Færslur októbermánaðar 2010

30. október 2010

Ég sem fæ ekki sofið

“Ég sem fæ ekki sofið…

Bleikum lit
bundin er dögun hver og dökkum kili

Draugsleg er skíman blind og bak við allt
blóðlausir skuggar flökta á gráu þili

Andlit sem hylst að hálfu í dimmum skugga
hattur sem drúpir, hönd sem hvergi leitar
handfangs - og vör sem einskis framar spyr

Og úti stendur einn við luktar dyr.

… ”

(Hannes Sigfússon - úr Dymbilvöku)

Það er auðvitað ekki Dymbilvaka núna og ég hef aldrei verið sérstakur aðdáandi ljóða Hannesar Sigfússonar (þótt hann hafi vissulega búið í næsta húsi um tíma, reyndar áður en ég flutti í Vallholtið) … og það er langt þar til bleika dögunin birtist en þessi fyrsti hluti passar ágætlega við líðanina núna og það er alltaf huggun að sjá eigin tilfinningar miklu betur orðaðar en ég gæti nokkru sinni sjálf.

Breytir fáu að vera heima - ég fór seinna að sofa en venjulega en hrökk upp tæplega hálf fjögur í nótt og illar hugsanir og niðurrif læddust að mér, æ áleitnari. Nú hef ég lesið moggann mannsins, án þess að muna staf úr honum, lesið blogg alveg villivekk (held mig frá þeim neikvæðu og illkvittnu), skrunað yfir nokkra netmiðla, án þess að muna í rauninni nokkuð af því sem þar var að finna og yfirleitt reyna sem mest ég má að beina huganum frá mér og þeim vondu þönkum sem vilja hellast yfir mig, væntanlega af efnafræðilegum hvötum en jafn óhugnalegir samt. Mér er flökurt og mér er ískalt en það er bara vegna þess að ég hef sofið alltof lítið. Vonandi tekst mér að kúra aðeins á eftir.

Það er nístandi einmanalegt að sitja ein frammi vakandi en sama iðja er líka einmanaleg á geðdeild þótt fleiri séu þar á fótum á nóttunni en hér. Kötturinn, sem ekkert vildi við mig tala í gærkvöldi, hefur tekið mig í sátt og gott ef hún sýnir ekki samúð núna, a.m.k. myndi Pollýanna taka blíðlegt malið fyrir slíkt, sem og huggandi murrið sem minnir á nöfnu hennar Marlene. Þessi köttur var orðinn reyklaus á viku en hefur nú aftur tekið upp hina illu reykingameðvirkni og kemur út á stétt með sínum geðveika reykjandi eiganda. Hún venur sig fljótlega aftur af þessum ósið.

Það var gott að koma heim og hitta fólkið sitt. Og takast að sofna í eigin rúmi. En ég er jafn andskoti veik og hjari áfram í þessu helvíti á jörð. Guði sé lof að ég verð aftur læst inni fljótlega, helst fyrir næstu nótt. Stundum er betra að vera læstur inni.

Ummæli (6) | Óflokkað, Geðheilsa

24. október 2010

Geðdeild

Ég er komin inn á geðdeild og verður því vart bloggs að vænta næstu þrjár vikurnar - tölvuaðgangur er mjög takmarkaður og faktískt er ég of veik til að blogga.

Eitthvað virkar facebook einkennilega í þeirri einu netttengdu tölvu sem hér býðst og ég get ekki lesið skilaboð í FB. Ef einhver vill hafa stafrænt samband við mig er skást að gera það á þessu bloggi eða senda hér tölvupóst, á harpa@fva.is.

Vonandi hjarna ég við og get farið að blogga einhvern tíma fyrir jól ;)

Ummæli (6) | Óflokkað, Geðheilsa

15. október 2010

Bardús

Ég hef verið of lasin undanfarið til að blogga. Sem þýðir að ég hef verið of heillum horfin til að gera nokkurn skapaðan hlut annan en láta daginn líða með sem minnstum harmkvælum. Þessi færsla er út og suður eins og hugur bloggynju.

Samt verða kramaraumingjar að hafa ofan af fyrir sér og reyna að beina sjónum að einhverju öðru en eigin kröm. Það er erfitt þegar maður getur ekki lesið neitt flóknara en vefsíður - eiginlega er skást að hanga inni á myndasíðum Gúguls frænda - og manni finnst fésbókin eiginlega full flókið lestrarefni. (Hvað gerðu þunglyndissjúklingar í kasti fyrir daga Vefjarins? Lásu Andrésblöð?)

