Færslur desembermánaðar 2010

28. desember 2010

Hvað er íslensk peysa?

ÍslandspeysaUppskriftin hér til hægri birtist í Húsfreyjunni 1.tbl. 8. árg., marz 1957, s. 17. (Sé smellt á myndina kemur öll uppskriftin upp.) Fyrirsögnin er: “SVÍAR NEFNA ÞESSA GERÐ AF PEYSUM ÍSLANDSPEYSU“. Uppruna uppskriftarinnar er ekki getið né þýðanda hennar.  

Mér dettur þó í hug að Elsa E. Guðjónsson hafi þýtt uppskriftina því í aftanmálsgrein Astrid Oxaal, við greinina Et norsk strikkemønster fra Grønland, í Kunst og kultur 3/03, s. 171, þar sem hún vísar í Susanne Pagoldh, Stickat från Norden, Stockholm 1987, s. 41, segir: “Opplysningen har referanse til konservator Elsa Gudjónssons beskrivelse at hun, i en ny svensk strikkebok fra ICA-kurien i 1956, hadde sett en genser med rundstrikket mønster i fargene rødt, blått og hvitt, og som ble kalt for islandstrøie. Guðjónsson ble så begeistret for genseren at hun publiserte den året etter i Húsfreyan [svo!] som var den islandske kvinneforeningens medlemsblad”.

Sé uppskriftin skoðuð sést að peysan er ekki með hringúrtöku enda er hún hneppt að aftanverðu og prjónuð opin, fram og til baka. Hún er heldur ekki prjónuð með tvíbandaprjóni því  munstrið er gert með því að taka upp óprjónaðar lykkjur úr umferðinni á undan. (Skemmtileg aðferð sem ég hafði einmitt hugsað mér að prófa, reyndar í garðaprjónstrefli en ekki peysu …)

  

Tv�bandapeysaTil vinstri er svo mynd af tveimur peysum, svokölluðum tvíbandapeysum. Þær birtust í Húsfreyjunni árið eftir, í 1. tbl. 9. árg., janúar-marz 1958, s. 17-18. Eins og tíðkaðist er hvorki uppruna né þýðanda getið. Sé smellt á myndina kemur uppskriftin.

Vinstri peysan er með hringúrtöku en sú til hægri er með laskaúrtöku. Mér finnst sú vinstra megin líkjast norskum “eskimópeysum”, t.d. þeim sem Unn Søiland hannaði, en sú til hægri líkist mun meir Bohus peysunum sænsku.

Unn Søiland � eskimo-peysu Unn Søiland, sem bætti Dale við nafnið sitt þegar hún giftist, var norsk fyrirsæta með meiru en gerðist svo  hönnuður og stofnaði prjónavörufyrirtækið Lillunn Sport A/S. 1951 sló hún í gegn með þessari Eskimo peysu. Á bæklingnum, útg. 1951, situr hún sjálf fyrir íklædd eskimópeysunni.

Sagt er að þegar hún var að vinna sem fyrirsæta í London hafi hún dag nokkurn séð mynd af dönsku konungsfjölskyldunni íklæddri grænlenskum þjóðbúningum. Það gaf henni hugmyndina að eskimó-munstrinu og peysu prjónaðri í einu lagi, með hringúrtöku. (Sjá heimild hér.)

Þetta er skemmtileg saga … en því miður hannaði Unn Søiland eskimópeysuna 1951 og danska konungsfjölskyldan heimsótti ekki Grænland fyrr en 1952. Það mælir samt svo sem ekkert á móti því að Unn hafi séð grænlenska perlukraga einhvers staðar eða að danska konungsfjölskyldan hafi pósað í grænlenskum búningi áður. Mér finnst þó allt eins líklegt að hún hafi kynnt sér hönnun Annichen Sibbern, sem ég bloggaði um í síðustu færslu, og vitað hugmyndina á bak við hana. 

Danska konungsfjölskyldanFyrir rojalista á borð við mig er hér mynd af kóngafamilíunni, tekin 1952 skv. Vibeke Lind, sjá tilvísun í heimild til hægri, og má sjá stærri mynd með því að smella á litlu myndina.

Ingrid Bergman � eskimo peysuEskimo-peysulína Unn Søiland varð feikivinsæl og frægt fólk sóttist eftir að eiga svona peysur. Hér má sjá Ingrid Bergman með börnum sínum og eru öll klædd í þessar norsku Eskimo peysur frá Lillunn Sport A/S. 

Þeir sem vilja kynna sér Unn Søiland Dale ættu að kíkja á grein um hana í Store norske leksikon eða bara gúggla. Stundum er nafnið stafsett Søyland.

  

  

Blå skimmer frá Bohus StickningFjórum árum áður en Unn hin norska markaðssetti sína eskimó-línu, eða 1947, hannaði hin sænska Anna-Lisa Mannheimer Lunn, hönnuður hjá Bohus Stickning í Svíþjóð, peysuna Blå skimmer. Sú sló rækilega í gegn og er sögð hafa verið fyrsta sænska peysan með hringlaga berustykki. Þó var hún ekki byggð á hefðbundnu sænsku prjóni heldur perlusaumuðum þjóðlegum kraga (”This first-ever yoked sweater was not based on a traditional Swedish knitted sweater, but on a netted folk collar.”), segir í ágætri úttekt á Bohus-peysunum

Ingrid Bergman � Bohus-peysuEnn er því bent á grænlenska perlukragann sem fyrirmynd, í þetta sinn að sænsku Bohus-peysunum. Þetta er farið að líkjast ansi mikið þjóðsögu, að mínu mati!

(Af því Ingrid Bergman sést hér að ofan í norskri Eskimo-peysu er rétt að gera ekki upp á milli og setja inn mynd af henni í sænskri Bohus peysu líka. Þetta er peysan Röda randen, sem Anna-Lisa Mannheimer Lunn hannaði um 1945. Ingrid dvaldi einmitt löngum í Fjällbacka í Bohusléni.)

ÍslandstrojaMannen i islandstrojaPeysan til vinstri er það sem Svíar nefndu til skamms tíma Islandströja. Slík peysa er: “patentstickad ylletröja, vit med tvärgående ränder i rött och blått. Den har troligen fått sitt namn av att importerad isländsk ull använts till stickgarn” segir á Nationalencyklopedin 2010

Svona peysur voru / eru líka kallaðar “fiskartröja” og “pippi-tröja“, hið síðarnefnda sennilega til heiðurs Línu langsokk …

Raunar virðist nútímaskilningur Svía á Islandströja enn yfirgripsmeiri, sem sjá má á þessari auglýsingu (mér finnst sú peysa líkjast helst færeyskri peysu eða því sem Norðmenn og Danir kölluðu Íslandspeysu áður fyrr.)

Styttan hér til hægri stendur í Kristianstad og heitir Mannen i islandströja, gerð af Ivar Johansson 1933. Sé smellt á litlu myndina opnast síða með stórri mynd (sem auk þess má stækka enn fremur) og ættu allir að geta séð að þessi maður er a.m.k. alls ekki í íslenskri lopapeysu, hvað þá peysu með hringlaga berustykki  :)  

  

Knud RasmussenTil að flækja málin er þessi mynd af pólfaranum danska Knud Rasmussen, tekin um 1920. Í myndatexta segir hann sé “iført en islandsk sweater.” Litla myndin krækir í stærri og skýrari mynd.Myndin er tekin úr bók Vibeke Lind, Strik með nordisk tradition, 2. útg. 1995, Høst og Søns Forlag, København, s. 50.     

