6. janúar 2011

Þófamjúk rándýr sem læðast: Siðblinda, I. hluti

31. des. 2011: Ég hef ofið siðblindufærslurnar og ætti að vera þægilegra að skoða efnið á vef heldur en í þessu bloggumhverfi. Slóðin er:http://sidblinda.com

Borgarnóttin

Þófamjúk rándýr sem læðast
með logandi glyrnum
í lævísu myrkri
-og skógur með kvikum trjám

(Hannes Sigfússon) 

 

Inngangur

ÚlfurÞessi færsla og fleiri eru skrifaðar fyrst og fremst sem glósur fyrir mig sjálfa því mér hættir til að gleyma býsna hratt því sem ég les þessa dagana. Fróðleikinn um siðblindu hyggst ég nota í ákveðnum skrifum en vonast til að einhverjir fleiri en ég hafi áhuga á fyrirbærinu, jafnvel að þessi skrif nýtist einhverjum sem víti til varnaðar, því talið er að allir kynnist siðblindum einstaklingum einhvern tíma á lífsleiðinni og slíkir geta valdið ómældum skaða. Þá má nefnilega finna allstaðar, í öllum stéttum og störfum.

Siðblinda (áður kölluð geðvilla) er notað um það sem á ensku kallast psychopathy, psykopati á skandinavískum málum (nú orðið oftast dyssociale personlighedsforstyrrelse eða sociopat á dönsku, haft innifalið í antisocial personlighetsstörning á sænsku)  o.s.fr. Orðið er samsett úr grísku orðunum psyche, sem þýðir sál og pathos, sem þýðir þjáning/ kvöl. Varla er þó átt við að siðblindir þjáist á sálinni heldur að þeir valdi öðrum miklum þjáningum. Pathos getur líka þýtt sjúkdómur og vissulega hafa siðblindir sjúka sál þótt ekki teljist þeir geðveikir. Ég blogga meir um orðalag tengt siðblindu síðar.

Þegar menn heyra orðið erlenda orðið „sækópat“  sjá flestir fyrir sér fræga morðingja kvikmyndasögunnar, s.s. Hannibal Lechter í Lömbin þagna eða Alex í Clockwork Orange. Fólk gerir sér sennilega ekki grein fyrir því að einungis lítill hluti glæpamanna greinist siðblindur (um 20% fanga greinast siðblindir) en siðblindir einstaklingar eru taldir á bilinu 0,5 - 1% fólks utan fangelsismúranna, skv. Robert D. Hare.1)  Svipað algengi kemur út úr breskri rannsókn á almennu þýði.2)  Skandinavískar tölur eru hærri.3) Það þýðir t.d. að hér á þeim góða Skaga eru sennilega milli 30 -50 siðblindir einstaklingar, miðað við bandarískar og breskar rannsóknir. Fjöldinn á Íslandi er á bilinu 1500 - 3000 manns. 4)

Siðblinda er ekki geðveiki heldur ein alvarlegasta persónuleikaröskunin sem fyrirfinnst. Hún er almennt talin ólæknandi enda telja siðblindir sig hreint ekki þurfa lækningar við, sama hversu miklum skaða þeir valda öðrum.

Ég fékk mikinn áhuga á siðblindu fyrir skömmu en komst að því að ekki hefur verið skrifað mikið á íslensku um fyrirbærið. Nanna Briem, geðlæknir hefur einna mest fjallað um þetta efni og má nefna grein hennar  „Um siðblindu“, sem birtist í 38. tbl. Geðverndar 2009, s. 25 - 29 (greinin er aðgengileg á netinu hér ) og leiðarann „Siðblinda“ í Læknablaðinu 96. tbl. 2010 (á netinu hér) , einnig eftir Nönnu Briem. Sjá má frægan fyrirlestur Nönnu Briem, Siðblinda og birtingarmyndir hennar, sem hún hélt í Háskólanum í Reykjavík þann 3. febrúar 2010 og horfa má á á netinu.  Loks er handhægt að skoða glærusýningu Nönnu, Um siðblindu, til að fá yfirlit yfir efnið.

