Færslur frá 23. september 2010

23. september 2010

Orðhengilsháttur, Ármann, Andri Snær o.fl.

Ég lét duga að lýsa yfir blöskrun minni á ummælum Andra Snæs, jafnt í grein / bloggfærslu hans sem og í Kastljósi, á fésbókinni. Fannst einhvern veginn ekki tilefni til að eyða meira púðri á manninn. En nú hafa a.m.k. tveir séð tilefni til að skrifa þokkalega langt mál um orðanotkun og fordóma Andra Snæs í fyrrnefndum tjáningum svo þetta fer að verða efni í bloggfærslu.  

Ármann Jakobsson skrifar varnarfærslu fyrir Andra Snæ, “Geðveik umræða“, í Smuguna á sunnudag. Hann staðhæfir að umræða um grein Andra snúist annars vegar um “notkun hans á geðveiki sem myndmáli” og hins vegar um “kynjahlutfall á fundi í Háskólanum um greinina”. Ármann fjallar svo einungis um fyrrnefndu umræðuna í sinni grein.

Hann telur umræðu um notkun Andra Snæs á geðveiki sem myndmáli einkennast af orðhengilshætti þeim sem HKL nefnir í Innansveitarkroniku (hann talar þar m.a. um að “íslendíngar beygi sig lítt fyrir skynsamlegum rökum, fjármunarökum varla heldur …” svo þetta er svo sem ágætt innlegg í umfjöllun Andra Snæs) og Ármann bætir við: “Ef þetta er ekki að drepa málum á dreif, þá kann ég ekki helskó að binda.” Ég er búin að liggja yfir þessari málsgrein en sé samt ekkert vit í henni; þarna er slengt saman algerlega óskyldum orðtökum og úr verður þvæla. En kannski var hún hugsuð sem lýsandi dæmi um orðhengilshátt? Eða stafi af því að höfundur sé með inngrónar táneglur (leggist bloggynja í myndhverfingaham)?

Hvers konar skóblæti er annars í gangi þarna hjá vistfemínistunum?

Að því búnu slengir Ármann fram ýmsum PC-skoðunum á geðveiki, s.s.: “Geðveikt fólk er eins og allir aðrir, nema geðveikt.”; “Geðveiki er ekki góð veiki.” og tiltekur staðgóða eigin þekkingu á geðrænum sjúkdómum, annars vegar fengna frá móður sinni og hins vegar frá geðveiku fólki sem hann hefur kynnst. Það er náttúrlega ekki annað hægt en vera sammála þessu og fagna góðu uppeldi Ármanns.

Aftur á móti staðhæfir hann: “Því er haldið fram að það ali á fordómum í samfélaginu að nota geðveiki í myndmáli eins og Andri gerir í grein sinni. Ég er ekki sannfærður um það sjálfur. Fordómar gegn geðsjúkum eru yfirleitt sprottnir af hræðslu, afneitun og hugsunarleysi, eins og aðrir fordómar …” og  ”Myndhverfingar af þessu tagi breyta auðvitað ekki fordómum gegn geðsjúkum enda er það ekki tilgangurinn. En ef menn ætla að kenna Andra um fordóma gegn geðsjúkum á Íslandi eru þeir sömu að misskilja illa hvernig fordómar virka.”

Ég er einmitt ein af þeim sem misskilja svona illilega hvernig fordómar virka og finnst Andri Snær yfirmáta hrokafullur og fordómafullur í garð geðsjúkra. Mér er líka óskiljanlegur einhver æðri tilgangur myndhverfinga Andra Snæs, sem ku ellefutaka orðin geðveiki / geðveikur í sínum pistli um orkuver og álver (ég taldi þetta ekki sjálf og biðst afsökunar ef rangt er talið). Þegar Andri Snær kemst á flug og segir: “Geðveikin er núna augljós í jarðvarmabransanum”, undir fyrirsögninni “Er kókaín í heita vatninu?” - á þá geðsjúkur óvirkur alki eins og ég að líta á þetta sem frumlega myndhverfingasköpun til marks um glæsilegan stíl skáldsins? Eða dæmi um algera vanþekkingu á bæði fíkn og geðveiki og ósmekklega samhnýtingu þessa tveggja, byggða á botnlausum fordómum Andra Snæs?