Þar kemur fram að “Islændere” hafi verið ætlaðar sjómönnum og þeim sem unnu hörðum höndum; þetta hafi verið tvíbanda, símunstraðar peysur, tvílitar og oftast í sauðlitunum. Þær voru úr grófu garni og sniðið afar einfalt - klippt fyrir ermum og þær saumaðar beint í. (Sjá s. 48-49.) 

Elsa Guðjónsson segir að sænsku peysurnar hafi verið fyrirmyndin að íslenskum peysum í sama dúr: “Seint á sjöunda áratugnum voru hin vinsælu erlendu peysumunstur með hringlaga axlabekkjum - upprunnin í Svíþjóð laust fyrir 1950 - tekin upp og aðlöguð lopaprjóni. Hefur þessi síðarnefnda munsturgerð orðið og er enn höfuðeinkenni íslenskra lopapeysa.” (Elsa Guðjónsson: “Um prjón á Íslandi”, Hugur og hönd, Rit Heimilisiðnaðarfélags Íslands, 1985, s. 12.) 

Miðað við aðra peysuna sem sést á myndinni hér að neðan, sem fylgdi viðtali sem Elsa tók sjálf, er ekki rétt að þessi munstur hafi ”verið aðlöguð lopaprjóni” seint á sjöunda áratugnum. Væri nær að miða við seint á sjötta áratugnum. 

Lopapeysur 1958Þessi mynd birtist í viðtali Elsu E. Guðjónson við Sigrúnu Stefánsdóttur, framkvæmdarstjóra Íslenzks heimilisiðnaðar 1958. (Sjá “Okkur vantar góða heimaþvegna ull”, Húsfreyjan 9. árg. 3. tbl., júlí-sept. 1958, s. 18 og 19.) Mynd krækir í stærri útgáfu. Í viðtalinu segir: “Eftirsóttasta varan sem við höfum á boðstólum eru þó peysurnar. - Frú Sigrún seilist upp í hillu og dregur fram allavega tvíbanda sportpeysur, margar með “grænlenzku” sniði. - Þær eru úr tvöföldum eða þreföldum þellopa. Grunnurinn er alltaf í sauðalit, þótt litir séu stöku sinnum notaðir í bekkina. Sauðalitirnir eru sérkennandi fyrir íslenzkan ullariðnað og er alltaf meiri sala í vöru með sauðalit. Í fullorðinspeysur hefur okkur reynzt bezt að nota sauðaliti að langmestu leyti, en barnapeysur mega vera í björtum og skærum litum.” (s. 18).

(Elsa birtir einmitt eigin teikningar af þessum peysum með grein sinni “Um prjón á Íslandi”, 1985, sem vitnað er í hér að ofan.) 

Sem sjá má líkist sú “hefðbundnari íslenska”, þ.e. sú til hægri, talsvert mikið fyrstu eskimóapeysu Unn Søland sem mynd er af ofar í færslunni.

Talsvert löngu áður hafa konur verið byrjaðar að prjóna peysur í þessum dúr, úr öðru garni en lopa. T.d. er mynd af litskrúðugri barnapeysu sem Jóhanna Hjaltadóttir segist hafa prjónað um 1950 og líkist bæði norsku eskimópeysunum hennar Unn Søland Dale og sænsku eskimópeysum Anna-Lisa Mannheimer Lunn, í Hugi og hönd 1999.

Um þá peysu er sagt: “Um 1950 prjónar Jóhanna barnapeysu með rúnnuðu berustykki en þá var aftur fáanlegt erlent prjónagarn. Munstrið fékk hún úr dönsku blaði, Familie Journal eða Hjemmet. Þetta munstur prjónaði hún aldrei úr lopa og man ekkki fyrir víst hvenær hún byrjaði að prjóna “hefðbundnu lopapeysuna” sem slíka. Hér er um sömu gerð af peysu að ræða oe Elsa getur um hér að framan og hafi verið vinsæl í Svíþjóð. Af þessu má draga að sams konar peysur með hringlaga herðastykki hafi verið algengar og vinsælar á Norðurlöndunum um þetta leyti og munstrin hafi borist hingað bæði með peysum og prjónablöðum en vegna skorts á prjónagarni hafa konur aðlagað munstrin að lopanum.” (Kristín Schmidhauser Jónsdóttir: Íslenska lopapeysan - prjónalist - listiðnaður”,  Hugur og hönd, Rit Heimilisiðnaðarfélags Íslands, 1999, s. 13.)

   

Þegar allt kemur til alls þá held ég að bæði norski og sænski hönnuðurinn sem ég hef fjallað um hér að ofan, hafi byggt ansi mikið á hugmynd Annichen Sibbern um að nota grænlenskan perlukraga sem fyrirmynd að berustykki eða munstri á peysu. Hennar peysa kom löngu fyrr fram á sjónarsviðið (sjá fyrri færslu) og hún fann upp á að nota hringúrtöku. Víst er að Unn Søland þekkti vel til Annichen Sibbern því hún notaði t.d. bók Annichen, Norske strikkemønstre, sem kom fyrst út 1929 og hefur verið margendurútgefin, í hönnun á þeirri frægu Mariuspeysu. Eskimopeysa Annichen Sibbern varð afar vinsæl á sínum tíma og var sýnd á mörgum sýningum. Má því ætla að hróður hennar hafi borist víða um Skandinavíu.

Sennilega hefur svo hver hermt eftir öðrum, munstrin hlotið nafnið eskimó eða grænlenskt eftir því sem hverjum hentaði og þótti eksótískast og að lokum varð þetta að íslensku lopapeysunni eins og flestir þekkja hana. (Reyndar kemur upp lopapeysufjöld þegar leitað er að Islandströja eða Islandsk sweater á Google, þótt þessi nöfn hafi lengstum verið notuð um allt annars konar peysur.)

Það er því stór spurning um hvað er séríslenskt í þessu stóra peysumáli … Og í rauninni svolítið fyndið að kveikjan að öllu saman hafi verið kvikmynd og tenging við pólitískt bitbein Dana og Norðmanna á fjórða áratugnum, nefnilega eignarhald á Grænlandi
 

Sjá einnig færslurnar:

Hin eina sanna Eskimó peysa; Í tilefni 80 ára afmælis;

Íslenska lopapeysan;

og jafnvel

Friðarey

Ummæli (4) | Óflokkað, Daglegt líf, handavinna

26. desember 2010

Hin eina sanna Eskimó peysa; Í tilefni 80 ára afmælis

Í haust byrjaði ég að setja mig inn í sögu prjónaskapar en neyddist til að leggja það áhugamál á hilluna þegar ég veiktist - því er í rauninni sjálffrestað fram á næsta ár. En eitthvað langar mig að skrifa um efnið og bloggið er ágætis geymsla fyrir pistla sem betur má vinna síðar. Efni þessarar færslu er fyrsta “eskimóapeysan” en vinsældir slíkra peysa urðu mjög miklar næstu áratugina og má rökstyðja að þær séu fyrirmynd íslensku lopapeysunnar. (Sjá fyrri færslu, Íslenska lopapeysan.)

