29. janúar 2011

Spjall

History of HandknittingÉg er ekki nógu dugleg að skrifa færslur um dittinn og dattinn þessa dagana … eiginlega hefur Facebook mikið til tekið við í svoleiðis tjáningu. En af því einhverjir karlkyns eru óhressir með siðblindubirtingarbloggfærslurnar (nefni engin nöfn en get upplýst að einn sagði við mig í gær: Af hverju geturðu ekki átt skárri áhugamál, safnað frímerkjum eða eitthvað eins og aðrir gera?) þá er vert að skella inn einni spjallfærslu. Þótt ekki sé nema til að fullvissa mína góðu karla að ég bardúsa ýmislegt annað.

Ég hef t.d. verið ansi dugleg að safna heimildum um prjónles og sögu þess undanfarið. Hef æxlað mér grundvallarritið, History of Handknitting, eftir enska sérann Richard Rutt, þefað uppi og ljósritað slatta af greinum og hlaðið niður slatta af prjónabókum. Er einmitt komin með flestar gagnrýnisgreinar Irene Turnau (hún gagnrýnir Rutt og hefur rannsakað prjónasögu Evrópu gaumgæfilega). En mér finnst ég ekki orðin nógu frísk ennþá til að fara að fjalla um svo merkilegt og flókið efni sem saga prjóns er. Það verður að bíða um stund.

L�ður yfir viktor�anska meySvo hefur svefninn nýlega lagast. Um áramót hafði ég sofið 3 heilar nætur frá því einhvern tíma í nóvember. Var satt best að segja orðin eins og undin tuska enda gat ég mjög takmarkað sofið á daginn og fimm tíma svefn á sólarhring vikum saman gerir konu bæði ljóta - las þetta í blaði - og framtakslausa. Eiginlega líður manni alla daga eins og maður sé grúttimbraður, sem er ekki líðan að mínu skapi.  (Svefnleysið er aukaverkun af þunglyndislyfinu svo ég átti um tvo kosti að velja og báða illa, alveg eins og karlarnir í Íslendingasögunum.) En um miðjan janúar hitti ég minn góða lækni og honum hafði þá dottið í hug enn eitt ráðið / lyfið, sem merkilegt nokk virkaði! Sef nánast allar nætur. Svoleiðis að nú vinn ég í að henda út svefnlyfi og róandi lyfi og halda mig við þetta ágæta geðklofalyf - sem ég hef nú einu sinni tekið að staðaldri gegn þunglyndi og það virkaði ekki baun í þeim tilgangi. Ókosturinn er sá að lyfið lækkar blóðþrýsting og þegar það bætist ofan á lækkunina sem þunglyndislyfið veldur og að frá náttúrunnar hendi er ég með afar lágan blóðþrýsting þá verð ég auðvitað eins og mær á Viktoríutímunum; sundlar og sé svart ef ég stend snöggt upp en hef ekki lagt í yfirlið enda enginn með axlaskúfa hér heima dagslaglega og við eigum auk þess ekki ilmsölt á þessu heimili.

Upp úr áramótum varð ég læs og hef síðan gaddað í mig reyfara af stakri ánægju. (Og mér til yndisauka var einn siðblindur í bók Yrsu og einn siðblindur í Snjóbirtu Ragnars Jónssonar, sem ég kláraði í gærkvöldi.) Uhmmm … það er svo gaman að lesa um morðin!   Eitthvað kíki ég í annars konar bækur, ætla t.d. að byrja á Hreinsun í kvöld. Hef borið það við að spila á mitt pjanoforte og alls ekki gengið neitt illa, virðist þokkalega spilahæf. Aftur á móti held ég að ég hafi prjónað yfir mig þessar vikur sem ég gat fátt annað og nenni því lítið að grípa í hannyrðir akkúrat núna. Svo hef ég að mestu tekið yfir þrif og þvotta á heimilinu - í FB-umræðu nýverið var niðurstaðan sú að slík iðja gæfi innhverfri íhugun ekkert eftir, a.m.k. væri afar gott að hugleiða á meðan.

Það sem ég klikka helst á er að fara út að labba og koma mér upp einhverju sósíal samvær. Hef samt ekki vott af samviskubiti þess vegna, með hægðinni hefst þetta. Ég ætti að kíkja á kaffihús með vinkonu minni, mæta á fundi í ónefnda félaginu, taka jafnvel þátt í prjónaklúbbi … ganga jafnvel í kór … en hef ekki treyst mér í svoleiðis ennþá.

Yngri sonurinn á tvítugsafmæli í dag, von er á gestum og svo hafði ég hugsað mér að fara á tónleika í eftirmiddaginn. Þetta verður góður dagur.  

10 ummæli við “Spjall”

 1. Jóhannes Laxdal ritar:

  Ég hef fylgst með blogginu þínu um nokkurn tíma og fundist þú bera af í fagmennsku. Hver færsla er eins og sjálfstæð BA ritgerð :) Endilega haltu áfram að kryfja siðblinduna.

  Takk fyrir mig

  e.s Hef ekki séð orðasambandið að æxla sér áður. hmm…

 2. Hafrún ritar:

  Til hamingju með soninn.

