Færslur nóvembermánaðar 2010

27. nóvember 2010

Öng er sótt verri

hveim snotrum manni / en sér engu að una (Hávamál, 95. erindi). Ég er einmitt snotur kona, altént þegar heilinn starfar nokk normal, en akkúrat núna er ég í ástandinu “sér engu að una”, sem mér finnst lýsa þunglyndi aldeilis prýðilega.

Er heima, í helgarheimsókn. Dagurinn í gær var í slöku meðallagi og ég tiltölulega freðin þegar ég kom heim um kvöldmatarleytið. Svo vaknaði ég hálf-fjögur (só möts fyrir hinn góða rotara, þ.e. sterka geðlyfið sem á að fá mig til að sofa áfram!) og gafst upp og fór á fætur laust fyrir hálf-fimm. Kattarkvikindið má eiga það að hún dreif sig með á fætur, grútsyfjuð, og hefur haldið mér selskap, ásamt því að gerast umsvifalaust meðvirkur aðstandandi reykingamanns þótt um miðja nótt væri. Samt var hún tiltölulega óhress með að láta mér eftir rúmið mitt í gærkvöldi … búin að koma sér upp huggulegum kúruselskap með manninum í hjónarúminu en þurfti að flytja á teppið sitt í gluggakistunni í nótt, þegar geðveika yfirlæðan mætti á svæðið.

Svefninn hefur verið í lagi þessa vikuna á geðdeildinni svo ég reiknaði nú ekki með árvöku eða fjögurra tíma nætursvefni hér heima. Hafði meira að segja með mér eyrnatappa, ef hinum góða eiginmanni yrði á að hrjóta (nokkuð sem hann staðhæfir að hann geri alls ekki og sé einungis ímyndun konunnar stöku sinnum).

Ég ætla að gista hér næstu nótt líka og verður spennandi að sjá hvernig fer.

— 

Eftir rúmar fimm vikur á geðdeild hefur mér batnað svolítið, eins og ég lýsti í síðustu færslu, en er enn svakalega fötluð til sálar; ólæs, með athyglisbrest dauðans og maran leggst oftast á mig laust fyrir hádegi, þyngist frameftir degi og getur orðið ansi þungbær á kvöldin. Lyfið sem ég gadda í mig hefur a.m.k. sýnt aukaverkanir, aðallega lágan blóðþrýsting og sjóntruflanir; ég verð svakalega nærsýn laust eftir hádegi dag hvern, sennilega af því ég rýni um of í prjónamynstur og augað nær víst ekki að stilla sig eðlilega. Læknandi verkun er aftur á móti minni, þó er hugsanlegt að meiri ró, þ.e. minni örvænting og þ.a.l. færri og daufari sjálfsvígsþankar, séu þessu lyfi að þakka.

Eldhúsið eitrar reglulega fyrir mér, einkum með belgbaunum, en einnig pepperóní, sojasósu og fleiru tilbehör. (Ef einhver hefur áhuga á að sjá eitrunarlistann fyrir Marplan er hann hér.) Ég er hætt að kvarta yfir þessu, spyr hjúkrunarfólkið ef ég er vafa en ef ég er viss ýti ég matnum til hliðar og borða þann part sem ég má. Enda er það staðfast markmið að þyngjast um kíló á viku svo ég passi í einhverjar aðrar buxur en þessar fáu druslur sem ég á í nr. 36. Markmiðið hefur sennilega ekki alveg náðst en eitthvað hef ég þyngst enda et ég samviskusamlega allt af disknum í hvert mál (nema eitraða dótið) - hef aðeins einu sinni tilkynnt að þennan mat gæti ég ekki borðað, það var daginn sem var hjartagúllas á borðum. Svo var ég nógu séð til að láta merkja mínus fisk á mitt matarspjald frá fyrsta degi, það er nefnilega fiskur í annað hvert mál. Og ég graðga ekki í mig fiski á almannafæri fremur en þær góðu konur undir Jökli, í Kristnihaldinu.