Þessi fyrsta Eskimó-peysa var hönnuð fyrir 80 árum. Höfundurinn var afar merkileg norsk kona, Annichen Sibbern (1905-1978), sem bætti svo Bøhn, ættarnafni mannsins síns, aftan við sitt nafn síðar. (Ævi þessarar konu er svo merkileg að hún er efni í aðra færslu og verður ekki rakin hér en lesa má helstu æviatriði í pdf-skjalinu “Annichen Sibbern Bøhn Preserver of Norway’s Knitting history, Wartime Resistance fighter”  .)

Eskimópeysa Annichen SibbertMyndin af Eskimo peysunni birtist í norska kvennablaðinu Urd (nr. 48) árið 1930. Sama ár gaf Annichen Sibbern út uppskrift af peysunni í sérhefti en árið eftir var uppskriftin með í bókinni Strikkeopskrifter. (Sé smellt á litlu myndina birtist stærri útgáfa. Í sumum heimildum er sagt að það sé Annichen Sibbern sjálf sem klæðist peysunni en það ber dóttir hennar, Sidsel Kringstad, til baka.)

Peysan varð strax gífurlega vinsæl. Til þess lágu einkum tvær ástæður; Annars vegar féll hún að þáverandi baráttu Samtaka um hagnýta listsköpun (Foreningen Brukskunst) fyrir því sem þau kölluðu “fegurri hvunndag” (”en vakrere hverdag”) og hins vegar var hún tengd hápólitísku máli, nefnilega baráttu norskra yfirvalda fyrir yfirráðum yfir hluta Grænlands, vegna  fiski- og veiðréttinda þar. Norðmenn höfðu allt frá árinu 1916 krafist yfirráða yfir óbyggðum í landnámi Eiríks rauða, þ.e.a.s. hluta Austur-Grænlands enda dýrmætar veiðlendur og fiskimið þar. Norska ríkisstjórnin eignaði sér svo þessi landsvæði 1931 og 1932 en þá kærðu Danir fyrir Alþjóðadómstólnum í Haag, sem úrskurðaði 1933 að eignarhald Norðmanna væri ólöglegt. Á árunum 1930 -33 var heit umræða í Noregi um þetta meinta eignarhald. Peysa Annichen Sibbern verður að skoðast í ljósi þessarar umræðu og einnig mikils almenns áhuga í Noregi á menningu við Íshafið, sem hafði blómstrað allt frá því að Friðþjófur Nansen kannaði Grænland 1888.

Kvikmyndin EskimoUpphaf peysunnar tengist þó fremur kvikmyndagerð (sem tengist einnig pólitískum áhuga Norðmanna og Dana á Grænlandi). Fyrsta norska talmyndin (sem var nú reyndar danskt-norskt samvinnuverkefni) var myndin Eskimo, byggð á skáldsögu eftir Ejnar Mikkelsen (danska pólfarann) en handritið var eftir Helge Bangsted, danskan blaðamann sem m.a. hafði fylgt Knúti Rasmussen í fjölda Grænlandsferða. Myndin var frumsýnd árið 1930.

Kvikmyndin Eskimo segir frá ungum dönskum yfirstéttarmanni sem lendir í sjávarháska við Grænland og ung inúítakona bjargar honum af ísjaka. Þau verða ástfangin og enda á að giftast. (Á myndinni úr kvikmyndinni sést að inúítakonan Evaluk er klædd í þjóðbúning fra Vestur-Grænlandi. Leikkonan hét Mona Mårtenson.)

Hér er vert að taka fram að sá grænlenski þjóðbúningur sem við sjáum oftast er ekki nema u.þ.b. 50 ára gamall. Perlukragarnir komu ekki fram á sjónarsviðið fyrr en um aldamótin 1900 og voru þá tiltölulega einfaldir að gerð. Þeir urðu síðan æ flóknari og stærri með tímanum enda aðgengi að lituðum perlum æ meira. (Á  myndasíðu Danska þjóðminjasafnsins má sjá nokkra gamla grænlenska perlukraga.)

Til að gera langa sögu stutta: Annichen Sibbern fór í bíó og sá myndina Eskimo. Hún varð strax hugfangin af grænlenska búningnum og hannaði sína Eskimó-peysu, sumir segja á næstu dögum. Eskimó-peysan var hönnuð bæði fyrir vélprjón og handprjón.

Það var svo ekki fyrr en 1947 sem fyrsta peysan frá hinu sænska Bohus Stickning með hringprjónuðu munstruðu berustykki leit dagsins ljós (hin fræga Blå skimmer) og enn síðar (1951) sem Unn Søiland Dale (norsk) markaðssetti sína línu af eskimópeysum. Skv. Elsu Guðjónson (Astrid Oxaal vísar í grein hennar “Traditionel islandsk strikning” í Stickat och virkat í nordisk tradition, Österbotten Museum 1984, s. 52) var peysa með eskimómunstri, sem birtist í Húsfreyjunni 1957, líklega kveikjan að því sem við þekkjum sem íslensku lopapeysuna. Ég held að Elsa hafi þýtt uppskriftina sjálf, úr dönsku blaði. Það er dálítið skondið að hinar frægu Farmers market peysur nútímans minna svolítið á upphaflegu peysuna hennar Annichen Sibbert með sínum háa kraga og einnig yfirbragð munstursins, einkum á það við peysuna Gil

Annichen SibbertSvo Annichen Sibbern er tvímælalaust frumkvöðull í hönnun á eskimóa-peysu, hátt í 20 árum á undan öðrum. Þetta er spennandi fyrir Íslending því af peysu Annichen þróuðust aðrar peysur í sama dúr sem enduðu sem “hefðbundin” íslensk lopapeysumunstur. (Myndin til vinstri er af Annichen Sibbern Bøhn.)

Hér er upphafleg uppskrift Annichen Sibbern af peysunni Eskimo. Það sem er sérstakt við þessa peysu, að mínu mati, er að fitjað er upp á kraganum og peysan síðan prjónuð niður; sú aðferð við peysuprjón er einmitt að ryðja sér til rúms aftur á allra síðustu árum.

Ég hef áhuga á að prjóna þessa peysu, í tilefni 80 ára afmælis hennar (eða 81 árs afmælis, ég næ nú ekki að prjóna hana fyrir áramót enda er ég rétt byrjuð að prófa ýmiss konar garn til að ná réttri prjónafestu). Þess vegna þýddi ég uppskriftina á íslensku og teiknaði upp munstrið. 

Þýdda uppskriftin og munstrin eru hér. Væri gaman að heyra ef einhver prófar að prjóna Eskimo-peysu Annichen Sibbern. Sjálf reyni ég að birta mynd af mér í dýrindinu einhvern tíma um mitt næsta ár, ef heilsan leyfir :)

Heimildir:

Bøhn Kringstad, Sidsel og Annichen Bøhn Kassel: “Norske strikkemønstre”: KVINNEN bakom boken”, Kulturarven 47, 2009, s. 46-48.
Oxaal, Astrid: “Et norsk strikkemønster fra Grønland”, Kunst og kultur 3, 2003, s. 158-171.
Shea, Terri: “Annichen Sibbern Bøhn Preserver of Norway’s Knitting history, Wartime Resistance fighter”, Piecework Magazine, Interweave Press LLC. Aðgengileg sem pdf-skrá á vefnum, án síðutals, slóð http://www.interweave.com/needle/projects/Norwegian-Article-100802.pdf
Sundbø, Annemor: Unsynlege trådar i strikkekunsten, 3. útg. 2009 (upphafleg gefin út 2005), Det Norske Samlaget.
Bréfaskipti mín við Sidsel Kringstad (dóttur Annichen Sibbert) og Annemor Sundbø.  

