16. janúar 2011

Í hjónabandi með siðblindum

31. des. 2011: Ég hef ofið siðblindufærslurnar og ætti að vera þægilegra að skoða efnið á vef heldur en í þessu bloggumhverfi. Slóðin er: http://sidblinda.com

Þófamjúk rándýr sem læðast: Siðblinda, III hluti

(Finna má aðrar færslur um siðblindu í efnisflokknum Siðblinda, sjá Flokka hér til hægri.) 
 

Ath. að margt af því sem kemur fram í færslunni um fórnarlömb ofbeldis, lýsingar á ofbeldi, afleiðingar ofbeldis o.s.fr. á við margar fleiri en þær sem búa með siðblindum. Þetta eru einkenni sem koma fram í ofbeldissamböndum almennt. Má t.d. ætla að aðstandendur alkóhólista kannist hér við fjöldamargt, sem og fleiri. Langt gengnir alkóhólistar þróa enda með sér talsvert af siðblindueinkennum. (En á hinn bóginn eiga þeir möguleika á að ná bata, sem gildir ekki um siðblinda, eftir því sem best er vitað nú.) 

* „Ég veit hann fer illa með mig en ég elska hann.“

Sambúð með siðblindum einstaklingi byrjar oft sem spennandi og eldheitt ástarsamband. Konan [að sjálfsögðu getur þetta einnig átt við karl en af því siðblindar konur eru miklu færri en karlar er þolandi siðblinds eintaklings oftast kvenkennd í þessari færslu] er  blinduð og upp með sér af gullhömrum þess siðblinda, áhuga hans og kappsemi og fellst á allar uppástungur hans og áætlanir. Þegar siðblindur finnur konu sem honum líkar, sem dáist að honum og elskar hann og mótmælir honum ekki, fyllist hann oft þrá til að tryggja sér slíka manneskju. Margar sem hafa búið með siðblindum lýsa upphafi sambandins eins og vera veiddar í net.

Þegar sambúðin versnar er dæmigert að maður voni stöðugt að makinn muni bæta sig. þegar hann sýnir ást og ástúð er létt að fyrirgefa og halda að allt verði nú betra. En það verða ekki nein kraftaverk sem láta hann hætta að fara illa með makann. Hann gæti sagt slíkt, lofað því, já meira að segja grátið og beðið sér griða. En orð og loforð hafa lítið vægi, það hefur mörg konan sem hefur lifað í ofbeldissambandi fengið að reyna. Það er bara spurning um tíma hvenær hann er aftur kominn í stríðsham. (Dahl, Alv A. og Aud Dalsegg. 2000, s. 182-183.)

Kona sem fer í samband við siðblindan verður fyrst og fremst að verða undirgefin undir algera stjórn hans. Sumar konar eru fastar í þeirri fögru blekkingu að ef þær haldi út nógu mikla þjáningu þá verði allt fullkomið að lokum. Hver og ein telur að hún sé sú eina sem þolir misbeitingu hans, elski hann og tolli hjá honum. Fyrr eða síðar muni hann svo skilja hve frábær hún er. Þetta er hin bjartsýna trú á að hið góða muni sigra hið illa. Á móti kemur að hinn siðblindi getur ráðskast með vonir hennar með því að vera vingjarnlegur skamma stund og ýtt þannig undir væntingar hennar um að allt muni breytast. Með því að leika sér að von konunnar tryggir sá siðblindi að konan verði áfram háð honum því þessi hegðun hans styrkir óskir hennar að gera honum til hæfis. (Tranberg, Peter. Óársett, s. 61.)

Konur sem halda stíft í hefðbundin kvenhlutverk í sínum samböndum við karla lenda í miklu veseni ef einhver þeirra er siðblindur. Á hinn bóginn getur siðblindur maður kvæntur konu sem vill fyrst og fremst vera „góð eiginkona“ lifað afar þægilegu lífi. Heimilið verður honum griðastaður og öryggisnet þaðan sem hann getur hrint áætlunum sínum í framkvæmd og staðið látlaust í öðrum skammtímasamböndum við aðrar konur. Langþjáð eiginkonan veit venjulega hvað er í gangi en henni finnst að hún verði að halda heimilinu saman, sérstaklega ef börn eru í spilinu. Hún kann að trúa því að ef hún leggi harðar að sér eða bara bíði þetta af sér þá muni eiginmaður hennar breytast til batnaðar. Á sama tíma ýtir hlutskiptið sem hún hefur valið sér undir sektartilfinningu hennar og sjálfsásakanir um að óhamingja sambandsins sé henni að kenna. Þegar hann hunsar hana, misnotar eða svíkur hana gæti hún sagt við sjálfa sig: „Ég ætla að leggja mig enn meira fram, eyða meiri orku í sambandið, hugsa betur um hann er nokkur önnur kona gæti nokkru sinni gert. Og þegar mér tekst þetta mun hann sjá hve ég er honum mikils virði. Hann mun koma fram við mig eins og drottningu.“ (Hare, Robert D., s. 152-153.) Sjá Dæmi 4.
 

* Andlegt ofbeldi, hótanir og sjúkleg afbrýðisemi

Andlegt ofbeldiKonur sem eru beittar líkamlegu ofbeldi eru oft beittar andlegu ofbeldi í leiðinni. Og einnig er til í dæminu að siðblindur beiti einungis andlegu ofbeldi. Það getur falist í stöðugum yfirheyrslum, auðmýkjandi ummælum, sjúklegri afbrýðisemi og stjórnunartaktík. Margar konur segja að andlega ofbeldið sé verra en vera lamin. (Tjora, E. 1996. „Kvinnemishandling, et alvorlig helseproblem“ í Medicinsk årbog 1996,s. 23-31. Norli, Oslo. Tilvitnun í Dahl, Alv A. og Aud Dalsegg. 2000, s. 183.)  Smáræði eins og að kaffið sé kalt getur leyst úr læðingi reiði hins siðblinda. Þeir hafa ofboðslega þörf fyrir stjórn og allt sem fellur utan þess regluverks sem þeir hafa sett er ögrandi. Í ofbeldisfullu sambandi óttast fórnarlambið sífellt átök. Konan eyðir miklum tíma í að haga öllu eftir því sem makinn vill svo hann geti ekki fundið neitt að henni, heimilishaldinu eða matseldinni.

Andlegt ofbeldi er til þess að brjóta niður sjálfsálit konunnar og tryggja þörf ofbeldismannsins fyrir völd og stjórn. Til þessa notar hann gjarna beinar eða óbeinar hótanir: „Ef þú reynir að fara frá mér drep ég þig“ eða „Ef þú heldur ekki kjafti núna veit ég ekki hvað ég geri“. Hann kann að hóta konuninni með drápi, að hún verði brotin niður líkamlega og andlega eða verði misþyrmt og afmynduð svo enginn annar karl muni nokkru sinni líta við henni.