Aðrar íslenskar heimildir eru af skornum skammti, einna helst að finna megi greinar eða örstuttar tilvísanir í dagblöðum eftir að menn beindu sjónum sínum að siðblindu stjórnenda í viðskiptalífinu. Um slíkt hefur verið skrifað töluvert á erlendum málum, þar af er frægust bókin Snakes in Suits: When Psychopaths Go to Work, eftir Robert Hare og  P. Babiak, sem kom út árið 2006. (Sjá má stutta umfjöllun Kristjáns G. Arngrímssonar um þessa bók, „Snákar í jakkafötum“ í Mbl. 7. júní 2006.)

En ég hef meiri áhuga á siðblindum einstaklingum almennt. Þeir eru nefnilega fjöldamargir, eins og áður sagði, en þrátt fyrir alls konar vandræði og skaða sem þeir valda öðrum kemst einungis lítill hluti þeirra í kast við lögin. Miklu stærri hluti siðblindra eru karlar, þótt siðblindar konur finnist líka, og því er ævinlega notað orðið „hann” hér þegar talað er um siðblindan einstakling. [Viðbót 1. febrúar 2011: Robert Hare hefur síðar haldið því fram að hugsanlega sé þetta vegna þess að siðblindar konur séu greindar öðruvísi vegna viðtekinna skoðana á hlutverki og framkomu kynjanna. Hann segir að ef karl og kona sýni öll kjarnaeinkenni siðblindu muni læknir greina karlinn siðblindan eða með andfélagslega persónuleikaröskun en konuna með sefapersónuleikaröskun (histrionic PD) eða sjálfsdýrkunarpersónuleikaröskun (narcissistic PD) því konan sýnir kannski fá andfélagsleg hegðunareinkenni. Ekki er ólíklegt að hún reyni að herma eftir þeirri staðalímynd kynsystra sinna sem þykir eftirsóknarverð og láti lítið fyrir sér fara, virki hlý, ástrík og undirgefin. Hare nefnir engar tölur um hlutfall siðblindra kvenna í þessu sambandi. Sjá Babiak, Paul og Robert D. Hare. 2007, s. 101-102. Snakes in Suit. When Psychopaths Go to Work. HarperCollins, New York. Bókin kom fyrst út árið 2006.]  

[Viðbót 7. febrúar: Lára Hanna Einarsdóttir hefur klippt saman (úr bútum á YouTube) heimildarmyndir um siðblindu og skal bent á:

Ég þakka Láru Hönnu kærlega fyrir verkið og að benda mér á þetta og leyfa krækjur í efnið.] 

  
Einkenni siðblindu

Hervey CleckleyÞað hafa margir sett fram greiningarlykla fyrir siðblindu.5)  Sá sem fyrstur gat sér verulega frægð fyrir umfjöllun um hana var geðlæknirinn Hervey Cleckley, í bók sinni The Mask of Sanity sem kom út 1941. Hún var byggð á rannsóknum hans á siðblindum föngum og er enn talin til grundvallarrita í siðblindufræðum og marg-endurútgefin. Bókina er hægt að nálgast á Vefnum.  Myndin til hægri er af Cleckley.

