Færslur frá 22. desember 2010

22. desember 2010

Jesse rót

Flestum finnst sálmurinn “Það aldin út er sprungið” vera ómissandi þegar jólahelgin gengur í garð. Mér til andlegrar upplyftingar nú áðan ákvað ég að kanna hvað orðalagið “af fríðri Jesse rót” þýðir eiginlega. Man nefnilega eftir því að hafa pælt sem krakki (meðan ég enn sótti messur) í því hvað þetta “jesserót” væri og aldrei almennilega komist til að kanna það … fyrr en núna.

Jesse rótJesse rót á við tré eða ættartré Jesse, sem var faðir Davíðs konungs. Það flækir málið að náunginn heitir núna Ísaí, í íslensku biblíuþýðingunni. Í Jesaja 11:1 segir: “Af stofni Ísaí mun kvistur fram spretta og sproti vaxa af rótum hans …” (Í latnesku Vulgata biblíunni sem notuð var á miðöldum er klausan þannig: “et egredietur virga de radice Iesse et flos de radice eius ascendet “ eða “og sproti og blóm mun rísa af rót Jesse”. Jesús er Virga Jesse eða sproti Jesse.) Á miðöldum var vinsælt að sýna ættartré Jesú frá Jesse með ýmiss konar myndrænum hætti, s.s. sést á myndinni hér til hliðar (en hún er úr frönsku miðaldahandriti). Bæði María og Jósef voru af húsi og kynþætti Davíðs svo þau voru afkomendur Ísaí / Jesse.

Sálmurinn sem sr. Matthías þýddi á íslensku á sér langa sögu. Hér er þýðing Matthíasar og upphaflegi þýski textinn, tvö erindi úr Es ist ein Ros entsprungen:

Það aldin út er sprungið
og ilmar sólu mót,
sem fyrr var fagurt sungið
af fríðri Jesse rót.
Og blómstrið það á þrótt
að veita vor og yndi
um vetrar miðja nótt.
  
 
Es ist ein’ Ros’ entsprungen, 
aus einer Wurzel zart.
Wie uns die Alten sungen,
von Jesse war die Art.
Und hat ein Blüm’lein ‘bracht;
mitten im kalten Winter,
wohl zu der halben Nacht.
   
   
Þú ljúfa liljurósin,
sem lífgar helið kalt
og kveikir kærleiksljósin
og krýnir lífið allt.
Ó, Guð og maður, greið
oss veg frá öllu illu
svo yfirvinnum deyð.    
Das Blümelein, so kleine, 
das duftet uns so süß;
mit seinem hellen Scheine
vertreibt’s die Finsternis.
Wahr’r Mensch und wahrer Gott!
Hilft uns aus allem Leide,
rettet von Sünd’ und Tod.
 
Matthías Jochumsson
 

Enginn veit hver samdi upphaflega textann. Hann birtist fyrst í Gebetbuchlein des Frater Conradus, útg. 1582 eða 1588. Þá var þetta 19 erinda kaþólskur sálmur með áherslu á Maríu mey, sem er líkt við þá dularfullu rós sem Salómon konungur lofsyngur í sínum Ljóðaljóðum: “Ég er rós í Saron, lilja í dölunum.” Sálmurinn er talinn upprunninn í Trier og honum tengist sú saga að munkur í borginni hafi fundið blómstrandi rós úti í skógi, á jólanótt. Hann setti rósina í vasa á altari Maríu meyjar. Sumar heimildir benda til að sálminn megi rekja allt aftur til 14. aldar.

Mótmælendur tóku svo þennan sálm upp og áherslan færðist af Maríu til Jesú, með tilvísun í Jesaja 11:1. Ættartré Jesse / Ísaí er oft sýnt í miðaldaverkum sem rósarunni. Reyndar hefur verið bent á að óvíst sé hvort í upphafi sálmsins eigi að vera Ros (rós) eða Reis (grein).

 

PraetoriusHin lúterska gerð sálmsins, eins og hann þekkist í dag, birtist fyrst í einu af níu binda verki Þjóðverjans Michaels Praetorius, Musae Sioniae árið 1609. Fyrir misskilning er Praetorius stundum eignað lagið. Flestir telja þó að þetta sé þjóðlag sem Praetorius hafi einungis útsett. Útsetning hans á Es ist ein Ros entsprungen er sú sem oftast heyrist þótt fleiri hafi útsett lagið (t.d. Brahms).

Praetorius þessi (1571-1621) var sonur lútersks prests og starfaði lengst af sem organisti í Frankfurt og Wolfenbüttel, þótt hann hefði háskólamenntun bæði í guðfræði og heimspeki. Hann var mikilvirkt tónskáld og útsetti líka fjölda verka fyrir flutning í kirkjum.

 

 

Það verður að segjast eins og er að þótt mér finnist lagið undurfagurt þá hef ég aldrei verið sérlega hrifin af texta Matthíasar, fremur en öðrum hans ljóðum. Því er gott til þess að vita að til er mjög fallegur jólasálmur, eftir sr. Sigurð Einarsson í Holti, sem sunginn er undir sama lagi. Þessari færslu lýkur á honum:

Enn bregður Drottins birtu
á byggðir sérhvers lands,
því líkn Guðs eilíf lifir
og leitar syndugs manns.
Þú birtist, jólabarn,
sem æðsta ástgjöf Drottins
og ímynd veru hans.
Allt böl og stríð skal batna,
oss brosir Drottins náð.
Öll sorg og kvöl skal sefast,
öll synd skal burtu máð.
Ó, blessað jólabarn!
Þér föllum vér til fóta
og felum allt vort ráð.
Sigurður Einarsson í Holti
Jesúbarnið

Ummæli (7) | Óflokkað, Daglegt líf