1. febrúar 2011

Um blogg, vef, heimildaleit og Norn

Leit á bloggs�ðumEinhverjir hafa kannski velt því fyrir sér af hverju ég skrifa þessar ógnarlöngu greinar um siðblindu og birti á blogginu. Þetta er vissulega dálítið óvenjulegt áhugamál. Kannski er aðalástæðan sú að ég fann næstum ekkert á íslensku um efnið, þegar ég ætlaði að kynna mér það seint á síðasta ári og álít að það væri ekki vitlaust að umfjöllun lægi einhvers staðar frammi. Að sjálfsögðu geri ég mér grein fyrir því að ég hef ekki forsendur til að meta siðblindu á klínískan máta eða fjalla um hana á mjög fræðilegan hátt, til þess skortir mig einfaldlega menntun og yfirsýn yfir geðsjúkdómafræði. Á móti kemur að ég hef sennilega víðara sjónarhorn en fagmaður af því ég er ekki eins bundin af einsleitum heimildum. Hin aðalástæðan, sú sem blasti við mér í upphafi, er ógurlegur athyglisbrestur og gleymska, sem hrjáir mig og fer óendanlega mikið í taugarnar á mér. Það er erfitt fyrir pottþéttar meyjur (altso í meyjarmerkinu) að vera álfar út úr hól mánuðum saman ;) Út af því gloppótta minni er fínt að skrifa niður fyrir sig sjálfa upp á seinni tíma notkun og hvað er þægilegra en eiga efni á Vef? Maður er svona hundrað sinnum fljótari að fletta upp og leita á Vefnum en í bók eða útprentuðu efni. Ég hef svo hugsað mér að láta efnið “gerjast” svolítið á blogginu og vefa það síðan og koma fyrir á mínu heimasvæði.

Auk þess má bæta og breyta vefrænu efni jafnóðum, t.a.m. ætla ég núna á eftir að splæsa upplýsingum um siðblindar konur inn í þær færslur um siðblindu þar sem þær eiga við. Var að rekast á þennan bút (en þar heldur sjálfur Hare því fram að siðblinda kvenna sé vangreind og oft greind sem önnur persónuleikaröskun - vegna ríkjandi hugmynda um kven-og karlhlutverk í samfélaginu). Ennfremur bæti ég inn í síðasta blogg tilvitnunum íslenskra leiðtoga kirkjunnar um siðblindu, sem ég var að rekast á.

Bloggið mitt er öðrum þræði gagnasafn, mismunandi vandað auðvitað. Ég sé að fólk rekst þar inn af ýmsum ástæðum; menn eru að leita að hinu og þessu og bloggfærslurnar gúgglast prýðilega. Sjá dæmi af teljaranum, sem ég tók mynd af áðan. Það gefur til kynna fjölbreytta leitarstrengi sem tengjast þessu bloggi.

Talandi um leit á vef þá er ég sannfærð um að Google.com er talsvert betri en leitin í gagnasöfnum á Hvar.is. Ég er miklu fljótari að finna greinar á scholar.google.com heldur en á hvar.is, auk þess sem scholar.google.com gefur upplýsingar á borð við hve margir tengja í viðkomandi grein (þ.e. vitna í hana) og nefnir þá staði þar sem hún er vistuð. Fyrir meir en áratug hlustaði ég á Heimi Pálsson tala um eitthvað á einhverri ráðstefnu eða fundi og mér er minnisstætt að hann hélt því fram að ekki væri lengur eftirsóknarvert að vera getið í heimildaskrá eða tilvísanaskrá rita, málið væri að “láta linka í sig”. Eins og venjulega hafði Heimir rétt fyrir sér.

Efni á vef (hvort sem um er að ræða vefsíður eða pdf-skjöl) er líka miklu þægilegra en á prenti í þeim fræðum sem menn vilja nota APA heimilda-og tilvísanakerfi. (Þá er bara vitnað í höfund, bók, útg.stað o.þ.h. en ekki í blaðsíðutal. Stundum hefur mér dottið í hug, þegar ég skoða ritgerðir á Skemmunni.is, að hægt sé að ljúga hverju sem er upp á hvern sem er því hvaða leiðbeinandi nennir að fletta gegnum bókahaug til að staðfesta eitthvað sem vitnað er í, í ritgerð? Mér dettur ekki eitt augnablik í hug að venjulegur háskólakennari hafi slíkan haug á takteinum í sínu heilabúi, einkum vegna þess að í sálfræði- og félagsvísindum virðist aðalatriðið að sviga sem mest og oftast.) Maður er skotfljótur að finna réttu staðina með leitarorði ef efnið er á tölvutæku formi.

