Færslur frá 4. desember 2010

4. desember 2010

Útskrifuð!

Í gær útskrifaðist ég af 32 A. Því miður fær maður hvorki skírteini né húfu en það er samt gaman að útskrifast. Sonurinn, sem ók mér til borgar óttans kvöldið áður (eftir tveggja sólarhringa æfingarheimsókn hér heima) hvatti mig mjög til að dimmittera það kvöld; mér datt einna helst í hug að fara í sjúklingaföt, merkt Eign ríkisspítala, og leika Jack Nicholson í Gaukshreiðrinu (þeirri arfavitlausu mynd!) en féll frá hugmyndinni annars vegar af því ég var of þunglynd til að fara í svoleiðis leik og hins vegar af því mér datt í hug að þá yrði ég ekkert útskrifuð heldur sjúkdómsgreind með maníu og skellt inn á B-ganginn … Þannig að það var hvorki dimmisjón né útskriftarathöfn og ekkert skírteini með “Certified Depressed Patient” upp á vegg.

Ég er eins og draugur dreginn upp úr mykjuhaug, þannig lagað, og hvorki til smáræðis né stórræða hér heima. Í augnablikinu hef ég hinn nánast daglega ógeðveika glugga, sem opnast eftir að ég vakna og helst opinn í klukkustund eða svo. Síðan leggst maran á mig, hægt og sígandi yfir daginn; á kvöldin er ég prjónandi grænmeti. En það er mikill munur að vera komin heim og laus af stofnuninni - geta talað um annað en geðveiki þegar ég er málfær og hafa hinn meðvirka kött með mér dags daglega. Jafnvel þótt komi helvítisdagar, sem ég reikna allt eins með, er betra að vera heima hjá sér, geti maður það.

Eitt af því sem ég hef strax fundið út er að ég þoli tölvunotkun takmarkað. Þess vegna er þetta stutt færsla, rétt til að láta vita af því að ég er komin heim (eins og Jón, um árið) og tel að botninum hafi verið náð og úr þessu liggi leiðin upp á við, hægt og hægt næstu mánuði. Vonandi verð ég læs fyrir áramót því það er alltaf mikill munur að geta sökkt sér í bækur. Læsi er það sem ég sakna mest í þunglyndisköstum.

Ummæli (5) | Óflokkað, Geðheilsa