Dagarnir á geðdeild eru hver öðrum líkir og renna saman enda fylgir djúpri geðlægð talsvert blakkát (guði sé lof). Ég er yfirleitt komin á fætur milli 7 og 8, oft uppúr 7, en frá korter í 7 má fara út að reykja. Eftir morgunreykingar og morgunkaffi sendi ég manninum morgun-SMS-ið, reyni að hafa það soldið upplífgandi fyrir manninn sem gæti leiðst í sínu skrifstofudjobbi. Svo reykir maður meira og bíður eftir morgunmat og morgunlyfjum, milli hálfníu og níu. Eftir það má prjóna svolítið meðan beðið er eftir læknaviðtali, venjulega í kringum 10. Eftir það kíki ég á tölvupóst inni í Listasmiðju, sem er opin mánudaga til fimmtudaga, rúmlega klukkustund fyrir og eftir hádegi. Yfirleitt nenni ég ekki að skoða neitt á vefnum enda afar áhugalaus um hinn ytri heim. Síðan er það morgunsturtan, reykja og prjóna og bíða eftir hádegismatnum og hádegislyfjunum. Ég hef aðeins reynt að fara í labbitúr eftir hádegið, lengst alveg niður í Tiger á Laugaveginum en sá göngutúr var reyndar fulllangur og mér leið eins og ég væri á fyrsta glasi á leiðinni heim á deild aftur. Eftir hádegið er oft einhvers konar stutt dagskrá, tónlistarþerapía eða kyrrðarstund. Misjafnt hvort ég mæti á þetta - fer eftir hve maran er orðin þung og hvort ég treysti mér til að sitja ógrátandi gegnum hálftíma prógramm. Yfirleitt reyni ég að halda mig frammi alveg fram að kvöldmat, hálf sex, og prjóna, milli reykferða. Fram eftir degi get ég haldið uppi samræðum við samsjúklinga og lít sennilega tiltölulega ógeðveik út. En eftir kvöldmat treysti ég mér yfirleitt ekki til að feika þetta lengur, finnst kliður óþægilegur og hljóðið í sjónvarpinu óþægilegt og samvera óþægileg, svo ég flyt inn í herbergi með prjóna og Mp3 spilarann og reyni að lifa af kvöldið kappklædd uppi í rúmi … stundum tek ég hálftíma í einu til að höndla tímann fram til klukkan 10 þegar ég fæ kvöldlyfin og get fljótlega farið að sofa og sloppið frá mörunni miklu. Komi gestir get ég yfirleitt feikað mig fríska í takmarkaðan tíma.

Þetta hljómar sem heldur fátæklegt líf - ég hef löngu gefist upp á að reyna að lesa Fréttablaðið eða aðra snepla sem berast inn á deildina, get ekki fylgst með sjónvarpi og hef eiginlega ekki snefil af áhuga á neinu sem er að gerast þarna úti. En þetta er líf sem hentar mér afar vel sem stendur. Hæfilega takmörkuð dagskrá, afskaplega almennilegt starfsfólk og samsjúklingar sem eru oft á sama báti og ég,  henta vel konu sem er höll úr heimi og þarf fyrst og fremst að einbeita sér að því að komast í gegnum einn dag í einu. Um daginn var ég spurð hvort mér leiddist. Ég íhugaði þetta svolítið og niðurstaðan er að mér leiðist ekki. Held að það sé partur af því að finnast yfirleitt næstum ekki neitt; finn ekki fyrir tilhlökkun, kvíða, reiði, leiða, óþolinmæði  eða nokkrum sköpuðum tilfinningum. Það eina sem ég finn verulega fyrir seinnipartinn og kvöldin eru óbærileg þyngslin (eins og maður sé í svarta þoku sem leggst yfir og allt um kring og inn í mann líka), sársaukinn sem fylgir þunglyndinu (einhvers staðar djúpt inni í brjóstinu), og hroðalegur kuldi sem kemur einhvern veginn innan frá svo það er erfitt að klæða hann af sér.  Kosturinn við geðdeildardvöl er að maður þarf ekki svo mikið að vera að útskýra þessa líðan, þar skilja menn nákvæmlega hvernig djúp geðlægð lýsir sér enda margir á sama báti. Verkfærin til að höndla kvöldin eru prjónar og tónlist.