Svoleiðis að ég reyni að bardúsa. En af því ég festi hugann illa við, hann flöktir og linkar út og suður, datt mér náttúrlega fyrst í hug að athuga hvað þetta bardús væri eiginlega, fletti því upp og las (í Íslenskri orðsifjabók mannsins) að orðið myndi þýða dútl eða baks, uppruni óljós en hugsanlega komið af dönsku upphrópuninni bardus, í sambandi við skyndibreytingu, fall, skell eða þessa háttar … e.t.v. tengt gammeldansk barduse sem þýðir luraleg kona. (Leturbreytingar mínar).

þunglyndisskýÞetta fellur allt sem flís við rass: Ég dútla, baksa, fæ skelli og finnst ég ákaflega luraleg kona, höktandi hér á snigilishraða milli herbergja og ber sko ekki höfuðið hátt!

Dútlið undanfarið er að reyna að slá upp vefsíðum um sögu prjóns. Gallinn er sá að ég flökti út og suður og festist í aukatriðum … var t.d. að gera undirsíðu um spænska prjónaða svæfla, elstu dæmi um prjón í Evrópu, frá 13. öld, en festist kirfilega í spennandi sögu kastilísku konungsfjölskyldunnar á sama tíma. Reyndar virðast þær bakgrunnsupplýsingar hafa farið fram hjá sagnfræðiprjónaáhugafólki, það skiptir t.d. örugglega meginmáli hvað Alfonso X, pabbi hans Fernandos sem fékk elsta svæfilinn undir höfuðið í sinni steinþró,  hafði mikinn menningarlegan áhuga, þ.á.m. á arabískum fræðiritum … en samt! - þetta veldur því að verkið vinnst seint og illa. Jákvæði þátturinn er sá að það er aldrei að vita hvenær maður þarf á kunnáttu í flóknum ættartengslum kastilísku konungsfjölskyldunnar að halda.

Til að hafa vaðið fyrir neðan mig hafði ég samband við höfund bókar, hvar undurfagra litmynd af svæflinum hans Fernandos var að finna, og bað um leyfi til að nota myndina. Enda voru krassandi hótanir aftast í bókinni um lögsókn gegn hverjum þeim sem stæli svo miklu sem snitti úr bókinni, birtur myndalisti og sagt síðan að allar aðrar myndir væru teknar af höfundi sjálfum. Engin tilvísun varðandi þessa mynd svo ég vildi tala við manneskjuna sjálfa. Svörin sem ég fékk voru byrjendaleiðbeiningar í heimildaritgerð og tilkynning um að myndin væri ættuð úr bók þess góða biskups Richards Rutt. Þannig að myndin í bókinni var sem sagt stolin. Höfundaréttur sökkar enda fara menn endalaust á svig við hann. En ég var kurteis og fékk leyfi til að birta munsturteikningar höfundar, sem ég sé reyndar ekki betur en séu ættaðar úr hinum og þessum evrópsku sjónabókum ýmissa tíma.

Nú er ég föst í koptísku sokkunum (egypskum, frá 4. öld), sem voru ekki einu sinni prjónaðir en er einhver lenska að hafa með í sögulegri prjónaumfjöllun. Í því sambandi rakst ég á gamlan texta sem segir að Evans (Arthur sá sem maður verður áþreifanlega var við á Krít) hafi fundið fresku í Knossos, sýnandi nautaat en þar ku einhver vera á röndóttum nálbrugðnum sokkum, svipuðum þeim koptísku. Mér datt strax í hug að eyða nokkrum klukkutímum í að finna mynd af þessari helv. fresku þótt markmiðið hafi upphaflega verið að gera stuttan inngangskafla að elstu prjónaleifunum, sem eru egypskir sokkar frá því á 11. öld. Með þessu vinnulagi enda ég í pælingum um snákagyðjuna eða liljuvallarprinsinn eða eitthvað álíka sem ekkert kemur prjóni við …

Í gær datt ég líka í Dagligt liv i Norden, þ.e. pælingar um að þegar fólk eignaðist föt til skiptanna og gat farið að þvo fötin hætti það að þvo sjálfu sér og fann upp sterkara ilmvatn. Áhugavert en kemur því miður prjóni ekkert við.

rfa sig uppAf hverju að byrja á vef um sögu prjóns? Ja, mig vantaði verkefni (til að beina huganum frá grámanum og þokunni) og held að saga prjóns virki alveg eins vel og búddísk hugleiðsla til þeirra nota. Haldi ég áfram að vera svona veik endist mér verkefnið út ævina (nú eru meir en 2 tímar síðan ég vaknaði og svartsýnin leggst yfir kropp og sál). Ekki spillir því að verkið endist og endist að þær tvær grundvallarbækur í prjónasögufræðum eru ekki til á einu einasta íslensku bókasafni.

