Færslur frá 26. desember 2010

26. desember 2010

Hin eina sanna Eskimó peysa; Í tilefni 80 ára afmælis

Í haust byrjaði ég að setja mig inn í sögu prjónaskapar en neyddist til að leggja það áhugamál á hilluna þegar ég veiktist - því er í rauninni sjálffrestað fram á næsta ár. En eitthvað langar mig að skrifa um efnið og bloggið er ágætis geymsla fyrir pistla sem betur má vinna síðar. Efni þessarar færslu er fyrsta “eskimóapeysan” en vinsældir slíkra peysa urðu mjög miklar næstu áratugina og má rökstyðja að þær séu fyrirmynd íslensku lopapeysunnar. (Sjá fyrri færslu, Íslenska lopapeysan.)

Þessi fyrsta Eskimó-peysa var hönnuð fyrir 80 árum. Höfundurinn var afar merkileg norsk kona, Annichen Sibbern (1905-1978), sem bætti svo Bøhn, ættarnafni mannsins síns, aftan við sitt nafn síðar. (Ævi þessarar konu er svo merkileg að hún er efni í aðra færslu og verður ekki rakin hér en lesa má helstu æviatriði í pdf-skjalinu “Annichen Sibbern Bøhn Preserver of Norway’s Knitting history, Wartime Resistance fighter”  .)

Eskimópeysa Annichen SibbertMyndin af Eskimo peysunni birtist í norska kvennablaðinu Urd (nr. 48) árið 1930. Sama ár gaf Annichen Sibbern út uppskrift af peysunni í sérhefti en árið eftir var uppskriftin með í bókinni Strikkeopskrifter. (Sé smellt á litlu myndina birtist stærri útgáfa. Í sumum heimildum er sagt að það sé Annichen Sibbern sjálf sem klæðist peysunni en það ber dóttir hennar, Sidsel Kringstad, til baka.)

Peysan varð strax gífurlega vinsæl. Til þess lágu einkum tvær ástæður; Annars vegar féll hún að þáverandi baráttu Samtaka um hagnýta listsköpun (Foreningen Brukskunst) fyrir því sem þau kölluðu “fegurri hvunndag” (”en vakrere hverdag”) og hins vegar var hún tengd hápólitísku máli, nefnilega baráttu norskra yfirvalda fyrir yfirráðum yfir hluta Grænlands, vegna  fiski- og veiðréttinda þar. Norðmenn höfðu allt frá árinu 1916 krafist yfirráða yfir óbyggðum í landnámi Eiríks rauða, þ.e.a.s. hluta Austur-Grænlands enda dýrmætar veiðlendur og fiskimið þar. Norska ríkisstjórnin eignaði sér svo þessi landsvæði 1931 og 1932 en þá kærðu Danir fyrir Alþjóðadómstólnum í Haag, sem úrskurðaði 1933 að eignarhald Norðmanna væri ólöglegt. Á árunum 1930 -33 var heit umræða í Noregi um þetta meinta eignarhald. Peysa Annichen Sibbern verður að skoðast í ljósi þessarar umræðu og einnig mikils almenns áhuga í Noregi á menningu við Íshafið, sem hafði blómstrað allt frá því að Friðþjófur Nansen kannaði Grænland 1888.

Kvikmyndin EskimoUpphaf peysunnar tengist þó fremur kvikmyndagerð (sem tengist einnig pólitískum áhuga Norðmanna og Dana á Grænlandi). Fyrsta norska talmyndin (sem var nú reyndar danskt-norskt samvinnuverkefni) var myndin Eskimo, byggð á skáldsögu eftir Ejnar Mikkelsen (danska pólfarann) en handritið var eftir Helge Bangsted, danskan blaðamann sem m.a. hafði fylgt Knúti Rasmussen í fjölda Grænlandsferða. Myndin var frumsýnd árið 1930.

Kvikmyndin Eskimo segir frá ungum dönskum yfirstéttarmanni sem lendir í sjávarháska við Grænland og ung inúítakona bjargar honum af ísjaka. Þau verða ástfangin og enda á að giftast. (Á myndinni úr kvikmyndinni sést að inúítakonan Evaluk er klædd í þjóðbúning fra Vestur-Grænlandi. Leikkonan hét Mona Mårtenson.)