Cleckley taldi eftirfarandi 16 einkenni í hegðun siðblindra einstaklinga 6)

 1. Yfirborðskenndir persónutöfrar og góð greind
 2. Engin blekkjandi eða óraunhæf hugsun
 3. Engin taugaveiklun eða hugsýki
 4. Ekki hægt að treysta
 5. Óheiðarleiki og fals
 6. Skortur á eftirsjá og skömm
 7. Fljótfær andfélagsleg hegðun
 8. Léleg dómgreind og lærir ekki af reynslunni
 9. Sjúkleg sjálfselska og vanhæfni til að elska
 10. Vanmáttur í að bregðast við sterkum tilfinningum
 11. Ákveðinn skortur á innsæi
 12. Skortur á viðbrögðum í almennum félagslegum tengslum
 13. Ótrúleg og ógeðfelld hegðun þegar áfengi er drukkið og stundum edrú
 14. Hótanir um sjálfsvíg leiða sjaldan til sjálfsvígs
 15. Kynlíf er ópersónulegt, hversdagslegt og ekki litað af ástríðu
 16. Vangeta til að fylgja eftir markmiðum í lífinu

Sálfræðingurinn Robert D. Hare hefur varið stórum hluta starfsævi sinnar í rannsóknir á siðblindu. Um hana hefur hann skrifað fjölda greina og bóka. Frægust bóka hans er líklega Without Conscience: The Disturbing World of the Psychopaths Among Us, sem kom fyrst út 1993.

Hare byggði að einhverju leyti á gátlista Cleckleys og hannaði sérstakt greiningartæki til að greina siðblinda einstaklinga, PLC-R („the pscyhopathy check list“ eða gátlista yfir siðblindu) ásamt fleiru. Vel að merkja leggur Hare þunga áherslu á að einungis reynt fagfólk geti greint siðblindu og handbókin um notkun listans er ekki afhent hverjum sem er (m.a. vegna þess að siðblindir fangar gætu þá lært á viðtalstæknina og logið til um svörin). Greiningin felst í hálf-stöðluðum viðtölum, ítarlegri skoðun á sögu  viðkomandi o.fl. en grunnurinn að greiningunni er þessi gátlisti. Þótt Hare taki almenningi vara fyrir að greina aðra siðblinda opinberlega (því slíkt sé einungis á færi reyndra fagmanna) er honum mjög í mun að fólk þekki einkenni siðblindu vel, til að það geti varað sig á siðblindum einstaklingum í samfélaginu.

Gr�ma siðblinduÍ PCL-R eru talin upp 20 einkenni sem eru dæmigerð fyrir siðblinda einstaklinga. „Helmingur einkennanna eru svokölluð kjarnaeinkenni siðblindu og hafa með tilfinningalíf og samskipti við aðra að gera. Hinn helmingurinn lýsir lífsstíl og andfélagslegri hegðun … Fyrir hvert einkenni er gefið 0-1-2 stig; 0 ef einkennið er ekki til staðar, 2 ef það er afgerandi til staðar og 1 ef það er einungis til staðar að hluta til. Til verður þá litróf frá 0 - 40, þar sem mest siðblindu einstaklingarnir eru með 40 stig, venjulegir þjóðfélagsþegnar með undir 5 stigum, og næst 0 stigum líklega ekki aðrir en helgustu dýrlingar. Til að fá  siðblindugreiningu þarf 30 stig (25 stig sums staðar, t.d. á Norðurlöndunum.“7)  (Nanna Briem, 2009, s. 25-26.)

Það dugir sem sagt ekki að hafa einhver einkenni af listanum því siðblinda er heilkenni, þ.e.a.s. fjöldi tengdra einkenna. Og auðvitað eru margir sem hafa einhver neðantalinna einkenna, án þess að vera siðblindir.

Einkennin í greiningarkvarða/ gátlista Roberts D. Hare8) eru þessi:  (Íslenska þýðingin er að stórum hluta byggð á grein Nönnu Briem, 2009, s. 26)

Factor 1
Aggressive narcissism

 1. Glibness/superficial charm
 2. Grandiose sense of self-worth
 3. Pathological lying
 4. Cunning/manipulative
 5. Lack of remorse or guilt
 6. Emotionally shallow
 7. Callous/lack of empathy
 8. Failure to accept responsibility for own actions
Þáttur 1
Ógnandi sjálfsdýrkun

