttur hefði útnefnt menn í gerðardóm? En málið leystist blessunarlega með sátt og hamingju á báða bóga. Nokkrum vikum síðar hittumst við Jón að máli. Hann var himinlifandi. Hann hafði skipt við Þingvallanefnd á öllum þessum sögulega helgidómi fyrir móamýri fyrir neðan Brúsastaði sem ríkið hafði átt. “Þetta er asskotans ári gott engjastykki,” sagði Jón. Hvers virði var Almannagjá eða jafnvel þetta Lögberg, þar sem varla var sauðkropp? “

(Myndin sýnir Jón á Brúsastöðum.)

 Þótt ég hafi ekki fundið neinar heimildir fyrir því þá held ég að Jón hljóti að hafa stíflað Öxará og reist virkjunina einhvern tíma á árinu 1929, sennilega fyrri hluta árs svo hið endurreista Hótel Valhöll hafi verið raflýst frá opnun, vorið 1929. Mér finnst þetta ótrúleg drift einkum þar sem ætla má að Jón hafi þurft að borga talsvert úr eigin vasa. Það er líka spurning hvort hann var ekki meira og minna að leggja rafmagnið yfir eigið land.

Stöðvarhúsið við ÖxaráÍ rauninni er ótrúlegt hvað Þjóðgarðurinn heldur minningu Jóns lítt á lofti og reynir jafnvel að stroka út verkin hans, sjá fyrri bloggfærslu sem vitnað er í hér í upphafi. En á okkar “upplýstu” andvirkjanatímum ganga menn stundum helsti langt í að varðveita ósannar myndir um meintan helgidóm landsins, hvort sem um er að ræða Kárahnjúka eða Öxará. 

(Myndin sýnir stöðvarhúsið og staurinn eina, við Öxará.)

Jón seldi svo Hótel Valhöll árið 1944 og gaf hluta söluhagnaðarins til Þjóðgarðsins á Þingvöllum. Einnig arfleiddi hann þjóðgarðinn að stórum hluta eigna sinna, skv. erfðaskrá. Honum var skógrækt og umhirða Þingvalla mjög hugleikin og sjálfsagt hefur virkjunin í Öxará og raflagning á Þingvöllum verið til úrbóta svæðinu, að hans mati.  

Ég hafði gaman af að sjá að Jón keypti Hótel Akranes og rak það 1944 - 1946, en þá brann það hótel. Önnur kjördóttir Jóns settist að hér á Skaganum og vafalaust eru margir Skagamenn komnir út af henni. (Sjá minningargrein um Jón Guðmundsson í Valhöll í Morgunblaðinu 5. 5. 1959, s. 8.)

Ummæli (3) | Óflokkað, Daglegt líf