Færslur frá 14. september 2010

14. september 2010

T….leg þessa dagana

Ég er búin að vera eitthvað ónóg sjálfri mér undanfarna daga. Raufarhafnska orðið lýsir þessu best en kona á mínum aldri þorir náttúrlega ekki að nota það.

Ýmiss konar sannfærandi pestareinkenni hrjá mig, t.d. kölduflog, hitaflog, magaverkur, höfuðverkur o.s.fr. Þetta er sosum ekkert illvígt - hefur oft verið miklu verra. Mér er ljóst að það er kvíði sem er að mér. Kvíðaeinkenni eru nefnilega gasalega lík flensueinkennum. Nema þegar hann magnast upp í ofsakvíða; þá kemur nokkurs konar generalprufa af hjartaáfalli.

Ég hef aldrei skilið þau skrauthvörf yfir þunglyndi eða kvíða sem finna má í skáldskap (”Bak við mig bíður dauðinn” - fílingurinn). Líkamleg einkenni þessara sjúkdóma  eru hvunndagsleg og órómantísk. (Raunar hef ég aldrei gripið þá hugmynd að það sé eitthvað rómantískt yfirhöfuð við sjúkdóma … hvíta dauða meðtalinn.) Á sama máta finnst mér ósmekklegt þegar menn, jafnvel skáld, gera sér þann leik að gera lítið úr geðsjúkdómum, t.d. með því að stimpla hvern þann geðveikan sem hefur aðra skoðun á álversbyggingum eða alls kyns umsvifum en þeir. (”Það er geðveiki að tífalda bankakerfi á sjö árum” … “Hérlendis er fjallað um sturlun sem norm, jafnvel lífsnauðsyn og æði er æðsta dyggðin …”) Græningjar sem telja sig vinstrisinnaða vini alþýðunnar eru sérlega slæmir með þetta. Næstverstir eru æstir nágrannar sem þykjast eiga harma að hefna. Raunar er upphafning og niðurlæging geðsjúkdóma jafn pirrandi fyrir þann sem haldinn er slíkum sjúkdómi. Í núverandi ástandi er ég þess vegna jafnpirruð útí liðið með silfurskeiðina í kjaftinum og frenjurnar á moggabloggunum. Leiði Jóhann sáluga Sigurjónsson hjá mér.

En sem sagt … ég hef það ekki nógu gott í augnablikinu. Það kristallaðist hjá tannlækninum í síðustu viku - þrátt fyrir að ég tæki skýrt fram að ekki mætti snerta ódeyfða tönn snerti hann hálfdofna tönn og kom við þá ódofnu við hliðina. Þetta var nóg til að sannfærandi byrjun á ofsakvíðakasti gerði vart við sig. (Vel að merkja þarf aðeins að hreinsa tennurnar en það er ekki hægt nema ég sé koldeyfð! Merkilegt nokk er ég ekkert hrædd við sprautur og finnst deyfingin aðeins óþægileg. Þetta er mjög sértækur kvíði!) Normal lesanda finnst þetta eflaust yfirmáta hystería í mér. En málið er að kvíðaröskun er fullkomlega órökréttur sjúkdómur og hefur ekkert með sjálfstjórn, skynsemi eða almennan kjark að gera. Þess vegna er hún sjúkdómur. Ef svona kvíði væri eitthvert eðlilegt fyrirbæri og sjúklingurinn gæti bara unnið bug á honum með því að herða sig upp væri hann náttúrlega ekki sjúkdómur. Ég varð frekar fúl við þennan indæla tannlækni, fannst að hann tæki ekki nógu mikið mark á mér. Auðvitað veit ég ekkert um tannlækningar. En af langri (og óæskilegri reynslu) er ég sérfræðingur í eigin kvíða og veit vel að beri eitthvað út af í tannlæknaheimsóknum getur það auðveldlega orðið til þess að ég þrói svo mikla tannlæknafóbíu að ég komist ekki til tannlæknis. Þess vegna á að taka fullt mark á mér.