 1. Tungulipurð / yfirborðskenndir persónutöfrar
 2. Stórmennskuhugmyndir um eigið ágæti
 3. Lygalaupur
 4. Slóttugur, falskur, drottnunargjarn
 5. Skortir á eftirsjá eða sektarkennd
 6. Yfirborðskennt tilfinningalíf
 7. Kaldlyndur / skortir samhygð 9)
 8. Ábyrgðarlaus um eigin hegðun (kennir öðrum um)
Factor 2
Socially deviant lifestyle

 1. Need for stimulation/proneness to boredom
 2. Parasitic lifestyle
 3. Poor behavioral control
 4. Promiscuous sexual behavior
 5. Lack of realistic, long-term goals
 6. Impulsiveness
 7. Irresponsibility
 8. Juvenile delinquency
 9. Early behavioral problems
 10. Revocation of conditional release
Þáttur 2
Afbrigðilegur félagslegur lífstíll

 1. Spennufíkill / leiðist auðveldlega
 2. Sníkjudýr (á öðrum eða „kerfinu“)
 3. Léleg sjálfstjórn
 4. Lauslæti
 5. Skortir raunsæ langtímamarkmið
 6. Hvatvísi
 7. Ábyrgðarleysi
 8. Afbrot á unglingsárum
 9. Hegðunarvandamál í æsku
 10. Brot á skilorði
Traits not correlated with either factor

 1. Many short-term marital relationships
 2. Criminal versatility
Einkenni sem tengjast hvorugum þættinum

 1. Mörg skammtíma ástarsambönd
 2. Fjölskrúðugur afbrotaferill

  

Þáttur 1 mælir svokölluð kjarnaeinkenni siðblindu og snýr að tilfinningalífi og samskiptum við aðra. Þáttur 2 lýsir lífsstíl og andfélagslegri hegðun. Loks eru tvo einkenni sem tilheyra hvorugum meginþáttanna.  Siðblindur einstaklingur mun skora hátt á báðum aðalþáttunum meðan sá sem er haldin andfélagslegri persónuleikaröskun skorar einungis hátt í þætti 2.

„Meðalstigafjöldi [bandarískra] karlkyns- og kvenkyns glæpamanna eru 22 og 19 stig. Einstaklingur með stig á bilinu 10 - 19 er með væga siðblindu, ef stigafjöldinn er á bilinu 20 -29 [24] eru  siðblindueinkennin töluverð …“ (Nanna Briem, 2009, s. 26). Áréttað skal að í Svíþjóð og Danmörku duga 25 stig til að teljast með fulla siðblindu. Því miður veit ég ekki hvernig þessu er varið á hinum Norðurlöndunum.

Ég þýddi útlistun Robert D. Hare á hvernig nokkur aðaleikenni siðblindu koma fram, sjá Nánari útlistun á sumum einkennum siðblindu í gátlista Roberts D. Hare (PLC).

Svo bendi ég á norska síða, „Kjenntegn på psykopati“, á doktoronline sem telur einkenni siðblindu nokkuð öðru vísi enda byggir greiningin ekki á gátlista Hare heldur annars amerísks geðlæknis.

    

Ég reikna með að blogga fleiri færslur um siðblindu og hugsanlega endar þetta efni einhvern tíma á vefsíðum.

Sjá einnig Þófamjúk rándýr sem læðast: Siðblinda, II. hluti.

   

Tilvísanir (því miður gengur ekki að krækja í akkeri í þessu bloggumhverfi svo uppsetningin er dálítið óhöndugleg).

1. Hare, Robert D. 1999, bls. tal vantar. Without Conscience: The Disturbing World of the Psychopaths Among Us. Guilford Press, New York.

2. Coid J, Yang M, Ullrich S, Roberts A, Hare RD. 2009. „Prevalence and correlates of psychopathic traits in the household population of Great Britain“ í
International  Journal of  Law and Psychiatry. 2009 Mar-Apr;32(2):65-73. Hér er vitnað í PubMed útdráttinn,  skoðaður 6. jan. 2011.