Ég veit ekki hvenær ég útskrifast og er í rauninni alveg sama. Vona bara að ég verði ekki send heim fyrr en ég er tilbúin til þess að höndla heimveru.

Akkúrat núna ætla ég að bíða eftir að klukkan skríði yfir átta svo ég geti tekið morgunlyfin mín og reynt að sofna aftur svolitla stund. Var svona að gæla við það fyrirfram að komast á hárgreiðslustofu og láta lita á mér hárið (gráa röndin er orðin ansi viðamikil) eða skreppa í ljós en sé núna að það er alltof stór biti fyrir mig og verður að frestast eins og allt annað. Enda er mér nákvæmlega sama þótt ég líti út eins og draugur upp úr öðrum draug - ég græja þetta bara þegar ég verð orðin þokkalega frísk.

   

Ummæli (4) | Óflokkað, Geðheilsa

24. nóvember 2010

Af 32 A

Ákvað að blogga af deildinni svona einu sinni. Í dag er miðvikudagur og þá er fastur liður að skipta á rúminu sínu … aðrir fastir liðir eru matartímar, tímar í Listasmiðju (þar sem m.a. er hægt að komast á netið), kyrrðarstund með prestinum - miðvikudagsliður - (sem ég sleppti í dag en mæli annars með) og svo smotterí eins og blóðþrýstingsmælingar og svoleiðis. Þessar upplýsingar eru fyrir þá sem langar að vita hvað við ríslum okkur við hér á geðdeildinni ;) Til að peppa upp daginn fer ég svo ótal oft út að reykja og uni mér annars við að hlusta á tónlist og prjóna. Undanfarna daga hef ég getað skroppið í stutta labbitúra eftir hádegi, aðallega til að verða ekki “kramaraumingi til sálar og líkama”, eins og amma sagði … hugsanlega hefur hún haft rétt fyrir sér og mér finnst nóg að vera kramaraumingi til sálar.

Góðar fréttir eru þær að nú hef ég sofið hátt í 9 tíma þrjár nætur í röð. Það er kraftaverk! Þótt annað lyfið, sem átti að hjálpa mér að sofa út nóttina (í stað þess að vakna upp eftir svona fjóra tíma og geta ekki sofnað aftur) væri alveg hreinsað út í gærkvöldi svaf ég nánast eins og ungabarn. Satt best að segja held ég að þetta lyf hafi hvort sem er aldrei virkað neitt en gæti trúað að hitt lyfið virkaði.

Brjálæðislegu örvæntingarköstin hafa líka látið undan síga og sjálfsvígshugsanir dofna æ meir. Þegar ég fer út bíð ég orðið eftir græna karlinum - þangað til núna hefur mér verið nákvæmlega sama hvort keyrði á mig bíll eða ekki.

Svoleiðis að stórbættur svefn og rórri líðan hlýtur að teljast mikill plús. Mínusar eru að blóðþrýstingurinn er stundum ansi lágur og þunglyndið getur enn orðið slæmt seinnipartinn og á kvöldin - enginn helvítisdagur hefur samt komið síðan í síðustu viku og gærkvöldið var nokkuð gott.