Annað merki um stjórnunaráráttu sem fer úr böndunum er þegar konan verður að gera grein fyrir hverri krónu sem hún eyðir, jafnvel að karlinn kaupi öll hennar föt og ráði hverju hún klæðist.

Sjúkleg afbrýðisemi er algeng í ofbeldissamböndum. Öll samskipti við aðra, þótt það sé bara að skiptast á nokkrum orðum við póstinn, eru túlkuð sem tilraun til framhjáhalds, að fara bak við hann. Þetta er oft hrein yfirvörpun því hinn siðblindi er ósjaldan ótrúr sjálfur. Hin sjúklega afbrýðisemi kemur t.d. fram í yfirheyrslum um með hverjum hún hafi verið og hvað að gera. Endurteknar ásakanir sem varða fyrri sambönd og kynlífsupplifanir eru líka algengar.

Einangrun tengist sjúklegri afbrýðisemi og þörf fyrir stjórn. Karlinn reynir að hindra konuna í að hitta vini og fjölskyldu, fara eina út eða ferðast eina. Þetta getur jafnvel komið fram í „vingjarnlegum“ athugasemdum eins og „Ég elska þig svo heitt að ég vil ekki að neitt komi fyrir þig“. Fólk sem er nánast haldið föngnu, hvort það hefur verið tekið í gíslingu eða er í gíslingu í eigin hjónabandi, finnur oft fyrir sterkum sálfræðilegum tengslum við ofbeldismanninn.

Andlegt ofbeldi felst oft í niðurlægingu. Makinn kallar konuna kannski „hóru“, „tussu“  eða álíka og heldur því fram að hún sé ljót og lítt aðlaðandi, léleg í rúminu eða heimsk. Kynlífið gæti líka verið niðurlægjandi vegna þess að konan er þvinguð til að taka þátt í kynlífsathöfnum sem hún vill ekki. (Dahl, Alv A. og Aud Dalsegg. 2000, s. 183-185.)

Konur sem búa með siðblindum mönnum venjast því oft að sambandið einkennist af dramatík og rifrildi. Eða þær reyna að gleyma öllum slæmu uppákomunum og einbeita sér að þeim fáu góðu. Það er auðvitað erfitt að viðurkenna fyrir sjálfri sér að maður hafi gert svona mistök í makavali. Margar konur hafa reynt „að elska hinn siðblinda frískan“ en það er vonlaust verk. Að reyna að opna augu makans er unnið fyrir gýg. Það þýðir  heldur ekkert að nota lærða samskiptatækni á siðblindan því hún krefst heiðarleika og samvinnu. Siðblint fólk skortir hæfileikann til að skilja hvernig öðrum líður. Fyrir siðblindum er mikilvægast að vinna hverja orustu. Þess vegna er svo erfitt að finna lausn á vandanum sem bæði geta sætt sig við.(Dahl, Alv A. og Aud Dalsegg. 2000, s. 188.)
 

* Varnaðarviðbrögð fyrir þig sjálfa

Susan Forward, sem skrifaði bókina Man who hate women and women who love them (fyrst útg. 1986, gefin úr í norskri þýðingu 1988, Menn som hater kvinner og kvinnene som elsker dem) hefur gert eftirfarandi gátlista fyrir konur sem grunar að þær séu beittar andlegu ofbeldi (tilv. tekin úr Dahl, Alv A. og Aud Dalsegg. 2000, s. 180-181):

 • Að hafa á tilfinningunni að það sé sífellt verið að tékka á þér.
 • Afbrýðisemi makans keyrir úr hófi og hann virðist hafa þörf fyrir að eiga þig með húð og hári.
 • Makinn talar stöðugt niður til þín.
 • Makinn er alltaf með skammir og hótanir.
 • Makinn beitir þöggun, þ.e. dregur sig ískalt í hlé og talar ekki við þig klukkustundum eða dögum saman.
 • Makinn hefur gaman af því að gera særandi gys að þér við aðra, tala t.d. hástöfum um galla þína eða segir öðrum hvað þú sért vonlaus í rúminu.
 • Þú upplifir ruglandi framkomu, þ.e. makinn er ýmist undurgóður eða umhverfist algerlega, af litlu eða engu tilefni.
 • Þú ert alltaf sökudólgurinn.
 • Þú ert byrjuð að tipla á tánum kringum makann, þorir ekki að viðra skoðanir þínar og segir ekkert að óhugsuðu máli, til að forðast reiðiköst og þöggun.

Ef þú kannast við einhver af þessum einkennum kann að vera að þú sért í ofbeldissambandi. Reyndu að safna kjarki til að tala við einhvern sem þú treystir um þetta. Þú getur líka talað við fagmenn eins og lækni, sálfræðing, prest, geðhjúkrunarfræðing eða félagsráðgjafa. Það getur verið erfitt að tala um þetta og kannski er best að nefna einstök dæmi til að aðrir eigi betra með að skilja ástandið. Loks má nefna hið dularfulla bragð þeirra sem beita andlegu ofbeldi, sem kallast „Gaslighting“ („Gaslýsing“). Nafnið er fengið úr leikritinu Gas Light, frá 1938, sem seinna voru gerðar kvikmyndir eftir. Leikritið fjallar um eiginmann sem reynir að gera konu sína vitfirrta með því t.d. að færa til hluti á heimilinu og halda því fram hana misminni eða hún taki feil þegar hún nefnir breytingarnar. Titillinn vísar til þess að eiginmaðurinn dimmir gasljósin á heimilinu smám saman og reynir að telja konu sinni trú um að slíkt sé alls ekki raunin heldur sé hún að ímynda sér þetta.

„Gaslýsing“ þýðir því að alls konar rangar upplýsingar eru gefnar fórnarlambinu í því augnamiði að fá það til að efast um eigið minni og skynjun; fá fórnarlambið til að efast um eigin geðheilsu. Þær sem hafa búið með siðblindum efast stundum um að þær muni upplifun sína rétt enda eru siðblindir miklir blekkingameistarar. Meira að segja þeir sem hafa barið eiginkonur sínar (eða aðrar konur) kunna að afneita því algerlega og ásaka þær um tilbúning og geðveiki. Sjá nánar um  „Gaslighting“ á Wikipedu og á Encounters of the Psychopathic Kind.  
 