Ummæli (8) | Óflokkað, Daglegt líf, handavinna

24. desember 2010
22. desember 2010

Jesse rót

Flestum finnst sálmurinn “Það aldin út er sprungið” vera ómissandi þegar jólahelgin gengur í garð. Mér til andlegrar upplyftingar nú áðan ákvað ég að kanna hvað orðalagið “af fríðri Jesse rót” þýðir eiginlega. Man nefnilega eftir því að hafa pælt sem krakki (meðan ég enn sótti messur) í því hvað þetta “jesserót” væri og aldrei almennilega komist til að kanna það … fyrr en núna.

Jesse rótJesse rót á við tré eða ættartré Jesse, sem var faðir Davíðs konungs. Það flækir málið að náunginn heitir núna Ísaí, í íslensku biblíuþýðingunni. Í Jesaja 11:1 segir: “Af stofni Ísaí mun kvistur fram spretta og sproti vaxa af rótum hans …” (Í latnesku Vulgata biblíunni sem notuð var á miðöldum er klausan þannig: “et egredietur virga de radice Iesse et flos de radice eius ascendet “ eða “og sproti og blóm mun rísa af rót Jesse”. Jesús er Virga Jesse eða sproti Jesse.) Á miðöldum var vinsælt að sýna ættartré Jesú frá Jesse með ýmiss konar myndrænum hætti, s.s. sést á myndinni hér til hliðar (en hún er úr frönsku miðaldahandriti). Bæði María og Jósef voru af húsi og kynþætti Davíðs svo þau voru afkomendur Ísaí / Jesse.

Sálmurinn sem sr. Matthías þýddi á íslensku á sér langa sögu. Hér er þýðing Matthíasar og upphaflegi þýski textinn, tvö erindi úr Es ist ein Ros entsprungen:

Það aldin út er sprungið
og ilmar sólu mót,
sem fyrr var fagurt sungið
af fríðri Jesse rót.
Og blómstrið það á þrótt
að veita vor og yndi
um vetrar miðja nótt.
  
 
Es ist ein’ Ros’ entsprungen, 
aus einer Wurzel zart.
Wie uns die Alten sungen,
von Jesse war die Art.
Und hat ein Blüm’lein ‘bracht;
mitten im kalten Winter,
wohl zu der halben Nacht.
   
   
Þú ljúfa liljurósin,
sem lífgar helið kalt
og kveikir kærleiksljósin
og krýnir lífið allt.
Ó, Guð og maður, greið
oss veg frá öllu illu
svo yfirvinnum deyð.    
Das Blümelein, so kleine, 
das duftet uns so süß;
mit seinem hellen Scheine
vertreibt’s die Finsternis.
Wahr’r Mensch und wahrer Gott!
Hilft uns aus allem Leide,
rettet von Sünd’ und Tod.
 
Matthías Jochumsson
 

Enginn veit hver samdi upphaflega textann. Hann birtist fyrst í Gebetbuchlein des Frater Conradus, útg. 1582 eða 1588. Þá var þetta 19 erinda kaþólskur sálmur með áherslu á Maríu mey, sem er líkt við þá dularfullu rós sem Salómon konungur lofsyngur í sínum Ljóðaljóðum: “Ég er rós í Saron, lilja í dölunum.” Sálmurinn er talinn upprunninn í Trier og honum tengist sú saga að munkur í borginni hafi fundið blómstrandi rós úti í skógi, á jólanótt. Hann setti rósina í vasa á altari Maríu meyjar. Sumar heimildir benda til að sálminn megi rekja allt aftur til 14. aldar.

Mótmælendur tóku svo þennan sálm upp og áherslan færðist af Maríu til Jesú, með tilvísun í Jesaja 11:1. Ættartré Jesse / Ísaí er oft sýnt í miðaldaverkum sem rósarunni. Reyndar hefur verið bent á að óvíst sé hvort í upphafi sálmsins eigi að vera Ros (rós) eða Reis (grein).

 

PraetoriusHin lúterska gerð sálmsins, eins og hann þekkist í dag, birtist fyrst í einu af níu binda verki Þjóðverjans Michaels Praetorius, Musae Sioniae árið 1609. Fyrir misskilning er Praetorius stundum eignað lagið. Flestir telja þó að þetta sé þjóðlag sem Praetorius hafi einungis útsett. Útsetning hans á Es ist ein Ros entsprungen er sú sem oftast heyrist þótt fleiri hafi útsett lagið (t.d. Brahms).

Praetorius þessi (1571-1621) var sonur lútersks prests og starfaði lengst af sem organisti í Frankfurt og Wolfenbüttel, þótt hann hefði háskólamenntun bæði í guðfræði og heimspeki. Hann var mikilvirkt tónskáld og útsetti líka fjölda verka fyrir flutning í kirkjum.

 

 

Það verður að segjast eins og er að þótt mér finnist lagið undurfagurt þá hef ég aldrei verið sérlega hrifin af texta Matthíasar, fremur en öðrum hans ljóðum. Því er gott til þess að vita að til er mjög fallegur jólasálmur, eftir sr. Sigurð Einarsson í Holti, sem sunginn er undir sama lagi. Þessari færslu lýkur á honum:

Enn bregður Drottins birtu
á byggðir sérhvers lands,
því líkn Guðs eilíf lifir
og leitar syndugs manns.
Þú birtist, jólabarn,
sem æðsta ástgjöf Drottins
og ímynd veru hans.
Allt böl og stríð skal batna,
oss brosir Drottins náð.
Öll sorg og kvöl skal sefast,
öll synd skal burtu máð.
Ó, blessað jólabarn!
Þér föllum vér til fóta
og felum allt vort ráð.
Sigurður Einarsson í Holti
Jesúbarnið

Ummæli (7) | Óflokkað, Daglegt líf

20. desember 2010

Jesús og kyrtillinn hans

Nú líður að afmælinu Jesúbarnsins og kannski rétt að huga að því hvernig hann var klæddur blessaður, eftir að hafa vaxið upp úr reifunum. Þá þarf, eins og oft í upphafi, að skoða endi sögunnar um ævi Jesú:

Mar�a prjónar á JesúÍ Jóhannesarguðspjalli 19:23 segir, um krossfestingu Jesú: „Þegar hermennirnir höfðu krossfest Jesú tóku þeir klæði hans og skiptu í fjóra hluti og fékk hver sinn hlut. Þeir tóku og kyrtilinn en hann var saumlaus, ofinn í eitt ofan frá og niður úr. 24Þeir sögðu því hver við annan: „Rífum hann ekki sundur, köstum heldur hlut um hver skuli fá hann.“ Svo rættist ritningin: Þeir skiptu með sér klæðum mínum og köstuðu hlut um kyrtil minn.“  (Þetta er úr nýjustu þýðingunni, tekið af vef Hins íslenska Biblíufélags, feitletrun mín.)

Prjónaður kyrtill JesúÍ Guðbrandsbiblíu, prentaðri á Hólum 1584, er kyrtli Krists hins vegar lýst sem prjónuðum: „Enn kyrtillin[n] var eigi saumaðr / helldr fra ofan verdu allr prionadr.“  (Smelltu á litlu myndina til hægri með klausunni úr Guðbrandsbiblíu ef þú vilt sjá stærri útgáfu. Guðbrandsbiblíu má skoða á http://www.baekur.is.) Þetta er elsta prentaða dæmið um orðið prjónaður (prjón) á íslensku. Oddur Gottskálksson segir hann aftur á móti ofinn, í  Nýja testamentisþýðingu sinni sem prentuð var í Hróarskeldu 1540: „En kyrtillinn var eigi saumaður, heldur frá ofanverðu allur ofinn.“ (Sjá Jóhannesarguðspjall í þýðingu Odds.)