3. Sjá t.d. Poulsen, Henrik Day. 2004. „Hverdagens psykopater“ í Psykiatri-Information 2004/1, útg. af PsykiatriFonden: „Der er en klar overvægt af mænd, idet man regner med, at 2-4% af alle mænd, men kun ca. 1% af alle kvinder, er psykopater. Det vil med andre ord sige, at man kan regne med, at der i Danmark findes omkring 200.000 psykopater …“ og

DYSSOCIAL PERSONLIGHEDSFORSTYRRELSE, á NetPsykiater.dk, skoðað 6. janúar 2011: „I alt skønnes det at ca. tre procent af mændene og en procent af kvinderne har denne personlighedsforstyrrelse“ og

Personlighetsstörningar - kliniska rigtlinjer för utredning och behandling, Svensk psykiatri nr .9, 2006, útg. af Svenska psykiatriska Föreningen och Gothia, s. 59: „Prevelansen af antisocial personlighettstörning  i normalbefolkningen har rapporteras til 1-3%.“

Líkast til liggur munurinn á meintu algengi í mismunandi flokkunarkerfum. Hugsanleg en ekki líkleg skýring er að á Norðurlöndunum er gerð krafa um lægra skor á PCL-R greiningarlykli Roberts D. Hare en í Bandaríkjunum (sjá tilvísun nr. 7).

4. Nanna Briem. 2009. „Um Siðblindu“ í Geðvernd 38. tbl., s. 25.

5. Sjá t.d. Hervé, Hugues. 2004. „Psychopathic subtypes: Historical and Contemporary Perspectives“ í The Psychopath: Theory, Research, and Practice, s. 431-460. Routledge, Bandaríkjunum, Skoðað á Google bækur þann 6. janúar 2011.

6. Cleckley, Hervey M. 1988, 5. útg. The Mask of Sanity, s. 338-339 í pdf-skjali af bókinni

7. Svo virðist að glæpamenn í fangelsum í Svíþjóð, Kanada og Bretlandi skori lægra á gátlista Hare yfir siðblindu en bandarískir glæpamenn  þótt þeir hafi að öðru leyti jafnsterk einkenni siðblindu og forspárgildi greiningarinnar fyrir endurteknum glæpum sé hið sama. Sjá um þetta t.d.  Hare, Robert D., Danny Clark,  Martin Grann; David Thornton, „Psychopathy and the predictive validity of the PCL-R: an international perspective“ í Behavioral Sciences & the Law, okt. 2000, 18. árg., 5. tbl., s. 623-645. Sjá einkum s. 625. Skoðað á Vefnum (pdf.skjal) þann 6. janúar 2011.

8.  Hare, Robert D. 1999, s. 33-34. Sjá einnig PCL-R listann og umfjöllun á Wikipediu.

Gátlisti og greiningaraðferð Hare hefur ekki verið viðurkennd í þeim tveimur greiningarkerfum geðlæknisfræðinnar sem einkum er stuðst við í hinum vestræna heimi, þ.e. evrópska kerfið frá Heilbrigðisstofnun Sameinuðu þjóðanna (WHO) og kerfi Bandarísku geðlæknasamtakanna (APA). Þessi greiningarkerfi gera ráð fyrir andfélagslegri persónuleikaröskun en Hare og fleiri hafa haldið því fram að siðblinda sé tiltölulega fámennur undirflokkur hennar. (Sjá um þessi greiningarkerfi síðuna „Antisocial personality disorder“ á Wikipediu.) Bandarísku geðlæknasamtökin gefa út Greiningar- og tölfræðihandbók fyrir geðræna sjúkdóma (Diagnostic and Statistical Manual of Mental Disorders) og er nú notuð útgáfan DSM-IV. Þar er fjallað um andfélagslega persónuleikaröskun en það er miklu víðari skilgreining en siðblindugreiningarlykill Roberts Hare.

