Færslur frá 28. desember 2010

28. desember 2010

Hvað er íslensk peysa?

ÍslandspeysaUppskriftin hér til hægri birtist í Húsfreyjunni 1.tbl. 8. árg., marz 1957, s. 17. (Sé smellt á myndina kemur öll uppskriftin upp.) Fyrirsögnin er: “SVÍAR NEFNA ÞESSA GERÐ AF PEYSUM ÍSLANDSPEYSU“. Uppruna uppskriftarinnar er ekki getið né þýðanda hennar.  

Mér dettur þó í hug að Elsa E. Guðjónsson hafi þýtt uppskriftina því í aftanmálsgrein Astrid Oxaal, við greinina Et norsk strikkemønster fra Grønland, í Kunst og kultur 3/03, s. 171, þar sem hún vísar í Susanne Pagoldh, Stickat från Norden, Stockholm 1987, s. 41, segir: “Opplysningen har referanse til konservator Elsa Gudjónssons beskrivelse at hun, i en ny svensk strikkebok fra ICA-kurien i 1956, hadde sett en genser med rundstrikket mønster i fargene rødt, blått og hvitt, og som ble kalt for islandstrøie. Guðjónsson ble så begeistret for genseren at hun publiserte den året etter i Húsfreyan [svo!] som var den islandske kvinneforeningens medlemsblad”.

Sé uppskriftin skoðuð sést að peysan er ekki með hringúrtöku enda er hún hneppt að aftanverðu og prjónuð opin, fram og til baka. Hún er heldur ekki prjónuð með tvíbandaprjóni því  munstrið er gert með því að taka upp óprjónaðar lykkjur úr umferðinni á undan. (Skemmtileg aðferð sem ég hafði einmitt hugsað mér að prófa, reyndar í garðaprjónstrefli en ekki peysu …)

  

Tv�bandapeysaTil vinstri er svo mynd af tveimur peysum, svokölluðum tvíbandapeysum. Þær birtust í Húsfreyjunni árið eftir, í 1. tbl. 9. árg., janúar-marz 1958, s. 17-18. Eins og tíðkaðist er hvorki uppruna né þýðanda getið. Sé smellt á myndina kemur uppskriftin.

Vinstri peysan er með hringúrtöku en sú til hægri er með laskaúrtöku. Mér finnst sú vinstra megin líkjast norskum “eskimópeysum”, t.d. þeim sem Unn Søiland hannaði, en sú til hægri líkist mun meir Bohus peysunum sænsku.

Unn Søiland � eskimo-peysu Unn Søiland, sem bætti Dale við nafnið sitt þegar hún giftist, var norsk fyrirsæta með meiru en gerðist svo  hönnuður og stofnaði prjónavörufyrirtækið Lillunn Sport A/S. 1951 sló hún í gegn með þessari Eskimo peysu. Á bæklingnum, útg. 1951, situr hún sjálf fyrir íklædd eskimópeysunni.

Sagt er að þegar hún var að vinna sem fyrirsæta í London hafi hún dag nokkurn séð mynd af dönsku konungsfjölskyldunni íklæddri grænlenskum þjóðbúningum. Það gaf henni hugmyndina að eskimó-munstrinu og peysu prjónaðri í einu lagi, með hringúrtöku. (Sjá heimild hér.)

Þetta er skemmtileg saga … en því miður hannaði Unn Søiland eskimópeysuna 1951 og danska konungsfjölskyldan heimsótti ekki Grænland fyrr en 1952. Það mælir samt svo sem ekkert á móti því að Unn hafi séð grænlenska perlukraga einhvers staðar eða að danska konungsfjölskyldan hafi pósað í grænlenskum búningi áður. Mér finnst þó allt eins líklegt að hún hafi kynnt sér hönnun Annichen Sibbern, sem ég bloggaði um í síðustu færslu, og vitað hugmyndina á bak við hana. 

Danska konungsfjölskyldanFyrir rojalista á borð við mig er hér mynd af kóngafamilíunni, tekin 1952 skv. Vibeke Lind, sjá tilvísun í heimild til hægri, og má sjá stærri mynd með því að smella á litlu myndina.

Ingrid Bergman � eskimo peysuEskimo-peysulína Unn Søiland varð feikivinsæl og frægt fólk sóttist eftir að eiga svona peysur. Hér má sjá Ingrid Bergman með börnum sínum og eru öll klædd í þessar norsku Eskimo peysur frá Lillunn Sport A/S. 

Þeir sem vilja kynna sér Unn Søiland Dale ættu að kíkja á grein um hana í Store norske leksikon eða bara gúggla. Stundum er nafnið stafsett Søyland.