* Konur sem vilja búa með siðblindum

Til er í dæminu að fólk ani með opin augu inn í samband við einstakling sem allir vita að er siðblindur. J. R. Meloy (1993. Violent Attachments. Tilvitnanir í Dahl, Alv A. og Aud Dalsegg. 2000, s. 203 - 204) hefur sérstakalega rannsakað hvaða sálfræðilegir þættir valdi því að sumar bindast mjög ofbeldisfullum siðblindum sem þær hafa verið margvaraðir við. Hvað rekur þær áfram sem af fúsum og frjálsum vilja bindast morðingjum og afbrotamönnum? Við heyrum af konum sem beinlínis vilja giftast slíkum mönnum og stofna með þeim fjölskyldu um leið og þeim verður sleppt úr fangelsi. [Á Norðurlöndunum er sennilega frægast dæmi um slíkt konan sem giftist Peter Lundin.] Meloy telur hluta svarsins felast í ómeðvitaðri samsömun með  hinum siðblinda.

Hann talar annars vegar um masókíska samsömun, sem feli í sér að  bindast persónu sem endurgeldur að miklu leyti með árásargirni og slæmri meðhöndlun. Þetta telur Meloy að tengist slæmu uppeldi í bernsku þar sem barn hafi yfirfært sársaukafulla meðferð af hendi foreldra á að hún tákni að barnið sé foreldrunum einhvers virði, sé pabba eða mömmu einhvern veginn nátengt. Til að vera í sambandi við ofbeldisfullan siðblindan verður hinn aðilinn að lúta algerri stjórn hins siðblinda. Makinn umbreytir þessu í tilfinninguna um að hafa stjórn yfir hinum siðblinda. Árásargjarnt atferli hins siðblinda verður þannig endurupplifun af bernskutengslum við lélega foreldra. Móðganirnar / brotin verða sönnun þess að það eru sterk bönd við persónu sem hefur a.m.k. áhuga á manni jafnvel þótt persónan sé andstyggileg.

Hitt sem Meloy nefnir er sadistísk samsömun með ofbeldi hins siðblinda. Einhverjir þeirra sem tengjast siðblindum virðast ómeðvitað hafa ánægju af sadisma hans gegn öðrum. Þekkt dæmi úr kvikmyndum er samband Bonnie við Clyde.

Lokkandi siðblindurUpphafning og afneitun virðast líka vera ráða afar miklu hjá þeim sem bindast siðblindum vitandi vits. Það er eins og konan sé algerlega blind fyrir hve sá siðblindi er hættulegur og niðurlægjandi. Það er eitthvað við siðblinda hegðun sem virkar ákaflega lokkandi og æsandi. Þetta fær konuna til að trúa blekkingum og lygum hins siðblinda. Hún afneitar hættumerkjunum sem sjást í fortíð þess siðblinda og núinu einnig og skrumskælir veruleikann þannig að hann passi við eigin hugmyndir um þennan spennandi mann. Sjá Dæmi 5 og Dæmi 6.

Susan Forward (1988, s. 36 - 37, tilvitnun í Dahl, Alv A. og Aud Dalsegg. 2000, s. 204) hefur gert lista yfir hvernig konur í afneitun draga oft  fjöður yfir hegðun siðblindra maka: „Já, hann hefur verið þrisvar kvæntur áður en enginn hefur skilið hann á sama hátt og ég geri.“;  „Ég veit að hann hefur farið illa út úr viðskiptum en hann hefur líka átt samstarfsaðila í röðum sem hafa svikið út úr honum peninga.“;  „Hann talar mjög illa um fyrrverandi eiginkonu sína en það er nú eiginlega ekki svo skrítið því hún var hræðilega gráðug og sjálfselsk.“;  „Ég veit að hann drekkur of mikið en hann er í erfiðri aðstöðu núna og um leið og það lagast veit ég að hann hættir.“;  „Hann gerði mig verulega hrædda þegar hann reiddist en akkúrat núna er hann undir gífurlegu álagi.“;  „Hann varð alveg  bálreiður þegar ég var honum ósammála en engum líkar jú að aðrir séu ósammála þeim.“;  „Hann getur alls ekki gert að því að hann hefur svona erfitt skap, hann átti mjög óhamingjusama æsku“. „Hann gerði þetta bara af því …“ er sem sagt sígild leið makans til að draga úr eða afsaka til að viðhalda upphafningu sinni af hinum árásargjarna siðblinda.
 

* Fjölskylduráðgjöf

Margar konur sem illa er farið með reyna árangurslaust að leita eftir fjölskylduráðgjöf. Siðblindur maki er venjulega á móti hvers konar meðferð eða ráðgjöf frá utanaðkomandi. Fallist hann á ráðgjöf er það einungis vegna þess að hann telur sig græða eitthvað á því. Og stundum gerir hann það. Þegar fundað er með ráðgjafanum kann fórnarlambið að upplifa að árásarmaðurinn lýsi sinni kæru fjölskyldu með jákvæðu og skilningríku orðalagi. Spurningar um andlegt ofbeldi eru fljótafgreiddar með því að þetta hafi nú verið allt í gríni og fórnarlambið skorti kímnigáfu. Fórnarlambið þorir fyrir sitt leyti ekki að segja frá hvernig ástandið raunverulega er innan veggja heimilisins af ótta við hefnd þegar þau koma heim. Þannig kemur sá siðblindi fyrir sem hæfileikaríkur og sannfærandi og fórnarlambið sem lítilhæf og framtakslaus manneskja. Margar konur hafa upplifað fjölskylduráðfgjöf sem niðurlægingu. Valdajafnvægi í sambandi sem einkennist af ofbeldi er þannig að venjuleg fjölskylduráðgjöf og tilraunir til að sætta fólk hafa ekkert að segja. Slíkt nýtist fyrst og fremst til að laga ósamkomulag milli maka sem standa jafnfætis. (Tjora, 1996, tilvitnun í Dahl, Alv A. og Aud Dalsegg. 2000, s. 189.)  Sjá Dæmi 7  (sem á reyndar einnig vel við kaflann um líkamlegt ofbeldi, hér á eftir).
 
 

* Líkamlegt ofbeldi / Heimilisofbeldi

Í meðhöndlun / meðferð kvenna sem hafa verið beittar ofbeldi eða verið nauðgað eða barna sem hafa verið kynferðislega misnotuð kemur reglulega fram að árásarmaðurinn hefur siðblinda þætti eða er siðblindur. Árásarmennirnir sjá ekki eigin galla, kenna fórnarlömbunum alfarið um og óska sjálfir hvorki eftir sambandi [við meðferðaraðila] né meðferð. (Dahl, Alv A. og Aud Dalsegg. 2000, s. 14.)