Ég hef ákveðið að halda fast við kjörorðin mín sem standa einmitt (á grísku) á þessu bloggi: “Ég vænti einskis, ég óttast ekkert, ég er frjáls”, að undanskilinni síðustu setningunni. Þetta eru fín kjörorð og gefa í rauninni æðruleysisbæninni og “einn-dagur-í-einu”-frasanum lítið eftir. Það er sem sagt best að hanga í núinu, gleðjast yfir góðu núi en hugsa lítið um framtíðina, hvorki jákvætt né neikvætt.

Þetta var útsending dagsins af 32 A :)

Ummæli (3) | Óflokkað, Geðheilsa

21. nóvember 2010

Fréttir úr geðveika heiminum

eru í rauninni engar. En úr því ég er heima og búin að opna bloggið finnst mér rétt að skrifa einhvern stubb um geðveikina. Nú er ég búin að vera í rúman mánuð á 32 A og sé / finnst ekki betur en ég sé í nákvæmlega sama farinu og þegar ég fór þangað inn - eftir að hafa verið veik hér heima í rúmar 3 vikur. Svoleiðis að þessi djúpa geðlægð er ekkert farin að grynnka. Og lyfið sem ég er að prófa hefur ekki sýnt neina verkun enn. Skammturinn var hækkaður í fyrradag, þess vegna mátti ég ekki fara heim fyrr en í fyrsta lagi í gærkvöldi því það þurfti að tvítékka blóðþrýsting daglega fyrst á eftir. Af því mér hættir til að sofa mjög illa, sérstaklega hér heima, ákvað ég heldur að skreppa í sunnudagsheimsókn heim til mín - og auk þess var ég hundveik seinnipartinn í gær og í gærkvöldi og hefði hvort sem er ekki höndlað að fara út af deildinni þá. Lyfið þolist vel, að vísu er blóðþrýstingurinn ansi lágur en ég hef alltaf haft lágan blóðþrýsting hvort sem er og get ekki sagt að ég finni neitt sérstaklega fyrir neinum einkennum þess vegna.

Það er gott að vera heima núna - meira að segja kötturinn tók mér strax opnum örmum / loppum, sem er óvenjulegt. Okkur kettinum hefur í sameiningu tekist að ræsa unglinginn, sem var þægilega skemmtilegt umstang og tók langan tíma … unglingurinn fer svo í vinnuna en frumburðurinn kemur heim seinnipartinn, í sunnudagssteikina, og ég fer með honum til baka, vonandi heldur snemma kvölds. Það er ótrúlega gott að sitja við eigin tölvu í friði, í eigin stofu, með fólkið mitt í eigin tölvum (já, þetta er doldið tölvusjúk familía) og hlusta á fr. Jósefínu reyna að fanga óvenju óþæga flugu í stofunni (já, þessar flugutuðrur vilja stundum ekki láta éta sig nema með eftirgangsmunum).

Skaginn ljómar af sól … og mikið sem var fallegt að aka inn í bæinn, sjá almennileg fjöllin í kring, sjá vítt til allra átta … ég er orðin svakalega leið á að horfa á Öskjuhlíðina og Perluna oft á dag, af opinberu reykingasvæði okkar geðsjúklinganna.

Ástandið á mér akkúrat í augnablikinu er með skásta móti; ég finn vel fyrir þunglyndinu en get samt ýtt því nóg til hliðar til að skynja annað. En af reynslu reikna ég með að verða uppvakningslegri eftir því sem á daginn líður.

Á deildinni er gott að vera, þannig séð. Geðdeild er náttúrlega ekki skemmtistaður heldur sjúkrastofnun og oft líður mörgum þar illa. En starfsfólkið er einstakt og fyrir mig er 32 A einmitt besti staðurinn núna; það er velkomið skjól og þar losnar maður líka við einfeldnislegar ráðleggingar og útlistanir á þunglyndi, sem ég heyri annars alltof oft frá fólki sem hefur nákvæmlega enga þekkingu á sjúkdómnum. (Ég var búin að nefna áður ráðið um svissnesku geitamjólkina, er það ekki?)