  

  

Blå skimmer frá Bohus StickningFjórum árum áður en Unn hin norska markaðssetti sína eskimó-línu, eða 1947, hannaði hin sænska Anna-Lisa Mannheimer Lunn, hönnuður hjá Bohus Stickning í Svíþjóð, peysuna Blå skimmer. Sú sló rækilega í gegn og er sögð hafa verið fyrsta sænska peysan með hringlaga berustykki. Þó var hún ekki byggð á hefðbundnu sænsku prjóni heldur perlusaumuðum þjóðlegum kraga (”This first-ever yoked sweater was not based on a traditional Swedish knitted sweater, but on a netted folk collar.”), segir í ágætri úttekt á Bohus-peysunum

Ingrid Bergman � Bohus-peysuEnn er því bent á grænlenska perlukragann sem fyrirmynd, í þetta sinn að sænsku Bohus-peysunum. Þetta er farið að líkjast ansi mikið þjóðsögu, að mínu mati!

(Af því Ingrid Bergman sést hér að ofan í norskri Eskimo-peysu er rétt að gera ekki upp á milli og setja inn mynd af henni í sænskri Bohus peysu líka. Þetta er peysan Röda randen, sem Anna-Lisa Mannheimer Lunn hannaði um 1945. Ingrid dvaldi einmitt löngum í Fjällbacka í Bohusléni.)

ÍslandstrojaMannen i islandstrojaPeysan til vinstri er það sem Svíar nefndu til skamms tíma Islandströja. Slík peysa er: “patentstickad ylletröja, vit med tvärgående ränder i rött och blått. Den har troligen fått sitt namn av att importerad isländsk ull använts till stickgarn” segir á Nationalencyklopedin 2010

Svona peysur voru / eru líka kallaðar “fiskartröja” og “pippi-tröja“, hið síðarnefnda sennilega til heiðurs Línu langsokk …

Raunar virðist nútímaskilningur Svía á Islandströja enn yfirgripsmeiri, sem sjá má á þessari auglýsingu (mér finnst sú peysa líkjast helst færeyskri peysu eða því sem Norðmenn og Danir kölluðu Íslandspeysu áður fyrr.)

Styttan hér til hægri stendur í Kristianstad og heitir Mannen i islandströja, gerð af Ivar Johansson 1933. Sé smellt á litlu myndina opnast síða með stórri mynd (sem auk þess má stækka enn fremur) og ættu allir að geta séð að þessi maður er a.m.k. alls ekki í íslenskri lopapeysu, hvað þá peysu með hringlaga berustykki  :)  

  

Knud RasmussenTil að flækja málin er þessi mynd af pólfaranum danska Knud Rasmussen, tekin um 1920. Í myndatexta segir hann sé “iført en islandsk sweater.” Litla myndin krækir í stærri og skýrari mynd.Myndin er tekin úr bók Vibeke Lind, Strik með nordisk tradition, 2. útg. 1995, Høst og Søns Forlag, København, s. 50.     

Þar kemur fram að “Islændere” hafi verið ætlaðar sjómönnum og þeim sem unnu hörðum höndum; þetta hafi verið tvíbanda, símunstraðar peysur, tvílitar og oftast í sauðlitunum. Þær voru úr grófu garni og sniðið afar einfalt - klippt fyrir ermum og þær saumaðar beint í. (Sjá s. 48-49.) 

Elsa Guðjónsson segir að sænsku peysurnar hafi verið fyrirmyndin að íslenskum peysum í sama dúr: “Seint á sjöunda áratugnum voru hin vinsælu erlendu peysumunstur með hringlaga axlabekkjum - upprunnin í Svíþjóð laust fyrir 1950 - tekin upp og aðlöguð lopaprjóni. Hefur þessi síðarnefnda munsturgerð orðið og er enn höfuðeinkenni íslenskra lopapeysa.” (Elsa Guðjónsson: “Um prjón á Íslandi”, Hugur og hönd, Rit Heimilisiðnaðarfélags Íslands, 1985, s. 12.) 

Miðað við aðra peysuna sem sést á myndinni hér að neðan, sem fylgdi viðtali sem Elsa tók sjálf, er ekki rétt að þessi munstur hafi ”verið aðlöguð lopaprjóni” seint á sjöunda áratugnum. Væri nær að miða við seint á sjötta áratugnum. 