Aftur á móti er þessi Greiningarhandbók í endurskoðun og er stefnt að útgáfu DSM-5 í maí 2013. Skilgreiningu á andfélagslegri persónuleikaröskun hefur verið gerbreytt í drögum að DSM-5 og segir:  „The work group is recommending that this disorder be reformulated as the Antisocial/Psychopathic Type“ og telur svo upp höfuðeinkenni í lista Hare. Sjá „301.7 Antisocial Personality Disorder“ í  American Psychiatric Association DSM-5 Development, skoðað 6. jan. 2011.

Það má því ætla að greiningarlykill Hare muni hafa æ meiri áhrif á næstu árum.

9. „Empathy“ er ýmist þýtt sem samhygð eða samkennd (samlíðan kæmi líka til greina). Átt er við hæfileikann til að finna til samkenndar með öðru fólki þegar það upplifir tilfinningar eins og t.d. gleði eða sorg. Venjulegt fólk ber ekki aðeins kennsl á slíkar tilfinningar annarra heldur getur líka fundið þær hjá sjálfu sér; samglaðst eða samhryggst.
 

15 ummæli við “Þófamjúk rándýr sem læðast: Siðblinda, I. hluti”

 1. Torfi Stefánsson ritar:

  Sæl Harpa. Heldurðu að þessi maður sé siðblindur?
  Hann er jú sonur Benedikts Sveinssonar sem hefur skilið slóð af gjaldþrota fyrirtækjum eftir sig og valdið ófáum manneskjum stórum eignaskaða, án þess að virðast finnast neitt athugavert við það.
  Mér finnst margt benda til þess að drengurinn feli vel í fótspor föður síns. Hvað finnst þér (sbr. siðblindu stjórnenda í viðskiptalífinu)? : http://eyjan.is/2011/01/07/bjarni-benediktsson-vill-ekki-svara-hvort-hann-hafi-verid-yfirheyrdur/

 2. Harpa ritar:

  Í fyrsta lagi er margvarað við að dæma fólk siðblint opinberlega (sjá tilv. í Hare hér að ofan og einnig má benda á a.m.k. tvö kærumál í Danmörku sem urðu vegna þessa) og í öðru lagi hef ég aldrei hitt umræddan mann og hef því engar forsendur til að meta (sem leikmaður) hvernig hann er. Ég hef ekki sett mig nógu vel inn í siðblindu í viðskiptalífinu af því ég er að bíða eftir aðalbókinni um slíkt - svo hef ég meiri áhuga á siðblindum í öðrum störfum og almennt í samfélaginu.

  En næsta færsla mun fjalla um hvernig megi þekkja siðblinda einstaklinga. Þú getur kannski lesið hana og reynt að gera þér í hugarlund hvort einhver er siðblindur eða ekki, ef þú hefur áhuga á því; ekki gleyma samt að bera saman við gátlista Hare.

 3. Valdís Stefánsdóttir ritar:

  Takk fyrir þetta. Það er eins og siðblinda hafi ekki vakið athygli fyrr en í einhverri mynd um hrundið. Elín Hirst les inn á myndina einkenni siðblindu sem er síðan heimfærð á bankamenn og aðra sem ollu hruninu. Ég hef oft pælt í siðblindu af hinum og þessum ástæðum en sjaldan rekist á neina umfjöllun um hana. Fínt að lesa það sem þú bendir á. Eitt sinn talaði ég við mann sem hafði afplánað dóm á Hrauninu fyrir fjársvik. Ég spurði hann hvernig væri að vera innan um alla krimmana eins og fávís kona. Ég átti við þá sem berja og brjótast inn og fleira í þeim dúr. Svarið var að hættulegustu fangarnir væru s.k. hvítflibbafangar … úff.