Í gramsinu á netinu hef ég annars fundið margt skemmtilegt, t.d. þessa síðu, sem eru krækjur í þær eldgömlu prjónabækur sem hinn góði enski biskup safnaði, og hef líka skoðað glænýju Knitting Iceland síðuna; glæsilegt framtak og þarft. (Aftur á móti pirraði mig þessi gegnumgangandi villa um vökustaurana, í örsögu prjóns á Íslandi, sem hver étur upp eftir öðrum en má rekja til sr. Jónasar á Hrafnagili, sem misskildi sínar heimildir. Allskonar smotterí truflar mig þessa dagana. Og ég varð náttúrlega fúl yfir að annar væri búinn að gera það sem átti að vera partur af mínum vef … en ég nálgast þá efnið bara öðru vísi.)

Beinagrind van GoghAnnað bardús er að mestu fólgið í að strjúka kettinum, reykja með kettinum, fóðra köttinn … reyna fylgjast með sjónvarpi, prjóna soldið (er að klára peysuna mannsins og næst eru það SMS-vettlingar á unglinginn) en stundum er ég of athyglisbrostin til að prjóna munstur. Merkilegt nokk á ég oft skást með að skrifa og held helst þræði í svoleiðis bardúsi. Kannski eru skrif-hugsi-stöðvarnar ekki á sama stað og málstöðvar til að tala?  Helv. þunglyndið hefur meira að segja gert mér ókleift að þrífa húsið og vesalings maðurinn þurfti að hraðræsta! Og ég sem er yfirleitt sérstök áhugakona um þrif og pússun, eins og sumir vita.

Nú er að þreyja þorrann smástund og leggja sig svo til að endurræsa heilann. Skríða svo í skjól Gúguls frænda þegar dimman tekur mig seinnipartinn.

  

Ummæli (8) | Óflokkað, Geðheilsa, handavinna

9. október 2010

Trix

Satt best að segja luma ég á æ færri brögðum þessa dagana, til að gera lífið léttbærara. Það er hægt að vera jákvæð fyrsta klukkutímann eftir að maður vaknar (en í morgun vaknaði ég kl. 5.30 svo öll jákvæðni er rokin út í veður og vind þegar þessi færsla er skrifuð); það má reyna að fíla núið og hugsa um hve haustlitirnir eru fallegir, hvað loftið er hreint og skarpt, hvað kyrrðin er mikil á morgnana, hvað er nú gaman að sjá annan reykingamann úti á svölum svo snemma morguns o.s.fr. En þegar klakinn umkringir mig verður allt þetta hjóm eitt og snertir mig ekki nokkurn skapaðan hlut, því miður.

Eitt sem nýtist mér þó glettilega oft er að ímynda mér hvað einhver vitur og velþekkjandi mundi ráðleggja í ýmsum aðstæðum eða líðan. Í þau hlutverk skipa ég annars vegar lækninum mínum og hins vegar sálfræðingi sem ég kynntist á kvíðanámskeiði í vor. Þetta er ólíkt fólk og myndi orða ráðleggingar mjög mismunandi. Í morgun sagði ímyndaði læknirinn kurteislega: “Það er engin ástæða til að mála skrattann á veginn og tóm vitleysa af þér að ætla að fletta upp hvort Marplan gangi ekki með staðdeyfilyfjum tannlækna, eins og þig minnir, þú verður bara neikvæðari í garð lyfsins.” Þetta er að sjálfsögðu alveg rétt hjá honum. Svo ég hugsa að ég fresti því um sinn að fletta upp helv. Marplaninu, sem ég er skíthrædd við.

Ímyndaði sálfræðingurinn sagði, kaldhæðnislega (einmitt eiginleikinn sem ég heillaðist svo mjög af í hennar fari, mér leiðist nefnilega súkkulaðisætt fólk): “Af hverju ertu alltaf að hugsa um hvernig þér líður? Þér myndi líða miklu betur ef þú reyndir að hugsa um eitthvað annað!” Sem er að sjálfsögðu alveg rétt hjá henni. Og ég ætla að reyna að fara eftir þessu, ekki hvað síst af því hún bætti við: “Kvíðasjúklingar eyða 95% af hugsunum sínum í að hugsa um eða vera vakandi fyrir hvernig þeim líður. Venjulegt fólk notar 75% í þetta.” 