Til er norsk bók um bernsku Krists, frá 1508, Jesu Barndoms Bog, þar sem kyrtillinn er sagður prjónaður: María  gerði syni sínum skyrtu með að „knøtte garn offuer stocke“ (stocke = prjónar). Í norskri Jærtegnspostille, sem prentuð var 1515, segir um kyrtilinn: „Knøttet eller bunden oc osyd, han wor heel offuer alt saa ath der wor ingen søm paa hannem“ og loks má nefna norska þýðingu á Húspostillu Lúthers (frá 1564) þar sem segir: „Kiortelen, efterdi hand vaar icke syt, men stockebunden.“ (Heimild fyrir þessu er Osynlege trådar i strikkekunsten eftir Annemor Sundbø, 3. útg. 2009, s. 72.)

Hvað sem því nú líður þá urðu vinsæl málverk strax á 13. öld sem sýna Maríu mey vera að prjóna kyrtil á Jesú lítinn. Skv. þjóðsögnum óx kyrtillinn með honum og hefur því verið sami kyrtillinn og hann var seinna krossfestur í (reyndar eru Austur- og Vesturkirkjan ekki alveg sammála um þetta, sem gæti skýrt af hverju hafa varðveist fleiri en eitt eintak af þessum kyrtli).

Mar�a prjónar á JesúÞað sem er athyglisvert við þessar myndir er að María prjónar með fimm prjónum, vandræðalaust, sem sýnir að slíkt hefur verið þekkt þegar snemma á 14. öld; málverk Ambrogio Lorenzetti er talið frá því um 1349 og málverkið sem er hluti Buxtehude altarinsins, eftir Meistara Bertram af Minden, er talið frá því um 1400 - 1410. Málverk Bertrams er hér að ofan til hægri en málverk Lorenzettis til vinstri. Á málverki Lorenzetti situr María  á gólfinu eins og hvur önnur alþýðukona, Jesú litli þrýstir sér upp að mömmu og eiginmaðurinn Jósef situr á stól og horfir á. (Reyndar klippti ég Jósef út úr báðum myndunum í færslunni og vona að enginn sakni hans - menn verða þá að brúka myndaleitina í Google til að finna málverkin með Jósef og öllu.)

Hvað varð svo um kyrtilinn sem María prjónaði? Eins og áður sagði eru varðveitt nokkur eintök, sem eru:

Kyrtillinn í Dómkirkjunni í Trier, Þýskalandi er langfrægasta eintakið. Sagt er að Helena, móðir Konstantíns mikla, hafi fundið kyrtilinn í Landinu helga og sent hann til Trier, á sínum tíma. Þessi kyrtill hefur verið sýndur opinberlega öðru hvoru allt frá 1512, síðasta sýning var 1996. Hann hefur ekki verið rannsakaður eða aldursgreindur og engar heimildir eldri en um 1200 geta hans.

Annað eintak af kyrtlinum Jesú er varðveitt í basilíkunni í Argenteuil í Frakklandi. Sá er sagður hafa verið borinn af Jesú alla ævi og staðfestir þannig söguna um að kyrtillinn sem María prjónaði hafi vaxið með honum. Skv. sögusögnum þessum fylgir að kyrtillinn í Trier sé bara ytri kyrtill sem Jesú hafi klæðst seint á ævinni. Því miður er franski kyrtillinn ekki lengur heill heldur í fjórum bútum. Hann, eða bútarnir, var síðast sýndur árið 1900.

Kyrtill Jesú � TrierNokkrir bútar úr kyrtli Jesú bárust Austurkirkjunni / grísk-orþódoxu kirkjunni, s. s.  til Pétursborgar, Moskvu, Kænugarðs og víðar. 10. júlí ár hvert er Moskvubúturinn sýndur við hátíðlega athöfn.  

Myndin sýnir kyrtilinn hans Jesú sem varðveittur er í Trier.

Þeim sem hafa áhuga á kyrtli Jesú er bent á síðuna Seamless robe of Jesus, á Wikipedia og aðra sérstaka síðu um kyrtil grísk-oþódoxu kirkjunnar rússnesku.

Við prjónakonurnar getum svo velt því fyrir okkur hvort og þá hvernig hún fór að því að prjóna ermarnar því þær virðast einhvern veginn prjónaðar með bolnum, skv. málverkunum,  … og ekki hvað síst hvernig unnt sé að prjóna flík sem vex með krakkanum, hafandi alist upp við málsháttinn “barnið vex en brókin ekki” :)
 

Ummæli (5) | Óflokkað, handavinna

17. desember 2010

Ljótleiki mannlífsins

Eftir að af mér fór að brá og ekki hvað síst eftir að ég hef tekið upp þann leiða sið að sofa ekki á nóttunni hef ég skoðað vefmiðla og blogg talsvert. Það er ekki gott fyrir sálina. Og það verður æ erfiðara að finna eitthvað bitastætt til að lesa, einkum fækkar skemmtilegum bloggum meir og meir. Hvað eftir annað stend ég mig að því að skruna niður blogggáttina og smella á nokkur blogg, til þess eins að komast að því að færslurnar eru svona 5 - 10 línur og einhvers konar æsingarkennd yfirlýsing eða upphrópun yfir einhverri frétt í mogganum … oftast neikvæð. Og svo nokkur komment frá moggabloggurum af sama tagi. (Þetta á vitaskuld alls ekki við alla moggabloggara en ansi marga þó.) 

Skemmtileg blogg, finnst mér, eru blogg þar sem fólk er að velta einhverju fyrir sér, segja eitthvað af viti eða bara veita innsýn í eigið líf. Spillir ekki að sama fólk sé velskrifandi. Ég hef einmitt lagt mig fram við að tengja í nokkur svoleiðis blogg til að stytta mér leiðina að þeim. Því miður eru sumir skemmtilegustu bloggararnir nánast hættir að blogga, sennilega vegna fésbókarinnar.

Það sem mér finnst áberandi er hve sumir netmiðlar, t.d. dv.is, pressan.is og eyjan.is, leggja sig í líma við að lepja upp neikvæðar fréttir. Síðan gefst lesendum kostur á að segja álit sitt, ýmist í gegnum FB eða í sérstöku kommentakerfi. Eiginlega fer dálítill hrollur um mann þegar maður les gegnum athugasemdirnar því oft einkennast þær af illsku, öfund og fyrirlitningu. Og mjög oft beinist þessi illska, öfund eða fyrirlitning gegn einhverri nafngreindri persónu sem netmiðillinn kaus að sýna í slæmu ljósi akkúrat þann daginn. Þetta á ekki hvað síst við um dv.is því eyjan.is virðist hafa eitthvert lágmarkseftirlit með athugasemdum. Þó spanar eyjan menn upp með fyrirsögnum á borð við “Lagaprófessorar maka krókinn: Fá milljónir fyrir sérstök aukaverkefni” enda gera fjölmiðlar villt og galið út á öfund þessa dagana. Núna undanfarið hafa menn á dv.is keppst við að tjá sig um nafngreindan öryrkja sem nánast óvart lenti í netmiðilskvörninni og þykir illa læsu fólki að öryrkinn hafi of mikið milli handanna. Þótt inn á milli sé hægt að sjá athugasemdir frá sæmilega skynsömu fólki sem er að reyna að leiðrétta umfjöllun eða slá á ofsafengin viðbrögð annarra virðist það lítið þýða. Sama gildir sjálfsagt um yfirlýsingu Öryrkjabandalagsins í gær … kommenterarnir æstu ná sennilega ekki að lesa gegnum svo flókna töflu. 