Þegar fundist hefur álitleg grein á scholar.google.com en útgáfan er ekki opin (og útdrátturinn lofar góðu) má finna rétta tímaritið og tölublaðið á hvar.is. Í slíku bardúsi hef ég reyndar áttað mig á hve gagnagrunnar hvar.is eru takmarkaðir, þ.e. hve vantar mörg tímarit í þá. Þetta er stundum áberandi með siðblinduna en mjög áberandi þegar maður leitar að greinum um prjónafræði ýmiss konar. Oft er hægt að bjarga sér í siðblindunni með leit á http://www.free-pdf-ebooks.com/ en í prjónafræðum er þar ekki um eins auðugan garð að gresja.

Heimildir um prjónasögu er einnig erfitt að finna á bókasöfnum. Eins og er skipti ég við Þjóðarbókhlöðu, Norræna húsið og bókasafnið í Kennaraháskólanum til að viða að mér efni. En grundvallarritin tvö eru hvergi til; Ég er búin að kaupa annað en hitt er gersamlega uppselt. Næst er að kemba vefinn og leita að fornbókasölum sem hugsanlega gætu átt þá bók. Grundvallartímaritið Textile History er á vefnum en er ekki í gagnasöfnum hvar.is og því hvorki háskólaaðgangur né landsaðgangur að því. (Hver grein kostar tæplega 40 dollara og það er af og frá að ég borgi slíkt verð fyrir grein á vefnum!). Pappírsútgáfa af tímaritinu frá 1991 (eða bara tölublöðum þess árs, það er ekki hlaupið að því að sjá það) er einungis til á Þjóðminjasafninu. (Jú, ég mun auðvitað hafa samband við fólkið þar og fá að skoða og ljósrita ef mörg tölublöð eru til, það er ekkert mál að finna yfirlit yfir efni alls forðans á vefnum og vera búin að sigta út álitlegar greinar). Ein af frægari heimildum um prjónasögu er Mary Thomas’s Knitting Book. Skv. Gegni er til eitt eintak af henni á landinu - í Seyðisfjarðarskóla! Þar er hún auk þess ekki lánuð út heldur einungis til afnota á safninu. Ætli sé ekki vænlegra að leita að notuðu eintaki á Amazon.com en gera sér ferð á Seyðisfjörð að vetrarlagi (þótt ég hafi reyndar aldrei komið þangað)?

Ég ætlaði að fara að vinna aðeins í málsöguefni í morgun en festist í Norn, sem mér finnst alltaf jafnspennandi. (Og sá að ég þarf að fara á Þjóðarbókhlöðu til að fletta upp í orðabók Jakobsens, fann orðið og bls. tal í orðabókinni á vefnum en svo kom einhver helv. höfundaréttur í veg fyrir að gagnasafnið birti síður fyrir lesendur utan Bandaríkjanna …). Best að slútta þessari færslu með tilvitnun í faðirvorið, á Orkneyja- og Hjaltlandseyjanorn. Það er viss yfirbót eftir að hafa bloggað um siðblindu innan kirkjunnar ;)

  Faðirvorið á Norn

  

  

6 ummæli við “Um blogg, vef, heimildaleit og Norn”

 1. Vigdís ritar:

  Frábærar greinar hjá þér um siðblinduna, hef lesið þær af miklum áhuga. Eins er prjónasagan áhugaverð

 2. Harpa ritar:

  Takk. Prjónasagan bíður um sinn meðan ég afla meiri heimilda (svo þetta verði nú þokkalega traust hjá mér). Svo er ég ekki nógu frísk fyrir akademíska umfjöllun um svo merkilegt efni sem saga prjóns og prjónless er. (Ef einhver lesandi á bók Irene Turnau, um sögu prjóns í Evrópu, þætti mér afar gott að fá hana lánaða. Mér finnst reyndar ólíklegt að svo sé. Og er að hugsa um að fá panta hana í millisafnaláni gegnum Þjóðarbókhlöðuna …)

 3. Jóhannes Laxdal ritar:

  Sæl Harpa, það sem þú þarft að gera til að tengjast án þess að búa í Bandaríkjunum er að nota proxa. Proxar eru af mörgum gerðum, ef þú googlar þá geturðu lært allt um þá, en í þínu tilfelli mæli ég með vefproxa eins og http://www.pr0×1.com/ þú bara peistar slóðinni inn í boxið og ýtir á go og síðan sem þú ætlar inná veit ekki betur en þú sért local. Fyrirgefðu þessar slettur, tölvuhugtökin finnst mér best að nota án þess að þýða

 4. Harpa ritar:

  Kærar þakki, Jóhannes. Þessar upplýsingar eiga eftir að koma sér vel. Prófa á eftir …