Og “Hérlendis er fjallað um sturlun sem norm, jafnvel lífsnauðsyn og æði er æðsta dyggðin …” hugnast kannski þeim skáldpiltum sem dreymir um að verða litlir laxnessar en í augum þeirra sem heimsækja geðdeild öðru hvoru, af illri nauðsyn, er hneyksli að sjá fullorðinn mann láta þetta út úr sér á prenti. ´

Í Kastljósþætti sagði Andri Snær m.a.: “Þá er ég kannski bara með megavöttin og segi: Strákar þið eruð ruglaðir. Þá fer maður að nördast ofan í tonnin og allt þetta drasl sem ég veit ekkert hvort almenningur sé vel inn í …”  Þetta eru náttúrlega hvorki fordómar í garð ruglaðs fólks né aðdróttun um heimsku almennings úti á landi, er það? Sennilega bara ein af þessum skemmtilegu veltilfundnu myndhverfingum.

Og litlu seinna bætir ástmögur græningjanna við: „Ég segi við þá: Strákar þið eruð eitthvað vangefnir, þurfiði 650 megavött ef Alcoa færi þarna niður.” Enn ein stórbrotin myndhverfingin, í þetta sinn á kostnað þroskaheftra.  Ég er hrædd um að Ármann þurfi að fara að tvíreima helskóna ef hann ætlar að drepa allt mál Andra Snæs (ekki þó á dreif).

Satt best að segja sé ég engan mun á málflutningi Andra Snæs og hins galvaska hundaræktanda úr Dalsmynni, sem tilkynnti í gær: „Hann er algjörlega geðveikur þessi hundaeftirlitsmaður. Hann leggur mann í einelti,” (Sökuð um ólöglega hundaræktun á Akranesi, visir.is 22. sept. 2010.) Hún gengur þó ekki svo langt að brigsla andstæðingi sínum um að vera vangefinn og drekka kókaínblandað vatn, eins og Andri Snær. Þótt hún sé ósammála hundaeftirliti bæjarins.

Mjög góður pistill eftir Júlíu Margréti Alexandersdóttur, Nauðsynlegur orðhengilsháttur, birtist á visir.is í dag. Greinin er lágstemmd og málefnaleg (ólíkt færslu bloggynju) en Júlía Margrét kemst að ólíkri niðurstöðu og Ármann Jakobsson, sem segja má að kristallist í þessum orðum: “Ástæðurnar fyrir þessum fordómum [í garð geðsjúkra] eru margþættar en mjög margir leggja að því líkum að fjölmiðlar og staðalímynd sem birtist oft þar af geðsjúkum, skipti þar sköpum. Tungumálið er verkfæri. Því er ekki hægt að halda því fram að grein á við grein Andra Snæs skipti engu máli. Sama þótt um óvitaskap hafi verið að ræða.”

Merkilegar afsakanir finna menn Andra Snæ, fullorðnum höfundi bókafjöldar. Ýmist brúkar hann óheppilegar myndhverfingar eða hann talar / skrifar af óvitaskap. Er maðurinn barn?

Úr því byrjað var að draga Nóbelsskáldið inn í umræðuna læt ég þessu lokið með að benda á líkindi Andra Snæs við Ólaf í Ystadal, þann mikla alþýðuvísindamann. Sá að Tryggvi Þór hafði sams konar karakter í huga, í fyrrnefndum Kastljósþætti. Það er leiðum að líkjast.
 

Ummæli (4) | Óflokkað, Geðheilsa, Daglegt líf