Robert D. Hare segir: „Í nýlegri rannsókn könnuðum við hóp manna með PCL listanum (gátlista yfir siðblindu), sem voru þátttakendur ýmist af fúsum og frjálsum vilja eða tilneyddir í meðferðarprógrammi fyrir þá sem berja eiginkonur sínar. Við fundum út að 25% karlmannanna í hópnum voru siðblindir, sem er sambærilegt við þá útkomu sem fæst þegar fangar eru prófaðir. Við vitum ekki hve hátt hlutfallið er í hópi þeirra manna sem ekki sækja meðferðarprógramm en ég reikna með að það sé a.m.k. jafnhátt.“ (Hare, Robert D., 1999, s. 94.)

Siðblindur snákurSálfræðingurinn Neil S. Jacobson komst að athyglisverðum niðurstöðum þegar hann tók samtöl 60 hjóna þar sem karlinn hafði beitt ofbeldi upp á myndbönd og mældi hjartslátt karlanna í leiðinni. Flestir karlanna æstust upp í þessum samræðum og hjartslátturinn varð örari. En í um 20% karlanna hægði á hjartslætti, þrátt fyrir að þeir væru sýnilega reiðir og árásargjarnir. Jacobsen dró þá ályktun að þeir væru siðblindir og lækkun hjartsláttartíðni bæri vott um að þeir einblíndu á heppilega leið til ná stjórninni og héldu aftur af æsingnum. „Eftir að hafa skoðað myndböndin af þessum gaurum sá ég fyrir mér líkindin með höggormi, blínandi á bráð sína, tilbúinn að ráðast á hana.“ (Tilvitnun í Cooke, David J., Adelle E. Forth og Robert D. Hare. 1997. Psychopathy: Theory, Research, and Implications for Society, 130)  Þessir karlar voru herskáastir ofbeldismannanna og og lítilsvirtu konur sínar mest, að mati Jacobson.  (Dutton, Donald G. og Susan K. Golant. 1997. The Batterer: A Psychological Profile, s. 28.)

Sú vísbending að allt að fjórðungur þeirra sem berja eiginkonur sínar séu siðblindir setur meðferðarprógrömmum talsverðar skorður. Þetta er vegna þess að hegðun siðblindra verður illa haggað. Fjárhagslegur stuðningur til að reka meðferðarprógrömm er venjulega af skornum skammti og langur biðlisti eftir slíkri meðferð. Siðblindir fara líklega ekki ótilneyddir í meðferð, þeir hafa engan áhuga á að breyta hegðun sinni og þeir gera sennilega lítið annað en fylla pláss sem betur væri varið fyrir aðra.

Auk þess hafa siðblindir efalaust truflandi áhrif á svona meðferð. (Sjá Dæmi 7.) En kannski eru verstu afleiðingarnar af því að senda siðblindan í meðferð af þessu tagi sú falska öryggiskennd sem kann að vakna í  fórnarlambinu, eiginkonu árásarmannsins. „Hann er í meðferð. Hann ætti að verða skárri núna“ gæti hún hugsað og dregið enn lengur að skilja við hann. (Hare, Robert D., 1999, s. 94.)
 

Afleiðingar hjónabands eða sambúðar með siðblindum

Fórnarlamb siðblindsOft koma sterkustu andlegu viðbrögðin ekki í ljós fyrr en eftir að fórnarlamb valdníðslunnar er sloppið  úr sambandinu. Og það eykur erfiðleikana hversu algengt er að fólki sem hefur búið með siðblindum sé ekki trúað þegar það segir sögu sína. Þetta upplifir það sem nýja árás, sérstaklega af hálfu opinberra stofnana og heilbrigðisþjónustunnar. Fjölskylda, vinir, nágrannar eða kunningjar sem frétta af árásum eða áreitni eiga oft erfitt með að taka þetta trúanlegt. „Svona almennilegur og velheppnaður maður getur alls ekki hafa slegið konuna sína“ eru dæmigerð viðbrögð. Tvöfeldnin í hegðun hins siðblinda, sem oft kemur trúverðugur og jákvæður fyrir utan heimilisins, gerir utanaðkomandi erfitt fyrir að sjá í gegnum hann. (Dahl, Alv A. og Aud Dalsegg. 2000, s. 185-188). Ekki bætir úr skák að fórnarlömbin skilja þetta ekki sjálf, þau spyrja sig í sífellu: „Hvernig gat ég verið svona vitlaus? Hvernig gat ég fallið fyrir þessari ótrúlega yfirlætislegu steypu?“ (Hare, Robert D. 1999, s. 124-125)

Konur sem sleppa úr sambandi við siðblinda þjást af ýmsum kvillum, stundum lengi á eftir. Þeirra algengastir eru:

 • Depurð og þunglyndi
 • Kvíði
 • Viðvarandi líkamlegir verkir
 • Endurupplifanir
 • Firring
 • Líkamlegir skaðar
 • Misnotkun vímuefna

(Dahl, Alv A. og Aud Dalsegg. 2000, s. 177-178)

   
Næsta færsla mun fjalla um börn siðblindra. 

[Viðbót 1. febrúar 2011: Nokkur umræða er á athugasemdaþræði við þessa færslu um af hverju almennt sé haldið fram að miklu fleiri karlar en konur séu siðblindir - og ég fylgi þessari almennu skoðun í bloggfærslunum um siðblindu. Robert Hare heldur því reyndar fram að hugsanlega sé þetta vegna þess að siðblindar konur séu greindar öðruvísi vegna viðtekinna skoðana á hlutverki og framkomu kynjanna. Hann segir að ef karl og kona sýni öll kjarnaeinkenni siðblindu muni læknir líklega greina karlinn siðblindan eða með andfélagslega persónuleikaröskun en konuna með sefapersónuleikaröskun (histrionic PD) eða sjálfsdýrkunarpersónuleikaröskun (narcissistic PD) því konan sýnir kannski fá andfélagsleg hegðunareinkenni. Ekki er ólíklegt að hún reyni að herma eftir þeirri staðalímynd kynsystra sinna sem þykir eftirsóknarverð og láti lítið fyrir sér fara, virki hlý, ástrík og undirgefin. Hare nefnir engar tölur um hlutfall siðblindra kvenna í þessu sambandi. Sjá Babiak, Paul og Robert D. Hare. 2007, s. 101-102. Snakes in Suit. When Psychopaths Go to Work. HarperCollins, New York. Bókin kom fyrst út árið 2006.]  
  