Inn á milli ímynda ég mér líka hvað ég myndi sjálf ráðleggja öðrum í minni stöðu. Stundum hef ég verið góð í að hlusta á og ráðleggja öðrum svo það getur borgað sig að skipta um hlutverk. Því miður ráðlegg ég þessum aumingja geðsjúklingi yfirleitt að reyna að skaffa sér pásu, búa til holu undir tveimur sængum, troða eyrnatöppum í eyrun, loka úti hinn kalda heim og skríða í skjól. (Væri geðsjúklingurinn svolítið hressari myndi ég reyna að toga hann út undir bert loft í ör-ör-stutta göngu. En af reynslu held ég að það sé ekki gott fyrir greyið, í augnablikinu.)

Þetta hljómar náttúrlega eins og ég sé með geðrofssjúkdóm, sem er ég er ekki. En þetta trix, að bregða sér út úr eigin volæði og ímynda sér einhvern sér vitrari ráðleggja, getur hjálpað. Þetta er skylt því að fá lánaða dómgreind hjá öðrum, sem flestir óvirkir alkóhólistar hafa reynslu af.

Trixin sem ekki virka eru hins vegar óteljandi. Það eru aðallega velmeinandi ráðleggingar fólks sem ekki hefur reynslu af geðsjúkdómum. Yfirleitt tekst mér að leiða þær hjá mér enda oftast gefnar af góðum hug. Mér er heldur verr við ráðleggingar þeirra sem eiga að hafa vit á svona sjúkdómum, eins og t.d. ofuráherslu á heilbrigðan lífsstíl, sem á að lækna alla sjúkdóma (í sinni tærustu mynd byggjast slíkar ráðleggingar á sama prinsippi og yfirbótarpínslir kaþólsku kirkjunnar á sínum tíma, nema í stað þess að ganga í hrosshárskyrtli alla daga og hýða sjálfan sig reglulega með svipum til blóðs er nú ráðlagt að hlaupa af sér táneglurnar eða púla sem mest í tækjasal. Ekki spillir að taka í leiðinni upp kaþólska föstu, sem í nútímanum er allt frá því að forðast unnar kjötvörur til þess að lifa einungis á hráfæði. Og fasta, ekki þó þurrt, einu sinni í viku.)

Enn eitt dæmið um velmeinandi fræðilegan misskilning er áhersla starfsfólks á geðdeildum á að troða sínum sjúklingum í CODA. Þetta eru regnhlífar-meðvirknisamtök og talin mjög góð sem slík. En þunglyndi er ekki meðvirkni. Það að rugla saman þunglyndi og meðvirkni er algerlega út í hött! Sjúkdómurinn er af líffræðilegum toga en meðvirkni er lærð hegðun. Aftur á móti er eflaust hollt og gott fyrir aðstandendur geðsjúkra að stunda CODA-fundi. Í rauninni finnst mér komin full ástæða til að taka staffið á geðdeild á teppið hvað þetta varðar, það getur varla verið heppilegt að þeir sem annast geðsjúklinga noti tækifærið til að troða upp á þá persónulegum skoðunum sínum í meðvirknifræðum. Ekkert frekar en það væri æskilegt að sama starfsfólk gerði sitt besta til að turna geðsjúklingum yfir í mormóna. (Þessi staðhæfing um CODA-trúboð er byggð á því sem ég hef sjálf orðið vitni að og skilst af frásögnum annarra nýrri sjúklinga að hafi hreint ekki skánað.)

Nú orka ég ekki að skrifa um fleiri trix sem kunna að nýtast, s.s. hina ágætu æðruleysisbæn eða bara ýmsar þulur, kvæði eða annað sem maður getur haft fyrir sér í eymd sinni. Kannski er lækningarmáttur þessa fyrst og fremst fólginn í að dreifa sjúka huganum.

Ekki bólar á nokkrum lækningarmætti lyfsins eina, þrátt fyrir tvöföldun skammts. Einu áhrifin eru að mér er sífellt óglatt og illt í maganum. Í gærkvöldi reyndi ég ekki að horfa á sjónvarp og reyndi heldur ekki að prjóna enda ruglast ég í hverri umferð. (Sem er talsvert sjúkdómseinkenni því venjulega er ég frekar flink að prjóna.) Ég get vel að merkja bara horft á sjónvarp ef ég prjóna á meðan þegar ég er svona athyglisbrostin.