Pressan býður ekki upp á þennan tjáningarmöguleika heldur möguleikann á að “læka” fréttina. Það er vissulega annkannalegt að sjá 40 manna “mæla með” frétt með fyrirsögninni “Spilasjúk móðir sem skildi börnin eftir grátandi út í bíl í skítkulda fær börnin aftur þrátt fyrir dóm.” Með hverju er fólkið að mæla?

Nei, ég held ég einskorði mig við ruv.is og baggalutur.is í framtíðinni - maður verður svolítið hrelldur að skoða þetta sem ég taldi upp að ofan!

Ummæli (6) | Óflokkað, Daglegt líf

15. desember 2010

Hið einfalda og fátæklega líf

Ég er öll að koma til, þ.e.a.s. maran leggst ekki á mig daglega og andleg líðan er bara yfirleitt þokkaleg. Þetta er mikill léttir! Mínushliðar eru svefnleysi dauðans (sem lætur mér líða eins og ég sé vel timbruð, dag hvern) og athyglisbrestur (testaði lestur í gær og fyrradag með neikvæðum árangri; Les nokkrar síður og velti því svo fyrir mér hvað ég var að lesa …) og slappleiki (ef ég labba út í næstu búð titra lappirnar af áreynslu og mér finnst ég vera að leka niður).

Þess vegna lifi ég afar einföldu en jafnframt fátæklegu lífi. Helsta iðjan er að hanga á facebook, hlusta á útvarp og prjóna. (Hugsa að ég meiki ekki ennþá sjónvarp vegna athyglisbrestsins.) Þótt ég hlusti á alla fréttatíma dagsins á ýmsum stöðvum hef ég svo sem ekki náð mörgum fréttum, einna helst að ég hafi náð að fylgjast með fyrri tíðar gloríum Ólafs Johnsons og Þorgerðar Katrínar - veit að hún var flottasti ráðherrann á sínum tíma en aftur á móti virðist hún nú ekki hafa stigið í vitið sem ráðherra  og ætti að snúa sér að öðrum störfum en sitja á Alþingi, finnst mér. Ólafur Johnson snýr sér sjálfkrafa að öðrum störfum en reka Hraðbraut, það er a.m.k. ljóst.  

Mér tókst að taka strætó til borgarinnar handan Flóans í dag! Var samt soldið á mörkunum að ég höndlaði bakaleiðina, kannski vegna þess að ég var að leka niður af þreytu eftir enn eina svefnlitla nóttina. En ég komst báðar leiðir ;)

Hitti minn góða lækni sem ávísaði svefnlyfi. Vonandi virkar það. Ég hafði sjálf hent út hinu róandi-aukaverkunar-geðlyfi sem átti að fá mig til að sofa en gerði það ekki, af því mér fannst óþægilegt að vera andvaka og pínulítið hífuð, skárra að vera andvaka og edrú. Las einmitt í einhverjum netmiðlinum áðan að góður svefn gerði fólk fallegra - > lélegur svefn gerir fólk væntanlega ljótara og hvaða kona vill verða ljót og með bauga niður að hnjám? Ekki ég! Sömuleiðis er Marplan-skammturinn lækkaður og má ætla að ég endurheimti minn góða lága blóðþrýsting á ný, í stað þessa megalága þrýstings sem fær mig til að líða eins og máttlausri dulu. Allt á uppleið, lyfjalega séð, nema maðurinn var að hringja í þessu og hið góða apótek finnur ekki lyfseðilinn …

Það var gaman að hitta félaga af 32 A á reyksvæðinu og ég bað fyrir kveðjur til þeirra sem ég þekki og enn eru þarna inni. Það var líka soldið gaman að lesa Séð og heyrt á biðstofunni: Blöðin eru frá 1999 - 2006 og einkar spennandi að lesa um fallega fólkið 2006; hverjar voru óléttar, hverjir voru nýtt par og mega-ástfangin (öll skilin núna, held ég) og hverjir voru í bullandi útrás, keyptu hús, banka, snekkjur og tilbehör. Sama fólk er iðulega í fréttunum núna, með allt niður um sig. Loks var ég svo heppin að finna viðtal frá 2000 sem mér hafa leikið landmunir á að lesa upp á síðkastið: Athyglisvert og skýrði margt. Gleymdi strax öllu sem ég las í Séð og heyrt nema þessu viðtali …

Maðurinn sinnir öllum heimilisstörfum, kötturinn heldur mér selskap á daginn og ég hitti unglinginn minn á nóttunni, þegar ég fer á fætur og hann er að hugsa um að fara bráðum að tygja sig í bælið. Svoleiðis að aðstæður eru eins og best verður á kosið. Systkini mín hafa reddað ýmsum jólagjafakaupum (takk elskurnar!), maðurinn reddar sumum og nú er bara að taka sig saman í andlitinu, labba hundrað metra út í búð og kaupa rest. Því hef ég frestað í u.þ.b. viku en hlýt að ná því fyrir jól.

Sem betur fer höfum við alltaf jólað í lágmarki á þessu heimili. Hinn norðurþingeyski siður bernsku minnar, að skreyta ekki fyrr en á aðfangadag, er í heiðri hafður en ég fékk þó manninn til að setja eitthvert ljósadót í tvo glugga svo fólk héldi ekki að við værum múslimar. Við höfum aldrei bakað heldur purrkunarlaust keypt danskar smákökur í Einarsbúð - reyndar hefur frumburðurinn stundum bakað piparkökuhús einhverja nóttina en sleppir því væntanlega í ár. Jólin hjá okkur eru fyrst og fremst tækifæri til að slappa af og hafa það huggulegt. Maður slappar ekki af í bakstri, skreytingum og jólahreingerningu (fyrir svo utan það að ég hef löngu fundið út að það er heppilegast að gera svona stórhreingerningar á vorin, þegar fer að birta og skíturinn sést, og á haustin, til að losna við flugnaskít sumarsins). Þannig að ég hef nákvæmlega ekkert samviskubit yfir að gera nákvæmlega ekki neitt á þessu heimili, jólastúss meðtalið. Enda er öllum hinum hérna nákvæmlega sama.

Þetta er fátækleg færsla enda hef ég ekki almennilega komið mér upp skoðunum ennþá - þær koma með frekari bata.

Ummæli (8) | Óflokkað, Geðheilsa

10. desember 2010

Viku afmæli heima

Jæja, þá er fyrsta vikan heima, á einkageðdeildinni í Vallholtinu, liðin. Minnir að þetta hafi nú ekki verið svo slæmt nema dag og dag. Og ég tel mig tvímælalaust merkja bata … sennilega er helvítis Marplanið loksins farið að virka!