  
 

Helstu heimildir

Cooke, David J., Adelle E. Forth og Robert D. Hare. 1998. Psychopathy: Theory, Research, and Implications for Society. Kluwer Academic Publishers, Dordrecht, Hollandi. Skoðað á books.google.com. 
 

Dahl, Alv A. og Aud Dalsegg. 2000. Sjarmør og tyrann. Et innsyn i psykopatenes og ofrenes verden. H. Aschehoug & Co (W. Nygaard), Oslo. (Þetta er aukin og endurbætt útgáfa frá 1997.)

Dutton, Donald G. og Susan K. Golant. 1997. The Batterer: A Psychological Profile. Basic Books, New York. (Fyrst gefin út 1995.) Skoðuð á books.google.com.

Encounters of the Psychopathic Kind 

Forward, Susan. 1988. Menn som hater kvinner og kvinnene som elsker dem (norsk þýðing á Man who hate women and women who love them, fyrst útg. 1986).  Tilvitnanir í Forward, S. eru úr Dahl, Alv A. og Aud Dalsegg. 2000.

Hare, Robert D. 1999. Without Concience. The Disturbing World of  Psychopaths Among Us. The Guilford Press, New York. (Fyrst gefin út 1993.)

Tranberg, Peter.  Psykopati - en forståelse af forstyrrelsens natur, óársett.   
  
  
  
  
  
 

24 ummæli við “Í hjónabandi með siðblindum”

 1. Guðmundur ritar:

  Hvaða heimildir hefur þú fyrir því að miklu færri konur séu siðblindar en karlar?

 2. Harpa ritar:

  Það kemur fram í nánast öllum rannsóknum á tíðni siðblindu sem ég hef séð eða séð vitnað til. Oftast er talað um að það séu sirka 1 kona á móti hverjum 4 körlum í hópi siðblindra (þá miðað við þessi tæplega 1% siðblindra í almennu þýði, þ.e.a.s. þeirra sem skora yfir 29 stig á PCL-R, - breskar tölur segja 0,6% , Hare segir 0,5-1%, Skandinavar nefna miklu hærri tölu enda flokka þeir geðraskanir öðruvísi). Allir virðast samt sammála um þetta hlutfall kynjanna.

 3. Svava ritar:

  Sæl getur þú bent mér á linka á einhverjar þessara rannsókna finnst þetta áhugavert!

 4. Sandra ritar:

  Það eru einnig margar rannsóknir sem hafa verið gerðar til að sanna tilvist Stórafóts, mjög fáar (ef einhverjar) sem hafa verið gerðar til að afsanna tilvist hans. Þetta þýðir ekki að Stórifótur sé til í raun og veru.

 5. Guðmundur ritar:

  Það er frekar erfitt að lesa út úr greininni hjá þér hvernig þú skilgreinir siðblindu öðruvísi en að siðblindir séu þeir sem koma illa fram við eiginkonur sínar.

  PCL-R testið hjá Hare er 20 spurninga próf sem miðar að því að raða fólki inn í eða fyrir utan fyrirfram ákveðna skilgreiningu á einkennum þess að vera siðblindur og þeirri hegðun og hugsunum sem einkenna siðblindingja. Einkenni siðblindu þ.e. hugsanirnar og athafnirnar sem sðiblindir aðhafast geta verið misjafnar eftir kynjum vegna þjóðfélagslegra áðstæðna. Hare prófið hefur m.a. verið gagnrýnt fyrir að spurningarnar séu karllægar þ.e. að spurt sé um þau einkenni sem einkenna siðblinda karlmenn frekar en konur. Af þeim sökum geta niðurstöður úr þessu mjög stutta og ónákævma prófi verið villandi þegar kemur að samanburði kynja.

  Í milgram prófinu svokallaða sem er einnig nokkursskonar siðblindu próf er munur milli kynja t.d. ómarktækur.

 6. Harpa ritar:

  Athugaðu Guðmundur að þetta er færsla inni í færsluröð / seríu - það er krækt í fyrri færslur efst í vinstra horninu á þessari. Ég er alls ekki að skilgreina siðblindu í þessari færslu, eins og ætti nú að vera tiltölulega augljóst. Gátlisti Hare er reyndar ekki próf - til að fá fram svörin eru notuð mörg viðtöl, skv. sérstakri handbók. Enda myndi tæpast nokkur maður kannast sjálfur við að hafa þessi einkenni. Hare staðhæfir sjálfur að í greiningunni sé tekið tillit til kynjamunar, t.d. vegna félagslegra aðstæðna. En hann hefur verið gagnrýndur fyrir einmitt þetta og er sífellt að endurbæta greininguna (nú eru fjórir þættir, byggðir á gátlistanum, skoðaðir sérstaklega en ég hef ekki hugsað mér að skrifa vísindagreinar um siðblindu og hef því ekki gert neina grein fyrir öðrum aðferðum). Á s. 391 í The Psychopath: Theory, Research, and Practice , e. Arlette Ingram Willis, Hugues Herve og John C Yuille er einmitt fjallað um sérstöðu kvenna í ýmsum prófum á siðblindu, þ.m.t. Hare-prófuninni. Þú getur flett upp bókinni á books.google.com og skoðað þessa síðu.

  Sandra: Ég skil nú ekki alveg hvað þú átt við með þínu kommenti - ertu að gagnrýna að menn rannsaki eða ertu að gagnrýna þessa færslu? Hvað finnst þér að rannsóknum almennt eða að færslunni?

  Svala: Neðst í eldri færslum um siðblindu er krækt í heimildir, t.d. um algengi á Norðurlöndum. Ég get bent á yfirlitsgreinina “Gender differences in contributions of emotion to psychopathy and antisocial personality disorder” e. Jill E. Rogstad og Richard Rogers, í Clinical Psychology Review Volume 28, Issue 8, December 2008, Pages 1472-1484 þar sem segir og er er linkað í einstakar rannsóknir af vefsíðunni:

  “3.2. Prevalence of female psychopathy
  Various studies have established that the prevalence of psychopathy is lower for females than for males using standard cut scores in correctional settings (Salekin, Rogers, & Sewell, 1997) and forensic hospitals (Weizmann-Henelius et al., 2004b G. Weizmann-Henelius, V. Viemerö and M. Eronen, Psychopathy in violent female offenders in Finland, Psychopathology 37 (2004), pp. 213–221. Full Text via CrossRef | View Record in Scopus | Cited By in Scopus (5)Weizmann-Henelius, Viemerö, & Eronen, 2004b). (Hare, 1991) and (Hare, 2003) established a widely-used PCL-R cut score of > 30 (out of a possible 40) to classify psychopaths. Very few females are characterized as psychopaths using this cut score: 16.0% of female jail inmates (Salekin et al., 1997) and 17.4% of female prisoners (Warren et al., 2003). In the only direct gender-comparison study, Grann (2000) found the rates of psychopathy for violent offenders to be only 11.0% for women versus 31.0% for men. In the first large-scale investigation of prevalence rates, Vitale, Smith, Brinkley, and Newman (2002) classified only 9.0% of 528 non-psychotic female offenders as psychopaths. The authors hypothesized that this low prevalence was due to either a genuinely lower base rate of psychopathy in women or an inability of the PCL-R to adequately assess the construct in women.”