 4. Elísa ritar:

  Sorglegt finnst mér hversu fáar og illa virkandi meðferðaleiðir eru í boði fyrir þessa einstaklinga, rétt eins og fyrir annað fólk með alvarlegar persónuleikaraskanir.

 5. Harpa ritar:

  Elísa: Ég á nú eftir að skrifa aðeins um meintar orsakir siðblindu og möguleika á meðferð … þeir eru reyndar ekki taldir neinir, sem stendur. Þeir sem eru með andfélagslega persónuleikaröskun geta haft gagn af alls konar sálfræðimeðferð og jafnvel lyfjameðferð en því miður á það ekki við um siðblinda. Robert D. Hare varar meira að segja við því að veita slíkum neins konar sálfræðimeðferð; það gerir þá bara flinkari í að leynast en breytir ekki inngrónu eðli þeirra (kjarnaeinkennum siðblindu). Aftur á móti eru ekki allir sammála Robert Hare … flestir þó.

  Það má reyndar reyna að lækna einhverja algenga hliðarkvilla siðblindra, s.s. kvíða. Verra er með misnotkun þeirra á áfengi og öðrum vímugjöfum (sem er mjög algeng) því eðlilega þrífast þeir ekki í neinu tólfspora-kerfi (sem snúast flest um að vera heiðarleg) og verða eiginlega bara að hætta á hnefanum.

  En um þetta skrifa ég einhvern tíma seinna … á eftir að skoða heimildirnar betur og veit enn ekki nóg um akkúrat þetta.

  Já, Valdís, ég er sammála því að það er skrítið að umfjöllun um siðblindu hér á landi skuli nánast einskorðast við viðskiptalífið. Mínar færslur verða vonandi þörf viðbót og gúgglast í framtíðinni ;)

 6. Form. ICBS ritar:

  Mér þykir ekki viðeigandi að hafa mynd af úlfi þarna því úlfar hafa mjög gott siðferði og eru tryggir félögum sínum. Siðareglur úlfa voru skráðar af R. Kipling fyrir meira en 100 árum (sjá http://www.bartleby.com/246/1131.html) og ekki er vitað til að neinn úlfur hafi brotið gegn þeim.

 7. Harpa ritar:

  Sennilega er þetta rétt hjá formanni ICBS og réttar væri að hafa mynd af ketti (sem sýna talsverð siðblindueinkenni, a.m.k. eintakið á þessu heimili). En einhver hefð hefur myndast fyrir því að úlfar séu illir - líklega fyrir áhrif Hollívúddmynda og sennilega vegna þess að menn hafa ekki lesið Kipling þar í borg.

 8. Arnheiður Tryggvadót ritar:

  Takk Harpa !

 9. Þórdís Guðrún ritar:

  Sæl Harpa.

  Takk fyrir þessi skrif. Hef furðað mig á hversu lítið er fjallað um siðblindu í fjölmiðlum því flestir lenda einhvern tíma á æfinni í siðblindum einstaklingum og mjög mikilvægt að fólk átti sig á einkennunum, sem geta verið mjög lúmsk þegar maður þekkir þau ekki.
  Talið er að um 30% forstjóra séu siðblindir og margir þeirra leita eftir störfum í opinbera geiranum.
  Vefurinn www.bullyonline.org er mjög góður, hann opnaðu augu mín fyrir hvernig siðblindir haga sér og hvaða skaða þeir geta valdið.
  Vona að þín skrif verði til þess að fjölmiðlar fari að fjalla frekar um og uppfræða fólk um siðblindu í von um að það megi forða fólki frá því að lenda í klóm þeirra.

 10. gullvagninn ritar:

  Takk fyrir að deila þessu Harpa. Ég þýddi ágrip af frétt á síðasta ári sem tengist þessu, hún fjallar í raun um að stjórnmálamenn séu siðblindir :P

  http://kryppa.com/radmordingjar-og-stjornmalamenn/

  Ef þeir eru siðblindir, hver er þá lausnin? Einfaldlega að takmarka vald stjórnvalda, hætta að gefa sífellt meira af frelsi og sjálfstæði til stjórnvalda í skiptum fyrir “öryggi”

 11. Harpa ritar:

  Kærar þakkir fyrir ábendinguna, gullvagn. Ég skoða þetta.