 5. Bjarni Gunnlaugur ritar:

  Sæl Harpa!
  Þær hringja dálítið hjá mér viðvörunarbjöllurnar þegar ég er að lesa hinar ýmsu greinar um siðblindu. Allt eru þetta ágætar greinar og fróðlegar en eitthvað sem ekki passar. Við vitum að allir eru eitthvað gallaðir og stundum kaldlyndir en stundum ekki. Þegar fólk rekur hornin hvert í annað í mannlegum samskiftum þá er ekki ósennilegt að það álíti hvert annað siðblint. Það er a.m.k. auðvelt að alhæfa. Siðblinda er sögð heilkenni þar sem mörg einkenni þurfa að vera til staðar. Hvað t.d. um mann sem getur illa sett sig í spor annara og virkar kaldlyndur og eigingjarn en gengur prýðilega að vinna að langtíma markmiðum og lýgur aldrei, er hann siðblindur? Stundum er talað um siðblinduna sem stóran pakka þar sem allt verður að vera til staðar en stundum er hún sögð svo vel falin að langan tíma taki að uppgötva “svikin”, hvað er þá orðið af öllum heilkennunum? Felusiðblindingi sem vinnur að langtímamarkmiði og sýnir ekki af sér ógætilega spennusækna hegðun, er hann ekki bara ímyndun kenningasmiða? Fjármála og athafnamaður sem er sokkin í skuldaflækju og leiðist út í glæpi og vitleysu til að “redda” málunum, hann þarf a.m.k. að hafa sannfærandi “bakgrunn” til að fá siðblindustimpilinn. Eða hræddur amerískur strákur sem er hent út í stríð í Írak og gerist þar morðóð skepna, er hann ekki bara búin að slökkva á vissum tilfinningum (frekar en hann hafi aldrei haft þær)? Íslenskur stjórnmálamaður sem leikur sér að því að æsa upp lýðinn en klúðrar svo öllu sem hann kemur nærri þegar hann fær völdin, en kennir svo bara öðrum um, er hann siðblindur? Hvað þá með fjöllyndið og afbrotaæsku? Þyrfti slíkt ekki að vera til staðar líka?
  Ég er meira að reyna að bögglast við að átta mig á skilgreiningu og þá jafnvel ástæðu siðblindu, en að ég sé að bera brigður á að til sé fólk sem er til eilífra vandræða í mannlegum samskiftum.(greiningarlyklar sem hafa sterkt forspárgildi um endurtekin afbrot eru þó,verð ég að viðurkenna, ansi líkleg sönnun fyrir einhverskonar siðblindu, sbr. grein Nönnu)
  Ég gúglaði psychopatar and pets og rakst á þennan hér fyrir neðan.
  Þarna finnst mér kveða við svolítið nýjan tón í umfjöllun um siðblindu. Hún sé nær því að vera bæling en blinda, jafnvel læknanleg. Í sumum tilfellum geti “siðblindur” jafnvel verið með ofurnæmar (stöku)tilfinningar (hafi ég skilið rétt)

  Takk fyrir fróðlegar samantektir!!

  Emotional Capacities and Sensitivity in Psychopaths

  Willem H. J. Martens, MD, PhD

  Director of the “W. Kahn Institute of Theoretical Psychiatry and Neuroscience.”

  Beatrixstraat 45, 3921 BN Elst

  Utrecht, The Netherlands

 6. Harpa ritar:

  Sæll Bjarni Gunnlaugur
  og takk fyrir mjög áhugaverðar pælingar! Auðvitað er alveg rétt hjá þér að fólk getur sýnt ýmsa óæskilega eiginleika án þess að teljast siðblint. Má nefna sem dæmi að margir alkóhólistar verða siðblindir eftir því sem sjúkdómurinn gengur lengra; Þeir ljúga, stela jafnvel, halda framhjá og sýna sínum nánustu yfirgang og drottnunargirni. En af því þeim tekst (a.m.k. sumum) að ná bata, einkum innan AA, getur ekki verið að þeir hafi verið siðblindir því kenningarnar segja að siðblinda verði ekki læknuð. Auk þess myndi alger uppgjöf, að sleppa stjórnartaumunum og biðjast fyrirgefningar vera afar fjarri kjarnaeinkennum siðblindu. (Til að flækja málin hættir svo siðblindum mjög til að misnota áfengi og aðra vímugjafa … svo sennilega getur maður aldrei verið viss um hvort er hvort og hvað er hvað.)

  Ýmist bláedrú fólk sýnir skapgerðarbresti og óaðalaðandi framkomu án þess að vera siðblint. Sumt skilur maður engan veginn, eins og t.d. mann sem er hvers manns hugljúfi og stendur sig vel í starfi en byrjar á að draga fyrir alla glugga þegar hann kemur heim úr vinnunni og snýr sér síðan að því að misþyrma konunni sinni, daglega. (Þetta er raunverulegt dæmi.) Ég hef ekki hugmynd um hvort þessi maður er siðblindur.

