Færslur frá 24. nóvember 2010

24. nóvember 2010

Af 32 A

Ákvað að blogga af deildinni svona einu sinni. Í dag er miðvikudagur og þá er fastur liður að skipta á rúminu sínu … aðrir fastir liðir eru matartímar, tímar í Listasmiðju (þar sem m.a. er hægt að komast á netið), kyrrðarstund með prestinum - miðvikudagsliður - (sem ég sleppti í dag en mæli annars með) og svo smotterí eins og blóðþrýstingsmælingar og svoleiðis. Þessar upplýsingar eru fyrir þá sem langar að vita hvað við ríslum okkur við hér á geðdeildinni ;) Til að peppa upp daginn fer ég svo ótal oft út að reykja og uni mér annars við að hlusta á tónlist og prjóna. Undanfarna daga hef ég getað skroppið í stutta labbitúra eftir hádegi, aðallega til að verða ekki “kramaraumingi til sálar og líkama”, eins og amma sagði … hugsanlega hefur hún haft rétt fyrir sér og mér finnst nóg að vera kramaraumingi til sálar.

Góðar fréttir eru þær að nú hef ég sofið hátt í 9 tíma þrjár nætur í röð. Það er kraftaverk! Þótt annað lyfið, sem átti að hjálpa mér að sofa út nóttina (í stað þess að vakna upp eftir svona fjóra tíma og geta ekki sofnað aftur) væri alveg hreinsað út í gærkvöldi svaf ég nánast eins og ungabarn. Satt best að segja held ég að þetta lyf hafi hvort sem er aldrei virkað neitt en gæti trúað að hitt lyfið virkaði.

Brjálæðislegu örvæntingarköstin hafa líka látið undan síga og sjálfsvígshugsanir dofna æ meir. Þegar ég fer út bíð ég orðið eftir græna karlinum - þangað til núna hefur mér verið nákvæmlega sama hvort keyrði á mig bíll eða ekki.

Svoleiðis að stórbættur svefn og rórri líðan hlýtur að teljast mikill plús. Mínusar eru að blóðþrýstingurinn er stundum ansi lágur og þunglyndið getur enn orðið slæmt seinnipartinn og á kvöldin - enginn helvítisdagur hefur samt komið síðan í síðustu viku og gærkvöldið var nokkuð gott.

Ég hef ákveðið að halda fast við kjörorðin mín sem standa einmitt (á grísku) á þessu bloggi: “Ég vænti einskis, ég óttast ekkert, ég er frjáls”, að undanskilinni síðustu setningunni. Þetta eru fín kjörorð og gefa í rauninni æðruleysisbæninni og “einn-dagur-í-einu”-frasanum lítið eftir. Það er sem sagt best að hanga í núinu, gleðjast yfir góðu núi en hugsa lítið um framtíðina, hvorki jákvætt né neikvætt.

Þetta var útsending dagsins af 32 A :)

Ummæli (3) | Óflokkað, Geðheilsa