Dagarnir eru misjafnir, stundum næ ég ógeðveikum tímaglugga fyrst eftir að ég vakna á morgnana, stundum ekki. Sumir dagar eru þokkalegir, sumir í lélegu meðallagi og sumir dagar eru helvítisdagar, frá morgni til kvölds. Þá set ég sjálfa mig í gjörgæslu; loka á alla gesti og einbeiti mér að því að komast gegnum 72 klukkustunda langan daginn, klukkutíma fyrir klukkutíma eða jafnvel hálftíma fyrir hálftíma. Það er eina leiðin. Á svoleiðis helvítisdögum hefur það gerst að ég geti ekki einu sinni prjónað - þá hlusta ég á Kathleen Ferrier syngja aftur og aftur Agnus Dei og Qui sedes ad dexteram Patris (úr H-moll messu Bachs); eftir svona 20 skammta af þeim líður mér yfirleitt skár. Ýmsar Ave Maríur og jarðarfararmarsar Chopins og Beethovens koma sér líka vel. Á betri dögum hlusta á ég heldur nútímalegri músík af ýmsu tagi og á bestu dögum næ ég að hlusta á Marianne Faithfull syngja illkvittnislega hressandi lög úr Túskildingsóperunni. Svo sjóaður geðsjúklingur er auðvitað löngu búinn að koma sér upp sérstökum geðveikis-tónlistarpakka sem brúka má eftir þörfum. (Reyndar eru sólbaðslögin á sama spilara - síðan í sumar - en ég hleyp nú yfirleitt yfir þau, er ekki alveg í standi fyrir gleðilega söngva núna … reyndar á blúsinn stundum við.)

Ég hef aðeins borið það við að reyna að lesa, greip með mér ljóðabók þegar ég var heima um síðustu helgi, vitandi það að mörg þessara ljóða ætti ég að kunna utanað og því væri væntanlega hægt að lesa þau án þess að gleyma jafnóðum því sem ég les. Get ekki sagt að árangurinn sé neitt stórkostlegur og athyglisbrestur dauðans kemur enn í veg fyrir að ég geti lesið, þ.e.a.s. náð því sem ég les. Svo ég er enn háð því að prjóna, það er það helsta sem ég get iðjað, a.m.k. oftast.

Auðvitað er þessi færsla harmagrátur eins og síðustu færslur. En mér finnst gott að tjá mig á bloggi og heyrist / sýnist að einhverjir telji sig græða á að lesa þessar færslur. Mér er líka í mun að leiðrétta lýsingar sem ég “las” fyrir stuttu, þar sem geðdeildarvist var lýst eins og einhverju súrrealísku karnevali, gott ef var ekki bara banastuð á þeirri deildinni. Það er að því leyti undarlegra þar sem þetta var einmitt sama deildin og ég dvel á núna og hef oft áður dvalið. Kannski les ég einhvern tíma pistla um grín og pöbbastemningu á krabbameinsdeild - hver veit.  

Ummæli (5) | Óflokkað, Geðheilsa

13. nóvember 2010

Nýjustu tíðindi úr heimi geðveikinnar

Ég er heima í helgarleyfi, sem við skulum vona að gangi betur en síðasta tilraun, fyrir hálfum mánuði. Só far só gúdd.

Það er indælt að koma heim, sitja við sína tölvu í sinni stofu, þvo fötin sín í sinni þvottavél, hitta karlmennina sína (hefði kannski átt að raða þessu fyrst ;)  en kötturinn lítur hins vegar ekki við mér. Sennilega langrækin, hún fr. Jósefína, og fyrirgefur mér ekki að hafa yfirgefið sig fyrr en seint í kvöld … jafnvel ekki fyrr en á morgun. Hún vill ekki einu sinni koma með út að reykja (hef þó frétt að hún stundi það að fara yfir götuna og vera meðvirk með reykjandi kennurum og nemendum á gangstéttinni þar) því hún er önnum kafin við að taka frá minn part af hjónarúminu; álítur sjálfsagt að frátekt allan daginn og kvöldið þýði að ég sofi á teppinu í stofusófanum. Jósefína liggur því einbeitt og stanslaust ofan á sænginni minni, við koddann minn. Hm … (Og maðurinn nýbúinn að glopra því út úr sér í símtali að nýja hjásvæfan hans sé mýkri en ég …)