  Í þeirri umfjöllun sem ég hef lesið undanfarið er áberandi hve margir líkja siðblindum annars vegar við rándýr (predators) og hins vegar við kameljón (cameleon) - kvikindi sem getur skipt litum til samræmis við umhverfið. Þessi kameljónshæfileiki siðblindra er talinn mjög áberandi og í nýjustu færslunni, Siðblindir í viðskiptum, má segja að hann beri nokkuð á góma þótt ég nefni ekki nafn kvikindisins. Í sömu færslu er gert grein fyrir siðblindum sem skora einungis mjög hátt í kjarnaeiginleikum siðblindu (þ.e. eiginleikum sem snerta persónuleika) en geta hagað sér sómasamlega innan um fólk, þ.e. skora lágt í andfélagslega þættinum.

  Kannski er gott að hafa í huga að skv. Hare er siðblindukvarðinn róf, þar sem allir mælast með einhver atriði (nema dýrlingar) og það er ekki fyrr en talsvert er komið upp skalann sem hægt er að fara að tala um siðblinduþætti. Viðmiðunin yfir 29 stiga skor (af 40 mögulegum) er túlkuð sem algerlega siðblindur (fullblown psychopathic). Ég hef reynt að halda mig við svoleiðis eintök í umfjöllun um siðblindu.

  Martens, sem þú vitnar í, er hliðhollari siðblindum en margir aðrir. Ég hafði einmitt hugsað mér að nota hann - og Meloy, sem er gersamlega á öndverðum meiði - í umfjöllun um hugsanlega lækningu siðblindra og pælingum um hvort siðblindum sé vorkunn. Martens og fleiri (t.d. Henrik Day Poulsen, réttargeðlæknir í Danmörku - skrifaði bókina Psysikaten, sem er því miður ömurleg) hafa dálítið fjallað um þetta, sem og fleiri. Þetta virðist fara að nokkru eftir því að hve miklu leiti menn telja að siðblinda sé meðfædd og að hve miklu leyti menn telja hana að einhverju leyti afsprengi uppeldis / félagsmótunar.

  En ég ætla að skrifa eina færslu um hugsanlegar skýringar á siðblindu, þ.e. líffræðilegar, uppeldislega og þróunarlíffræðilegar skýringar. Sömuleiðis er áætluð færslan um hugsanlega lækningu og vangaveltur um hvort vorkenna ætti siðblindum - þeim fer t.d. oft að líða illa eftir miðjan aldur og alls kyns hliðarkvillar hrjá þá í auknum mæli, s.s. kvíði, alkóhólismi og hugsanlega þunglyndi einnig.

  Færslurnar sem ég hlakka mest til að skrifa eru þær síðustu, um siðblinda í sögunni (sögulegar tilvísanir til siðblindu, sögulegt yfirlit yfir mismunandi skilgreiningar á siðblindu og líklega einnig um hugmyndir manna hér á landi um siðblinu) og færsla um nokkra fræga siðblinda (þar sem ég reyni að velja ólíka einstaklinga).

  Ég hef alveg haldið mig frá öðrum skilgreiningum á siðblindu en Hare, má nefna David Lykken sem vill meina að aðalsmerki siðblindra sé að þeir finni ekki fyrir ótta / hræðslu (þessi staðhæfing hefur verið margstaðfest í rannsóknum) og af því óttinn sé lykilinn að félagsmótun þá valdi þessi skortur því að siðblindir þroskist ekki eðlilega. Hare heldur því hins vegar fram að aðaleinkenni siðblindu sé alger skortur á samvisku (og byggir þar á Cleckley, sem var einn af þeim fyrstu til að fjalla eitthvað verulega um sjúkdóminn.)

  Sömuleiðis hef ég látið pælingar um “hina dökku þríund” (the dark triad) eiga sig - þar er lýst óæskilegum eiginleikum stjórnenda og stjórnmálamanna þar sem sjálfsástar (narsisstísk), Macchiavellian og siðblindu þættir koma saman í sömu persónu. Loks má nefna Ponerology, sem fjallar um siðblindu í stjórnmálum, einkum þegar hún brýst fram í einræði og skefjalausu hernaðarbrölti, sem ég mun sömuleiðis ganga algerlega fram hjá.

  Ég reyni sem sagt að takmarka mig en því fylgir auðvitað nokkur einföldun. Auk þess hef ég ekki snefil af geðlæknis- eða sálfræðimenntun (er með tvöfalt mastersrpróf í íslensku) sem setur mér náttúrlega nokkrar skorður í umfjölluninni ;)