Svo ákvað ég að æfa mig í leikhúsi á sunnudaginn. Það gekk ljómandi vel enda setið við borð en ekki í sætaröð. (Já, það breytir ótrúlega miklu fyrir mig.) Aftur á móti leið mér eins og ég væri með 40 stiga hita allan sunnudagsmorguninn og fram að leiksýningunni, laust eftir hádegið. Fyrirkvíðinn fyrir hugsanlegu ofsakvíðakasti er næstum eins slæmur og kastið sjálft.

Það er í sjálfu sér gott skref að viðurkenna vandamálið og gera sér grein fyrir því. Ég geri mér líka mætavel grein fyrir því að helv. kvíðinn er svona áberandi núna af því ég er svo góð af þunglyndinu. Þunglyndi hefur nefnilega þann eiginleika að breiðast yfir allar tilfinningar og frysta mann svo ein þunglynd kona verður að Morra, til sálar og líkama. Þannig séð er það sosum kostur að finna fyrir kvíða, sýnir að ég er ekki Morri í augnablikinu.

Aðalmálið er samt að finna út hvernig maður geti breytt ástandinu. Og það er sko hreint ekki auðvelt. Kvíðastillandi lyf draga langt en mér finnst þreytandi hvað lyfið mitt virkar á minni og einbeitingu svo ég tek ekki slíkt nema ég neyðist til. Hugrænu atferlistrixin sem ég lærði á kvíðanámskeiðinu í vor virka líka en þau virka ekki nóg. Óhefðbundnari ráð, t.d.  að hlusta á rás 1 (þar sem menn eru yfirleitt frekar rólegir, vitsmunalegir og spila almennilega tónlist) og sauma út á meðan virka líka. Slökunaræfingar fyrir svefninn eru fínar en ég næ yfirleitt aldrei neinum slökunarfíling að degi til, þrátt fyrir góðan ásetning og æfingar. Reglusamt líf (fara á fætur, skipta deginum í búta, hafa eitthvert plan fyrir hvern dag, helst að fara eitthvað út og hreyfa sig o.s.fr.) virkar líka, slær t.d. eitthvað á þeytivindu hugsana sem fylgja kvíðanum. Mér sýnist að ég þyrfti að æfa mig að sitja í sæmilega stórri byggingu, í stólaröð, og þá eru messur náttúrlega upplagðar (og algerlega ókeypis, einnig fyrir heiðingjana, svo sem rækilega hefur komið fram í umfjöllun presta í fjölmiðlum undanfarið). Fyrir nokkrum árum brúkaði ég einmitt þetta ráð og hafði gott af. Núna þarf ég að yfirstíga einhvern sálrænan þröskuld til að fá mig í þesslags æfingar en það tekst sjálfsagt.

Í dag er ég að hugsa um að nota rásar 1 trixið, leyfa mér að leggja mig (og eyðileggja þannig reglusemi dagsins) og reykja mig bláa (sömuleiðis alger rústun reglusemi). Splæsi á mig hálfri Rivotril og gef skít í skýra hugsun og minni. Á það skilið. Viskum sjá hversu langt þetta dregur.

Þessi færsla er óskáldleg með afbrigðum. Hún hefur engan boðskap og engan tilgang nema þann að koma skipulagi á óreiðuna í hausnum á mér. En ég hef komist að því að blogg mitt um eigin geðveiki, lummulegt sem það kann að vera, virðist hjálpa öðrum í sömu stöðu. Það er alltaf gott að vera ekki einn í heiminum. Og þótt tilgangur svona færslu sé fyrst og fremst að létta á eigin sálarkirnum þá þykir mér vænt um ef hún getur hjálpað öðrum. Enn gleðilegra væri ef þessi skrif opnuðu augu einhverra þeirra sem vilja hafa geðveiki í flimtingum og finnst slíkt sniðugt. Það er nefnilega voðalega ósniðugt og lítið skemmtilegt að vera geðveikur.

Ummæli (4) | Óflokkað, Geðheilsa