  Linkurinn á þessa grein er
  http://www.sciencedirect.com/science?_ob=ArticleURL&_udi=B6VB8-4TGHNH4-2&_user=712601&_coverDate=12%2F31%2F2008&_rdoc=1&_fmt=high&_orig=search&_origin=search&_sort=d&_docanchor=&view=c&_acct=C000039782&_version=1&_urlVersion=0&_userid=712601&md5=99602aa0ad32206fab3b44719e16470f&searchtype=a

 7. Sandra ritar:

  Það sem ég er að meina er að mér finnst vanta að benda á rannsóknir sem segja t.d. að hlutfall siðblindu meðal kvenna sé hærra, eða að hlutfallið sé jafnt. Hafa slíkar rannsóknir ekki verið gerðar? Ef slíkar rannsóknir hafa verið gerðar hvað er það sem segir að rannsóknirnar sem þú styðst við hafi réttmætari kenningar? Ég spyr því ég er ekki kunnug um þessar rannsóknir, þær vekja ósjálfrátt áhuga og ég vil vita hvort ég geti tekið mark á þeim. Mér finnst mikilvægur þáttur í rannsóknum og greinum að útskýrðar séu ólíkar skoðanir og kenningar til að hægt sé að vega og meta réttmæti þeirra rannsókna sem stuðst er við.

 8. Bjarni Gunnlaugur ritar:

  Álýtur þú að siðblindur maður geti verið með “væg” einkenni þ.e. hann sé ekki ofbeldisfullur í sambúð en eigi erfitt með að setja sig inn í það hvernig konunni líður? (eins og trúlega stærstur hluti eininmanna að áliti sinna kvenna) Enn fremur, getur verið að einstaklingur sé siðblindur án þess að vita það? Er til eitthvert mælanlegt form siðblindu annað en athugun á hegðunarfrávikum, (sbr. þó hjartsláttarathugunina í greininni) t.d. athugun á virkni í heila? Mér hefur þótt það vera veikleiki á siðblinduhugtakinu að þar er stutt í að sönnunin fyrir siðblindu sé sú að ekkert sést af því að sá siðblindi sé svo flinkur að leyna ástandi sínu. Ef bætt er við mismunandi meiningarmun og ágreiningi, mismunandi menningaráhrifum og ástandi, ja, þá eru eiginlega allir orðnir siðblindir. Ég er þó ekki að gera lítið úr hugtakinu og efa ekki frásagnir amerískra geðlækna af “einkennilegum” sjúklingum sem eru eiginlega ekki veikir en þó samt ófærir um eðlilega félagslega hegðun um lengri tíma.
  Minni þó á t.d. afstöðu bænda til húsdýra sinna. Þeir annast þau af umhyggju (flestir) en eru þó dæmdir til að drepa þau (sérstaklega áður enn hægt var að senda þau með “guðsbílnum”) og verða þá að “slökkva” á samúðar tilfinningunni. Þetta hvernig hægt er að slökkva á siðvitundinni hlýtur að gera alla greiningu og skilgreiningu mjög erfiða.

 9. Máni Atlason ritar:

  Það er sko linkur í þessa færslu á Eyjunni þannig að það þarf ekkert að furða sig á því þó að kommentin sem koma séu dáldið skrítin. Kannski óþarfi að svara öllum.

  (Þetta er siðsamleg ábending, ekki siðblind).

 10. Bjarni Gunnlaugur ritar:

  Ég átti ólesnar greinar 1 og 2 þegar ég setti fram spurningarnar, eitthvað af þeim er svarað þar. Undirstrika að ég er ekki að gera lítið úr fyrirbærinu “siðblinda” , en mildari útgáfur þessa heilkennis virðast vera afar erfiðar í greiningu og trúlega varasamt að ofnota þennan “merkimiða”.
  Mjög fróðlegar þessar pælingar um hreyfimunstur og eintóna tal þess siðblinda. (Mér þótti skrítið hvað allir helstu bankamennirnir,fyrir hrun, töluðu með sömu áherslulausu röddinni, en trúlega var það að mestu tíska, hugsanlega þó tekin upp eftir einhverju gúrúinu sem var þá kanski….)
  Efnið er mjög áhugavert og takk fyrir góða samantekt.

 11. Hanna ritar:

  Mögnuð grein og nánast eins og hún sé skrifuð með mig og minn fyrri maka í huga. Mér finnst með ólíkindum að þessi einkenni séu svona ákveðin og eins hjá öllum. Fyrrverandi maki minn hagaði sér nákvæmlega svona.
  Ég fór að gráta þegar ég las þessa grein. Þó liðin séu 30 ár síðan og ég giftist síðar yndislegum manni og átti mín börn með honum, stingur þetta tímabil ennþá og þrátt fyrir að ég telji mig hafa tekist að “komast” yfir þetta, finn ég að í hvert sinn sem ég les eitthvað svona, vakna tilfinningar sársauka og hræðslu.
  Fyrrverandi maki minn átti einnig við geðræn vandamál að stríða og framdi sjálfsmorð skömmu eftir skilnaðinn. Þó hugsunin sé ekki falleg þá tel ég það hreinlega hafa bjargað lífi mínu.

  Að tengjast slíkum manni var ömurleg lífsreynsla, bæði andlega og líkamlega. Það var eins og að lenda í höndum mannræningja og hvað mig varðar á ég aldrei eftir að bíða þess bætur. Hins vegar er þekking á slíku fólki orðin víðtækari í dag en var þá og vonandi styrkir það konur í að leita sér hjálpar.

 12. hildigunnur ritar:

  Sandra, vonandi eru rannsóknir ekki gerðar til að fá út einhverja ákveðna niðurstöðu. Hafi Harpa hvergi séð eða lesið um rannsóknarniðurstöður sem benda til þess að hlutfall siðblindra kvenna sé hærra getur hún tæpast vísað í þær. Það þarf ekki endilega að vera „jafnræði“ í svona málum…

 13. hildigunnur ritar:

  já og magnaður greinaflokkur hjá þér, Harpa!