Enn er ég ólæs og nokkurn veginn óráðandi öllum bjargráðum - eða þannig. Í gær hlustaði ég samviskusamlega á grilljón fréttatíma í útvarpinu og náði því að eitthvað er að gerast í Æseif en það er nokkurn veginn það eina sem ég man. Testaði áðan hreyfiminnið og spilaði á mitt pjanóforte, í annað sinn frá því ég kom heim; minnið í fingrunum er betra en vinnsluminnið í heilanum en það háir mér náttúrlega að vera svakalega skjálfhent. Hlýtur þó að teljast til tekna að kötturinn fór ekki út á meðan (eins og venjulega, þetta er tónelskur köttur sem höndlar illa feilnótur).

Aðalvandamálið er svefnleysið. Ég hef sofið eina nótt síðan ég kom heim, það var í fyrrinótt. Annars sef ég um fjóra tíma og hrekk þá upp og er ómögulegt að sofna aftur. Las í dag hjá þeirri góðu dönsku lyfjastofnun að svefnleysi er algeng aukaverkun af Marplan. Svoleiðis að ég hef ákveðið að sætta mig bara við þetta enda get ég ósköp vel lagt mig í svona tvo tíma yfir daginn því öll verk og verkefni eru á “hold”. Í tilefni þessarar niðurstöðu ætla ég að hætta að taka lyf hvers aukaverkun átti að fá mig til að sofa; sé ekki að það sé neitt að virka og því ástæðulaust að gadda því í sig. Í rauninni hefur eina verkunin verið sú að í stað þess að vakna upp á nóttunni með fúlle femm vakna ég og fer á fætur pínulítið hífuð og sljó af þessu lyfi: Háir mér við prjónaskap auk þess sem mér finnst sérlega óþægilegt að finnast ég hífuð.

Það er sosum ekkert alslæmt að fara á fætur um þrjú-fjögurleytið á nóttunni; gefst góður friður til að lesa blaðið mannsins og kíkja í tölvuna og prjónast líka glettilega hratt og vel upp úr óttu. Öllu verra er að mig svimar, hef nettan hausverk og er skjálfhent af svefnleysi allan daginn.

Hér er velrekin einkageðdeild: Ég haga mér eins og sjúklingur og stilli mig nær algerlega um húsverk eða önnur verk. Man eftir að taka lyfin kl. 9, 12, 16 og 22 og hef meira að segja fjárfest í lyfjaskipulagsboxi til þeirra hluta. Unglingurinn vakir á nóttunni og sefur á daginn svo ég fæ yfirleitt smá félagsskap þegar ég fer á fætur á nóttunni. Kötturinn sér um félagsskap yfir daginn. Mér finnst þetta fínt.

Ummæli (1) | Óflokkað, Geðheilsa

4. desember 2010

Útskrifuð!

Í gær útskrifaðist ég af 32 A. Því miður fær maður hvorki skírteini né húfu en það er samt gaman að útskrifast. Sonurinn, sem ók mér til borgar óttans kvöldið áður (eftir tveggja sólarhringa æfingarheimsókn hér heima) hvatti mig mjög til að dimmittera það kvöld; mér datt einna helst í hug að fara í sjúklingaföt, merkt Eign ríkisspítala, og leika Jack Nicholson í Gaukshreiðrinu (þeirri arfavitlausu mynd!) en féll frá hugmyndinni annars vegar af því ég var of þunglynd til að fara í svoleiðis leik og hins vegar af því mér datt í hug að þá yrði ég ekkert útskrifuð heldur sjúkdómsgreind með maníu og skellt inn á B-ganginn … Þannig að það var hvorki dimmisjón né útskriftarathöfn og ekkert skírteini með “Certified Depressed Patient” upp á vegg.

Ég er eins og draugur dreginn upp úr mykjuhaug, þannig lagað, og hvorki til smáræðis né stórræða hér heima. Í augnablikinu hef ég hinn nánast daglega ógeðveika glugga, sem opnast eftir að ég vakna og helst opinn í klukkustund eða svo. Síðan leggst maran á mig, hægt og sígandi yfir daginn; á kvöldin er ég prjónandi grænmeti. En það er mikill munur að vera komin heim og laus af stofnuninni - geta talað um annað en geðveiki þegar ég er málfær og hafa hinn meðvirka kött með mér dags daglega. Jafnvel þótt komi helvítisdagar, sem ég reikna allt eins með, er betra að vera heima hjá sér, geti maður það.

Eitt af því sem ég hef strax fundið út er að ég þoli tölvunotkun takmarkað. Þess vegna er þetta stutt færsla, rétt til að láta vita af því að ég er komin heim (eins og Jón, um árið) og tel að botninum hafi verið náð og úr þessu liggi leiðin upp á við, hægt og hægt næstu mánuði. Vonandi verð ég læs fyrir áramót því það er alltaf mikill munur að geta sökkt sér í bækur. Læsi er það sem ég sakna mest í þunglyndisköstum.

Ummæli (5) | Óflokkað, Geðheilsa

1. desember 2010

Eigin horfur og fáránleg umfjöllun um geðdeildir

Frísklega myndin af litlu krúttunum mínum - og fínu geðdeildarprjónuðu vettlingunum - hefur ekkert með efni færslunnar að gera en ætti að gefa henni gleðilegri “andblæ” (þetta orð er notað sérstaklega fyrir litlusystur).

Ég er í vettvangsheimsókn heima. Kom um kvöldmatarleytið í gær og fer aftur á 32 A um kvöldmatarleytið á morgun; Þetta er tveggja sólarhringa æfing í að vera heima á virkum dögum. Gangi vettvangsheimsóknin þokkalega vel fæ ég að útskrifast á föstudaginn. (Gangi hún illa reikna ég með að dvelja áfram í kost og logi hjá ríkinu.)

Plúsmegin reiknast að mér tókst að fara í klippingu og litun í morgun. Nú lít ég ekki lengur út eins og sjórekið lík heldur eins og sjórekið lík með vellitað hár og vellitaðar augabrúnir. Það er þó altént munur og ég gæti merkt við skárri möguleika á Becks kvarðanum við spurningunni um hversu aðlaðandi eða óaðlaðandi þunglyndissjúklingi finnst hann vera. Skv. mælingu á mánudag er ég þriðjungi frískari en þegar ég kom inn fyrir þá tæpum sjö vikum. Það er ekki nógu gott, sýnir ekki marktæka svörun við lyfinu en við teljum samt bæði, ég og læknirinn, að einhver svörun sé komin fram. Auk þess sem ég benti honum á í gær að litun og klipping hlyti að gefa a.m.k. þrjú stig og augabrúnirnar myndu skora eitt stig.

Mínusmegin er að ég svaf bara fjóra tíma í nótt. Eftir hárgreiðslustofuheimsóknina leið mér verulega illa og rétt skreiddist heim, náði svo að leggja mig eftir hádegi og skánaði að mun. Kannski verð ég að sofa á tvískiptum vöktum hér heima?

Annars er ég alger aumingi, get ekkert gert nema prjónað en er meir en til í að vera alger aumingi hér á Vallholtinu ef mögulegt er, hef svo oft verið mikið veik heima. (Og eins og tengdamamma benti á þá hlýtur samvera við Jósefínu að toppa geðdeild!) Ég er líka kramaraumingi líkamlega því lyfið lækkar blóðþrýstinginn svo mikið - gúgglaði og fann þær upplýsingar að þetta væri fínn blóðþrýstingur væri ég eins árs gamalt barn - svo ég er eðlilega nokkuð slöpp. Þetta mun lagast þegar lyfið hefur skilað nægilega góðri verkun til að lækka megi skammtinn.

