Færslur frá 10. september 2010

10. september 2010

Færeyska umræðan á Facebook

Eiginlega ætlaði ég að blogga um færeysk nöfn. Mér finnst nefnilega svo skemmtilegt að það skuli vera hægt að kenna sig við stað, auk þess að eiga möguleikana á föðurnafni (eða kenna sig móður) og ættarnafni. Færeysk nafnalög eru að þessu leytinu miklu frjálslyndari en okkar nafnalög. (Sjá Løgtingslóg nr. 31 frá 26.03.2002, með áorðnum breytingum, reyndar kemur fram á hagstofusíðu Færeyja að menn fara ekkert sérlega mikið að lögum í nafngiftum því mörg nöfn eru víst ekki á “listanum yfir góðkend nøvn”.)

Ég sé fyrir mér hversu miklu flottara það hljómaði að heita “Harpa af Vallholti” í staðinn fyrir Harpa Hreinsdóttir. Eða “Harpa af Skaganum” og þá mundu allir halda að ég væri skyldi Oddi … sem ég er ekki.

Þegar ég fór að skoða fésbókarumræðuna á síðu Árna Zachariassen sá ég mökk af undurfögrum nöfnum en reyndar einnig ansi hvunndagsleg nöfn. (Hér er rétt að taka fram að það að hafa Facebook-síðuna sína galopna öllum jafngildir opinberri birtingu og ekkert sem kemur í veg fyrir að vísa í eða vitna til slíkrar síðu. Enda segir í notkunarskilmálum Facebook: “When you publish content or information using the “everyone” setting, it means that you are allowing everyone, including people off of Facebook, to access and use that information, and to associate it with you (i.e., your name and profile picture).” , nr. 4, undir Privacy.) Ég er samt ekki viss um að það sé kórrétt að vitna í nöfnin í umræðunni, áhugasamir geta bara loggað sig inn á fésbókina og skoðað þau sjálfir. Ástæða þess að ég datt inn í þessa umræðu var auðvitað sá frægi færeyski stjórnmálamaður, Jenis Kristjan Av Rana. Mér finnst reyndar staðurinn sem hann kennir sig við ansi hallærislegur en það gerir væntanlega óheppileg líking við íslenska tungu, maður sér nánast fyrir sér fílsrana. Eða afar ræfilslegt nes.

Síða Jenis Kristjans Av Rana er ekki síður áhugaverð. Ég fékk að vísu nett sjokk við að sjá afkomanda minn listaðan sem einn af nýjustu vinunum hans Jenis en hugga mig við það að drengurinn hyggst áreiðanlega ekki gerast bókstafstrúarmaður, sennilega ekki heldur færeyskur ríkisborgari. Nei, honum gengur sjálfsagt eitthvað annað til með nýstofnuðum fésbókarvinskap við þennan mann, ekki síður en Tungnamanninum sem ég sá einnig í ný-vinahópi Jenis(ar?).

Því miður reikna ég með að eitthvað af hinum fáu Íslendingum sem hafa nýlega vingast við Jenis af Rana séu skoðanabræður hans. Tel mig meira að segja þekkja líklega ritendur svokallaðra “stuðningsbréfa” til hans, sem nýlega birtust í einhverjum fjölmiðli íslenskum. Þið þurfið samt ekki að gá: Árni Johnsen er ekki FB vinur hans Jens okkar.

Jenis tilkynnir keikur að hann ætli að taka þátt í mánaðarlangri bænastund á fésbókinni þar sem beðið er fyrir 72.000 börnum sem eru í lífshættu í Pakistan. Það er fallega hugsað af honum. Enda skrifar systir hans, Varna Av Rana: “Og so leika fólk í, tí tú ikki etur døgurða saman við 2 íslendskum konum….. Tey skuldu heldur gjørt sum tú.” Neðar á síðunni er lýsingu Vörnu á atgervi bróður hennar í æsku og minnir á lýsingu Magnúsar Stephensen í æsku, eins og hann lýsti sér sjálfur.

Annars fær venjuleg bloggynja hér uppi á Íslandi nettan hroll við lestur síðu Jens hins færeyska. Má þó hugga sig við að þeir atkvæðamestu í orði eru danskir prestar. Þó er vísað í síðu einhvers fríkirkjufélagsskapar hérlendis, sem er sprottinn upp úr Ungt fólk með hlutverk, en á síðunni segist presturinn (nafnlaus en með mynd … kannski er þetta frægur maður þótt ég kannist ekki við andlitið) muni fjalla um afþökkun Jenis Av Rana á að sitja til borðs með samkynhneigðu pari … en sú umfjöllun er framtíðarinnar.

Sá eini færeyski prestur sem ég kannast soldið við hefur ekki einu sinni fésbókarsíðu. Það er skynsamlegt af honum, finnst mér.

En, sem sagt: Maður getur haft gaman af nafngiftunum hugnist manni ekki skoðanirnar.

Ummæli (3) | Óflokkað, Daglegt líf