 3. Harpa ritar:

  Takk Hafrún :)

  Jóhannes: Þetta er fornt orðalag sem familían tók upp, einhverra hluta vegna. Kemur fyrir í Skáldskaparmálum Snorra-Eddu, í frásögninni af Fáfnisarfi, en dvergurinn Andvari vildi ekki láta Loka fá gullhringinn sinn því hann “lést mega æxla sér fé af bauginum”. (Loki hirti hringinn og dvergurinn lagði álög á hringinn og allir vita hvernig fór fyrir vesalings hringberunum / eigendunum …)

  Takk fyrir hrósið. Heldurðu að við séum kannski skyld? Gegnum Laxdals-slektið frá Akureyri? (Systkinin Jón Laxdal, Grímur Laxdalog Pálína Laxdal - langamma mín …).

 4. Jóhannes Laxdal ritar:

  Heldurðu að þetta sé ekki bara misritun í Snorra-Eddu? ;) Jú við erum örugglega skyld. Afi minn í móðurætt var Jóhannes Laxdal bóndi í Tungu á Svalbarðsströnd. Hann var sonur Helga Laxdal Í Tungu sem var bróðir Gríms Laxdals Kaupmanns á Akureyri o.s.frv. Annars ættirðu að geta flett þessu upp í íslendingabók. Ég er ekkert mjög ættfróður. Man ekki einu sinni afmælisdaga barnabarnanna :)

 5. Harpa ritar:

  Nei - ég held að þetta orðalag sé líka notað í Völsungasögu en nenni ekki að fletta því upp. Við erum sexmenningar sem telst nú varla skylt, á Íslandi. Því miður ;)

 6. Heiða ritar:

  Takk fyrir gott spjall elsku Harpa - Þú ert svo gefandi og stendur þig frábærlega vel.

  Heiða

 7. Þorvaldur lyftustjór ritar:

  Elsku besta yndislega Harpa mín!
  Hvernig er farið að því að „hlaða niður“? Hlaðast hlutir ekki upp? Af því þú ert nú svo glúrin, og það þekki ég frá fornu fari, gætum við ekki æxlað okkur eitthvað orðalag yfir þessa athöfn sem ekki væri svona skrambi órökrétt?
  Hitt gleður svo mitt gamla hjarta að komast að því að sennilega er ég ekki siðblindur; ég skammast mín ævinlega svo þegar ég hefi gert eitthvað af mér.
  Libbðu svo heil.

 8. Harpa ritar:

  Nei, Þorvaldur, þú ert einna fjærst frá því að vera siðblindur af þeim körlum sem ég hef kynnst um ævina! (Getum við sammælst um að skrifa orðið með vaffi?) Reyndar er næst-næsta færsla hugsuð um siðblindu á kennarastofunni en þú getur náttúrlega ekki tekið neitt til þín … ert svo sennilega of góður í þér til að máta við vinnufélagana.

  - Ég er vel að merkja búin að finna Guðbrandsbiblíuna á vefnum, setja inn rétta tilvitnun og-så-videre svo þú getur nú borið saman Odd og Guðbrand í færslunni um Jesúkyrtilinn, http://harpa.blogg.is/2010-12-20/jesu-og-kyrtillinn-hans/

  Akkurru má ekki hlaða NIÐUR eins og UPP? Hlaða upp er að “stafla”. Ef þú ert að raða í skottið ertu varla að hlaða farangrinum upp (ofaní skottið)? Og hlaða ekki sumir NIÐUR börnum - ekki hlaða þeir þeim upp? Og maður “staflar” ekki skrám þegar þær eru sóttar yfir netið … frekar er maður að fylla sína tölvu af óþarfa eins og hvurjar aðrar kellingar sem fylla sitt heimili af krakkagrislingum …

  Kíkti á Orðabanka Íslenskrar málstöðvar og fékk dæmin (öll þýðing á “download”): Hala niður [Hugbúnaðarþýðingar]; niðurflutningur [LíSA (Landupplýsingar á Íslandi fyrir alla)]; flytja niður [LíSA (Landupplýsingar á Íslandi fyrir alla)]; flytja niður [Tölvuorð]. Svoleiðis að skv. þessu get ég flutt niður skrá eða halað niður skrá (og séð fyrir mér talíu á meðan). En tungan breytist hratt á þessari tölvuöld og Wikkan, Icelandic Online Dictionary and Readings, gefur einungis „hlaða niður” sem þýðingu á “download”. (Sjá http://is.wiktionary.org/wiki/hla%C3%B0a_ni%C3%B0ur) Enda nota allir þetta orðalag núorðið eftir því sem ég best veit (nema kannski á Suðurnesjum?).

  Af því ég er svo glúrin, eins og þú þekkir vissulega frá fornu fari, þá er ég væntanlega búin að sannfæra þig núna um að óþarft sé að æxla sér nýtt orðalag yfir “hlaða niður” ;)

  Hafðu það svo sem allra best, Þorvaldur minn. Gaman að heyra frá þér.

 9. Máni Atlason ritar:

  Maður sem æxlar sér fé af gullhring er ábyggilega siðblindur!

 10. Harpa ritar:

  Siðblindur dvergur … höfum tegundir á hreinu. Takk fyrir munnlega tillögu um skrifa færsluna “Siðblindir dvergar” … en ég held ég hafni henni.