 12. Fræðsluefni um siðblindu « Silfur Egils ritar:

  […] Harpa Hreinsdóttir hefur tekið saman ýmislegt fróðlegt efni um siðblindu. Þetta er mjög umhugsunarverð umfjöllun í ljósi þeirra tíma sem við Íslendingar höfum lifað. […]

 13. Helga Björk Magn. G. ritar:

  Pontíus Pílatus, bauð lýðnum til forna að velja, hvor skyldi krossfestur, Barrabas eða Kristur. - Við vitum hver varð fyrir valinu - Krossfesting Jesú Krists er talið eitt frægasta einelti sögunnar !

  Hefur þú velt fyrir þér Harpa hvaða siðferðisbrenglun lá þar að baki ?

 14. Oddur Einarsson ritar:

  Sæl Harpa.
  Ég er áhugamaður um siðblindu og hef kynnt mér rannsóknir Robert Hare á viðfangsefninu. Í umræðu undangenginna daga um atburðina í Noregi beið ég árangurslaust eftir því að fram kæmi það álit að Breivik væri siðblindur. Fjölmiðlarnir hér ræddu bara við afbrotafræðinga og engum datt í hug að tala við geðlækna eða sálfræðinga. Fyrsti maðurinn sem nefndi þetta opinberlega það ég heyrði var við var Stefán Snævarr prófessor í Lillehammer í viðtali við RÚV. Ég vissi að Stefán er Eyjupenni svo ég fór inn á síðu hans þar og skömmu eftir viðtalið skrifaði Stefán pistil um viðtalið. Ég skrifaði álit á pistli Stefáns og fljótlega myndaðist lífleg umræða um pistilinn. Í þeirri umræðu var birt krækja inn á þessa síðu. Ég er fyrrum sóknarprestur og finnst óskiljanlegt með öllu hversu mikill sljóleiki einkennir alla umræðu um kynferðisbrot innan kirkjunnar og hvað umræðan er byggð á mikilli vanþekkingu á eðli og útbreiðslu siðblindu sbr. einnig viðauka dr. Berglindar Guðmundsdóttur við skýrslu rannsóknarnefndar kirkjunnar vegna kynferðisbrota. Þar rétt nefnir hún siðblindu svona eins og í framhjáhlaupi í einni málsgrein sem hefst á orðunum „Þá má nefna…..“. Óskiljanleg efnistök að mínu mati. Ég ákvað eftir að hafa lesið viðaukann að ekki mætti við svo búa lengur og var að undirbúa að koma á framfæri við sr. Gunnar Rúnar Matthíasson upplýsingum um rannsóknir dr. Hare þegar ég komst í efnið sem þú hafðir skrifað hér á síðuna. Mig langar að biðja um formlegt leyfi þitt til að benda sr. Gunnari á síðuna þína enda er það álit mitt að samantekt þín sé afburðagóð og er enda greinilega byggð á yfirgripsmikilli heimildavinnu. Ég óska þér til hamingju með umfjöllunina og vona að þú látir birta hana þar sem hún fær verðskuldaða athygli.

 15. Fræðsluefni um siðblindu - DV ritar:

  […] Fræðsluefni um siðblindu Egill Helgason Þriðjudaginn 8. febrúar 2011 22:51 processZone(”oc-adzone-406″) .fb-comments,.fb-comments span,.fb-comments span iframe[style]{min-width:100%!important;width:100%!important}Harpa Hreinsdóttir hefur tekið saman ýmislegt fróðlegt efni um siðblindu. Þetta er mjög umhugsunarverð umfjöllun í ljósi þeirra tíma sem við Íslendingar höfum lifað. […]