 14. Gunnar Hrafn ritar:

  Mæli með bókum Patriciu Evans, og þá sérstaklega þessum þremur, en þær hafa bjargað lífi tveggja kvenna sem ég þekki/kannast við:

  http://www.amazon.com/Verbally-Abusive-Relationship-recognize-respond/dp/1440504636/ref=sr_1_1?ie=UTF8&qid=1295253887&sr=8-1

  http://www.amazon.com/Verbal-Abuse-Survivors-relationship-recovery/dp/1558503048/ref=sr_1_5?ie=UTF8&qid=1295253907&sr=8-5

  http://www.amazon.com/Controlling-People-Recognize-Understand-Control/dp/158062569X/ref=sr_1_3?ie=UTF8&qid=1295253931&sr=8-3

 15. Harpa Jónsdóttir ritar:

  Flottur og fræðandi greinaflokkur hjá þér nafna.

 16. Harpa ritar:

  Nokkur svör:

  Takk fyrir linkana, Gunnar Hrafn. Ég afritaði fyrsta titilinn inn í books.google.com og sá að það er hægt að skoða næstum alla bókina þar. Kannski á það við hinar líka.

  Hanna: Mér þykir leitt að færslan hafi ýft upp gömul sár. En mér finnst mikilvægt að upplýsingar á borð við þessa færslu liggi frammi og sé að þú ert sammála mér: Slíkt gæti styrkt konur (í ofbeldissamböndum almennt, ekki endilega með siðblindum) í að leita sér hjálpar.

  Bjarni Gunnlaugur: Ég hafði hugsað mér að skrifa færslu síðar um líffræðilegan mun sem hefur greinst á heilastarfsemi siðblindra og annarra. Er þó illa hæf til þess, verandi máladeildarstúdent og íslenskar þýðingar á líffræði- / taugalæknisfræðihugtökum liggja hreint ekki á lausu. En ég reyni þó eitthvað. Eins og kemur fram í fyrstu færslunni, Einkenni siðblindu, raðast menn á kvarðann (þetta er eiginlega róf, ekki ósvipað og einhverfuróf þar sem allir mælast með einhver einkenni) svo eflaust eru til “lítt-siðblindir-eiginmenn”. En ég er fyrst og fremst að fjalla um þá hættulegu, þ.e.a.s. þetta tæpa 1% sem greinist með yfir 24/29 stig á kvarða Hare og einnig fyrst og fremst að fjalla um slíka menn í samfélaginu, þ.e.a.s. ekki glæpamenn. En eins og kemur fram í inngangi að akkúrat þessari færslu á efnið við fleiri en fórnarlömb siðblindra.

  Sandra: Jú, til eru rannsóknir sem sýna annað kynjahlutfall. En þá er yfirleitt verið að mæla með öðrum aðferðum en aðferð Hare. Af því þessar færslur eru ekki hugsaðar sem kennslubók í sálfræði eða tölfræði þá ákvað ég að halda mig við fáar almennt viðurkenndar greiningar, þ.e.a.s. upphaflega greiningu Cleckley og greiningu Hare (sem kemur skýrast fram í PCL-R gátlistanum hans). Til marks um þessa viðurkenningu er að í nýrri útgáfu af Greiningar-og tölfræðihandbók Amerísku geðlæknasamtakanna, DSM-5, er siðblinda sett inn sem ákv. gerð persónuleikaraskana og greiningarlykilinn virðist að miklu leyti byggður á PCL-5.

  Í heimildalista við fyrstu færsluna, Einkenni siðblindu, er vísað í heimild þar sem er yfirlit yfir ýmis flokkunarkerfi, þ.e.a.s. Hervé, Hugues. 2004. „Psychopathic subtypes: Historical and Contemporary Perspectives“ í The Psychopath: Theory, Research, and Practice, s. 431-460. Routledge, Bandaríkjunum. Þessar síður má skoða á books.google.com. Svo er afar auðvelt að leita eftir bókum og greinum um kvenkyns siðblinda á google.com, t.d. með leitarorðunum “psychopath+gender” eða á http://www.free-pdf-ebooks.com/ Fyrir þá sem eru í háskóla liggur auðvitað beint við að nota hvar.is en það háir mér að komast ekki í greinarnar sjálfar gegnum það kerfi heldur einungis útdrættina (ég er ekki stödd á háskólalóðinni alla jafna). Á móti kemur að free-pdf-ebooks finnur oft greinarnar aðgengilegar annars staðar.

  En ég ítreka að þessar bloggfærslur eru ekki hugsaðar sem akademísk sálfræðiumfjöllun eða geðlæknisumfjöllun um siðblindu enda skortir mig allan grunn til slíks. Ég hef aftur á móti saknað sæmilega alþýðlegrar umfjöllunar á íslensku um efnið, einkum um aðra þætti en siðblindu í viðskiptalífinu - sem virðist hin eina sem einhverjir hafa haft lágmarksáhuga á til þessa. Miðað við umræðuna á hinum Norðurlöndunum (sem sést t.d. gegnum Google-leit) erum við ljósárum á eftir, í umfjöllun um siðblindu.

  Máni: Takk, ég var búin að fatta þetta :) Mér finnst reyndar athugasemdirnar almennt vera prýðilegar og skynsamlegar og fagna þeim. En þegar lesendafjöldi tífaldast er það venjulega merki þess að annað hvort eyjan eða vantrú hafi tengt í mig ;)

 17. Hrafn Arnarson ritar:

  Óvenjulega fræðandi og spennandi lesning þó efnið sé erfitt. Vonandi verður framhald á skrifunum.

 18. Sandra ritar:

  Ég vil ítreka það að ég er alls ekki að gera lítið úr greininni, hún inniheldur margt gott og fræðandi efni. Hinsvegar átta ég mig ekki alveg á því hvernig þú ert að notast við tölfræðina úr Hare prófinu, byggir Hare prófið á úrtaki fólks með geðræna kvilla, fólks sem hefur verið dæmt fyrir afbrot eða á úrtaki sem endurspeglar þjóðfélag sem heild? Mér finnst þú nefnilega nýta niðurstöðurnar til að endurspegla almennt fólk í þjóðfélaginu en ekki bara einhvern minnihluta, ef rannsóknin byggir á minnihluta hóp þá tel ég það mjög hæpið að nota niðurstöðurnar til að endurspegla þjóðfélagið sem heild. Mín þekking byggir á því að siðblinda hafi mjög svipaða tíðni meðal einstaklinga í samfélaginu, ég vil endilega kynna mér aðrar hliðar.
  Það er mikilvægt að útskýra tölfræði úr rannsóknum þó að maður ætli ekki að leggja stund á kennslu í henni sem slíkri vegna þess að oft er tölfræði mistúlkuð og það getur haft í för með sér að fólk sem ekki veit betur tekur við mistúlkuninni sem heilögum sannleika. Ég er alls ekki að segja að þú sért að mistúlka niðurstöður sem þú ert að notast við, ég einfaldlega þekki þessar rannsóknir ekki eins og þú og þess vegna bið ég þig að fræða mig lítillega.
  Ég þakka þér fyrir skjót svör, það eru ekki allir sem hafa metnað og áhuga á að útskýra skoðanir og skrif sín fyrir öðrum, ég kann að meta það.