Hér er vert að taka fram að sá grænlenski þjóðbúningur sem við sjáum oftast er ekki nema u.þ.b. 50 ára gamall. Perlukragarnir komu ekki fram á sjónarsviðið fyrr en um aldamótin 1900 og voru þá tiltölulega einfaldir að gerð. Þeir urðu síðan æ flóknari og stærri með tímanum enda aðgengi að lituðum perlum æ meira. (Á  myndasíðu Danska þjóðminjasafnsins má sjá nokkra gamla grænlenska perlukraga.)

Til að gera langa sögu stutta: Annichen Sibbern fór í bíó og sá myndina Eskimo. Hún varð strax hugfangin af grænlenska búningnum og hannaði sína Eskimó-peysu, sumir segja á næstu dögum. Eskimó-peysan var hönnuð bæði fyrir vélprjón og handprjón.

Það var svo ekki fyrr en 1947 sem fyrsta peysan frá hinu sænska Bohus Stickning með hringprjónuðu munstruðu berustykki leit dagsins ljós (hin fræga Blå skimmer) og enn síðar (1951) sem Unn Søiland Dale (norsk) markaðssetti sína línu af eskimópeysum. Skv. Elsu Guðjónson (Astrid Oxaal vísar í grein hennar “Traditionel islandsk strikning” í Stickat och virkat í nordisk tradition, Österbotten Museum 1984, s. 52) var peysa með eskimómunstri, sem birtist í Húsfreyjunni 1957, líklega kveikjan að því sem við þekkjum sem íslensku lopapeysuna. Ég held að Elsa hafi þýtt uppskriftina sjálf, úr dönsku blaði. Það er dálítið skondið að hinar frægu Farmers market peysur nútímans minna svolítið á upphaflegu peysuna hennar Annichen Sibbert með sínum háa kraga og einnig yfirbragð munstursins, einkum á það við peysuna Gil

Annichen SibbertSvo Annichen Sibbern er tvímælalaust frumkvöðull í hönnun á eskimóa-peysu, hátt í 20 árum á undan öðrum. Þetta er spennandi fyrir Íslending því af peysu Annichen þróuðust aðrar peysur í sama dúr sem enduðu sem “hefðbundin” íslensk lopapeysumunstur. (Myndin til vinstri er af Annichen Sibbern Bøhn.)

Hér er upphafleg uppskrift Annichen Sibbern af peysunni Eskimo. Það sem er sérstakt við þessa peysu, að mínu mati, er að fitjað er upp á kraganum og peysan síðan prjónuð niður; sú aðferð við peysuprjón er einmitt að ryðja sér til rúms aftur á allra síðustu árum.

Ég hef áhuga á að prjóna þessa peysu, í tilefni 80 ára afmælis hennar (eða 81 árs afmælis, ég næ nú ekki að prjóna hana fyrir áramót enda er ég rétt byrjuð að prófa ýmiss konar garn til að ná réttri prjónafestu). Þess vegna þýddi ég uppskriftina á íslensku og teiknaði upp munstrið. 

Þýdda uppskriftin og munstrin eru hér. Væri gaman að heyra ef einhver prófar að prjóna Eskimo-peysu Annichen Sibbern. Sjálf reyni ég að birta mynd af mér í dýrindinu einhvern tíma um mitt næsta ár, ef heilsan leyfir :)

Heimildir:

Bøhn Kringstad, Sidsel og Annichen Bøhn Kassel: “Norske strikkemønstre”: KVINNEN bakom boken”, Kulturarven 47, 2009, s. 46-48.
Oxaal, Astrid: “Et norsk strikkemønster fra Grønland”, Kunst og kultur 3, 2003, s. 158-171.
Shea, Terri: “Annichen Sibbern Bøhn Preserver of Norway’s Knitting history, Wartime Resistance fighter”, Piecework Magazine, Interweave Press LLC. Aðgengileg sem pdf-skrá á vefnum, án síðutals, slóð http://www.interweave.com/needle/projects/Norwegian-Article-100802.pdf
Sundbø, Annemor: Unsynlege trådar i strikkekunsten, 3. útg. 2009 (upphafleg gefin út 2005), Det Norske Samlaget.
Bréfaskipti mín við Sidsel Kringstad (dóttur Annichen Sibbert) og Annemor Sundbø.  

Ummæli (8) | Óflokkað, Daglegt líf, handavinna