Í hársjæningunni fann ég Vikuna með viðtalinu um 33 C. Þótt ég muni kannski ekki margt úr því viðtali fór um mig; Vesalings viðmælandinn var greinilega fárveik (byggi þessa staðhæfingu bæði á ýmsum lýsingum í viðtalinu og hennar staðföstu trú á að lyfjaleysi gerði sig heilbrigða … gott ef hún var ekki einmitt að beina því til annarra geðsjúklinga að leiðin til bata væri fólgin í að hætta að taka lyf) og lýsingar hennar á deildinni voru afar ólíklegar og ótrúlegar. Ég efast ekkert um að hún hafi upplifað þetta svona á sínum tíma en upplifunum geðsjúkra ætti að taka með vissri varúð, mínum eigin meðtöldum. Einhvers staðar í þessu bloggi er t.d. að finna undirtekt á einhverjum orðum sama viðmælanda, sem ég sá í sjónvarpinu og fannst að gæti verið margt til í. Það byggði ég á upplifun minni af deildardvöl í fyrra sem ég sé nú að varð að rangsnúinni minningu. 

Ég er á deildinni fyrir neðan og þar er maður alltaf með tengil (sjúkraliða eða karlkyns starfsmann - er ekki alveg viss um starfsheiti þeirra) og ákveðinn hjúkrunarfræðing. Þetta fólk kemur og spjallar við mann - eða spjallar ekki við mann ef sjúklingurinn vill það ekki. Svo má alltaf biðja um viðtal ef þarf. Á nóttunni eru sérstaklega almennilegir menn á vakt og næturhjúkrunarfræðingur. Hver læknir hefur nokkra sjúklinga og teymi, þ.e. læknir, hjúkrunarfræðingur og oft læknanemi, hefur viðtal við hvern sjúkling á hverjum morgni, spyr um líðan, hefur tékkað á rapportum þeirra sem voru á vakt daginn áður - bæði tengla og hjúkrunarfræðinga, ber undir sjúklinginn hugsanlegar lyfjabreytingar o.s.fr.. Mín reynsla er sú að viðtalstíminn sem maður fær fari eftir ástandi og geti verið allt upp í hálftími. Auk þess hefur læknirinn minn spjallað við mig í einkaviðtölum og það held ég að hinir læknarnir á deildinni geri líka. Þannig að staðhæfingar Láru Kristínar um 5 mín. afgreiðslu áhugalauss læknis, andstyggilegt og illa innrætt starfsfólk sem vilji bara hafa sjúklingana sem dópaðasta finnast mér algerlega út í hött. Eftir því sem ég best veit er róandi lyfjum stillt eins mikið í hóf og unnt er en auðvitað er fullt af sjúklingum sem bráðnauðsynlega þurfa slík lyf og jafnvel töluvert af þeim. Þetta er nú einu sinni sjúkrahús og á sjúkrahúsum eru almennt gefin lyf til að fólki líði skár. Sjálf er ég á afar lágum skammti af kvíðastillandi lyfi, sem er einmitt verið að trappa niður og taka út núna, en aftur á móti þurfti ég að fá sterkt geðlyf með sljóvgandi aukaverkun til að geta sofið meir en 4 tíma á nóttunni og þarf enn. Aðallyfið sem ég tek er geðlyf og enginn verður dópaður af því.

Á B-ganginum á minni deild er setið allan daginn yfir mjög veikum sjúklingum. Ég reikna með að þannig sé það líka á 33 C og mér finnst ekki hægt að kalla það annað en topp þjónustu að sérstök manneskja vaki yfir manni. Aftur á móti er ég sammála henni um mikinn niðurskurð sem bitnar á aðgangi fólks að geðdeildum og bráðainnlögn og veldur einnig mjög miklu álagi á starfsfólkið. En á 32 A er samt nákvæmlega sama staffið og í fyrra, þegar ég lagðist inn á sama árstíma, og það stendur sig ótrúlega vel þótt það þurfi stundum að vera nánast á hlaupum til anna öllu.

Í rauninni er ekkert annað hægt en að vorkenna vesalings stúlkunni sem opnuviðtal Vikunnar 21. nóv. var við. Á hinn bóginn er ekki annað hægt en hneykslast á blaði sem gerir sér veikt fólk að féþúfu með uppsláttarviðtali. Yfirlækni deildarinnar gafst ekki færi á að gera athugasemdir við viðtalið, “vegna tímaskorts” stóð í blaðinu. Þess vegna er stór hluti þess einfaldlega rógur í garð starfsmanna á 33 C. Væntanlega mun geðsvið Lans ekki standa í að kæra Vikuna fyrir rógburð og ærumeiðandi ummæli en það væri samt full ástæða til þess. (Gurrí, ef þú lest þetta: Í guðs bænum reynið að taka ykkur tak þarna á Vikunni og sýna a.m.k. lágmarks sómatilfinningu fyrir því hvað þið birtið í stað þess að hugsa bara um uppsláttinn!)

Fyrir nokkru birti Pressan bloggfærsluröð (pressupennans Unnar H. Jóhannsdóttur) um vist á geðdeild 2008. Það vill svo til að er sama deildin og ég hef nú fengið margra vikna reynslu af og hef reyndar oft áður legið þar inni. Þær færslur voru að stofni til verulega ósmekkleg umfjöllun um samsjúklinga höfundarins; þótt nöfnum væri breytt var einfalt mál að þekkja bæði sjúklinga og starfsfólk af lýsingunum. Unnur var greinilega í bullandi maníu þarna inni á sínum tíma og lýsir dvölinni í samræmi við það, eins og þar ríki einhvers konar karnevalsstemning alla daga og í rauninni virtist flest “sjúklega gaman” við þessa geðdeildarvist. Satt best að segja velti ég því aðeins fyrir mér í hvaða ástandi hún væri þegar hún skrifaði þessa pistla í nú í október - annars vegar hvernig hún réttlætti fyrir sjálfri sér umfjöllun um aðra sjúklinga á opinberum vefmiðli og hins vegar tók ég eftir hvað pistlarnir voru illa skrifaðir, þ.e. illa stílaðir og misjafnlega stílaðir. Pistlaröðin hófst t.d. með hástemmdu margtuggnu líkingamáli um svarta og hvíta hunda (já, Winston Churchill hefur margt á samviskunni og ekki hvað síst þessa margtuggnu klisju um svarta hundinn!) en breyttist svo í allt að því gróteska spémynd í lýsingum á 32 A. Þetta var soldið eins og höfundurinn hefði ætlað sér að skrifa hátíðlega tímamótagrein en síðan svissað í miðju kafi yfir í farsann. Væri kannski áhugavert fyrir áhangendur Kristevu að greina þessa pistla ;)

Nú er þessari þunglyndu bloggynju þrotinn máttur í bili og mál að linni svo langri færslu. Ætli sé ekki ráð að fara og halda sér í prjónana það sem eftir lifir kvölds, hlusta á tónlist og hafa jafnvel áhugasama hannyrðakisu liggjandi á eldhúsborðinu hjá sér, lygnandi aftur augunum af gleði yfir að reykingakonan er aftur komin heim og hlakkandi til að komast í hannyrðadótið um leið og prjónakonan bregður sér frá.

Vonandi útskrifast ég á föstudaginn!

  

  

Ummæli (5) | Óflokkað, Geðheilsa