 19. Harpa ritar:

  Fleiri svör:

  Sandra: Hare þróaði PCL-R eftir margra ára reynslu sem geðlæknir í fangelsum. Svo upphafið er byggt á föngum. Algengi siðblindu meðal fanga (þ.e. þeir sem skora 30 stig eða hærra á PCL-R) er talið milli 15 - 20%, misjafnt eftir rannsóknum (Hare heldur fram síðari tölunni.) Síðan hafa verið gerðar margar rannsóknir á almennu þýði / fólki í samfélaginu sem skila niðurstöðunni tæplega 1% siðblindir. Ég vitna t.d. í breska rannsókn á almenningi þar sem úrtakið var mjög stórt og í rannsókn Hare á hvítum og “svörtum” Bandaríkjamönnum í heimildalista neðst á síðum í fyrri færslum. Sjá einnig svar til Svölu í þessum umræðuþræði, þar sem eru listaðar upp ýmsar rannsóknir á algengi siðblindu.

  Önnur sjónarmið og rækilega umfjöllun um siðblindurannsóknir má t.d. finna í ritgerð Jarkko Velle Jalava, 2007, Science of Conscience: Metaphysichs, Morality and Rhetoric in Psychopathy Research. Þetta er fyrrihluta-ritgerð til doktorsgráðu í sálfræði og má nálgast á Vefnum á http://ir.lib.sfu.ca/bitstream/1892/9301/1/etd3000.pdf Jalava ræðir þarna ýmsa siðfræðilega þætti í sambandi við siðblindu (frá eðli illskunnar og upp í framkvæmd rannsókna), og hvernig rannsóknarniðurstöður um siðblindu eru settar fram o.fl. Þetta er sem sagt skrifað undir svolítið heimspekilegu sjónarhorni sem er að mörgu leyti fersk nálgun (miðað við margar greinar um siðblindu sem birtast í ritrýndum tímaritum).

  Bjarni Gunnlaugur og e.t.v. fleiri: Yfirlit yfir taugasálfræðilegar rannsóknir á heilastarfsemi siðblindra versus venjulegra má sjá í greininni “Psykopati och hjärnavbildning - en litteratur genomgång. Med fokus särskilt på funktionell magnetisk resonanstomografi” sem birtist í sænska Læknablaðinu (Läkartidningen) 2009, 6. tbl., 106. bindi., s. 361-365. Greinin er aðgengileg á Vefnum og efst á síðunni er gefinn möguleiki á að hlaða henni niður sem pdf-skjali. Sjá http://www.lakartidningen.se/engine.php?articleId=11294

 20. Guðmundur ritar:

  Þetta mjög áhugaverð grein þar sem gerð eru ágætis skil á hegðun siðblindra og þeim skelfilegu afleiðingum sem hegðunin hefur fyrir maka slíkra einstaklinga. En það fer soldið fyrir brjóstið á mér að því sé slegið fram að þessi hegðun sé miklu algengari meðal karlmanna. Þá fullyrðingu tel ég illa rökstudda og fela í sér ákveðna fordóma gagnvart karlmönnum.

  Hugsanlega er Hage prófið að gefa ranga mynd eins og ég lýsti áðan auk þess sem borderline personality dissorder (BPD) er ekki með í DSM greiningarkerfinu en verður líklega tekið með í næstu útgáfu. Einkenni BPD sjúklinga eru að miklu leiti þau sömu einkenni siðblindra sem lýst var í greininni en af þeirri röskun greinast 3 konur á móti 1 karlmanni. Það mætti því færa góð rök fyrir því að BPD séu hin kvenlægu einkenni siðblindu.

 21. Guðmundur ritar:

  Smá leiðrétting: BPD og siðblinda verður hugsanlega sett saman í eina greiningu í DSM kerfinu með undirflokkum.

 22. Hanna ritar:

  Því meir sem rætt er um þessi mál og því auðveldara sem fólk á með að þekkja siðblindingja, því betra.
  Í mínu tilfelli var þetta orð ekki einu sinni til - alla veganna hafði ég aldrei heyrt það. Hann heillaði alla til að byrja með og suma allan tímann. Það sem er svo magnað að hegðun þessa fólks er svo einsleit í raun, sem hjálpar mikið við að þekkja það úr.
  Það er alveg frábært að geta lesið sér til um þetta og þó það ýfi upp sár þá skiptir það engu.
  Ef það hjálpar, þó ekki væri nema einni konu (eða manni) að forðast slíkan maka, þá skiptir það öllu. Sjálf hafði ég vit á að eignast ekki börn með honum enda kom fljótt í ljós hvern mann hafði að geyma. Satt best að segja kom það í ljós á brúðkaupsnóttina eftir 4 mánað kynni!
  Segi bara takk fyrir mig - OG best finnst mér að það er til “skilgreining” á þessu fólki og það er viðurkennt að það er erfitt að standast sjarma þeirra og lygar.
  Sú vitneskja hefur hjálpað mér að fyrirgefa sjálfri mér fyrir að hafa gert þau herfileg mistök að láta heillast.
  Þakklátust er ég að vera á lífi í dag en það er hreinlega kraftaverk og hefði hann fengið að ráða hefði hann “tekið” mig með sér þegar hann drap sig.
  Aftur - takk fyrir frábærar greinar og hvað sem hver segir hér að ofan að þá þarf enga rannsókn til að segja okkur það að miklum mun fleiri karlmenn þjást af þessu en konur.
  Það segir reynslan okkur og varpar ekki nokkrum skugga á góða menn.

 23. Harpa ritar:

  Mér þykir saga þín óskaplega sorgleg, Hanna, og finn til með þér. Það er gott að þú slappst lifandi út úr þessu og hefur átt góð ár með síðari eiginmanni þínum.

 24. Ásdís ritar:

  Takk Harpa, fyrir allar þessar upplýsingar. Vildi hafa haft þær svona aðgengilegar á einum stað, þegar ég umgekkst siðblindan einstakling.