Í staðinn skoðaði ég bækur, las slatta en tókst ekki einu sinni að muna 2 uppflettiorð sem ég ætlaði að skoða á Vefnum, hálftíma síðar. Ætli ég lesi þetta ekki bara aftur í dag? Ef kötturinn er ekki búinn að éta minnismiðana sem ég stakk í bækurnar (þetta er bókelskur köttur og enn hrifnari af minnismiðum).

OK - búin að hanga á fótum í 3 tíma - klukkutími í viðbót og svo get ég notað holutrixtið með sængunum tveimur og skriðið í skjól úr þeim kalda illa heimi.

Ummæli (5) | Óflokkað, Geðheilsa

5. október 2010

Harmblogg

Kötturinn vakti mig hálf-sex í morgun. Ég náði undir klukkutíma normal. Sá tími styttist með hverjum deginum.

Núna er ég koldofin, finnst allt ískalt og dimmt. Einhvers staðar djúpt inni í mér leynist Harpa en það er ansi djúpt og frosið allt í kringum hana. Ætti að taka upp nafnið Morri í staðinn. Ekkert skiptir máli og heimurinn hefur breyst í nístandi tóm.

Á föstudaginn komst ég að því að ég var búin að gleyma hvar sonur minn byggi í borg óttans. Samt hef ég komi nokkrum sinnum til hans, síðan hann flutti. Þetta bara strokaðist út. Síðan hefur æ meir strokast út og ég get ekki lengur lesið (þ.e.a.s. auðvitað get ég lesið en ég man ekki það sem ég les - þetta er athyglisbrestur dauðans!). Seinnipartinn í gær var orðið erfitt að hitta á rétta lykla á lyklaborðinu svo ég læt pjanófortið algerlega ósnert. Reyni ekki að horfa á sjónvarp en gæti sosum legið á sófanum fyrir framan tækið - það er ekki verri staður en hver annar. Hannyrðir hafa verið lagðar til hliðar að sinni en ég SKAL samt berja saman færslu um sögu prjónaskapar fljótlega, það tekur þá bara einhverja daga að rifja aftur og aftur upp það sem ég les um það efni og reyna að hugsa í smáskömmtum.

Í gærmorgun gerði ég tilraun til að svindla á kvíðastillandi skammtinum, seldi mér þá hugmynd að ég yrði skírari í kollinum fyrir hádegi án slíkra lyfja. Það virkaði ekki og það eina sem ég hafði upp úr tilrauninni var að stíga ölduna í þeim stutta labbitúr sem ég þó kom mér í. Kvíðastillandi draslið virðist laga jafnvægisskynið svolítið.

Þegar ég var að veikjast vorkenndi ég sjálfri mér ógurlega, fannst mikið áfall að komast að því að nýja lyfið væri að hætta að virka. Núna er ég kominn á þann stað að ég vorkenni mér ekki neitt, faktískt finn ég ekki til neinna tilfinninga. Skruna yfir fjölmiðla og tek eftir að Lady GaGa og Yoko Ono tóku saman lagið, að einhverjir flögguðu nasistafána á Austurvelli, að femínistar eru enn einn ganginn óðir af heilagri vandlætingu … en þetta líður hjá eins og bíómynd og snertir mig í rauninni ekki nokkurn skapaðan hlut. Mér er líka ljóst að fullt af fólki hefur það miklu meira skítt en ég og það er fullt af fólki sem glímir við grafalvarlega sjúkdóma o.s.fr. en það er ekki nokkur einasta huggun eða pepp; í rauninni kemur það heldur ekkert við mig.

Það eina sem ég get gert er að reyna að bíða af mér helvítis kastið og lifa það af. En í miðju þunglyndiskasti er ekki einu sinni það huggun eða til bóta. Þegar maður syndir gegnum daginn á 38 snúninga hraða og hver sólarhringur verður óendanlega langur er hugsanlegur eða væntanlegur bati svo handan sjóndeildarhringsins að hann er ósýnilegur möguleiki.  Skásti raunhæfi möguleikinn er að dobblun lyfjanna skili einhverjum árangri, það ætti að vera ljóst fyrir miðjan október. Þangað til er best að sofa sem mest, sem er guði-sé-lof ekki erfitt því helv. þunglyndið eyðir orku meir en nokkurt fyrirbæri sem ég þekki. Svefn er dásamleg pása úr þessu helvíti.

Þessi færsla var bein útsending úr Hel. Hirði ekki einu sinni um að myndskreyta hana en menn geta ímyndað sér sogandi svarthol ef þeir sakna mynda. Er  farin að sofa.

Ummæli (11) | Óflokkað, Geðheilsa