Lopapeysur 1958Þessi mynd birtist í viðtali Elsu E. Guðjónson við Sigrúnu Stefánsdóttur, framkvæmdarstjóra Íslenzks heimilisiðnaðar 1958. (Sjá “Okkur vantar góða heimaþvegna ull”, Húsfreyjan 9. árg. 3. tbl., júlí-sept. 1958, s. 18 og 19.) Mynd krækir í stærri útgáfu. Í viðtalinu segir: “Eftirsóttasta varan sem við höfum á boðstólum eru þó peysurnar. - Frú Sigrún seilist upp í hillu og dregur fram allavega tvíbanda sportpeysur, margar með “grænlenzku” sniði. - Þær eru úr tvöföldum eða þreföldum þellopa. Grunnurinn er alltaf í sauðalit, þótt litir séu stöku sinnum notaðir í bekkina. Sauðalitirnir eru sérkennandi fyrir íslenzkan ullariðnað og er alltaf meiri sala í vöru með sauðalit. Í fullorðinspeysur hefur okkur reynzt bezt að nota sauðaliti að langmestu leyti, en barnapeysur mega vera í björtum og skærum litum.” (s. 18).

(Elsa birtir einmitt eigin teikningar af þessum peysum með grein sinni “Um prjón á Íslandi”, 1985, sem vitnað er í hér að ofan.) 

Sem sjá má líkist sú “hefðbundnari íslenska”, þ.e. sú til hægri, talsvert mikið fyrstu eskimóapeysu Unn Søland sem mynd er af ofar í færslunni.

Talsvert löngu áður hafa konur verið byrjaðar að prjóna peysur í þessum dúr, úr öðru garni en lopa. T.d. er mynd af litskrúðugri barnapeysu sem Jóhanna Hjaltadóttir segist hafa prjónað um 1950 og líkist bæði norsku eskimópeysunum hennar Unn Søland Dale og sænsku eskimópeysum Anna-Lisa Mannheimer Lunn, í Hugi og hönd 1999.

Um þá peysu er sagt: “Um 1950 prjónar Jóhanna barnapeysu með rúnnuðu berustykki en þá var aftur fáanlegt erlent prjónagarn. Munstrið fékk hún úr dönsku blaði, Familie Journal eða Hjemmet. Þetta munstur prjónaði hún aldrei úr lopa og man ekkki fyrir víst hvenær hún byrjaði að prjóna “hefðbundnu lopapeysuna” sem slíka. Hér er um sömu gerð af peysu að ræða oe Elsa getur um hér að framan og hafi verið vinsæl í Svíþjóð. Af þessu má draga að sams konar peysur með hringlaga herðastykki hafi verið algengar og vinsælar á Norðurlöndunum um þetta leyti og munstrin hafi borist hingað bæði með peysum og prjónablöðum en vegna skorts á prjónagarni hafa konur aðlagað munstrin að lopanum.” (Kristín Schmidhauser Jónsdóttir: Íslenska lopapeysan - prjónalist - listiðnaður”,  Hugur og hönd, Rit Heimilisiðnaðarfélags Íslands, 1999, s. 13.)

   

Þegar allt kemur til alls þá held ég að bæði norski og sænski hönnuðurinn sem ég hef fjallað um hér að ofan, hafi byggt ansi mikið á hugmynd Annichen Sibbern um að nota grænlenskan perlukraga sem fyrirmynd að berustykki eða munstri á peysu. Hennar peysa kom löngu fyrr fram á sjónarsviðið (sjá fyrri færslu) og hún fann upp á að nota hringúrtöku. Víst er að Unn Søland þekkti vel til Annichen Sibbern því hún notaði t.d. bók Annichen, Norske strikkemønstre, sem kom fyrst út 1929 og hefur verið margendurútgefin, í hönnun á þeirri frægu Mariuspeysu. Eskimopeysa Annichen Sibbern varð afar vinsæl á sínum tíma og var sýnd á mörgum sýningum. Má því ætla að hróður hennar hafi borist víða um Skandinavíu.

Sennilega hefur svo hver hermt eftir öðrum, munstrin hlotið nafnið eskimó eða grænlenskt eftir því sem hverjum hentaði og þótti eksótískast og að lokum varð þetta að íslensku lopapeysunni eins og flestir þekkja hana. (Reyndar kemur upp lopapeysufjöld þegar leitað er að Islandströja eða Islandsk sweater á Google, þótt þessi nöfn hafi lengstum verið notuð um allt annars konar peysur.)

Það er því stór spurning um hvað er séríslenskt í þessu stóra peysumáli … Og í rauninni svolítið fyndið að kveikjan að öllu saman hafi verið kvikmynd og tenging við pólitískt bitbein Dana og Norðmanna á fjórða áratugnum, nefnilega eignarhald á Grænlandi
 

Sjá einnig færslurnar:

Hin eina sanna Eskimó peysa; Í tilefni 80 ára afmælis;

Íslenska lopapeysan;

og jafnvel

Friðarey

Ummæli (4) | Óflokkað, Daglegt líf, handavinna