Færslur frá 3. janúar 2011

3. janúar 2011

Ekki sama öryrki og öryrki

Þunglyndi eftir Van GoghÉg er 100% öryrki og hef verið metin svo til loka árs 2012 (ekki þar fyrir - ég myndi fagna því mjög að þurfa ekki að vera öryrki og batna eitthvað fyrir þann tíma … öfugt við það sem einhverjir virðast halda þá “gerast” menn ekki öryrkjar að gamni sínu).

Nú datt mér í hug að gott væri að eignast örorkuskírteini því það veitir af afslátt af  læknisþjónustu og fleiru. Þess vegna hringdi ég í LSR því ég þigg örorkulífeyri þaðan (sem eru áunnin réttindi mín í þessum lífeyrissjóði). Rétt er að taka fram að það tekur um fjóra mánuði að afgreiða örorkuumsókn hjá LSR, senda þarf inn margvísleg gögn og ítarlegt læknisvottorð og öryrkjamatið er framkvæmt af trúnaðarlækni, sem vill svo til að er sérfræðingur í mínum sjúkdómi. LSR gefur ekki út örorkuskírteini en vísaði á Tryggingarstofnun ríkisins.

Ég hringdi þangað áðan og tók um hálftíma að ná sambandi við manneskju af holdi og blóði. Sú svaraði því til að Tryggingastofnun ríkisins gæfi eingöngu út örorkuskírteini fyrir öryrkja á sínum vegum, þ.e.a.s. þá sem þiggja örorkulífeyri frá TR. Ég sagði henni að ég ætti náttúrlega engan rétt á örorkubótum frá TR af því ég sæki örorkulífeyri úr mínum lífeyrissjóði. Konan svaraði því til að ég ætti samt að sækja um örorkulífeyri hjá TR, það gerðu margir sem ekki ættu neinn rétt á fébótum en vildu öðlast réttindi; Ekki væri nóg að senda afrit af örorkumati LSR því læknar TR yrðu að meta hvert tilvik fyrir sig og annað ekki tekið gilt. Það tæki 6 - 8 vikur að afgreiða umsóknina.

Mér finnst ákaflega merkilegt að hjá TR skuli starfa læknar sem eru æðri öðrum sérfræðilæknum eða trúnaðarlæknum sem meta örorku fyrir hönd lífeyrissjóða. Þetta hljóta að vera miklir læknasnillingar.

Nú er talsvert mál að sækja um svonalagað, þarf að senda vottorð (ég átta mig reyndar ekki á hver er munurinn á læknisvottorði og “skoðun hjá sérfræðilækni” en hvort tveggja þarf að uppfylla), tekjuáætlun, umsókn, fylla út fáránlegan sjálfsmatslista ( sjá Spurningalisti vegna færniskerðingar ) o.fl. 

Auk þess veitir umsækjandi TR leyfi til víðtækra persónunjósna um sig, með undirskriftinni á umsókninni (heimilar “Tryggingastofnun og umboðsmönnum að afla upplýsinga um tekjur hjá skattyfirvöldum, lífeyrissjóðum, Atvinnuleysistryggingasjóði, Vinnumálastofnun og sambærilegum stofnunum erlendis, þegar við á, með rafrænum hætti eða á annan hátt”).  Til samanburðar má nefna að LSR hefur ekki aðgang að slíkum gögnum en lætur umsækjanda sjálfan senda inn afrit af skattframtali síðustu þriggja ára, sem er í sjálfu sér vesen en miklu skárra en leyfa öðrum að snuðra í svoleiðis gögnum, “með rafrænum hætti eða á annan hátt”.

Miðað við allt vesenið og skotleyfið sem maður gefur á sitt einkalíf held ég að ég sleppi frekar þessu öryrkjakorti. En mér finnst fáránlegt að í “velferðarkerfinu” skuli ekki vera sama Jón og séra Jón; að öryrki sé ekki sama og öryrki og TR skuli akta sem einhvers konar einkaleyfisskrifstofa fyrir öryrkjaskírteini. Er ekki réttara að kalla öryrkjaskírteini “öryrkjaskírteini TR”? Er þetta ekki eitthvað sem hann Gutti þyrfti að huga að?

Ummæli (11) | Óflokkað, Geðheilsa, Daglegt líf