Hér á heimilinu eru ekki gerðar neinar sérstakar kröfur um að ég sé sósíal enda fjölskyldan oft að bauka hver við sitt. Enda eins gott því í morgun vitjaði þunglyndið mín strax í morgunsárið og ég held að ég sé nákvæmlega jafnveik núna og þegar ég lagðist inn fyrir rúmum þremur vikum. Því miður.

Lyfið sem ég er á ætti að vera farið að sýna einhverja virkni núna en svo virðist ekki vera. Því hefur verið gefið undir fótinn að hækka skammtinn í næstu viku ef enn hafa þá ekki fengist nein áhrif. Ég er orðin nokkuð verseruð í miseitruðum matartegundum (með þessu lyfi) og að hafa kannski enn lægri blóðþrýsting en venjulega. Annars hef ég ekki skoðun á lyfinu eða læknisaðgerðum: Fór inn með því hugarfari að nú stjórni ég engu sjálf heldur þiggi hjálp og vísdóm fólks sem er miklu hæfara til að stjórna fyrir mig.  Faktískt tek ég einungis einn dag í einu, reyndar oftast hálfan dag í einu, eftirmiddag og kvöld oft bara klukkustund í einu, og hugsa hvorki um fortíð né framtíð, væntingar eða kvíðvænlegar framtíðarhorfur; Er að verða nokkuð flink í þessari aðferð. Þetta er nauðvörn: Detti ég í að hugsa lengra fram í tímann en þennan eina dag hellist helv. vonleysið yfir og kvíðapúkinn fitnar á fjósbitanum. Það er vont. Þess vegna æfi ég mig vel í að hugsa bara um núið og hugsa helst sem minnst.

Enn hef ég lesblindu dauðans og les því fátt - skoða heldur myndir í bókum. Get ekki horft á sjónvarp, get ekki höndlað fjölmenni yfir ca. 2 manneskjur eftir kvöldmat, get suma daga prjónað en t.d. var ein slétt-ein brugðin of flókin aðgerð fyrir mig í morgun. Athyglisbrestur dauðans fylgir þessu ástandi … ég hef t.d. löngu gefist upp á að reyna að lesa matseðil dagsins því tveimur skrefum frá upplýsingatöflunni er ég búin að gleyma honum. Ég hef tvisvar lent í því að geta ekki skrifað tölvupóst, man ekki eftir að hæfileikinn til að skrifa hafi horfið áður svo þetta er sennilega heldur slæmt kast. Þegar allt er farið hlusta ég á tónlist og það reddar miklu.

Í svona ástandi er best og tryggast að vera inni á geðdeild og ég er mjög sátt og ánægð með deildina mína. Starfsfólkið er frábært og dagskráin sem boðið er upp á alveg nógu viðamikil fyrir mig, það er eiginlega fyrst núna í þessari viku sem ég get aðeins nýtt mér kyrrðarstundir og músíkþerapíu - fór alltaf að skæla of mikið í slíku prógrammi en höndlaði það nokkuð vel í vikunni sem nú er að ljúka.  Ég fæ lyf til að sofa út nóttina og losna við að vakna í ofsakvíðakasti eða ofsagrátkasti klukkan 3 eða 4 á nóttunni, sem er vitaskuld mikill léttir. Sjúklingarnir eru hið vænsta fólk en ég hef fyrir löngu sett mér þá stefnu að ræða ekki samsjúklinga á bloggi og held að það sé góð stefna.

Það eina sem ég get sett út á geðdeild er að reykingaaðstaða sjúklinga úti er til háborinnar skammar. Mér er skítsama um lög og reglur og reykingafasisma minnipokamanna: Reykingarnar eru kannski það eina sem maður á eftir og eina ástæðan til að koma sjúklingi aðeins út undir bert loft. Mér finnst það mætti taka tillit til þess. Það er ekki eins og við getum bara skroppið í huggulegt skjól fyrir utan næsta kaffihús eða droppað inn heima hjá okkur - mörg erum við of veik til að komast út af lóðinni. Og svæðið við gömlu Hringbrautina er bölvað rokrassgat, ekki hvað síst í augum manneskju sem býr á þeim lognsæla stað Skaganum ;)

Mitt vandamál þarna inni er nokkurs konar atvinnusjúkdómur. Eftir að hafa kennt hálflasin eða lasin eða hangið á kennslunni fram í rauðan dauðann oft undanfarin ár hef ég komið mér upp svo góðum grímum að stundum á starfsfólkið erfitt að sjá í gegnum þær. Allir kennarar vita að maður labbar alltaf hress og skapgóður og með frontinn í lagi inn í kennslustund, alveg sama hvernig manni líður - kennari sem vælir getur leitað sér að öðru starfi strax. Og svo hef ég haft atvinnu af því undanfarin 24 ár að tala og tala … marga klukkutíma á dag ef því er að skipta. Þess vegna kem ég ekki fyrir sem dæmigerður þunglyndissjúklingur; ég get talað, hlustað og brosað þótt mér líði eins og maran sé að þrykkja mér niður í dýpsta helvíti. Sem betur fer veit staffið af þessum atvinnusjúkdómi og það er tekið fullt mark á mér þegar ég segist vera mikið lasin þennan daginn, þótt ég hafi í sjálfu sér smælað framan í heiminn sem best ég gat allan daginn.  

Ég hef þurft að vera leiðinleg og afboða / afþakka heimsóknir talsvert. Það er ekki af því ég vilji ekki gjarna hitta gestina mína, suma þeirra vildi ég einmitt mjög gjarna hitta. En stundum er ég of veik til að treysta mér til þess að leika homo sapiens með bros á vör í einhverja stund. Ég vona að þeir sem ég hef sagt nei við skilji það. Og það er ágætt, ef einhver vill heimsækja mig, að hringja fyrst eða senda sms til að vita hvernig formið er þann daginn. Símanúmerið er 897 3659. Rétt að taka fram að ég höndla ekki löng símtöl og einstaka sinnum get ég ekki svarað í símann.

Planið núna? Ég hef engin plön. Eftir rúmlega sex vikna dvöl í helvíti hefur maður ekki plön, ekki heldur vonir og ekki heldur vonleysi. Seinnipartinn á morgun fer ég aftur á deildina mína og held áfram að æfa mig í einum degi í einu, hálfum degi í einu og klukkustund í einu. En ég er orðin ofboðslega þreytt og með þessu áframhaldi mun ég líta út eins og Auschwitz-fangi. Þótt ég sé ótrúlega dugleg að borða matinn á spítalanum (þótt mig langi aldrei í hann og finni aldrei fyrir svengd) þá tálga veikindin af mér grömmin jafnt og þétt.

Þessi færsla er harmagrátur. En því miður er ákaflega fátt gleðilegt við alvarlega geðlægð. Helsti tilgangur svona færslu er að tjá mig - það hef ég alltaf átt auðveldara með í riti en ræðu þegar heilinn er frosinn - og kannski gagnast það öðrum með svipaða sjúkdóma að vita að við erum mörg - og hugsanlega opnar hún augu einhvers sem rekst hér inn á bloggið og veit lítið um geðsjúkdóma.  

Ummæli (16) | Óflokkað, Geðheilsa